Umhverfisráðuneyti

158/1997

Reglugerð um álagningu spilliefnagjalds. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um álagningu spilliefnagjalds.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gjaldskyldar vörur og undanþágur.

Leggja skal spilliefnagjald á vörur sem nánar greinir í reglugerð þessari og nær gjaldskylda til allra vara sem fluttar eru inn til landsins eða eru framleiddar hér á landi og flokkast undir tollnúmer sem nánar eru tilgreind í viðaukum með þessari reglugerð.

Vörur og vöruflokkar sem ekki er fjallað um í reglugerð þessari eru undanþegin spilliefnagjaldi.

Umhverfisráðherra sker úr verði ágreiningur um gjaldskyldu.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkir:

Spilliefnagjald: gjald sem lagt er á vörur sem geta orðið að spilliefnum til að standa straum af kostnaði við söfnun, móttöku, meðhöndlun, endurnýtingu eða eyðingu spilliefna.

Móttökustöð: staður og aðstaða þar sem tekið er við spilliefnum til lengri eða skemmri geymslu, umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fara spilliefni til förgunar eða nýtingar.

Söfnunarstöð (gámastöð): sérstök aðstaða þar sem tekið er við spilliefnum frá almenningi og fyrirtækjum til flokkunar áður en þau eru flutt til móttökustöðva.

3. gr.

Innfluttar vörur og innheimta.

Öllum þeim sem flytja inn til landsins vörur sem geta orðið að spilliefnum og tilgreindar eru í reglugerð þessari ber skylda til við tollafgreiðslu að greiða spilliefnagjald af hinum innfluttu vörum.

Spillefnagjald skal greiða í ríkissjóð sem skal ráðstafa gjaldinu, samkvæmt 1. mgr., jafnskjótt og við verður komið til spilliefnanefndar.

Spilliefnagjald myndar ekki gjaldstofn við útreikning annarra aðflutningsgjalda en virðisaukaskatts.

Að því leyti sem ekki er ákveðið í reglugerð þessari um vöruflokkun, gjalddaga, greiðslufrest, innheimtu, lögvernd og aðra framkvæmd varðandi innheimtu spilliefnagjalds, skulu gilda um innfluttar vöur, eftir því sem við getur átt, ákvæði tollalaga nr. 55/1987, og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

4. gr.

Innlend framleiðsla og innheimta.

Þeim sem framleiða hér á landi vörur sem geta orðið að spilliefnum og tilgreindar eru í reglugerð þessari ber skylda til að greiða spilliefnagjald af framleiðslu sinni og standa skil á því til spilliefnanefndar, samkvæmt nánari reglum þar um.

Spilliefnagjald myndar ekki gjaldstofn við álagningu vörugjalds eða annarra sambærilegra framleiðslugjalda.

Um álag og dráttarvexti fer samkvæmt 8. gr. laga nr. 56/1996 um spilliefnagjald.

5. gr.

Uppgjörstímabil.

                Hvert uppgjörstímabil vegna innlendrar framleiðslu skal vera einn mánuður. Spilliefnagjaldi af innlendri framleiðslu ásamt framleiðsluskýrslu, í því formi sem spilliefnanefnd ákveður, skal skila eigi síðar en á gjalddaga.

6. gr.

Gjalddagi.

Gjalddagi spilliefnagjalds fyrir innlenda framleiðslu er fimmtándi dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða annan almennan frídag færist gjalddagi á næsta virka dag þar á eftir.

7. gr.

Greiðsla kostnaðar.

Spilliefnanefnd skal greiða kostnað við söfnun, flutning og förgun eða endurnýtingu spilliefna, eftir því sem nánar er kveðið á um í þessari reglugerð, gjaldskrá nefndarinnar eða samningum nefndarinnar við einstaka aðila.

8. gr.

Skilyrði greiðslu spilliefnanefndar vegna spillefna.

Spilliefnanefnd gefur út gjaldskrá og greiðir samkvæmt henni, gegn framvísun útflutnings- eða eyðingarvottorða, hverri þeirri móttökustöð, sem hefur gilt starfsleyfi samkvæmt mengunarvarnareglugerð til móttöku spilliefna.

II. KAFLI.

Rafgeymar.

9. gr.

Gjaldskyldir rafgeymar og upphæð gjaldsins.

Spilliefnagjald skal lagt á alla blýsýrurafgeyma, hvort sem þeir eru fluttir inn með eða án sýru, stakir eða sem hluti af tækjum eða búnaði.

Spilliefnagjald á innflutta rafgeyma skal innheimt í tolli.

Nánar um gjaldtöku og sundurgreiningu rafgeyma eftir tollnúmerum er að finna í viðauka I með reglugerð þessari.

III. KAFLI

Viðurlög og gildistaka.

10. gr.

Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varðar refsingu samkvæmt 11. gr. laga nr. 56/1996 um spilliefnagjald.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 56/1996 um spilliefnagjald og öðlast gildi 15. mars 1997 og tekur til allra vara sem þá eru ótollafgreiddar, þó ekki vara sem afhentar hafa verið með bráðabirgðatollafgreiðslu.

Umhverfisráðuneytinu, 25. febrúar 1997.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica