Sjávarútvegsráðuneyti

602/2003

Reglugerð um sérstaka úthlutun skv. 1. ml. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, til skel- og rækjubáta. - Brottfallin

1. gr.

Vegna skerðinga, sem urðu á leyfilegum heildarafla í innfjarðarækju í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa, Skagafirði, Skjálfandaflóa, Axarfirði og Eldeyjarsvæði, á fiskveiðiárinu 2002/2003, skal á fiskveiðiárinu 2003/2004 úthluta aflamarki sem nemur samtals 2.128 þorskígildislestum til báta, sem hafa hlutdeild í innfjarðarækju á áðurgreindum svæðum.

Við útreikning uppbóta er miðað við, að skerðingin, verði ekki meiri en 30% frá meðalafla rækjuvertíðanna 1992/1993 - 2001/2002, að frádregnum afla fiskveiðiársins 2002/2003. Verðmætastuðullinn fyrir rækju er 0,52, miðað við þorskígildi, og koma 340 lestir í hlut báta við Ísafjarðadjúp, 522 lestir í hlut báta við Húnaflóa, 333 lestir í hlut báta við Skagafjörð, 231 lest í hlut báta við Skjálfandaflóa, 445 lestir í hlut báta við Axarfjörð og 257 lestir í hlut báta á Eldeyjarsvæði.


2. gr.

Vegna skerðinga, sem verða í hörpudisksveiðum í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa, Breiðafirði og Hvalfirði, skal á fiskveiðiárinu 2003/2004 úthluta aflamarki sem samtals nemur 2.190 þorskígildistonnum til báta, sem aflahlutdeild hafa í hörpudiski á áðurgreindum svæðum.

Við útreikning uppbóta er miðað við að skerðingin verði ekki meiri en 30% frá meðalafla áranna 1994 til 2003. Verðmætastuðullinn fyrir hörpudisk er 0,32, miðað við þorskígildi, og koma 4 lestir í hlut báta við Ísafjarðardjúp, 102 lestir í hlut báta við Húnaflóa, 2.050 lestir í hlut báta við Breiðafjörð og 34 lestir í hlut báta við Hvalfjörð.


3. gr.

Úthluta skal uppbótum til einstakra báta á grundvelli þeirrar aflahlutdeildar, sem þeir hafa í rækju og skel á viðkomandi svæði og miðast við aflahlutdeild eins og hún er 1. ágúst 2003. Uppbæturnar skulu skiptast á eftirgreindar tegundir: þorsk, ýsu, ufsa og steinbít í hlutfalli við leyfilegt heildarmagn í þessum tegundum og skal taka tillit til aukningar á leyfilegum heildarafla í þorski.


4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi og komi til framkvæmda 1. september 2003.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 8. ágúst 2003.

Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica