Sjávarútvegsráðuneyti

391/1999

Reglugerð um úthlutun aflahlutdeildar í þykkvalúru. - Brottfallin

1. gr.

Fyrir upphaf fiskveiðiársins 1999/2000 skal þeim skipum, sem aflareynslu hafa í þykkvalúru á tímabilinu 1. júní 1996 til 31. maí 1999, úthlutað aflahlutdeild í þykkvalúru á grundvelli aflareynslu þeirra það tímabil.

Við útreikning aflahlutdeildar hvers skips skal leggja til grundvallar aflaupplýsingar, samkvæmt aflaupplýsingakerfinu Lóðs og hlutfall heildarafla í þykkvalúru, sem einstök skip hafa veitt á ofangreindu tímabili.

Hafi veiðileyfi verið flutt á milli skipa fylgir aflareynslan veiðileyfinu.

Við útreikning á aflahlutdeild einstakra skipa skal ekki tekið tillit til frátafa frá veiðum á viðmiðunartímabilinu.

Eigi síðar en 1. júlí 1999 skal Fiskistofa senda upplýsingar um skráðan afla í þykkvalúru til eigenda hlutaðeigandi skipa. Skal eigendum skipa gefinn kostur á því að koma á framfæri við Fiskistofu athugasemdum um afla skipanna fyrir 15. júlí 1999.

Áður en endanlegri aflahlutdeild í þykkvalúru er úthlutað, skal Fiskistofa taka afstöðu til fram kominna athugasemda.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 7. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 4. júní 1999.

Árni M. Mathiesen.

Jón B. Jónasson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica