Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

406/2010

Reglugerð um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1924/2006 um næringar- og heilsufullyrðingar er varða matvæli.

1. gr.

Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í XII. kafla II. viðauka, skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli eftirtalinna ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlast eftirfarandi reglugerðir gildi hér á landi:

a)

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1924/2006 frá 20. desember 2006 um næringar- og heilsufullyrðingar er varða matvæli. Reglugerðin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2008 frá 25. apríl 2008.

b)  

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 109/2008 frá 15. janúar 2008 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1924/2006 um næringar- og heilsufullyrðingar er varða matvæli. Reglugerðin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2008 frá 26. september 2008.



2. gr.

Fylgiskjöl.

Reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins skv. 1. gr. eru birtar sem I og II við reglugerð þessa.

3. gr.

Tilkynning - vöktun.

Framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili matvæla með næringar- og/eða heilsu­fullyrðingu samanber ákvæði þessarar reglugerðar skal tilkynna um markaðssetningu þeirra til Matvælastofnunar og afhenda sýnishorn af merkingu vörunnar. Hann skal jafnframt færa rök fyrir notkun fullyrðingarinnar.

4. gr.

Ný heilsufullyrðing.

Umsókn til notkunar nýrrar heilsufullyrðingar skal skilað til Matvælastofnunar á þar til gerðum eyðublöðum. Eyðublöð skal fylla út á ensku. Matvælastofnun fer yfir umsóknina og gögn sem henni fylgja og getur óskað eftir frekari upplýsingum ef þörf krefur áður en umsókn er send til Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) sem metur umsóknina í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

5. gr.

Eftirlit.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

6. gr.

Brottfall reglugerða.

Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi IV. kafli reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.

7. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a-e og 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

8. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum. Reglugerðin tekur þegar gildi.

Bráðabirgðaákvæði.

Heimilt er að dreifa vörum sem reglugerð þessi tekur til, og eru hér á markaði við gildistöku reglugerðarinnar en uppfylla ekki ákvæði reglugerðarinnar, í 12 mánuði eftir gildistöku hennar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 28. apríl 2010.

Jón Bjarnason.

Baldur P. Erlingsson.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica