Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

678/2004

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 680/1999 um ráðstafanir til að stuðla að bættu öryggi og heilsu flugverja.

1. gr.

Núverandi 14. gr. reglugerðarinnar fellur niður og í staðin kemur ný svohljóðandi grein:

Heilbrigðisskoðun, heilsuvernd.

Flugverjar eiga rétt á ókeypis heilbrigðisskoðun við ráðningu og með reglulegu millibili þaðan í frá. Eftirlitið má fara fram innan ramma heilbrigðiskerfisins. Flugverjar, sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða sem ljóst er að rekja má til þess að þeir vinna einnig næturvinnu, verða færðir til þegar kostur er, í dagvinnustörf í lofti eða á jörðu sem henta þeim.

Flugverjar skulu njóta öryggis og heilsuverndar í samræmi við starf sitt og tryggja ber að litið sé eftir heilsu þeirra í samræmi við áhættuna sem starfið felur í sér.

Fullnægjandi verndar- og forvarnarþjónusta eða aðstaða, sem þjónar slíkum tilgangi, skal ávallt vera fyrir hendi vegna öryggis og heilsu þeirra.

2. gr.

Við reglugerðina bætist svohljóðandi ný grein sem verður 15. gr. Aðrar greinar breytast til samræmis.

Vinnumynstur.

Gerðar verða nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að vinnuveitandi, sem hyggst skipuleggja vinnu eftir ákveðnu mynstri, taki tillit til þeirrar almennu meginreglu að aðlaga vinnuna starfsmanninum.

3. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari er verið að innleiða 4.–6. gr. viðauka við tilskipun Evrópusambandsins nr. 2000/79/EB frá 27. nóvember árið 2000 um Evrópusamning um skipulag á vinnutíma farstarfsmanna í almenningsflugi sem gerður var milli Evrópusambands flugfélaga (AEA), Sambands félaga flutningaverkamanna í Evrópu (ETF), Evrópska flugliðasambandsins (ECA), Samtaka evrópskra svæðisflugfélaga (ERA) og Alþjóðasamtaka flutningaflugfélaga (IACA), sbr. ákvörðun EES-nefndarinnar um breytingu á XVIII viðauka við EES samninginn nr. 120/2001, sem birtist í EES-viðbæti nr. 60 þann 6. desember 2001, bls 33.

4. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 og öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 26. júlí 2004.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.