Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

1450/2025

Reglugerð um fráveitur og skólphreinsun.

I. KAFLI Markmið, gildissvið, skilgreiningar o.fl.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að vernda almenning og umhverfið gegn mengun af völdum losunar skólps.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um alla söfnun, hreinsun og losun skólps, nema frá skipum.

Um losun skólps frá skipum fer samkvæmt ákvæðum laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og hugtaka sem hér segir:

  1. Atvinnurekstur: Hvers konar starfsemi og framkvæmdir.
  2. Blágrænar ofanvatnslausnir: Leiðir til þess að veita ofanvatni niður í jarðveg í stað fráveitu og meðhöndlun á ofanvatni, svo sem með því að veita ofanvatni í jarðveg við uppruna og tryggja flóðaleiðir á yfirborði.
  3. Efnafræðileg súrefnisþörf (COD): Mælikvarði á magn lífrænna efna í vatni, mælt með staðlaðri aðferð.
  4. Einföld og tvöföld kerfi: Fráveitur geta annaðhvort verið einföld kerfi eða tvöföld. Í einföldum kerfum rennur bæði skólp og ofanvatn í sömu lögnum. Í tvöföldum kerfum er skólp og ofanvatn aðskilið.
  5. Ferskvatn (ósalt vatn): Vatn sem kemur fyrir á náttúrulegan hátt, hefur lítinn saltstyrk og er yfirleitt nýtanlegt til töku og vinnslu sem neysluvatn.
  6. Frárennsli: Rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.
  7. Fráveita: Lagnakerfi og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps. Til fráveitu telst allt lagnakerfi sem flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, atvinnufyrirtækjum, götum, gönguleiðum, lóðum og opnum svæðum, svo sem tengingar við einstakar fasteignir, niðurföll, svelgir, brunnar, safnkerfi, tengiræsi, sniðræsi, stofnlagnir, yfirföll og útræsi. Til fráveitu teljast einnig öll mannvirki sem reist eru til móttöku, geymslu, meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem hreinsivirki, hreinsistöðvar, dælustöðvar og set- og miðlunartjarnir.
  8. Hreinsun skólps:
    1. Grófhreinsun er hreinsun fastra hluta úr fráveituvatni með rist, síu eða öðrum búnaði.
    2. Eins þreps hreinsun er hreinsun skólps með aflfræðilegum og/eða efnafræðilegum aðferðum þar sem svifagnir eru botnfelldar eða önnur hreinsun þar sem BOD5-gildi skólps er lækkað a.m.k. um 20% áður en það er losað og heildarmagn svifagna í skólpi er lækkað a.m.k. um 50% áður en skólpið er losað.
    3. Tveggja þrepa hreinsun er frekari hreinsun skólps en eins þreps með aðferð sem oftast felur í sér líffræðilega hreinsun sem fylgt er eftir með botnfellingu eða öðru ferli, sbr. kröfur í viðauka I. Rotþró með siturlögn eða sandsíu telst t.d. vera tveggja þrepa hreinsun.
    4. Viðeigandi hreinsun er hreinsun skólps, miðað við aðstæður, með viðurkenndum hreinsibúnaði í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar svo að gæðamarkmiðum fyrir viðtaka sé náð, sbr. viðauka I-VII.
    5. Ítarleg hreinsun, þ.e. þriggja þrepa hreinsun, er hreinsun skólps á viðkvæmum svæðum þar sem krafist er meira en tveggja þrepa hreinsunar, sbr. viðauka II, eða hreinsa þarf betur aðra þætti í skólpi, svo sem gerla. Ítarleg hreinsun getur verið líffræðileg og eðlisefnafræðileg hreinsun.
  9. Hreinsivirki: Búnaður til hreinsunar á skólpi og/eða ofanvatni áður en því er veitt í viðtaka, m.a. rotþrær með siturlögnum, fitugildrur, olíuskiljur, set- og miðlunartjarnir, blágrænar ofanvatnslausnir, jarðvegssíur og tilbúin votlendi.
  10. Húsaskólp: Skólp, frá íbúðarhúsnæði og þjónustustarfsemi, sem einkum á rætur að rekja til efnaskipta mannslíkamans og heimilisstarfa.
  11. Iðnaðarskólp: Skólp frá atvinnurekstri, að undanskildu húsaskólpi, vatni frá upphitunarkerfum mannvirkja og ofanvatni.
  12. Lífefnafræðileg súrefnisþörf (BOD5): Mælikvarði fyrir magn lífrænna efna í vatni mælt með staðlaðri aðferð.
  13. Ofanvatn: Regnvatn og leysingarvatn sem rennur af húsþökum, götum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði.
  14. Ofauðgun: Ofgnótt næringarsalta í vatni, einkum efnasambanda köfnunarefnis og/eða fosfórs, sem veldur því að þörungar og þróaðri tegundir plantna vaxa hraðar en ella, en það veldur óæskilegri röskun jafnvægis lífvera í vatninu og spillir gæðum vatnsins.
  15. Persónueining (pe): Magn lífrænna efna sem brotnar niður líffræðilega með 60 grömm súrefnis á sólarhring, mælt sem 5 sólarhringa lífefnafræðileg súrefnisþörf (BOD5).
  16. Seyra: Óhreinindi sem skilin eru frá fráveituvatni með botnfellingu, síun eða fleytingu án síu- eða ristarúrgangs, þ.e. eftir að forhreinsun hefur átt sér stað.
    Tegundir seyru eru:
    1. seyra frá skólphreinsistöðvum, þ.e. húsaskólp eða skólp með sambærilega samsetningu,
    2. seyra frá rotþróm og sambærilegum mannvirkjum,
    3. seyra frá skólphreinsistöðvum öðrum en teljast til a- og b-liðar.
  17. Síður viðkvæmt svæði: Ármynni og strandsjór þar sem endurnýjun vatns er mikil og losun tiltekinnar mengunar er ekki talin hafa skaðleg áhrif á umhverfið.
  18. Skólp: Húsaskólp og iðnaðarskólp eða blanda húsaskólps, iðnaðarskólps og ofanvatns, þ.e. blanda af einhverju af framangreindu.
  19. Svifagnir: Svifagnir eru agnir í sviflausn sem hægt er að skilja úr lausninni með aðferðum sem lýst er í viðauka IV.
  20. Viðkvæmt svæði: Svæði sem gæti orðið fyrir áhrifum vegna mengunar sé ekki gripið til verndaraðgerða eða svæði sem hefur orðið fyrir áhrifum vegna mengunar.
  21. Viðtaki: Svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.
  22. Yfirfall: Búnaður til þess að hleypa hluta frárennslis fram hjá hreinsivirki í viðtaka vegna álags í mikilli rigningu eða leysingum, eða vegna bilana og viðhalds.
  23. Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra.
  24. Þurrsalerni: Salerni þar sem úrganginum er ekki skolað burt með vatni, t.d. kamrar og salerni þar sem úrgangi er breytt í moltu eða hann brenndur.

4. gr. Ábyrgð og eftirlit.

Sveitarfélag ber ábyrgð á uppbyggingu og rekstri fráveitna í sveitarfélaginu, sbr. lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þ.m.t. á söfnun, geymslu, meðhöndlun og flutningi skólps.

Umhverfis- og orkustofnun ber ábyrgð á að skilgreina viðkvæm svæði og staðfesta eða synja tilllögum sveitarstjórna um skilgreiningu síður viðkvæmra svæða og taka saman gögn um stöðu fráveitumála. Stofnunin fer auk þess með almenna umsjón með stjórnsýslu fráveitumála og vinnur að samræmingu á framkvæmd reglugerðarinnar.

Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar og veita starfsleyfi vegna fráveitu- og hreinsibúnaðar, nema um sé að ræða starfsemi sem er starfsleyfisskyld hjá Umhverfis- og orkustofnun.

II. KAFLI Hreinsun skólps.

5. gr. Meginregla um hreinsun skólps.

Skólp skal hreinsað með tveggja þrepa hreinsun áður en því er veitt út í umhverfið, nema kveðið sé á um annað í reglugerð þessari.

Skólp frá þéttbýli eða atvinnustarfsemi þar sem fjöldi persónueininga er yfir 10.000 og skólp sem veitt er í ferskvatn og ármynni frá þéttbýli þar sem fjöldi persónueininga er yfir 2.000 skal uppfylla losunarmörk sem koma fram í viðauka I þegar það er losað úr fráveitu, sbr. þó 6. og 7. gr.

Fráveituvatn einstakra húsa/mannvirkja sem ekki verður veitt í fráveitu sveitarfélags skal hreinsað í hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, eða öðrum sambærilegum búnaði sem uppfyllir kröfur um tveggja þrepa hreinsun. Búnaðurinn skal, eftir því sem við á, uppfylla skilyrði staðalsins ÍST EN 12566. Sama á við um þyrpingu húsa og mannvirkja með allt að 50 pe.

Afla skal fyrirmæla og leyfis hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar vegna nýrra og endurbættra fráveitna auk stakra hreinsivirkja.

Þar sem aðstæður valda því að stakt hreinsivirki, svo sem rotþró með siturbeði, er ekki álitlegur kostur skal nota þurrsalerni eða annan sambærilegan búnað.

Sveitarstjórn getur kveðið nánar á um fyrirkomulag fráveitumála og kröfur um hreinsun í samþykkt sem hún setur á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009.

Á hálendum svæðum þar sem örðugt reynist að beita líffræðilegri hreinsun vegna lágs hitastigs er heimilt, að fengnu samþykki Umhverfis- og orkustofnunar, að nota aðferðir þar sem ekki eru gerðar eins strangar kröfur um hreinsun og getið er í 2. og 3. mgr., að því tilskildu að nákvæmar rannsóknir liggi fyrir um að slík losun hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið.

6. gr. Hreinsun skólps á viðkvæmum svæðum.

Umhverfis- og orkustofnun flokkar viðkvæm svæði, sbr. viðmið í A-lið viðauka III, og skilgreinir þá mengunarþætti sem þau eru viðkvæm fyrir. Umhverfis- og orkustofnun skal halda skrár, m.a. lista og kort, yfir viðkvæm svæði og birta endurskoðaða skrá á minnst fjögurra ára fresti. Endurskoðunin skal m.a. byggjast á niðurstöðum vöktunar í samræmi við lög um stjórn vatnamála.

Skólp frá þéttbýli, sem er losað inn á viðkvæm svæði og fjöldi persónueininga er yfir 50, þarf ítarlega hreinsun, þ.e. það skal uppfylla losunarmörk sem tilgreind eru í viðauka I og kröfur um hreinsun á fosfór og/eða köfnunarefni, sbr. viðauka II, nema að sýnt sé fram á að slík viðbótarhreinsun hafi hverfandi umhverfisbætandi áhrif. Atvinnustarfsemi skal hreinsa skólp áður en losað er inn á viðkvæm svæði og eftir atvikum í samræmi við ákvæði í starfsleyfi.

Einstök hreinsivirki á tilteknu svæði þurfa ekki að uppfylla kröfur um ítarlega hreinsun ef hægt er að sýna fram á að náð sé markmiði um lækkun heildarmagns fosfórs um 75% og lækkun heildarmagns köfnunarefnis um 75% miðað við magn skólps sem berst til allra hreinsivirkja á svæðinu.

Verði svæði skilgreint sem viðkvæmt skal skólp uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. innan sjö ára frá því að skilgreiningu var breytt.

7. gr. Hreinsun skólps á síður viðkvæmum svæðum.

Sveitarstjórnum er heimilt að senda tillögur til Umhverfis- og orkustofnunar þess efnis að svæði séu skilgreind síður viðkvæm ásamt fullnægjandi gögnum samkvæmt viðauka VI. Stofnunin flokkar síður viðkvæm svæði, sbr. viðmið í B-lið viðauka III, að fengnum tillögum frá sveitarstjórnum og metur hvort gögnin sýna góða hæfni svæðisins til að taka við og eyða skólpi og staðfestir eða synjar tillögunni.

Á síður viðkvæmum svæðum skal skólp sem veitt er í strandsjó frá þéttbýli þar sem fjöldi persónueininga er á bilinu 10.000 og 150.000 og skólp sem veitt er í ármynni frá þéttbýli þar sem fjöldi persónueininga er á bilinu 2.000 og 10.000 hreinsað að lágmarki þannig að BOD5-gildi lækki um 20% og heildarmagn svifagna um 50% áður en það er losað (eins þreps hreinsun). Sama gildir um skólp frá þéttbýli sem losar meira en 150.000 pe þegar hægt er að sýna fram á að þróaðri hreinsiaðferðir hafi hverfandi umhverfisbætandi áhrif. Eigandi fráveitu skal sinna eftirliti og vöktun sem staðfestir að losun hafi ekki óæskileg áhrif og skal heilbrigðisnefnd hafa eftirlit með því.

Við eftirlit og mat á álagi og ástandi vatnshlots skal taka mið af viðauka IV og vöktun á gæðaþáttum, sbr. reglugerð um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun.

Skilgreining síður viðkvæmra svæða skal endurskoðuð á a.m.k. fjögurra ára fresti í samræmi við tillögu sveitarstjórnar þar um. Verði svæði ekki lengur skilgreint sem síður viðkvæmt skal hreinsun skv. 5. gr. komið á innan sjö ára frá því að skilgreiningu var breytt.

8. gr. Viðeigandi hreinsun skólps.

Skólp sem veitt er í ferskvatn og ármynni og fjöldi persónueininga er undir 2.000 og skólp sem veitt er í strandsjó og fjöldi persónueininga er undir 10.000 skal hreinsað með viðeigandi hreinsun. Heilbrigðisnefndir ákveða hvað er viðeigandi hreinsun með tilliti til viðtaka og álags. Með hreinsun skólpsins skal tryggt að viðkomandi svæði uppfylli umhverfismörk og gæðamarkmið, sbr. viðauka VII, sem um það gildir. Skólp skal að lágmarki hreinsað með síun eða annars konar hreinsun, svo sem með rotþró og siturlögn eða sambærilegum búnaði.

9. gr. Endurnýting.

Hreinsað skólp, sbr. viðauka IV, seyru og síu- og ristarúrgang skal nýta ef kostur er. Úrgang, þ.e. seyru og síu- og ristarúrgang til förgunar, skal flytja til móttökustöðvar sem hefur starfsleyfi til að taka við honum. Um starfsleyfi eða skráningu fyrir meðhöndlun úrgangs og meðhöndlun seyru, þ.m.t. flutning, notkun og hreinsun, fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um meðhöndlun úrgangs. Um kröfur til endurnýtingar úrgangs fer samkvæmt ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs, reglugerða settra samkvæmt þeim og reglugerðar um meðhöndlun seyru.

10. gr. Bann við losun.

Óheimilt er að losa í fráveitur, hvort sem um beina eða óbeina losun er að ræða, spilliefni, svo sem hvers kyns fitu, olíu, bensín, lífræn leysiefni, rokgjörn efni og önnur mengandi eða hættuleg efni. Sama á við um efni eða hluti sem geta truflað virkni fráveitu, svo sem úrgang, lyf og hreinlætisvörur, t.d. blautþurrkur.

11. gr. Móttaka og meðhöndlun salernisúrgangs.

Sveitarfélag skal tryggja móttöku og meðhöndlun á úrgangi frá salernum sem ekki eru tengd viðurkenndu hreinsivirki. Þetta á m.a. við um ferðasalerni, þurr- og vatnssparandi salerni, t.d. í húsbílum, rútum og bátum.

Sveitarfélag getur gert samning við einkaaðila um móttöku og meðhöndlun eða unnið í samstarfi við önnur sveitarfélög.

Heilbrigðisnefndir sinna eftirliti með móttökustöðvum og Umhverfis- og orkustofnun gefur út leiðbeiningar fyrir móttöku.

12. gr. Iðnaðarskólp.

Iðnaðarskólp skal hreinsað í samræmi við kröfur í 5.-8. gr., eins og við á, áður en það er losað í fráveitu sveitarfélags eða eigin fráveitu. Tryggja skal að losun skólps valdi hvorki skemmdum á fráveitubúnaði né truflunum við hreinsun þess, sbr. viðauka V, og hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið og/eða heilsu starfsfólks sem vinnur við fráveitur. Losun skólps má ekki valda því að umhverfismarkmið vatnshlota náist ekki. Tryggja skal að hægt sé að meðhöndla seyru eða farga á öruggan hátt.

Rekstraraðili skal tryggja að vöktun frárennslis og eftirlitsmælingar séu í samræmi við og uppfylli skilyrði samkvæmt viðauka IV, eins og við á.

Umhverfis- og orkustofnun og heilbrigðisnefndir skulu tryggja að í starfsleyfi og starfsskilyrðum séu ákvæði sem tryggja að farið verði eftir kröfum skv. 1. og 2. mgr.

Um losun frá starfsemi og framkvæmdir sem falla undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir gilda jafnframt ákvæði reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit og reglugerðir sem gilda um losun efna í vatn.

Rekstraraðilar sem losa í eigin fráveitu og útrás yfir 4.000 pe af skólpi sem inniheldur lífræn efni sem eyðast auðveldlega í umhverfinu skulu tilkynna Umhverfis- og orkustofnun um losunina.

13. gr. Útreikningur persónueininga.

Magnið sem gefið er upp í persónueiningum, sbr. 5.-8. gr., er reiknað út á grundvelli hámarks meðalmagns á viku sem fer um hreinsivirkið á ári, að undanskildu því sem fellur til við óvenjulegar aðstæður, svo sem vegna mikillar úrkomu.

III. KAFLI Hönnun og staðsetning fráveitu.

14. gr. Hönnun fráveitu.

Fráveitur skulu hannaðar, byggðar, starfræktar og viðhaldið þannig að þær uppfylli kröfur um hreinsun við öll venjuleg skilyrði. Við hönnun fráveitna skal taka tillit til árstíðabundinna magnsveiflna, m.a. veðurfars.

Fráveitur skulu vera þannig hannaðar, þar sem því verður við komið, að hægt sé að taka dæmigerð sýni af skólpi bæði í aðrás og frárás hreinsivirkis, sbr. viðauka IV.

15. gr. Staðsetning útrásar.

Staðsetning útrásar skal valin þannig að áhrif á vatn og annað umhverfi séu eins lítil og gerlegt er og tillit sé tekið til annarra hagsmuna, svo sem vatnsbóla, útivistar og atvinnustarfsemi. Staðsetningin skal ákvörðuð í samræmi við skipulagsáætlanir að teknu tilliti til gæðaþátta og umhverfismarka, sbr. reglugerð um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun, reglugerð um varnir gegn mengun vatns, reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns og reglugerð um baðstaði í náttúrunni.

Skólpi sem veitt er til sjávar skal veitt minnst 5 metra niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða 20 metra út frá meðalstórstraumsfjörumörkum þar sem það er hægt. Óheimilt er að leiða skólp þannig að frárennslisop opnist til hafna.

Reynist ómögulegt vegna landfræðilegra aðstæðna að uppfylla ákvæði 1. og 2. mgr. er heimilt að leggja til aðrar lausnir sem Umhverfis- og orkustofnun metur fullnægjandi. Áður en stofnunin tekur ákvörðun skal hún leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd.

Lagning neðansjávarleiðslna er háð samþykki viðeigandi aðila, sbr. reglugerð um heimild til lagningar sæstrengja og neðansjávarleiðslna.

16. gr. Yfirfall og ofanvatn.

Draga skal úr álagi á fráveitu með því að aðskilja skólp og ofanvatn og nýta blágrænar ofanvatnslausnir þar sem kostur er. Ofanvatn skal hreinsað þegar við á áður en það er losað í viðtaka.

Fyrirbyggja skal, eins og kostur er, losun á ómeðhöndluðu skólpi út í viðtaka vegna óhjákvæmilegra aðstæðna, t.d. bilana og rafmagnsleysis eða náttúrulegra aðstæðna. Lengd og fjölda slíkra tilvika skal haldið í lágmarki. Tilkynna skal umsvifalaust til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar þegar um slíka losun er að ræða.

Tilvikum þar sem skólp fer um yfirfall skal haldið í lágmarki. Þar sem um er að ræða einföld kerfi er heimilt, þegar um yfirálag á fráveitu er að ræða vegna ofanvatns, að útþynnt skólp fari árlega um yfirföll allt að 5% af tímanum. Staðsetning útrásar yfirfallsvatns fer skv. 15. gr.

IV. KAFLI Innra eftirlit, skráning o.fl.

17. gr. Sýnataka, mælingar, skráning og skýrslugjöf.

Upplýsingum og gögnum samkvæmt reglugerð þessari ber að skila í gagnagátt um fráveitur á því formi sem þar kemur fram. Umhverfis- og orkustofnun rekur gagnagáttina og skal hún vera aðgengileg á vef stofnunarinnar.

Rekstraraðili fráveitu, sem meðhöndlar yfir 50 pe, skal mæla eða láta mæla mengunarþætti í skólpi í samræmi við viðauka I, II og IV og starfsleyfi. Rekstraraðili fráveitu, sem meðhöndlar yfir 2.000 pe, skal einnig skila upplýsingum um búnað og rekstur fráveitna og meðhöndlun úrgangs og seyru á tveggja ára fresti til heilbrigðisnefnda og Umhverfis- og orkustofnunar. Skila skal upplýsingum fyrir 1. apríl hvert ár.

Sveitarstjórn skal skila upplýsingum um fráveitur í gagnagátt um fráveitur þar sem m.a. er fjallað um:

1. Magn fráveituvatns og mengunarefna annars vegar frá íbúðabyggð og hins vegar frá iðnaðarsvæðum, svo og um hvers konar iðnað er að ræða.

2. Hreinsun, þar á meðal sérstaka hreinsun á fráveituvatni frá iðnaði.

3. Svæði sem skólp er losað í og áætluð áhrif.

4. Meðhöndlun ristarúrgangs og seyru frá hreinsivirkjum og móttökustað.

5. Hvenær áætlað er að fráveitan verði tekin í notkun og framkvæmdaáætlun fyrir einstaka áfanga.

6. Stök hreinsivirki í sveitarfélaginu, sbr. 3. mgr. 5. gr., svo sem varðandi fjölda, gerð hreinsunar og nýtingu eða förgun seyru.

Umhverfis- og orkustofnun skal annað hvert ár gefa út samantekt um stöðu fráveitumála, þar á meðal hreinsun skólps og seyru sem byggist á framangreindum upplýsingum.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

18. gr. Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.

Um valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

19. gr. Innleiðing EES-gerða.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirtöldum EES-gerðum:

1. Tilskipun ráðsins 91/271/EBE frá 21. maí 1991 um hreinsun skólps frá þéttbýli.

2. Tilskipun framkvæmdarstjórnarinnar 98/15/EB frá 27. febrúar 1998 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/271/EBE að því er varðar tilteknar kröfur í I. viðauka við hana.

20. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 7/1998.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Þrátt fyrir 2. mgr. 7. gr. er starfandi fráveitum í þéttbýli, sem þegar eru búnar að setja upp síubúnað samkvæmt reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp en hann uppfyllir ekki kröfur um eins þreps hreinsun samkvæmt þessari reglugerð, heimilt að nota þann búnað til 31. desember 2027.

II.

Ráðherra skipar samráðshóp um fráveitur. Í hópnum eiga sæti fulltrúar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, innviðaráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umhverfis- og orkustofnun og Samorku. Fulltrúi ráðherra fer með formennsku í samráðshópnum.

Megintilgangur hópsins er að efla samráð og samvinnu varðandi fráveitur og skólphreinsun. Samstarfshópurinn skal meta kostnað, greina mögulegar leiðir til að draga úr kostnaðaráhrifum, útfæra áætlun og tímaramma í samræmi við kröfur reglugerðarinnar, svo sem að fjalla um áherslur varðandi fráveitustyrki, örplast og nýja nálgun eins og blágrænar ofanvatnslausnir og vinna að sameiginlegum lausnum. Auk þess skal hópurinn skoða möguleika á uppbyggingarverkefnum, þróun mannvirkja, nýsköpun og fjalla um bestu aðgengilegu tækni. Við vinnu samstarfshópsins er gert ráð fyrir að hann hafi m.a. samráð við vatnaráð og Umhverfis- og orkustofnun og taki mið af aðgerðum í aðgerðaáætlun vatnaáætlunar. Samráðshópurinn skal leggja áherslu á að benda sveitarfélögum á möguleika á að sækja um innlenda sem erlenda styrki til fráveituframkvæmda og nýsköpunar á því sviði.

Samráðshópurinn skal auk þess fjalla um aukna nýtingu seyru sem fellur til hjá fráveitum, greina hvaða möguleikar eru til að nýta seyru og setja fram tímasetta áætlun með þeim sem seyra fellur til hjá og þeirra sem geta nýtt seyru. Í áætluninni skal tiltaka hvernig hægt er að koma seyru sem kveðið er á um í 9. gr. í farveg og hvaða kostnaðaráhrif það hefur. Áætlun vegna seyru skal vera tilbúin eigi síðar en 31. desember 2027.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 19. desember 2025.

Jóhann Páll Jóhannsson.

Stefán Guðmundsson.

B deild - Útgáfudagur: 23. desember 2025

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica