Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Breytingareglugerð

1250/2011

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 790/2011, um mynd- og textaviðvaranir á tóbaki og mælingar á hámarki skaðlegra tóbaksefna.

1. gr.

3. gr. orðast svo:

Á sérhverjum pakka sem inniheldur tóbaksvörur, að undanskildu reyklausu tóbaki, skulu vera eftirfarandi viðvaranir og upplýsingar samkvæmt fylgiskjali:

a. Önnur þeirra almennu viðvörunar sem fer hér á eftir:

  1. Reykingar drepa.
  2. Reykingar eru mjög skaðlegar fyrir þig og þá sem eru nálægt þér.

Viðvaranir þessar skal nota til skiptis og þannig að þær birtist með reglubundnum hætti. Viðvörunin skal prentuð á þann flöt einingarpakkans sem er mest áberandi og á allar ytri umbúðir, að undanskildum gagnsæjum umbúðum, sem eru notaðar í smásölu á vörunni.

b. Viðvörunartexti sem fylgir hverri viðvörunarmynd samkvæmt fylgiskjali:

  1. Þeir sem reykja deyja fyrir aldur fram.
  2. Reykingar stífla slagæðar og valda kransæðastíflu og heilablóðfalli.
  3. Reykingar valda banvænu krabbameini í lungum.
  4. Reykingar á meðgöngu skaða barnið þitt.
  5. Verndaðu börnin: Láttu þau ekki anda að sér tóbaksreyk.
  6. Læknirinn þinn eða lyfjafræðingur geta hjálpað þér að hætta að reykja.
  7. Reykingar eru mjög ávanabindandi, byrjaðu ekki að reykja.
  8. Ef þú hættir að reykja dregur það úr líkum á banvænum hjarta- og lungnasjúkdómum.
  9. Reykingar geta valdið hægfara og kvalafullum dauða.
  10. Fáðu hjálp við að hætta að reykja: Sími 800 6030.
  11. Reykingar geta dregið úr blóðflæði og valda getuleysi.
  12. Reykingar flýta fyrir öldrun húðarinnar.
  13. Reykingar geta skaðað sæði og draga úr frjósemi.
  14. Tóbaksreykur inniheldur bensen, nítrósamín, formaldehýð og blásýru.

Viðvaranir þessar skulu notaðar til skiptis og þannig að tryggt sé að þær birtist með reglubundnum hætti. Viðvörun skal prentuð á hinn flöt einingarpakkans sem er mest áberandi þannig að snið og hlutföll frumskjalsins og myndræn heild myndar og texta haldist. Viðvörunin skal einnig vera á öllum ytri umbúðum, að undanskildum gagnsæjum umbúðum, sem eru notaðar í smásölu á vörunni.

c. Upplýsingar um þá aðstoð sem í boði er fyrir þá sem vilja hætta að reykja samkvæmt fylgiskjali:

  1. Fáðu hjálp við að hætta að reykja á reyklaus.is.
  2. Fáðu hjálp við að hætta að reykja í síma 800 6030.
  3. Fáðu hjálp við að hætta að reykja í síma 800 6030 eða á reyklaus.is.

Upplýsingar þessar skulu birtar sem hluti viðvörunarmynda sem getið er í b-lið þessarar greinar, í samræmi við fyrirmyndir í fylgiskjali.

2. gr.

4. mgr. 7. gr. orðast svo:

Upplýsingar skv. c-lið 3. gr. skulu vera prentaðar innan viðvörunarramma sbr. e-lið 2. mgr.

3. gr.

Nýtt fylgiskjal kemur í stað hins eldra og er það birt með reglugerð þessari.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. og 8. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 14. desember 2011.

Guðbjartur Hannesson.

Vilborg Ingólfsdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.