Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 31. okt. 2012

1025/2005

Reglugerð um rokgjörn lífræn efnasambönd í málningu, lakki og efnum til lakkviðgerða ökutækja.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að takmarka notkun rokgjarnra lífrænna efnasambanda í tiltekinni málningu, lakki og efnum til lakkviðgerða ökutækja til að draga úr mengun andrúmsloftsins af völdum ósons við yfirborð jarðar.

2. gr. Gildissvið.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til málningar, lakks og annarrar efnavöru sem notuð er til yfirborðsmeðferðar á byggingum, skreytingum þeirra og innréttingum og talin er upp í viðauka I.1 við reglugerð þessa, að undanskildum úðaefnum, sem ætluð er til skreytingar, hlífðar eða til að ná fram annarri virkni.

Reglugerðin tekur einnig til lakkefna til yfirborðsmeðferðar ökutækja eða hluta þeirra sem talin eru upp í viðauka I.2 og ætluð eru til viðgerða, viðhalds eða skreytinga utan bifreiðasmiðja.

3. gr. Skilgreiningar.

Efnavara: Hreint efni eða blanda tveggja eða fleiri efna í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi.

Efni: Frumefni og sambönd þess, bæði náttúruleg og manngerð.

Filma: Samfelld húð sem fæst með því að bera einu sinni eða oftar á undirlag.

Innihald rokgjarnra lífrænna efnasambanda: Massi rokgjarnra lífrænna efnasambanda, mældur í grömmum/lítra (g/l) í efnavörunni eins og hún er þegar hún er tilbúin til notkunar. Massi rokgjarnra lífrænna efnasambanda í efnavörunni sem hvarfast efnafræðilega við þornun og myndar hluta af yfirborðshúðinni telst þó ekki hluti af innihaldi rokgjarnra lífrænna efnasambanda.

Leysiblönduð yfirborðsefni (lb): Yfirborðsefni þar sem seigjan hefur verið stillt með lífrænum leysi.

Lífrænn leysir: Sérhvert rokgjarnt lífrænt efnasamband sem er notað, eitt sér eða með öðrum efnum, til að leysa upp eða þynna hráefni, afurðir eða úrgangsefni, eða notað sem hreinsiefni, mýkiefni, rotvarnarefni, dreifiefni eða efni til að stilla seigju eða yfirborðsspennu.

Lífrænt efnasamband: Sérhvert efnasamband sem inniheldur kolefni og eitt eða fleiri eftirtalinna efna: vetni, súrefni, brennistein, fosfór, kísil, köfnunarefni eða halógen að undanskildum kolefnisoxíðum og ólífrænum karbónötum og bíkarbónötum.

Markaðssetning: Dreifing eða sala efnavöru.

Rokgjarnt lífrænt efnasamband: Sérhvert lífrænt efnasamband með upphafssuðumark lægra en eða jafnt 250°C við staðalþrýstinginn 101,3 kPa.

Vatnsblönduð yfirborðsefni (vb): Yfirborðsefni þar sem seigjan hefur verið stillt með vatni.

Yfirborðsefni: Sérhver efnavara, þ.m.t. lífrænn leysir eða efnavara, sem inniheldur lífrænan leysi, sem notuð er til að mynda filmu sem skreytir eða verndar yfirborðsfleti eða til að þekja yfirborð í öðrum tilgangi.

4. gr. Skilyrði.

Efnavöru sem talin er upp í viðauka I má eingöngu framleiða og markaðssetja ef innihald rokgjarnra lífrænna efnasambanda í efnavörunni er undir þeim mörkum sem fram koma í viðauka II.

Þegar blanda þarf efnavöru sem talin er upp í viðauka I með lífrænum leysi eða öðrum efnisþáttum sem innihalda lífræna leysa til að efnavaran verði tilbúin til notkunar, skulu viðmiðunargildin í viðauka II gilda um efnavöruna þegar hún er tilbúin til notkunar.

5. gr. Undanþágur.

Efnavara sem talin er upp í viðauka I og eingöngu er seld til notkunar í stöðvum sem falla undir reglugerð um takmörkun á útstreymi rokgjarnra lífrænna efna vegna notkunar á lífrænum leysiefnum í tiltekinni starfsemi, og hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir frá heilbrigðisnefnd, er undanþegin ákvæðum 4. gr.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu fyrir kaup og sölu á takmörkuðu magni af efnavöru sem uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett eru í viðauka II ef hún er notuð við endurbyggingu, endursmíði eða viðhald bygginga og fornökutækja sem þar til bær aðili metur að hafi sérstakt sögu- eða menningarlegt gildi.

6. gr. Merkingar.

Efnavara sem talin er upp í viðauka I skal við markaðssetningu merkt með:

  1. Undirflokki efnavöru og viðeigandi viðmiðunarmörkum fyrir rokgjörn lífræn efnasambönd eins og fram kemur í viðauka II.
  2. Hámarksinnihaldi rokgjarnra lífrænna efnasambanda (g/l) í efnavöru tilbúinni til notkunar.

7. gr. Prófanir.

Framkvæma skal prófanir skv. viðauka III til þess að sýna fram á að efnavara uppfylli ákvæði reglugerðar þessarar.

8. gr. Eftirlit.

Heilbrigðisnefnd sveitarfélaga, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

9. gr. Viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 29. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni með síðari breytingum.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun 2004/42/EB um takmörkun á losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda vegna notkunar lífrænna leysa í tiltekinni málningu og lakki og efnum til lakkviðgerða á ökutækjum og um breytingu á tilskipun 1999/13/EB, sem vísað er til í 9. tl. XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2003, þann 11. júní 2005.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Til 1. janúar 2008 er heimilt að selja efnavöru sem talin er upp í viðauka I þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði 4. gr. um hámarksinnihald lífrænna efnasambanda ef sýnt er fram á að varan hafi verið framleidd fyrir 1. janúar 2007 í samræmi við I. áfanga í viðauka II.

II.

Til 1. janúar 2011 er heimilt að selja efnavöru sem talin er upp í viðauka I þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði 4. gr. um hámarksinnihald lífrænna efnasambanda ef sýnt er fram á að varan hafi verið framleidd fyrir 1. janúar 2010 í samræmi við II. áfanga í viðauka II. Íslensk framleiðsla sem sýnt er fram á að hafi verið framleidd fyrir 1. janúar 2010 í samræmi við II. áfanga í viðauka II má þó vera á markaði til 1. janúar 2013.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.