Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 30. nóv. 2018

738/2003

Reglugerð um urðun úrgangs.

I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að því að urðun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið. Í því felst að urðun úrgangs mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, að dregið verði úr þeirri hættu sem urðun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra, að dregið verði úr urðun úrgangs og að urðun verði háttað þannig að úrgangur nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um urðun úrgangs og skilyrði fyrir móttöku hans til urðunar.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og hugtaka sem hér segir:
Afskekkt byggð: landsvæði þar sem íbúar í hverju sveitarfélagi eða byggð eru ekki fleiri en 500 og íbúar á ferkílómetra eru ekki fleiri en fimm og fjarlægð til næsta þéttbýlisstaðar, þar sem íbúar eru minnst 250 íbúar á hvern ferkílómetra, er ekki undir 50 km eða þar sem vegasamgöngur til næsta þéttbýlisstaðar eru torveldar talsverðan hluta ársins sakir erfiðra veðurskilyrða.

Almennur úrgangur: úrgangur annar en spilliefni.

Besta fáanlega tækni: framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum forsendum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins gegn mengun.

Eftirlit: athugun á ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

Eftirlitsaðilar: viðkomandi heilbrigðisnefnd og Umhverfisstofnun og einnig faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Fljótandi úrgangur: úrgangur í vökvaformi, sbr. ÍST EN 12457 viðauki B, með þurrefnisinnihald undir 20%.

Flokkunarmiðstöðvar: staðir þar sem tekið er við úrgangi sem er safnað saman kerfisbundið til flokkunar, endurnotkunar, endurnýtingar og/eða förgunar.

Grunnvatn: vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.

Hauggas: allar gastegundir sem myndast við niðurbrot úrgangs á urðunarstað.

Heilbrigðisstofnanir: stofnanir og starfsaðstaða sem læknar, tannlæknar, dýralæknar eða aðrir sem hafa sambærileg réttindi til að koma í veg fyrir og greina sjúkdóma í mönnum eða dýrum, gera að sárum og/eða hafa eftirlit með sjúkdómum. Hér er einnig átt við stofnanir og starfsaðstöðu svo sem læknis- og líffræðilegar rannsóknastofur, elliheimili og aðra umönnunarstaði fyrir fólk, fótaaðgerðarstofur og stofur sem stunda húðgatanir og húðflúr.

Heimilisúrgangur (sorp): úrgangur frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, plast, garðaúrgangur, gler, timbur, málmar og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.

Klumpaður úrgangur (monolithic waste): einsleitur úrgangur sem er af tiltekinni lágmarksstærð og hefur þannig eðliseiginleika að hann molnar ekki niður á tilteknum tíma.

Kornaður úrgangur: úrgangur sem er ekki vökvi, eðja, gas eða klumpaður.

Landbúnaðarúrgangur: úrgangur frá landbúnaði, til dæmis húsdýraskítur, gamalt hey, heyrúlluplast og dýrahræ.

Lífrænn úrgangur (lífbrjótanlegur úrgangur): úrgangur sem er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án tilkomu súrefnis, t.d. matarleifar, garðaúrgangur, sláturúrgangur, fiskúrgangur, ölgerðarhrat, húsdýraúrgangur, timbur, lýsi, garðyrkjuúrgangur, pappír og pappi og seyra.

Meðferð úrgangs: meðhöndlun úrgangs, önnur en endanleg förgun.

Meðhöndlun úrgangs (sorphirða): söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað.

Böggun: þjöppun úrgangs í bagga til að minnka rúmmál hans.

Flokkun: aðgreining úrgangstegunda til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.

Flutningur: ferli þegar úrgangur er fluttur í atvinnuskyni til endurnotkunar, endurnýtingar eða förgunar.

Endurnotkun (reuse): endurtekin notkun úrgangs í óbreyttri mynd.

Endurnýting (recovery): hvers konar nýting úrgangs, önnur en endurnotkun, þ.m.t. endurvinnsla, orkuvinnsla og landmótun.
Endurvinnsla (recycling): endurframleiðsla úr úrgangi til upprunalegra eða annarra nota, þar með talin lífræn endurvinnsla en ekki orkuvinnsla.

Förgun: aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega s.s. urðun og brennsla úrgangs.
Pökkun: þegar úrgangur er settur í umbúðir til að gera hann flutningshæfan og/eða til að geyma í lengri eða skemmri tíma.

Mengun: þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Móttökustöð: staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til lengri eða skemmri geymslu, umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðferðar. Þaðan fer úrgangur til nýtingar eða förgunar. Undir móttökustöð falla flokkunarmiðstöðvar, urðunarstaðir og brennslustöðvar.

Nýr urðunarstaður: urðunarstaður sem hefur fengið útgefið starfsleyfi eftir gildistöku reglugerðar þessarar.

Óvirkur úrgangur: úrgangur sem breytist ekki verulega líf-, efna- eða eðlisfræðilega og hefur ekki skaðleg áhrif á umhverfið, t.d. múrbrot, gler og uppmokstur.

Rekstraraðili: einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi atvinnurekstri.

Rekstrartími urðunarstaðar: tímabil frá því urðunarstaður hefur fengið starfsleyfi þar til Umhverfisstofnun hefur samþykkt að vöktunartímabil sé hafið.

Rekstrarúrgangur: úrgangur frá framleiðslu, þjónustu og verslun annar en heimilisúrgangur.

Sigvatn: vökvi sem seytlar í gegnum urðunarstað og er veitt frá eða geymist í honum.

Smitandi: efni sem innihalda lífvænlegar örverur eða eiturefni þeirra sem vitað er eða má ætla að geti valdið sjúkdómum í mönnum eða öðrum lífverum.

Sóttmengaður úrgangur: úrgangur frá heilbrigðisstofnunum sem er smitandi samkvæmt skilgreiningu í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annar úrgangur sem er smitandi.

Spilliefni: úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni og skráð eru á lista í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Starfandi urðunarstaður: urðunarstaður sem hefur fengið útgefið starfsleyfi í fyrsta sinn fyrir gildistöku reglugerðar þessarar.

Söfnunarstöð (gámastöð): staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar, endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðvar.

Umhverfi: samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.

Urðun: varsla úrgangs á eða í landi sem ekki felur í sér frekari vinnslu hans eða nýtingu um fyrirsjáanlega framtíð.

Urðunarstaðir: staðir þar sem tekið er við úrgangi til urðunar á eða í landi, þar á meðal urðunarstaðir þar sem framleiðandi úrgangs fargar eigin úrgangi á framleiðslustað og varanlegir staðir, þ.e. þar sem úrgangur er geymdur lengur en eitt ár áður en honum er fargað, eða þrjú ár áður en endurnýting hefst.

Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og er skráður á lista í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Úrgangshafi: framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni.

Vatn: grunnvatn og yfirborðsvatn.

Vöktun: kerfisbundin og síendurtekin skráning einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.

Yfirborðsvatn: kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og jöklar, svo og strandsjór.

II. KAFLI Urðun úrgangs.

4. gr. Stjórnvöld.

Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Umhverfisstofnun veitir leiðbeiningar um framkvæmd reglugerðarinnar og kemur upplýsingum til viðkomandi heilbrigðisnefndar.

Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir urðunarstaði og hefur eftirlit með því að starfsleyfishafi fari að ákvæðum þess.

Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd eftirlit og framkvæmd þvingunarúrræða samkvæmt reglugerð þessari í umboði stofnunarinnar. Umhverfisstofnun skal í slíkum tilvikum gera sérstakt samkomulag við viðkomandi heilbrigðisnefnd um umfang eftirlitsins, nánara fyrirkomulag þess, skyldu til samráðs og sambærileg atriði.

Umhverfisstofnun er einnig heimilt með sérstökum samningi að fela tiltekna þætti eftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum, sbr. ákvæði 21. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.

5. gr. Meginreglur.

Urðun úrgangs skal vera með þeim hætti að óþrifnaður og óþægindi stafi ekki af, sbr. og ákvæði 5. liðar I. viðauka. Beita skal bestu fáanlegri tækni við urðun úrgangs.

Einungis er heimilt að urða úrgang sem hlotið hefur eðlisræna, varmatengda, efnafræðilega eða líffræðilega meðferð, þ.m.t. flokkun, sem breytir eiginleikum úrgangsins þannig að umfang hans minnkar, af honum stafar síður hætta eða urðun verður einfaldari.

Ákvæði 2. mgr. gildir þó ekki um óvirkan úrgang, sem ekki er tæknilega gerlegt að meðhöndla, sbr. 2. mgr., né annan úrgang ef slík meðhöndlun þjónar ekki markmiðum þessarar reglugerðar, eins og nánar er kveðið á um í starfsleyfi.

Urðun úrgangs er starfsleyfisskyld starfsemi.

6. gr. Flokkun urðunarstaða og móttaka úrgangs.

Urðunarstaðir flokkast í staði fyrir:

a. óvirkan úrgang;
b. almennan úrgang og
c. spilliefni.

Heimilt er að flokka urðunarstaði nánar í undirflokka, sbr. ákvæði í II. viðauka.

Á urðunarstað fyrir óvirkan úrgang má eingöngu urða óvirkan úrgang.

Á urðunarstað fyrir almennan úrgang má urða allan annan úrgang en spilliefni. Þó má urða stöðug óvirk spilliefni, sem hafa t.d. harðnað í fast efni eða umbreyst í gler, þar sem útskolunin er með svipuðum hætti og í heimilis- og rekstrarúrgangi og úrgangurinn fullnægir viðeigandi viðmiðunum um móttöku sem settar eru í II. viðauka. Ekki skal koma slíkum úrgangi fyrir í urðunarreinum eða hólfum sem eru ætluð undir lífrænan úrgang.

Allur úrgangur á urðunarstað fyrir almennan úrgang skal vera í samræmi við viðmiðanir um móttöku í II. viðauka.

Á urðunarstað fyrir spilliefni er eingöngu heimilt að urða spilliefni sem fullnægir þeim viðmiðunum sem eru settar í II. viðauka. Þar sem viðmiðanir eiga ekki við tiltekna gerð spilliefna er heimilt að styðjast við framlögð gögn um áhættumat fyrir viðkomandi urðunarstað, sbr. ákvæði 25. gr.

7. gr. Takmörkun á urðun.

8. gr. Úrgangur sem óheimilt er að urða.

Óheimilt er að urða eftirtalinn úrgang:

a) fljótandi úrgang;
b) úrgang sem er, við þau skilyrði sem ríkja á urðunarstað og samkvæmt skilgreiningu í III. viðauka í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, sprengifimur, ætandi, eldnærandi, mjög eldfimur eða eldfimur;
c) sóttmengaðan úrgang annan en tilgreindur er í 7. gr.;
d) hjólbarða hvort sem um er að ræða heila eða kurlaða. Þetta á þó ekki við um hjólbarða sem eru notaðir sem byggingar- og stoðefni á urðunarstað né reiðhjóladekk og hjólbarða með stærra þvermáli en 1,4 m;
e) brotajárn og ökutæki;
f) geislavirkan úrgang skilgreindan samkvæmt reglum Geislavarna ríkisins.
g) úrgang sem hefur verið þynntur eða blandaður í þeim eina tilgangi að hann fullnægi viðmiðunum um móttöku úrgangs á urðunarstað;
h) annan úrgang sem fullnægir ekki þeim viðmiðunum um móttöku sem ákvarðaðar eru í II. viðauka með reglugerð þessari eftir því sem við á og ákvæðum reglugerðar um meðhöndlun úrgangs.

8. gr. a Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. kafla I. viðauka skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli eftirtalinna ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlast eftirfarandi EB-gerðir gildi hér á landi:

a) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1102/2008 um bann við útflutningi á kvikasilfursmálmi og tilteknum kvikasilfurssamböndum og -blöndum og um örugga geymslu á kvikasilfursmálmi, sem vísað er til í tölulið 22a, IV. kafla XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 26/2013, frá 1. febrúar 2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16, 14. mars 2013 - 2013/EES/16/55 bls. 270-274.
Þrátt fyrir 1. málsl. a-liðar 1. mgr. hér á undan öðlast eftirfarandi atriði EB-reglugerðarinnar ekki gildi hér á landi:
a. 1. gr. reglugerðarinnar. Í stað hennar gildir eftirfarandi ákvæði:
Útflutningur á kvikasilfursmálmi (Hg, CAS-númer 7439-97-6), sinnóbergrýti, kvikasilfurs(I)klóríði (Hg2Cl2, CAS-númer 10112-91-1), kvikasilfurs(II)oxíði (HgO, CAS-númer 21908-53-2) og blöndum kvikasilfursmálms og annarra efna, þ.m.t. kvikasilfursblendi, þar sem styrkur kvikasilfurs er a.m.k. 95% miðað við þyngd frá ESB til EFTA-ríkja og frá EFTA-ríkjum til ESB og milli EFTA-ríkjanna skal heimilaður.
Þetta er með fyrirvara um strangara innflutnings- eða útflutningsbann sem er til staðar í EFTA-ríki á þeim tíma þegar reglugerðin er felld inn í EES-samninginn.
EFTA-ríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til að tryggja að kvikasilfur og kvikasilfurssambönd og -blöndur, sem getið er í 1. mgr., séu ekki flutt út frá ESB til þriðja lands um EFTA-ríki. Hið sama skal gilda um blöndun kvikasilfursmálms við önnur efni í þeim eina tilgangi að flytja út kvikasilfursmálm frá ESB til þriðja lands um EFTA-ríki. Þetta gildir ekki um útflutning á blöndum, sem um getur í 1. mgr., til rannsókna og þróunar eða til lækninga eða greininga.
b. Ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar gilda ekki að því er varðar EFTA-ríkin.

III. KAFLI Móttaka, sýnataka, prófanir og skráning.

9. gr. Afhending úrgangs.

Við afhendingu úrgangs, skulu liggja fyrir nauðsynlegar upplýsingar um að úrgangurinn uppfylli þær kröfur sem settar eru fram í starfsleyfi urðunarstaðarins.

Við afhendingu úrgangs skal úrgangshafi sem kemur með úrgang til móttöku sýna fram á með viðeigandi gögnum, fyrir eða við afhendingu, að umræddur úrgangur sé tækur til urðunar á staðnum og að hann uppfylli þær viðmiðanir um móttöku sem settar eru fram í II. viðauka eftir því sem við á. Ef um áframhaldandi afhendingu á sömu tegund úrgangs er að ræða er nægjanlegt að sýna fram á þetta við afhendingu í fyrsta sinn sem komið er með úrgang til urðunar. Um úrgang þar sem prófunar er ekki krafist vísast til liðar 1.1.4 í II. viðauka, sbr. einnig liði 2.1.1 fyrir óvirkan úrgang og 2.2.1 fyrir almennan úrgang í sama viðauka.

10. gr. Móttaka úrgangs.

Við móttöku úrgangs skal rekstraraðili urðunarstaðar:

a) yfirfara gögn úrgangshafa um úrganginn. Einnig ef um spilliefni er að ræða skjöl sem krafist er skv. 11. gr. reglugerðar um spilliefni og gögn er varða flutning úrgangs innan, til og út af EES-svæðinu;
b) skoða úrganginn og kanna hvort úrgangurinn samrýmist þeim gögnum sem úrgangshafi leggur fram við afhendingu úrgangs, sbr. einnig lið 1.3 í II. viðauka;
c) gefa út móttökukvittun.

Tilkynna skal eftirlitsaðila tafarlaust ef úrgangi er hafnað til urðunar.

11. gr. Skráning.

Rekstraraðili skal halda skrá yfir allan urðaðan úrgang. Skrá skal magn og eiginleika úrgangs, uppruna, dagsetningu móttöku og framleiðanda úrgangs eða söfnunarfyrirtæki ef um er að ræða heimilisúrgang. Skrá skal hvar úrgangur er urðaður innan urðunarsvæðisins þegar um er að ræða spilliefni.

IV. KAFLI Starfsleyfi fyrir urðunarstaði.

12. gr. Staðarval urðunarstaða.

Við staðsetningu urðunarstaða skal taka mið af þeim kröfum sem fram koma í I. viðauka.

Til að vernda heilsu fólks skulu urðunarstaðir ekki vera nær íbúðarhverfum, skólum, matvælaframleiðslu- og sölustöðum, heilbrigðisstofnunum og öðrum dvalarstöðum fólks en sem nemur 500 metrum. Umhverfisstofnun getur í starfsleyfi þegar ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn viðkomandi heilbrigðisnefndar vikið frá þessum mörkum með hliðsjón af jarðfræði, landslagi og veðurfari á urðunarstað, magni úrgangs, tegundum, fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum, flokki urðunarstaðar og frágangi á urðunarstað.

Ef staðsetning og einkenni urðunarstaðar, sbr. lið 1.1 í I. viðauka, benda til þess að urðunarstaðurinn skapi alvarlega hættu fyrir umhverfið þrátt fyrir fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir skal synjað um starfsleyfi.

Umhverfisstofnun getur, með nýju starfsleyfi, heimilað staðsetningu nýs urðunarstaðar við hlið urðunarstaðar sem lokað hefur verið.

13. gr. Umsókn um starfsleyfi fyrir urðunarstaði.

Í umsókn um starfsleyfi fyrir urðunarstað skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

a) nafn umsækjanda;
b) lýsing á tegund þess úrgangs, sem koma á fyrir, og heildarmagni hans;
c) áætluð móttökugeta urðunarstaðarins og áætlaður rekstrartími;
d) lýsing á urðunarstaðnum, þar á meðal lýsing á vatnajarðfræði- og jarðfræðilegum einkennum hans;
e) fyrirhugaðar aðferðir í því skyni að fyrirbyggja mengun og draga úr henni;
f) áætlun um rekstur, vöktun og innra eftirlit;
g) áætlun um lokun, aðgerðir í kjölfar lokunarinnar og kostnað sem af því hlýst;
h) fullnægjandi trygging umsækjanda, eða sérhver önnur jafngild ráðstöfun, sem krafist er samkvæmt 17. gr.;
i) greinargerð um þær aðferðir sem rekstraraðili hyggst beita í því skyni að fyrirbyggja mengun eða draga úr henni þ.m.t. tilhögun innra eftirlits, áætlun um vöktun, lokun og aðgerðir í kjölfar lokunnar;
j) aðrar upplýsingar ef þörf er á.

Í umsókn samkvæmt 1. mgr. skal vera samantekt á almennu máli um þau atriði sem fram koma í umsókn um starfsleyfi.

Umsókn um starfsleyfi skulu fylgja upplýsingar um stöðu skipulags á svæðinu. Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum skal fylgja umsókn um starfsleyfi ef urðunarstaðurinn er háður mati á umhverfisáhrifum. Varðandi framangreinda upplýsingagjöf er heimilt að vísa til skýrslu um mat á umhverfisáhrifum ef þar er að finna þær upplýsingar sem greinir í 1. til 3. mgr.

14. gr. Útgáfa starfsleyfis.

Áður en starfsleyfi er veitt fyrir urðun úrgangs er skylt að láta fara fram rannsókn eins og við á hverju sinni á styrk tiltekinna efna, þ.m.t. eiturefna og hættulegra efna í vatni og grunnvatni, sem hætta er á að geti mengast. Áður en starfsleyfi er gefið út skal enn fremur það svæði þar sem vöktun og greining fer fram afmarkað.

Starfsleyfi skal ekki gefa út fyrr en farið hefur fram mat á umhverfisáhrifum eftir því sem lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum, kveða á um. Starfsleyfi skal vera í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum.

Um meðferð umsóknar um starfsleyfi fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun. Þegar starfsleyfi fyrir urðunarstaði er undirbúið skal gæta sérstaklega að ákvæðum reglugerðar um varnir gegn mengun grunnvatns og I. viðauka með reglugerð þessari.

15. gr. Gildissvið starfsleyfis.

Í starfsleyfi skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu urðunarstaðarins, tegund hans, forsendur fyrir urðun úrgangs m.t.t. grunnvatns- og jarðvegsverndar, magn og tegundir þess úrgangs sem heimilt er að urða, gildistíma og hvenær fyrirhugað er að endurskoða starfsleyfið.

16. gr. Skilyrði starfsleyfis.

Í starfsleyfi skulu vera ákvæði sem miða að því að vernda heilsu manna og umhverfi. Starfsleyfisskilyrði skulu taka mið af aðstæðum á viðkomandi stað.

Í starfsleyfi samkvæmt 1. mgr. skulu vera ákvæði um:

a) kröfur sem varða undirbúning urðunarstaðarins, urðunarframkvæmdir og ef við á gassöfnun;
b) skrásetningu úrgangs, sbr.11. gr.;
c) varúðarráðstafanir á urðunarstað;
d) hávaða, varnir gegn meindýrum;
e) tæknilegar kröfur sem gera skal til urðunarstaða;
f) samþættar mengunarvarnir og til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni eins og hún er skilgreind á hverjum tíma;
g) nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengunaróhöpp og til þess að draga úr afleiðingum þeirra;
h) fullnægjandi trygging umsækjanda, eða sérhver önnur jafngild ráðstöfun, sem krafist er samkvæmt 17. gr.;
i) aðferðir við vöktun og eftirlit, þar á meðal neyðaráætlanir, sbr. B-lið 4. liðar í III. viðauka, sem og bráðabirgðakröfur sem varða aðgerðir við lokun og eftirlit í kjölfar hennar;
j) árlega skýrslugjöf til eftirlitsaðila, sbr. 22. gr.;
k) að stjórnandi urðunarstaðar hafi nægilega tæknilega færni til að stjórna honum og hljóti faglega og tæknilega menntun og þjálfun;
l) að meðhöndlun úrgangsins samræmist viðeigandi áætlunum og viðmiðum um móttöku og meðhöndlun úrgangs sem kveðið er á um í lögum um meðhöndlun úrgangs;
m) tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa sem gætu valdið mengun eða haft önnur óæskileg áhrif á umhverfið;
n) um innra eftirlit og eftirlit eftirlitsaðila;
o) takmörkun á aðgangi að urðunarstaðnum, sbr. 7. lið í I. viðauka;
p) lokun og endanlegan frágang urðunarstaða;
q) vöktun og greiningu á hauggasi og sigvatni, sbr. III. viðauka, sem berst frá urðunarstaðnum og greiningu grunnvatns í nágrenni staðarins svo lengi sem telja má að mengunarhætta stafi af urðunarstaðnum, að jafnaði 30 ár frá lokun urðunarstaðarins;
r) hvort veittar eru undanþágur samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Starfsleyfi skal gefa út til tiltekins tíma. Umhverfisstofnun er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn, vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir eða ef starfsleyfishafi óskar eftir því. Um endurskoðun starfsleyfis fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

17. gr. Starfsleyfistrygging.

Rekstraraðili skal leggja fram fullnægjandi fjárhagslega tryggingu eða ábyrgð fyrir því að staðið verði við þær skyldur sem starfsleyfinu fylgja þar á meðal um lokunar- og eftirlitsaðgerðir í kjölfar lokunar urðunarstaðarins. Ákvæði þetta gildir þó ekki um urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang.

Starfsleyfistrygging skal gilda í 30 ár eftir að urðunarstað er lokað. Fjárhæð tryggingar eða ábyrgðar skal tiltekin í starfsleyfi og skal hún samræmast áætluðum kostnaði við lokun urðunarstaðarins, vöktun og tíðni sýnatöku í kjölfar lokunar sem Umhverfisstofnun telur fullnægjandi fyrir viðkomandi urðunarstað og miðast við 30 ára vöktunartímabil.

Rekstraraðili getur óskað eftir því við Umhverfisstofnun að trygging vegna urðunarstaðar, sem er í rekstri eða hefur verið lokað, verði lækkuð.

Aðför má ekki gera í tryggingunni/ábyrgðinni nema til fullnustu skyldu rekstraraðila til aðgerða í samræmi við starfsleyfi samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs. Tryggingin/ ábyrgðin skal jafnframt undanskilin þrotabúi rekstraraðila verði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta innan 30 ára frá lokun urðunarstaðarins.

Fjárhagsleg trygging eða ábyrgð sem samþykkt skal af Umhverfisstofnun getur verið eftirfarandi:

a) bankatrygging sem er veitt af fjármálastofnun;
b) bundinn reikningur í fjármálastofnun;
c) trygging á grundvelli eigna rekstraraðila, t.d. fasteignir o.fl.;
d) ábyrgðaryfirlýsing viðkomandi sveitarfélags eða sveitarfélaga eða stofnanna þeirra eftir því sem við á;
e) önnur, sambærileg trygging skv. mati Umhverfisstofnunar.

18. gr. Gjald fyrir urðun úrgangs.

Rekstraraðili urðunarstaðar skal innheimta gjald vegna urðunar úrgangs. Gjaldið skal nægja fyrir öllum kostnaði við urðun úrgangsins, þar með talið uppsetningu og rekstri viðkomandi urðunarstaðar. Einnig skal gjaldið að svo miklu leyti sem hægt er standa undir kostnaði sem fylgir því að setja fjárhagslega tryggingu eða jafngildi hennar, sbr. 17. gr. reglugerðar þessarar og áætluðum kostnaði við lokun staðarins og nauðsynlegt eftirlit í kjölfar lokunar í 30 ár. Ákvæði þetta gildir þó ekki um starfsleyfishafa sem aðeins annast urðun á eigin úrgangi á framleiðslustað.

Gjald sem innheimt er, ef rekstraraðili er sveitarfélag eða byggðasamlag, skal þó aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laga um meðhöndlun úrgangs, svo sem þróunar nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál.

19. gr. Varúðarráðstafanir á urðunarstað.

Koma skal úrgangi þannig fyrir á urðunarstað að haugurinn og tengd mannvirki verði sem stöðugust, einkum þannig að ekki verði um skrið að ræða. Hafi tilbúnum tálma verið komið fyrir skal gengið úr skugga um að hið jarðfræðilega undirlag sé svo stöðugt, með tilliti til jarðmyndana á urðunarstað, að sig valdi ekki skemmdum á tálmanum.

20. gr. Aðgerðir sem varða vatn og sigvatn.

Gera skal viðeigandi ráðstafanir, með tilliti til einkenna urðunarstaðarins og veðurfræðilegra skilyrða, sbr. I. viðauka, í því skyni að:

a) hafa stjórn á úrkomuvatni sem berst í urðaða úrganginn;
b) varna því að yfirborðs- og/eða grunnvatn komist í urðaða úrganginn;
c) safna saman menguðu vatni og sigvatni;
d) meðhöndla mengað vatn og sigvatn, sem safnað er frá urðunarstaðnum í samræmi við ákvæði starfsleyfis.

21. gr. Aðferðir við eftirlit og vöktun á rekstrartíma.

Rekstraraðili skal fylgja áætlun um eftirlit og vöktun, sbr. III. viðauka.

Gæðakerfi rekstraraðila skal jafnframt taka til þeirra atriða er varða móttöku úrgangs, sbr. 10. gr.

Rekstraraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun um sérhver skaðleg áhrif á umhverfið, sem teljast veruleg og koma í ljós við eftirlit og vöktun, og hlíta ákvörðun Umhverfisstofnunar um eðli og tímasetningu þeirra aðgerða til úrbóta sem grípa ber til. Þær aðgerðir skulu vera á kostnað rekstraraðilans.

22. gr. Skýrslugjöf.

Rekstraraðili urðunarstaðar skal skila Umhverfisstofnun a.m.k. árlega skýrslu um þær tegundir úrgangs sem fargað er, heildarmagn og árangur af vöktunaráætlun, sbr. 9. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.

Rekstraraðili skal, svo oft sem Umhverfisstofnun ákveður og eigi sjaldnar en einu sinni á ári, gefa Umhverfisstofnun skýrslu á grundvelli fyrirliggjandi gagna, um allar niðurstöður af vöktuninni, svo að unnt sé að sýna fram á samræmi við skilyrði leyfisins og auka þekkingu á hegðun úrgangsins á urðunarstað.

Varðandi framangreinda upplýsingagjöf er rekstraraðila heimilt að vísa til skýrslu um grænt bókhald eða ársskýrslu ef þar er að finna þær upplýsingar sem greinir í 1. mgr.

V. KAFLI Lokun urðunarstaðar.

23. gr. Lokun urðunarstaðar.

Lokunarferli skal hefja á urðunarstað eða hluta hans, að uppfylltum skilyrðum sem sett eru fram í starfsleyfinu, að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar eða með rökstuddri ákvörðun Umhverfisstofnunar.

Lokun urðunarstaðar, eða hluta hans, telst ekki endanleg fyrr en Umhverfisstofnun hefur látið fara fram lokaskoðun á vettvangi, metið allar skýrslur sem rekstraraðili hefur lagt fram og ákvörðun Umhverfisstofnunar um lokun liggur fyrir. Þetta skerðir á engan hátt þá ábyrgð sem rekstraraðili ber samkvæmt skilyrðum leyfisins.

24. gr. Vöktun í kjölfar lokunar urðunarstaðar.

Þegar urðunarstað hefur verið lokað endanlega ber rekstraraðili ábyrgð á viðhaldi hans, vöktun og greiningu á hauggasi og sigvatni sem berst frá staðnum, sbr. ákvæði III. viðauka, og greiningu grunnvatns í nágrenni staðarins, eftir því sem nánar greinir í ákvörðun Umhverfisstofnunar um lokun staðarins svo lengi sem telja má að mengunarhætta stafi af urðunarstaðnum, að jafnaði í 30 ár frá lokun hans. Rekstraraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun um sérhver skaðleg áhrif á umhverfið, sem teljast veruleg og koma í ljós við eftirlit og vöktun, og hlíta ákvörðun Umhverfisstofnunar um eðli og tímasetningu þeirra aðgerða til úrbóta sem grípa ber til. Þær aðgerðir skulu vera á kostnað rekstraraðilans.

Umhverfisstofnun skal endurskoða fyrirkomulag vöktunar á þriggja ára fresti frá lokun urðunarstaðar.

Umhverfisstofnun er heimilt að gefa rekstraraðila fyrirmæli um lokunaraðgerðir, vöktun og umsjón með því svæði þar sem rekin hefur verið urðunarstaður þótt rekstaraðili hafi ekki umráð yfir viðkomandi landsvæði. Eigandi eða umráðamaður lands þar sem eftirlit fer fram samkvæmt ákvæði þessu skal hlíta því að rekstraraðili framkvæmi lokunar-, vöktunar- og eftir atvikum hreinsunaraðgerðir eftir lokun urðunarstaðar samkvæmt reglugerð þessari. Veiti eigandi eða umráðamaður lands ekki aðgang að landi sínu til að unnt sé að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir samkvæmt fyrirmælum Umhverfisstofnunar er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf svo aðgerðirnar nái fram að ganga.

Verði eigandi eða umráðamaður lands sannanlega fyrir tjóni, s.s. vegna jarðrasks og átroðnings vegna þessa ákvæðis skal rekstraraðili bæta það tjón. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati skv. lögum um framkvæmd eignarnáms Umhverfisstofnun skal láta þinglýsa á viðkomandi fasteign fyrirmælum um vöktun og umsjón með urðunarstað eftir að honum er lokað. Jafnframt skal slíku skjali aflýst þegar vöktunartímabili telst lokið. Rekstraraðili skal bera kostnað af þinglýsingu og aflýsingu.

VI. KAFLI Undanþágur.

25. gr. Almennt.

Umhverfisstofnun getur ákveðið í starfsleyfi að:

a) minnka þær kröfur sem settar eru fram í liðum 3.2 og 3.3 í I. viðauka, með tilliti til lektar og sigvatnssöfnunar þar sem sýnt hefur verið fram á að jarðvegi, grunn- eða yfirborðsvatni stafi ekki hætta af urðuninni, eða
b) að ekki sé þörf á sigvatnssöfnun, eða
c) að ákvæði 20. gr. gildi ekki um urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang.

Ákvörðun 1. mgr. skal byggjast á framlögðum gögnum um áhættumat í umsókn um starfsleyfi og ef við á mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum, og vera tekin í samræmi við lið 2 í I. viðauka.

26. gr. Afskekktar byggðir.

Hafi eingöngu verið tekið við heimilis- og rekstrarúrgangi eða óvirkum úrgangi á viðkomandi urðunarstað og um er að ræða urðunarstað í afskekktri byggð sem tekur eingöngu til urðunar úrgangs frá þeirri afskekktu byggð getur Umhverfisstofnun ákveðið í starfsleyfi:

a) að veita rekstraraðila undanþágu frá áætlun um eftirlit og vöktun, sbr. III. viðauka;
b) að veita rekstraraðila undanþágu frá sýnatöku, eftir því sem aðstæður á viðkomandi urðunarstað mæla með, vegna vöktunar á sigvatni, grunnvatni, og mælingum á breytingum á umfangi úrgangs sem urðaður hefur verið;
c) veita undanþágu frá starfsleyfistryggingu;
d) að veita undanþágu frá 3. mgr. 6. gr.;
e) að veita undanþágu frá 2. mgr. 9. gr. um afhendingu úrgangs;
f) að veita undanþágu frá 2. mgr. 21. gr. um gæðakerfi rekstraraðila;
g) að veita undanþágu frá ákvæðum er varða verndun jarðvegs og vatns og aðgerðir er
varða hauggas, sbr. 3. og 4. lið í I. viðauka.

Að því er varðar urðunarstaði, sem hafa fengið undanþágu skv. ákvæðum reglugerðar þessarar skal rekstraraðili gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að viðkomandi urðunarstaður sé skoðaður reglulega til þess að ganga úr skugga um að eingöngu sé tekið við hættulitlum úrgangi í samræmi við undanþáguna, og að haldin sé skrá yfir magn úrgangsins sem er komið fyrir á staðnum.

Rekstraraðili skal sjá til þess að upplýsingar um magn og, ef því verður við komið, tegund úrgangs sem berst urðunarstöðum sem hafa fengið undanþágu komi fram í skýrslunum sem sendar eru árlega til eftirlitsaðila.

X. KAFLI Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

27. gr. Aðgangur að upplýsingum.

Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

28. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.

Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

29. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.

Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að veita rekstraraðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf.

Ef aðili verður ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests er heimilt að ákveða aðila dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir sem Umhverfisstofnun innheimtir skulu renna til ríkissjóðs en dagsektir sem heilbrigðisnefnd innheimtir til rekstraraðila heilbrigðisnefndar og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag.

Heimilt er að láta vinna verk á kostnað rekstraraðila ef tilmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal sá kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd þar sem hún fer með eftirlit en innheimtist síðar hjá hlutaðeigandi rekstraraðila. Kostnað við verkið og dagsektir skv. 2. mgr. má innheimta með fjárnámi.

Ef svo alvarleg hætta stafar af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað.

Sinni rekstraraðili ekki úrbótum og um alvarlegt eða ítrekað tilvik að ræða getur Umhverfisstofnun svipt rekstraraðila starfsleyfi.

Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða.

30. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun til brota gegn reglugerð þessari skal varða refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í brotum.

Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.

XI. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.

31. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga.

Reglugerðin er sett með hliðsjón af tölul. 27, 2aa, 32d og 32db XX. viðauka EES-samningsins, (tilskipun 75/442/EBE, sbr. 91/156/EBE, ákvörðunum 94/3/EB, 96/350/EB, 94/741/EB, 2003/33 og tilskipun 1999/31/EB).

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Starfandi urðunarstaðir skulu uppfylla kröfur reglugerðarinnar fyrir 16. júlí 2009, að undanskildum kröfunum í 1. lið I. viðauka, en verða lokað ella.

Rekstraraðili starfandi urðunarstaðar skal senda Umhverfisstofnun aðlögunaráætlun um hvernig unnt er að laga rekstur urðunarstaðarins að ákvæðum reglugerðar þessarar fyrir 31. desember 2003. Í áætluninni skulu m.a. koma fram þær upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í 16. gr. og þær aðgerðir til úrbóta sem rekstraraðili telur nauðsynlegar til þess að uppfylla þær kröfur, sem settar eru fram í reglugerð þessari, að undanskildum kröfunum í 1. lið I. viðauka.

Ákvæði 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. og II. viðauka reglugerðar þessarar skulu gilda um starfandi urðunarstaði fyrir spilliefni frá og með 1. janúar 2004.Ákvæði 2. mgr. 5. gr. og 3., 4. og 6. mgr. 6. gr. skulu gilda um starfandi urðunarstaði fyrir spilliefni frá og með 16. júlí 2004.

Umhverfisstofnun skal svo fljótt sem unnt er taka ákvörðun um það hvort heimilt sé að halda rekstri urðunarstaðarins áfram á grundvelli fyrrgreindrar breytingaráætlunar aðlögunartíma til að ljúka framkvæmd áætlunarinnar.

Rekstraraðili urðunarstaðar sem ekki hefur fengið leyfi til að halda rekstri urðunarstaðar áfram skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að loka honum, svo fljótt sem við verður komið.

II.

Ef urðunarstaður er í rekstri í eyju hér við land við gildistöku reglugerðar þessarar getur Umhverfisstofnun veitt undanþágu:

a) frá áætlun um eftirlit og vöktun, sbr. III. viðauka;
b) frá sýnatöku eftir því sem aðstæður á viðkomandi urðunarstað mæla með vegna vöktunar á sigvatni, grunnvatni og mælingum á breytingum á umfangi þess úrgangs sem urðaður hefur verið;
c) starfsleyfistryggingu sbr. 17. gr.;
d) frá 2. mgr. 9. gr. um afhendingu úrgangs;
e) frá 2. mgr. 21. gr. um gæðakerfi rekstraraðila;
f) frá 3. mgr. 6. gr.;
g) frá 3. og 4. lið I. viðauka um verndun jarðvegs og vatns og aðgerðir er varða hauggas.

Slíkar undanþágur er þó einungis heimilt að veita hafi eingöngu verið tekið við heimilis- og rekstrarúrgangi eða óvirkum úrgangi á viðkomandi urðunarstað og um er að ræða urðunarstað sem getur að hámarki tekið við 15.000 tonnum af úrgangi eða 1.000 tonnum á ári og er eini urðunarstaðurinn í eyjunni og þjónar henni einni.

III.

Þrátt fyrir ákvæði d. liðar 8. gr. er heimilt að urða kurlaða hjólbarða til 16. júlí 2006.

IV.

Heimilt er að urða úrgang án þess að hann uppfylli skilyrði II. viðauka til 16. júlí 2004. Þó skal fara fram prófun á staðnum sbr. lið 1.3. II. viðauka reglugerðarinnar. Heimilt er einnig að urða úrgang án prófana samkvæmt 2. lið II. viðauka til 16. júlí 2005.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.