Sjávarútvegsráðuneyti

784/1998

Reglugerð um eftirlit með innflutningi sjávarafurða. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um eftirlit með

innflutningi sjávarafurða.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Reglugerðin gildir um eftirlit með innflutningi sjávarafurða og afurða vatnafiska.

Reglugerðin gildir ekki um innflutning lifandi vatnafiska. Ennfremur gildir reglugerðin ekki um lifandi sjávardýr, sem ætluð eru til eldis, en tekur til barrahrogna og lúðuseiða sem ætluð eru til eldis.

2. gr.

Samkvæmt reglugerð þessari telst:

Sjávarafli: Öll sjávardýr önnur en spendýr, þar með talin skrápdýr, liðdýr og lindýr.

Fiskafurðir: Matvæli sem unnin eru að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla.

Sjávarafurðir: Sjávarafli og fiskafurðir eins og skilgreint er hér að framan, svo og fóðurvörur unnar úr fiski eða fiskúrgangi.

Eftirlitsaðili: Fiskistofa eða annar eftirlitsaðili sem á vegum hennar er falið eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.

Vinnsluskip: Skip þar sem sjávarafli er unninn um borð, honum pakkað og hann hefur verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður, frystur eða verkaður á annan hátt. Fiskiskip þar sem aðeins fer fram frysting um borð á heilum eða hausskornum fiski, heilfrysting rækju eða suða á rækju og skelfiski teljast ekki vinnsluskip.

Vinnsluleyfishafi: Aðili sem fengið hefur tölusett leyfi frá Fiskistofu til vinnslu, meðferðar, pökkunar eða geymslu sjávarafurða til staðfestingar því að settum skilyrðum laga og reglugerða sé fullnægt.

Þriðja ríki: Ríki sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Viðauka-B-skjal: Vottorð til staðfestingar heilbrigðiseftirliti með vörum sem fluttar eru inn á Evrópska efnahagssvæðið frá þriðja ríki, sbr. viðauki B með reglugerð þessari.

II. KAFLI

Innflutningur frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

3. gr.

Innflytjandi skal tilkynna Fiskistofu um komu sendingar með 24 klst. fyrirvara.

Tilkynningin skal vera skrifleg og í henni koma fram áætlaður komutími, innflutningsstaður, magn, tegund, lýsing á vöru og ákvörðunarstaður, nafn flutningatækis, og eftir því sem við á, skipaskrárnúmer eða flugnúmer.

4. gr.

Vinnsluleyfishafi eða annar viðtakandi sendingar frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins skal halda dagbók yfir mótteknar vörur og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgjandi skjala áður en þær fara til vinnslu eða dreifingar. Komi fram misræmi skal tilkynna Fiskistofu það án tafar.

Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu eftirlitsaðila.

5. gr.

Eftirlitsaðila er heimil, án mismununar, skyndiskoðun og sýnataka til rannsókna úr vörum, sem fluttar eru inn frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Fiskistofa skal gera áætlun um fjölda skyndiskoðana og nánari tilhögun þeirra og senda til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Fiskistofa skal tilkynna viðkomandi ef hún óskar eftir að skoða vöruna eða taka sýni úr henni til rannsókna. Berist viðtakanda ekki slík tilkynning áður en losun hefst er honum heimilt að ráðstafa sendingunni.

6. gr.

Komist eftirlitsaðili að því að um sé að ræða fisksjúkdóm, eða að fyrir hendi sé eitthvert það ástand sem stofnað geti dýrum eða mönnum í hættu eða að vörur komi frá svæði sem smitað sé af fisksjúkdómi skal Fiskistofa þegar í stað óska þess að fisksjúkdómanefnd ákveði viðeigandi ráðstafanir.

Fiskistofa skal þegar í stað tilkynna skriflega lögbærum yfirvöldum annarra EES-ríkja og Eftirlitsstofnun EFTA með viðeigandi hætti um þær upplýsingar sem fyrir liggja, ákvarðanir sem teknar hafa verið og rökstuðning fyrir þeim.

7. gr.

Komist eftirlitsaðili að því að vörusending fullnægi ekki skilyrðum sem sett eru í lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða eða reglugerðum, settum samkvæmt þeim, getur Fiskistofa leyft sendanda eða fulltrúa hans að velja á milli þess að eyða vörum eða nota þær í öðrum tilgangi, þar með talið að endursenda þær með leyfi lögbærs yfirvalds framleiðslulands.

Reynist vottorð eða skýrslur ekki samkvæmt settum reglum skal veita sendanda hæfilegan frest til að koma skjölum í lag áður en gripið er til framangreindra úrræða.

Fiskistofa skal þegar í stað senda lögbærum yfirvöldum sendingarríkis tilkynningu um ákvarðanir skv. 1. mgr., rökstuðning fyrir þeim og um ráðstafanir sem hafa verið gerðar.

Komi í ljós, ítrekað, að vörur frá sama aðila fullnægi ekki skilyrðum skv. 1. mgr. skal Fiskistofa tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA og viðkomandi yfirvöldum annarra EES-ríkja. Þar til Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnir Fiskistofu um ráðstafanir gagnvart viðkomandi starfstöð er Fiskistofu heimilt að auka tíðni skoðana á vörum frá henni.

8. gr.

Fiskistofa skal tilkynna sendanda eða fulltrúa hans skriflega um ákvarðanir sem teknar eru skv. 1. mgr. 6. og 1. mgr. 7. gr. og rökstuðning fyrir þeim.

Fiskistofa skal að ósk sendanda eða fulltrúa hans veita honum nákvæmar upplýsingar um réttarúrræði sem hann hefur samkvæmt íslenskum lögum, um málsmeðferðarreglur og tímafresti.

III. KAFLI

Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

9. gr.

Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er aðeins heimill frá þeim framleiðendum og vinnsluskipum sem hlotið hafa viðurkenningu þess efnis að framleiðsla og eftirlit með vörum uppfylli kröfur sem gilda á því svæði. Sjávarútvegsráðuneytið heldur skrá yfir ríki, svæði og starfstöðvar sem innflutningur er heimill frá og birtir auglýsingu um hana og breytingar á henni í Stjórnartíðindum.

Fiskistofu er heimilt að veita undanþágu frá 1. mgr. ef geyma á vörur í tollvörugeymslu og þær á að flytja þaðan til þriðja ríkis, enda sé samræmi milli sendingar og meðfylgjandi skjala, skilyrði 20. gr. reglugerðar þessarar uppfyllt og vörurnar aðskildar frá þeim vörum sem leyfa á innflutning á til Evrópska efnahagssvæðisins.

10. gr.

Skylt er að tilkynna Fiskistofu með 24 klst. fyrirvara um komu sendingar til landsins. Tilkynningin skal send á formi sem fram kemur í viðauka B. Skjalið skal vera í fjórum eintökum, eitt frumrit og þrjú afrit, og skal innflytjandi eða fulltrúi hans fylla út 1. lið á öllum fjórum eintökunum. Hann skal senda eitt eintak til viðkomandi tollyfirvalda, og senda frumritið og hin afritin tvö til Fiskistofu.

11. gr.

Innflutningur skal fara um landamærastöðvar, sbr. 1. mgr. 12. gr.

Heimilt er að landa afla fiskiskipa utan landamærastöðva og skal skoða hann á sama hátt og afla íslenskra skipa.

Þrátt fyrir 2. mgr. skal landa óunnum frystum afla fiskiskipa, sem ætlaður er til vinnslu hjá vinnsluleyfishafa, á landamærastöðvum sem tilgreindar eru í 1. og 2. mgr. 12. gr. Aflann skal skoða á sama hátt og afurðir vinnsluskipa, sem eru á skrá ráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 9. gr.

12. gr.

Landamærastöðvar skulu staðsettar á Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, Vestmannaeyjum, Keflavíkurflugvelli, Hafnarfirði og í Reykjavík. Fiskmjöl má aðeins fara um landamærastöðvar í Reykjavík og á Akureyri. Lifandi sjávardýr mega aðeins fara um landamærastöð á Keflavíkurflugvelli.

Ennfremur skal staðsetja landamærastöð til eftirlits með óunnum frystum afla fiskiskipa, sem ætlaður er til vinnslu hjá vinnsluleyfishafa, í Keflavík, Grundarfirði, Patreksfirði, Þingeyri, Sauðárkróki, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafirði, Seyðisfirði, Höfn, Þorlákshöfn og Dalvík.

13. gr.

Fiskistofa eða annar eftirlitsaðili, sem á vegum hennar er falið eftirlit, annast eftirlit samkvæmt reglugerð þessari.

14. gr.

Eftirlit á landamærastöðvum er þríþætt og skal fara fram þegar við komu sendingar til landsins:

1.             Eftirlit með skjölum. Með því er átt við eftirlit með heilbrigðisvottorðum, vinnsluleyfisnúmerum og öðrum skjölum sem fylgja sendingu.

2.             Eftirlit með auðkenningu. Með því er átt við að fram fari samanburður á skjölum og sendingu og sannreynt sé að samræmi sé þar á milli.

3.             Eftirlit með heilnæmi. Í því felst að með skynmati sé kannað hvort sending uppfylli heilbrigðiskröfur Evrópska efnahagssvæðisins. Sé eftirlitsmaður í vafa um niðurstöðu er honum heimilt að taka sýni til efna- eða örverugreiningar.

Frekari reglur um eftirlit samkvæmt 1., 2., og 3. lið eru í viðauka A, C, og D við reglugerð þessa.

15. gr.

Eftirlit skal fara fram samkvæmt 1., 2. og 3. lið 14. gr.:

1.             Þegar flytja á vörur inn til landsins.

2.             Þegar geyma á vörur í tollvörugeymslu og flytja þær þaðan inn á Evrópska efnahagssvæðið eða móttökustaður er ókunnur.

3.             Þegar geyma á vörur í tollvörugeymslu og flytja þær þaðan til þriðja ríkis.

Eftirlit skal fara fram samkvæmt 1. og 2. lið 14. gr.:

1.             Þegar um umflutning vara er að ræða eða tímabundna affermingu og þær á að flytja inn á Evrópska efnahagssvæðið.

2.             Þegar um tímabundna affermingu vara er að ræða og þær á að flytja til þriðja ríkis.

Eftirlit má fara fram samkvæmt 1. lið 14. gr. þegar um umflutning vara er að ræða og þær á að flytja til þriðja ríkis.

Vakni grunur um að reglur séu brotnar eða að misræmi sé milli skjala og sendingar er eftirlitsaðila heimilt að hafa ríkara eftirlit.

16. gr.

Að loknu eftirliti skal eftirlitsaðili gefa út viðauka-B-skjal og staðfesta það með undirritun sinni. Frumritið skal síðan afhent viðkomandi tollyfirvöldum áður en tollafgreiðsla fer fram. Eitt afrit skal afhent innflytjanda eða fulltrúa hans og annað afrit varðveitt á landamærastöð.

Eftirlitsaðili skal varðveita, í þrjú ár hið minnsta, frumrit heilbrigðisvottorða sem fylgja með sendingu, ásamt eintaki af viðauka-B-skjali.

17. gr.

Áður en tollafgreiðsla fer fram verður að inna greiðslu vegna eftirlitsins af hendi og, ef við á, að leggja fram tryggingu fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.

18. gr.

Við flutning vara til tollvörugeymslu og meðan á geymslu stendur skulu vörur vera undir opinberu eftirliti.

Þegar vörur koma til tollvörugeymslu skal fara fram skoðun samkvæmt 1. og 2. lið 14. gr. Fyrir flutning þeirra úr tollvörugeymslu skal gefið út nýtt viðauka-B-skjal, nema þær eigi að flytja inn á Evrópska efnahagssvæðið og eftirlit skv. 1.-3. lið 14. gr. hafi farið fram á landamærastöð.

19. gr.

Sé sendingu skipt í fleiri hluta skal gefa út nýtt viðauka-B-skjal fyrir hvern hluta fyrir sig. Skjalið skal fylgja viðkomandi hluta til ákvörðunarstaðar ásamt afriti af upprunalegu heilbrigðisvottorði.

20. gr.

Komi sending frá þriðja ríki og áfangastaður hennar er annað þriðja ríki, skal eftirlitsaðili heimila slíkan flutning að því tilskyldu að sönnur séu lagðar fram um að fyrsta ríkið sem vörur eru sendar til skuldbindi sig til þess að vísa þeim ekki frá eða endursenda þær.

21. gr.

Ef vörur eiga að fara til ríkis eða svæðis þar sem sérstakar kröfur gilda, sýni hafa verið tekin en niðurstöður liggja ekki fyrir þegar vara fer frá viðkomandi landamærastöð eða innflutningur er leyfður í sérstökum tilgangi, skal eftirlitsaðili senda upplýsingar um það til viðkomandi landamærastöðvar í móttökuríki með viðeigandi hætti.

22. gr.

Ákvæði þessa kafla nema 4. mgr. 15. gr. gilda ekki um vörur:

1.             Sem eru hluti af persónulegum farangri ferðamanna og ætlaðar til einkaneyslu þeirra, að því tilskildu að magnið sé ekki meira en 1 kíló og að vörurnar komi frá þriðja ríki eða svæði sem er að finna á skrá sjávarútvegsráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 9. gr., og að innflutningur sé ekki bannaður frá ríkinu eða svæðinu.

2.             Sem eru sendar í litlum pakkningum til einstaklinga, að því tilskildu að innflutningur þessara vara sé ekki viðskiptalegs eðlis, að magnið sé ekki meira en 1 kíló, að vörurnar komi frá þriðja ríki eða svæði sem talið er upp í skránni, sbr. 2. mgr. 9. gr. og að innflutningur frá landinu sé ekki bannaður.

3.             Sem eru ætlaðar áhöfn og farþegum til neyslu um borð í flutningatækjum í millilandaflutningum, að því tilskildu að þær komi frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, svæði eða starfstöð sem innflutningur er ekki bannaður frá. Slíkum vörum eða matarúrgangi skal fargað þar sem afferming fer fram. Ekki er þó nauðsynlegt að farga vörum ef þær eru fluttar beint eða eftir að hafa verið undir tímabundnu tolleftirliti úr einu flutningatæki í annað.

4.             Sem hafa fengið hitameðhöndlun í loftþéttum ílátum með Fo-gildi 3,00 eða meira, ef magnið er ekki meira en 1 kíló og eru hluti af persónulegum farangri ferðamanna og ætlaðar til einkaneyslu þeirra eða eru sendar í litlum pakkningum til einstaklinga, að því tilskildu að innflutningur þessara vara sé ekki viðskiptalegs eðlis.

23. gr.

Leiði eftirlit í ljós að vörur uppfylla ekki kröfur sem settar eru í lögum eða reglum skal Fiskistofa, í samráði við innflytjanda, fyrirskipa endursendingu innan ákveðinna tímamarka. Upplýsingar um slíka ákvörðun skulu sendar viðkomandi aðilum með viðeigandi hætti.

Ef endursending er óframkvæmanleg skal farga vörunni.

Unnt er að veita undanþágu frá ákvæðum 1. og 2. mgr., meðal annars til þess að heimila að vörur séu notaðar í öðrum tilgangi en til manneldis.

Innflytjandi eða fulltrúi hans skulu vera ábyrgir fyrir kostnaði sem fellur til vegna framangreindra aðgerða.

24. gr.

Ef ákveðið er að farga vörum skal Fiskistofa gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að vörurnar og förgun á þeim sé undir stöðugu opinberu eftirliti. Förgun skal fara fram eins nálægt viðkomandi landamærastöð og kostur er.

Heimili Fiskistofa að vörur séu notaðar í öðrum tilgangi en til manneldis, sbr. 3. mgr. 23. gr., skal eftirlitsaðili fylgjast með meðhöndlun og flutningi þeirra, sem fram skal fara í samræmi við kröfur reglugerðar nr. 342/1996 um framleiðslu á fiskmjöli og lýsi.

25. gr.

Ef Fiskistofa telur, á grundvelli eftirlits á vörum sem markaðssettar skulu hér á landi, að brotið sé í bága við ákvæði þessarar reglugerðar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins skal Fiskistofa þegar í stað gera lögbærum yfirvöldum þess ríkis viðvart. Ef Fiskistofa telur skýringar eða ráðstafanir ófullnægjandi skal hún ásamt lögbæru yfirvaldi hlutaðeigandi ríkis leita leiða til að bæta ástandið.

Leiði eftirlit, sem um getur í 1. mgr., í ljós ítrekað brot á ákvæðum þessarar reglugerðar skal Fiskistofa tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA og lögbærum yfirvöldum annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Þar til tilkynning berst frá Eftirlitsstofnun EFTA um aðgerðir sem grípa á til er Fiskistofu heimilt að efla eftirlit með vörum sem koma frá viðkomandi eftirlitsstað.

26. gr.

Fiskistofa skal tilkynna hlutaðeigandi aðilum skriflega um ákvarðanir sem teknar eru skv. 23. gr. og um rökstuðning fyrir þeim.

Óski viðkomandi aðili þess, skal Fiskistofa einnig veita nákvæmar upplýsingar um réttarúrræði sem hann hefur samkvæmt íslenskum lögum, málsmeðferðarreglur og tímafresti.

IV. KAFLI

Öryggisákvæði.

27. gr.

Í þeim tilfellum þegar sjúkdómur eða annað, sem kann að stofna heilbrigði almennings eða heilbrigði dýra í alvarlega hættu, kemur upp eða breiðist út á yfirráðasvæði annars ríkis eða ef einhver önnur alvarleg ástæða er varðar heilbrigði manna eða dýra réttlætir slíkt getur sjávarútvegsráðuneytið, án fyrirvara, stöðvað innflutning frá viðkomandi ríki eða sett sérstök skilyrði fyrir innflutningi.

Sjávarútvegsráðuneytinu ber tafarlaust að tilkynna lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja EES, Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn ESB um ákvörðun skv. 1. mgr. Varði ákvörðunin þriðja ríki skal tilkynningin berast framkvæmdastjórn ESB.

 

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

28. gr.

Fyrir brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar sem framin eru af ásetningi eða gáleysi skal refsa með sektum eða fangelsi ef miklar sakir eru.

29. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum.

Við gerð þessarar reglugerðar var höfð hliðsjón af tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 89/662, eins og henni var breytt með tilskipunum nr. 90/675, 91/493, 91/494, 91/495, 91/496, 92/45, 92/46, 92/67 og 92/118, tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 90/425 eins og henni var breytt með tilskipunum nr. 90/539, 90/667, 90/675, 91/174, 91/496, 91/628, 92/60, 92/65, 92/118, tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 90/675 eins og henni var breytt með tilskipunum nr. 91/496, 92/118, 92/1601, 92/438, 95/52 og 96/43, tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 91/496 eins og henni var breytt með tilskipunum 91/628, 92/438 og 96/43, ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 93/13, eins og henni var breytt með ákvörðunum nr. 94/43, 94/305 og 96/32, ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 93/14, ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 94/360 eins og henni var breytt með ákvörðunum nr. 94/658, 95/54, 95/270 og 96/104 og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 94/344 eins og henni var breytt með ákvörðunum nr. 94/461, 94/775, 95/88, 95/230 og 96/106.

30. gr.

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Þó skulu 3. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. ekki taka gildi fyrr en 1. apríl 1999.

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 22. desember 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Árni Kolbeinsson.

VIÐAUKI A

Reglur um sannprófun skjala og auðkenna vara frá ríkjum utan

Evrópska efnhagssvæðisins.

 

Skjalaskoðun.

Skoða skal hvert heilbrigðisvottorð sem fylgir sendingu frá þriðja ríki, til þess að ganga úr skugga um eftirfarandi:

 1             Að það sé frumrit vottorðs eða skjals.

 2             Að það eigi við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða svæði slíks ríkis, sem hefur heimild fyrir útflutningi til Evrópska efnahagssvæðisins.

 3.            Að framsetning og efni sé í samræmi við fyrirmynd vottorðs sem samþykkt hefur verið fyrir viðkomandi vörur og hlutaðeigandi ríki.

 4.            Að það sé ein pappírsörk.

 5.            Að það sé fullfrágengið.

 6.            Að útgáfudagur vottorðs sé sá sami og þegar vörur voru fermdar til flutnings til Evrópska efnahagssvæðisins.

 7.            Að það sé stílað á einn viðtakanda.

 8.            Að það varði starfsstöð sem hefur heimild fyrir útflutningi til Evrópska efnahagssvæðisins.

 9.            Að það sé á íslensku eða ensku.

10.           Að það sé undirritað af lögbæru yfirvaldi og að nafn hans og staða sé skráð með læsilegum hástöfum, og enn fremur að opinber heilbrigðisstimpill viðkomandi ríkis utan Evrópska efnahagsvæðisins sé í öðrum lit en annar texti vottorðsins.

11.           Að upplýsingarnar á vottorðinu séu í samræmi við upplýsingarnar á viðauka-B-skjali.

Auðkennaskoðun.

Auðkennaeftirlit skal meðal annars fela í sér eftirfarandi:

1.             Sannprófun á innsigli flutningatækis í þeim tilvikum þegar krafa er gerð um slíkt;

2.             Að því er allar tegundir vara varðar, athugun á því hvort opinber stimpill eða heilbrigðismerkingar sem gefa upprunalandið og upprunastarfstöðina til kynna séu til staðar og séu í samræmi við vottorðið eða skjalið;

3.             Enn fremur, að því er varðar vörur í umbúðum, skoðun á merkingum sem krafist er í lögum eða reglum.

VIÐAUKI B

Vottorð til staðfestingar heilbrigðiseftirliti með vörum sem fluttar eru inn til EES frá þriðja ríki - Certificate for Veterinary Checks on Products introduced into the EEA from Non-Member Countries.

Allar leiðrréttingar eða útstrikanir sem ekki eru staðfestar af réttu lögmætu yfirvaldi gera þetta skjal ógilt - Any alteration or erasure on this document by an unauthorized person makes it invalid

VIÐAUKI C

Reglur um eftirlit með heilnæmi.

Heilnæmisskoðun skal framkvæmd við þær aðstæður sem tryggja að skoðun verði með fullnægjandi hætti. Skoða skal 20% sendinga með ferskum og frystum fisk og þurrkuðum og/eða söltuðum fiskafurðum og afurðum í loftþéttum lokuðum ílátum. Sendingar með öðrum afurðum svo sem samlokum skal skoða í 50% tilvika.

Heilnæmisskoðun skal m.a. fela í sér athugun á því:

1.             Hvort hitaskilyrði séu í samræmi við kröfur vegna viðkomandi vara sem mælt er fyrir um í reglum þar um;

2.             Hvort flutningsskilyrði séu þannig að vörurnar haldist í tilskildu ástandi;

3.             Hvort engin ástæða sé til að ætla að frávik frá reglum eigi sér stað meðan á flutningi stendur.

Staðfesting á því að vörur séu í samræmi við upplýsingar á vottorði skal einkum byggjast á eftirfarandi:

1.             Sannprófun á því að fjöldi og þyngd stykkja eða pakka sem um getur á meðfylgjandi vottorði samsvari þyngd vörusendingar miðað við þyngd eins stykkis eða eins pakka;

2.             Sannprófun á því að ytri og innri umbúðir standist kröfur um efni, ástand, merkingar. Þegar ytri og innri umbúðir hafa verið opnaðar skal kanna heilnæmi hverrar vörusendingar til að sannprófa að vörur uppfylli þau skilyrði sem kveðið er á um í reglum um viðkomandi vörur. Fram skal fara skynmat, einkum sjónræn skoðun, til þess að athuga hvort frávik finnist er gera vörur óhæfar til þeirrar notkunar sem tilgreind er á heilbrigðisvottorðum og fylgiskjölum. Þessi skoðun skal að meginreglu til gerð á 1% stykkja eða pakka úr vörusendingu og minnst tveimur og mest tíu stykkjum eða pökkum. Skoðun á vörum í lausri vigt skal framkvæmd á fimm sýnum hið minnsta og skulu þau tekin úr sendingunni á mismunandi stöðum. Meðan skoðun vara stendur yfir er eftirlitsaðila jafnan heimilt að víkja frá hámarki því sem mælt er fyrir um hér að framan. Auk heilnæmisskoðunar sem um getur hér að framan skal heilnæmisskoðun vara, sem ætlaðar eru til manneldis, fela í sér mælingu á hitastigi, ef við á, og athugun á frávikum í útliti, þéttleika, lykt og hugsanlega bragði. Skoða skal frystar og djúpfrystar vörur þegar búið er að þíða þær.

Að auki skal eftirlitsaðili hvenær sem hann telur þörf á slíku fara fram á frekari rannsókn til að sannprófa að farið sé að reglum um innflutning á vörum eða viðskiptum með þær.

Í vafatilvikum skal, þegar búið er að afferma alla sendinguna, fara fram frekari könnun á heilnæmi vara ásamt prófun á viðurkenndri rannsóknastofu, meðal annars til að ákvarða um hvaða tegund sé að ræða ef þurfa þykir.

Að loknu eftirliti og útgáfu viðauka-B-skjals skal eftirlitsaðili gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að staðfesta að opinber athugun á heilnæmi vörusendingar hafi farið fram, einkum með því að innsigla að nýju allar umbúðir sem meðhöndlaðar hafa verið og setja á þær opinberan stimpil, innsigla að nýju alla gáma sem hafa verið opnaðir og tilgreina innsiglisnúmerið sem kemur fram í viðauka-B- skjali og á vottorðum og skjölum sem fylgja með vörusendingunni.

Fiskistofa skal skrá niðurstöður heilbrigðiseftirlits í samræmi við neðangreint form. Skráning skal varðveitt í 18 mánuði hið minnsta frá því að skoðun átti sér stað. Fiskistofa skal senda Eftirlitsstofnun EFTA neðangreint form útfyllt á sex mánaða fresti.

VIÐAUKI D

Rannsóknarstofuprófanir.

Fiskistofa skal útbúa eftirlitsáætlun vegna prófana á viðurkenndri rannsóknastofu til að sannprófa að farið sé að heilbrigðisreglum. Í áætluninni skal koma fram hvernig staðið skuli að sýnatöku, meðferð og geymslu sýna og tilkynningum til annarra eftirlitsaðila og Eftirlitstofnunar EFTA.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica