Umhverfisráðuneyti

368/2000

Reglugerð um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur. - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

1. gr.

Skilagjald.

Leggja skal skilagjald á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plastefni sem innheimt skal við tollafgreiðslu. Sama gjald skal lagt á drykkjarvörur sem framleiddar eru eða átappaðar hér á landi og seldar eru í sams konar umbúðum og að framan greinir. Skal greiða gjaldið samhliða vörugjaldi af innlendum drykkjarvörum. Skilagjald skal nema 6,43 kr. án virðisaukaskatts á hverja umbúðaeiningu og skal ráðherra hækka hámarksfjárhæðina í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá síðustu hækkun gjaldsins.

2. gr.

Umsýsluþóknun.

Umsýsluþóknun skal leggja til viðbótar skilagjaldi á hverja umbúðaeiningu úr stáli, gleri og plastefni og skal fjárhæð hennar án virðisaukaskatts vera 3,00 kr. á umbúðir úr stáli, 2,20 kr. á umbúðir úr gleri stærri en 500 ml, 1,60 kr. á umbúðir úr gleri 500 ml og minni, 1,60 kr. á umbúðir úr lituðu plastefni og 0,32 kr. á umbúðir úr ólituðu plastefni.

3. gr.

Gjaldskylda.

Gjaldskylda samkvæmt 1. gr. nær til allra drykkjarvara í einnota umbúðum, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar eða átappaðar hérlendis og eru til sölu hér á landi og flokkast undir vöruliði 2009, 2201, 2202, 2203, 2204, 2205, 2206 eða 2208 í tollskrá, sem er viðauki I við tollalög nr. 55/1987.

Skilagjald leggst ekki á drykkjarvörur í einnota umbúðum, sem seldar eru úr landi. Við flokkun til gjaldskyldu skv. reglugerð þessari skal fylgja flokkunarreglum tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Ákvæði tollalaga gilda jafnframt um úrskurðarvald í ágreiningsmálum um tollflokkun drykkjarvara.

4. gr.

Álagning skilagjalds.

Öllum þeim, sem flytja inn til landsins skilagjaldsskyldar vörur skv. 1. gr., hvort sem er til eigin nota eða endursölu, ber skylda til við tollafgreiðslu að greiða skilagjald og umsýsluþóknun af hinum innfluttu vörum.

Skilagjald og umsýsluþóknun mynda ekki gjaldstofn við útreikning annarra aðflutningsgjalda en virðisaukaskatts.

5. gr.

Gjaldskyldir aðilar.

Þeim, sem framleiða eða tappa á skilagjaldsskyldar vörur innanlands, ber skylda til að greiða skilagjald og umsýsluþóknun af framleiðslu sinni og standa skil á því í ríkissjóð. Skilagjald og umsýsluþóknun mynda ekki gjaldstofn við álagningu vörugjalds eða annarra sambærilegra framleiðslugjalda. Gjöldin mynda hins vegar stofn til virðisaukaskatts.

6. gr.

Innheimta, uppgjörstímabil, gjalddagar o.fl.

Skilagjald og umsýsluþóknun af innlendum drykkjarvörum reiknast við sölu eða afhendingu þeirra frá framleiðanda, og skiptir þá ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram. Þó skal Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sjá um greiðslu skilagjalds og umsýsluþóknunar af sölu fyrirtækisins á innlendri framleiðslu öls og áfengis og standa skil á því í ríkissjóð.

Hvert uppgjörstímabil vegna skilagjaldsskyldrar innlendrar framleiðslu eða átöppunar eru tveir mánuðir: janúar og febrúar; mars og apríl; maí og júní; júlí og ágúst; september og október; nóvember og desember.

Skilagjaldi og umsýsluþóknun af innlendri framleiðslu, ásamt framtalsskýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, skal skila eigi síðar en á gjalddaga, og skulu framleiðendur senda Endurvinnslunni hf. afrit af innlagðri framtalsskýrslu. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag, færist gjalddagi á næsta virkan dag þar á eftir.

7. gr.

Viðurlög.

Ef skilagjald eða skilagjald og umsýsluþóknun er ekki greitt á tilskildum tíma, skal aðili sæta álagi til viðbótar þeim gjöldum sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef skýrslu skv. 6. gr. hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og gjöld því áætluð, nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga upphæð, er til áætlunarinnar svarar, eða gefið fullnægjandi skýringu á vafaatriðum fyrir lok kærufrests.

Álag skv. 1. mgr. skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.

Sé skilagjald eða skilagjald og umsýsluþóknun ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir vaxtalögum, nr. 25/1987, með síðari breytingum.

8. gr.

Innheimta og endurgreiðsla.

Skilagjald og umsýsluþóknun skal greiða í ríkissjóð, er síðan ráðstafar umsýsluþóknuninni, skilagjaldinu og virðisaukaskatti af því jafnskjótt og við verður komið til Endurvinnslunnar hf. Endurvinnslan hf. skal sjá um að skilagjaldið verði endurgreitt neytendum ásamt virðisaukaskatti af því við móttöku á notuðum skilagjaldsskyldum umbúðum. Skal endurgreiðslan þannig nema samtals 6,43 kr. án virðisaukaskatts á hverja umbúðaeiningu. Þó skulu líða 60 dagar frá hækkun álagðs skilagjalds úr 5,63 kr. án virðisaukaskatts í 6,43 kr. án virðisaukaskatts þar til Endurvinnslan hf. hækkar endurgreiðslu til neytenda fyrir hverja umbúð, sem skilað verður, úr 7,00 krónum í 8,00 kr. með virðisaukaskatti. Á sama hátt skal greiða samsvarandi gjald til einstaklinga, fyrirtækja eða félagasamtaka, sem taka að sér að safna slíkum umbúðum til eyðingar eða endurvinnslu.

9. gr.

Endurvinnslan hf.

Endurvinnslan hf. skal sjá um að koma upp og viðhalda skilvirku fyrirkomulagi á söfnun skilagjaldsskyldra umbúða um land allt. Félagið skal einnig endurvinna umbúðir eða koma þeim til endurvinnslu eða eyðingar.

Endurvinnslan hf. skal gefa umhverfisráðuneytinu reglulega skýrslu um starfrækslu skilakerfisins, þ.m.t. fjölda skilaðra umbúða eftir tegundum.

10. gr.

Reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. gr. laga nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, og öðlast gildi 1. júní 2000. Jafnframt falla úr gildi reglugerðir nr. 282/1994, 148/1995, 214/1995 og 446/1996.

Umhverfisráðuneytinu, 26. maí 2000.

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica