Samgönguráðuneyti

100/2006

Reglugerð um farmflutninga á landi í atvinnuskyni. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um farmflutninga á landi í atvinnuskyni með ökutækjum, hvort sem um eitt ökutæki eða samtengd ökutæki er að ræða.

Leyfi Vegagerðarinnar þarf til að hafa með höndum þá vöruflutninga sem þessi reglugerð nær til. Leyfið skal gilda í allt að fimm ár og vera óframseljanlegt, sbr. þó 2. mgr. 8. gr. Heimilt er að veita leyfi til skemmri tíma óski umsækjandi eftir því.

2. gr.

Skilgreining.

Með farmflutningum í atvinnuskyni er átt við flutning á hvers kyns farmi gegn endurgjaldi þegar flutningsþjónusta er seld sérstaklega og flytjandi starfar við flutningsþjónustu. Dæmi um það eru farmflutningafyrirtæki og vörubifreiðastjórar sem starfa sem verk­takar við flutning á farmi.

II. KAFLI

Framkvæmd leyfisveitinga.

3. gr.

Leyfisveitingar og leyfismerki.

Vegagerðin hefur með höndum útgáfu almenns rekstrarleyfis og leyfismerkja fyrir þá sem stunda farmflutninga í atvinnuskyni. Vegagerðin skal jafnframt hafa umsjón með eftirliti samkvæmt reglugerð þessari. Vegagerðin skal hafa á að skipa sérstökum eftir­lits­mönnum til að annast eftirlitið og setur þeim starfsreglur.

Leyfishafi skal hafa afrit af leyfisbréfi sýnilegt í bifreið sinni og leyfismerki fest í vinstri kant framrúðu eða á númeraplötu bifreiðarinnar.

4. gr.

Skilyrði leyfis.

Þeir einir sem uppfylla eftirtalin skilyrði mega stunda farmflutninga í atvinnuskyni með ökutækjum:

  1. Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu. Fullnægjandi fjárhagsstaða merkir að hafa aðgang að nægilegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess. Fyrirtæki verður að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. 850.000 kr. eða 9000 evrum fyrir fyrsta ökutæki og 450.000 kr. eða 5000 evrum á hvert ökutæki umfram það. Fyrirtæki sem rekur bifreiðar undir 15 tonnum að þyngd verða að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. 50.000 kr. eða 500 evrum fyrir hvert tonn af leyfilegri hámarksþyngd ökutækja sem fyrirtækið notar til flutninga. Krefjast skal þeirrar upphæðar sem gefur lægstu niðurstöðu. Til að meta fjárhagsstöðu skal Vegagerðin taka mið af þeim gögnum sem tilgreind eru í 6. gr. reglugerðar þessarar.
  2. Hafa fullnægjandi starfshæfni. Til að uppfylla skilyrði um starfshæfni skal umsækjandi taka þátt í námskeiði á vegum Vegagerðarinnar, sbr. 5. gr. Heimilt er að veita undanþágu frá námskeiði eða einstökum hlutum þess ef umsækjandi sýnir fram á að hafa a.m.k. 5 ára samfellda starfsreynslu á sviði framkvæmdastjórnar í starfsgreininni eða ef umsækjandi getur sýnt fram á að hafa lokið prófi í einhverri þeirra greina sem um getur í námsskrá. Vegagerðinni er heimilt að gera mismunandi kröfur um starfshæfni eftir tegund starfsleyfis.
  3. Hafa ekki verið dæmdur til refsivistar né framið alvarleg eða ítrekuð brot á reglum sem um starfsgreinina gilda, svo sem stundað leyfisskyldan akstur án tilskilins leyfis. Hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum.

Framangreindum skilyrðum verður leyfishafi að fullnægja á leyfistímanum.

Þrátt fyrir ákvæði 2. tl. 1. mgr. 4. gr. getur Vegagerðin heimilað umsækjanda að starfa sem flutningsaðili á landi að því tilskildu að hann tilkynni um tilnefningu annars aðila sem fullnægir kröfum 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr. enda sjái hinn síðarnefndi um daglegan rekstur fyrirtækisins.

5. gr.

Námskeið.

Námskeið í umsjón Vegagerðarinnar verða eftirfarandi:

  1. Gunnnámskeið fyrir alla þá sem sækja um leyfi skv. reglugerð þessari.
  2. Námskeið ætlað stjórnendum fyrirtækja í farmflutningum.

Námskeið samkvæmt ákvæði þessu eru í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í tilskipun nr. 96/26/EB, sbr. tilskipun nr. 98/76/EB, um aðgang að starfsgrein farm­flytjanda á vegum og starfsgrein aðila sem stunda farþegaflutninga á vegum og um gagn­kvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um form­lega menntun og hæfi sem á að auðvelda þessum aðilum að neyta staðfesturéttarins í innan­lands- og millilandaflutningum.

Vegagerðin skal útbúa námsskrá að höfðu samráði við hagsmunaðila sem að greininni standa. Þátttökugjald skal tilgreint í námsskránni.

6. gr.

Framlagning gagna.

Þegar umsókn er lögð fram skulu eftirtalin gögn fylgja:

  1. Ársreikningur áritaður af löggiltum endurskoðanda eða staðfest skattframtal.
  2. Rekstraráætlun fyrir yfirstandandi ár og næsta ár. Vegagerðin getur óskað eftir staðfestingu endurskoðanda um að hún sé rétt miðað við gefnar forsendur.
  3. Skrifleg yfirlýsing frá innheimtuaðila ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að umsækjandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld.
  4. Staðfesting á starfshæfni, sbr. 2. tl. 1. mgr. 4. gr.
  5. Sakavottorð.
  6. Ljósrit af skráningarskírteini bifreiða.

Umsókn er því aðeins gild að öll ofangreind gögn fylgi umsókn.

Vegagerðin leggur mat á þau gögn sem umsókn fylgja og er henni heimilt að óska eftir frekari gögnum gerist þess þörf. Ef tilskilin gögn fylgja ekki umsókn eða ef ekki er orðið við beiðni um frekari gögn er Vegagerðinni heimilt að hafna umsókn.

7. gr.

Leyfishafi.

Leyfi má veita einstaklingum, hlutafélögum, einkahlutafélögum eða sameignarfélögum enda uppfylli þau skilyrði 1. tl. 1. mgr. 4. gr. þessarar reglugerðar.

Hjá félaginu skal starfa forsvarsmaður sem ber ábyrgð á rekstrinum og uppfyllir skilyrði 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr.

Leyfishafi skal tilkynna Vegagerðinni um þær bifreiðar sem hann notar við rekstrar­leyfis­skylda starfsemi.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

8. gr.

Brottfall leyfa.

Leyfi samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef annað af eftirtöldum tveimur atriðum á við:

  1. Andlát leyfishafa, sbr. þó 2. mgr.
  2. Leyfishafi eða forsvarsmaður hans verður gjaldþrota eða er sviptur fjárræði.

Vegagerðin getur við andlát leyfishafa heimilað erfingjum hans að stunda farmflutninga tímabundið, að hámarki eitt ár frá andláti hans. Umsókn þess efnis skal send Vega­gerðinni innan 3ja mánaða frá andláti leyfishafa. Tilnefndur forsvarsmaður, sem ábyrgð ber á rekstrinum, skal uppfylla skilyrði 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr.

Ef leyfi fellur niður vegna atvika sem getið er um í 1. mgr. skal Vegagerðin senda leyfis­hafa eða forsvarsmanni leyfishafa tilkynningu þess efnis og frá hvaða tíma leyfið telst niður fallið.

9. gr.

Heimild til að fella leyfi úr gildi.

Vegagerðin getur fellt leyfi úr gildi ef hún fær tilkynningu um að leyfishafi eða for­svars­maður leyfishafa uppfylli ekki lengur skilyrði 1.-3. tl. 1. mgr. 4. gr.

Tilkynning sem berst Vegagerðinni samkvæmt 1. mgr. má hvort heldur sem er vera munnleg eða skrifleg. Hún skal innihalda eftirfarandi atriði:

  1. Greinargóða lýsingu og skýringu á meintu broti.
  2. Upplýsingar um þá starfsemi sem stunduð er.
  3. Ökutæki sem notuð eru við starfsemina.
  4. Hvaða aðilar það eru sem stunda starfsemina.

Áður en leyfi er fellt úr gildi samkvæmt 1. mgr. skal Vegagerðin senda viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem koma skal fram tilefni niðurfellingar og leyfishafa gefinn kostur á að bæta úr annmörkum. Gefa skal leyfishafa 3 vikur til að bæta úr annmörkum. Ef leyfishafi hefur ekki bætt úr annmörkum að þremur vikum liðnum skal Vegagerðin senda skriflega tilkynningu til leyfishafa um brottfall leyfis og frá hvaða tíma leyfi telst niður fallið.

10. gr.

Leyfisskyldir farmflutningar stundaðir án leyfis.

Tilkynna má til Vegagerðarinnar ef leyfisskyld starfsemi samkvæmt reglugerð þessari er stunduð án tilskilins leyfis. Tilkynningar geta hvort heldur sem er verið munnlegar eða skriflegar og skulu innihalda þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 9. gr.

Þegar Vegagerðinni berst tilkynning samkvæmt 1. mgr. skal hún þegar senda þeim er tilkynning beinist að skriflega fyrirspurn um starfsemina og gefa viðkomanda 2 vikur til að gefa skýringar á starfsemi sinni.

Þegar skýringar hafa borist Vegagerðinni sbr. 2. mgr. skal hún leggja mat á hvort starf­semi er leyfisskyld. Komist Vegagerðin að því að starfsemi er leyfisskyld skal hún senda viðkomanda tilkynningu þess efnis þar sem gefinn er 2ja vikna frestur til að sækja um leyfi.

Ef Vega­gerðin hefur komist að því að starfsemi er leyfisskyld eftir að hafa fengið skýr­ingar sbr. 3. mgr. en viðkomandi sækir ekki um leyfi innan tilskilins frests er sér­stökum eftirlitsmönnum Vega­gerðarinnar heimilt að stöðva ökutæki hans og kyrrsetja það uns umsókn skv. 6. gr. hefur verið lögð fram eða þar til flutningur hefur verið falinn aðila með tilskilin leyfi.

Ef ekki er orðið við ósk Vegagerðarinnar sbr. 2. mgr. um skýringar á starfsemi skal Vega­gerðin senda ítrekun þar sem viðkomanda er gefinn 7 daga frestur til að gefa skýringar á starfsemi. Ef ekki er orðið við ítrekaðri beiðni sbr. 1. ml. er eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar heimilt að stöðva ökutæki viðkomanda til að kanna um hvernig flutning er að ræða og hvort starfsemi er leyfisskyld.

Vegagerðin getur leitað aðstoðar lögreglu til að framfylgja stöðvun og kyrrsetningu öku­tækis í þeim tilvikum sem getið er um í 4. og 5. mgr.

11. gr.

Stöðvun og kyrrsetning ökutækja.

Ökumanni er skylt að verða við fyrirmælum eftirlitsmanns Vegagerðarinnar um stöðvun, kyrrsetningu og áframhaldandi akstur ökutækis. Þegar eftirlitsmaður gefur fyrirmæli um kyrrsetningu ökutækis er óheimilt að halda áfram för þess fyrr en gerðar hafa verið ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi flutning farms.

Hafi ökutæki verið kyrrsett skal ökumaður þegar í stað gera ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi flutning farms með því að fela flutningsaðila með tilskilin leyfi að annast flutninginn. Þegar farmi hefur verið tryggður áframhaldandi flutningur með ökutæki og á ábyrgð flutningsaðila sem uppfyllir kröfur laga skal heimila áframhaldandi för kyrrsetts ökutækis.

12. gr.

Refsingar.

Brot gegn 1. og 3. gr. reglugerðar þessarar varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal fara með slík mál að hætti opinberra mála.

13. gr.

Málskot.

Stjórnsýsluákvörðunum Vegagerðarinnar samkvæmt lögum þessum má skjóta til ráðu­neytisins. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 73/2001 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 983/2001 um vöru- og efnis­flutninga á landi.

Samgönguráðuneytinu, 26. janúar 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica