Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 25. júní 2008

674/1998

Reglugerð um megrunarfæði.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um matvæli sem ætluð eru sem megrunarfæði, eru kynnt og markaðssett sem slík og er ætlað að koma í stað daglegs fæðis eða einstakra máltíða.

2. gr.

Megrunarfæði eru matvæli sem ætlað er að koma í staðinn fyrir daglegt fæði eða hluta af daglegu fæði í þeim tilgangi að hafa áhrif á þyngdartap sé þeirra neytt í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda.

Megrunarfæði er skipt í tvo flokka:

Megrunarfæði I, en það kemur í staðinn fyrir daglegt fæði.

Megrunarfæði II, en það kemur í staðinn fyrir eina eða fleiri máltíðir.

II. KAFLI Samsetning og merking.

3. gr.

Samsetning megrunarfæðis skal vera í samræmi við þær kröfur sem fram koma í viðauka við reglugerð þessa. Allir hlutar megrunarfæðis I skulu vera í einni pakkningu.

4. gr.

Merking umbúða megrunarfæðis skal vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, ákvæði reglugerðar nr. 446/1994 um sérfæði og ákvæði reglugerðar þessarar. Þegar megrunarfæði er auglýst, kynnt og markaðssett skal jafnframt fara eftir ákvæðum þessarar reglugerðar um merkingar.

5. gr.

Við merkingu megrunarfæðis skal tilgreina eftirfarandi:

1. Í heiti vörunnar eða í tengslum við það skal koma fram:

Megrunarfæði I: Megrunarfæði sem kemur í staðinn fyrir daglegt fæði.

Megrunarfæði II: Megrunarfæði sem kemur í staðinn fyrir eina eða fleiri máltíðir.

2. Orkugildi vörunnar (kJ og kkal) og magn (g) próteina, fitu og kolvetna í ráðlögðum skammti af vörunni tilbúinni til neyslu.

3. Magn vítamína og steinefna sem tilgreind eru í viðauka við reglugerð þessa, gefið upp í þyngdareiningum (mg, µg) í ráðlögðum skammti af vörunni tilbúinni til neyslu. Fyrir megrunarfæði II skal auk þess merkja vítamín og steinefni sem hlutfall af því magni sem fram kemur í töflu í viðauka og er þar tilgreint sem RDS-gildi.

4. Leiðbeiningar um meðhöndlun og mikilvægi þess að leiðbeiningum sé fylgt.

5. Mikilvægi þess að viðhalda vökvajafnvægi líkamans.

6. Að fæðið geti haft hægðalosandi áhrif ef neysla sykuralkóhóla fer yfir 20 g/dag.

6. gr.

Auk merkinga samkvæmt 5. gr. skal koma fram á umbúðum megrunarfæðis I að varan uppfylli daglega þörf fyrir nauðsynleg næringarefni og að hún skuli ekki notuð lengur en þrjár vikur í senn án samráðs við lækni.

Fyrir megrunarfæði II skal koma fram að varan geti verið gagnleg fyrir þá sem vilja léttast, en hún komi aðeins í staðinn fyrir hluta af daglegu fæði og að nauðsynlegt sé að neyta einnig annarrar fæðu.

7. gr.

Við merkingu, auglýsingu, kynningu og markaðssetningu megrunarfæðis er óheimilt að gefa til kynna hversu hratt eða hve mikið þyngdartapið geti orðið sé þess neytt.

III. KAFLI Eftirlit og gildistaka.

8. gr.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að þær vörur sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar séu í samræmi við ákvæði hennar og almenn ákvæði reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Óheimilt er að dreifa vörum sem ekki uppfylla framangreind ákvæði.

9. gr.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt. Um þvingunarúrræði heilbrigðisnefnda skal farið samkvæmt 30. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, sbr. VI. kafli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

10. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál sem rísa af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 16. og. 18. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í lið 54p, XII. kafla, II. viðauka, tilskipun 96/8/EB. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fyrir vörutegundir sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og sem ekki eru í samræmi við ákvæði hennar, er veittur frestur til 31. mars 1999 til að koma á nauðsynlegum breytingum. Hafi breytingar til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar ekki verið gerðar að þeim tíma liðnum er sala vörunnar óheimil.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.