Velferðarráðuneyti

636/2014

Reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu sem eiga sér stað án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um þátttöku sjúkratrygginga almannatrygginga í kostnaði sjúkratryggðra vegna sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 28. gr. laga um sjúkra­tryggingar nr. 112/2008, sem eiga sér stað án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Reglugerðin tekur til nauðsynlegra sjúkraflutninga einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu sem sjúkratryggðir eru skv. lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Með höfuðborgar­svæðinu er átt við Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð, Seltjarnar­nes, Mosfells­bæ, Kjósarhrepp og Bláfjallasvæðið.

Þátttaka sjúkratrygginga í kostnaði við sjúkraflutninga tekur til þeirra þátta sem til­greindir eru í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Sjúkratryggingar Íslands annast fram­kvæmd reglugerðar þessarar.

Reglugerð þessi tekur hvorki til kostnaðar við rekstur sjúkrabifreiða né til gjalda sjúkra­tryggðra vegna slíks kostnaðar, sbr. reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Þá tekur reglugerð þessi ekki til sjúkraflutnings milli stofnana, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008 og 2. gr. reglugerðar nr. 427/2013 um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu.

2. gr.

Sjúkratryggðir.

Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um sjúkratryggingar, nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn yngri en 18 ára sem búsett eru hér á landi eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn. Að öðru leyti gilda um það hverjir teljist sjúkratryggðir hér á landi 10.-16. gr. laga um sjúkratryggingar.

Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður.

3. gr.

Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að taka þátt í kostnaði vegna sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 1. gr., samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar og á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkra­tryggingar. Heimildin gildir frá 1. júlí 2014 til og með 31. mars 2015 og er háð því að sjúkra­flutn­ings­aðili uppfylli faglegar kröfur, sbr. kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir sjúkra­flutninga frá 25. maí 2010, og önnur skilyrði í lögum. Þá er heimildin jafnframt háð því að til sjúkra­flutninga sé notuð sjúkrabifreið og búnaður sem uppfyllir skilyrði í kröfu­lýs­ingu heilbrigðisráðuneytisins (velferðarráðuneytisins) um útvegun og rekstur bifreiða og tækja­búnaðar til sjúkraflutninga hjá Rauða krossi Íslands, frá 6. desember 2012. Sjúkra­trygg­ingar Íslands ákvarða hvort sjúkraflutningsaðili uppfylli kröfur og skilyrði 2. og 3. ml.

4. gr.

Reikningar.

Sjúkraflutningsaðila er heimilt að senda reikninga vegna sjúkraflutninga með rafrænum hætti til Sjúkratrygginga Íslands. Ef ekki er unnt að senda reikninga með rafrænum hætti er sjúkraflutningsaðila heimilt að senda reikninga til Sjúkratrygginga Íslands á pappírs­formi enda samþykki stofnunin slíkt fyrirkomulag. Reikningar skulu berast mán­aðar­lega. Á reikningi eða í fylgiskjali með honum skulu koma fram upplýsingar um nöfn og kennitölur hinna sjúkratryggðu, hvenær sjúkraflutningar fóru fram, hvaðan var ekið og hvert var farið og fjárhæð reiknings.

Við sendingu rafrænna reikninga ber að fara eftir færslulýsingu sem Sjúkratryggingar Íslands hafa samþykkt.

Ef sjúkratryggður einstaklingur framvísar reikningi (kvittun) vegna sjúkraflutnings er það skilyrði fyrir endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands að sjúkratryggður hafi frumrit reikn­ings, hann sé á stöðluðu formi, fyrirfram tölusettur og á honum komi fram hver sjúkra­flutn­ings­aðilinn var. Jafnframt skulu koma fram þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 1. mgr.

Sjúkraflutningsaðila og sjúkratryggðum er skylt að veita Sjúkratryggingum Íslands allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslu (endurgreiðslu). Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um rétt til greiðslu vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum er Sjúkratryggingum Íslands heimilt að fresta greiðslu þar til úr því er bætt. Stofnunin skal gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, leiðbeina um hvaða upplýsingar skortir og skora á hann að veita þær.

5. gr.

Eftirlit.

Sjúkraflutningsaðila er skylt að veita læknum, eða öðrum heilbrigðisstarfsmönnum Sjúkra­trygginga Íslands, þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna eftirlits­hlutverks hennar, sbr. 45. og 46. gr. laga um sjúkratryggingar.

6. gr.

Stjórnsýslukærur.

Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð greiðslna samkvæmt reglugerð þess­ari er heimilt að kæra ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands til úrskurðarnefndar almanna­trygginga, sbr. 36. gr. laga um sjúkratryggingar.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. mgr. 28. gr., 2. mgr. 38. gr. og 55. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. einnig 29. gr., öðlast nú þegar gildi og tekur til þjónustu sem veitt er á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til og með 31. mars 2015.

Velferðarráðuneytinu, 30. júní 2014.

Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.

Dagný Brynjólfsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica