Samgönguráðuneyti

190/2003

Reglugerð um breytingu á reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd eða lengri, nr. 26/2000, með síðari breytingum. - Brottfallin

190/2003

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar
að lengd eða lengri, nr. 26/2000, með síðari breytingum.

1. gr.

3. tölul. 1. reglu í II. kafla í I. viðauka orðast svo:
(3) Þil, lokunarbúnaður og lokanir opa í þessum þiljum, ásamt aðferðum til að prófa þær, skulu vera í samræmi við kröfur stjórnvalda. Skip smíðuð úr öðru efni en tré skulu vera með stafnþil og vatnsþétt þil að minnsta kosti umhverfis aðalvélarúmið og, ef við á, rými fyrir asdik-búnað (hljóðsjárbúnað). Þessi þil skulu ná upp að aðalþilfari. Flatarmál rýma fyrir asdik-búnað (hljóðsjárbúnað) skal ekki vera stærra en nauðsynlegt er til að þjónusta búnaðinn. Í tréskipum skulu einnig vera sams konar þil, og þau skulu vera vatnsþétt, eins og við verður komið.


2. gr.

Á eftir 3. tl. 2. reglu í III. kafla í I. viðauka kemur nýr töluliður sem verður 4. töluliður og orðast svo:
(4) Við hleðslutilvik g), eins og það er skilgreint í 1. tölul. 7. reglu skulu skip búin asdik-búnaði (hljóðsjárbúnaði), í stað þess að uppfylla stöðugleikakröfur í 1. tölul. 2. reglu, uppfylla eftirtaldar stöðugleikakröfur:

a) Flöturinn undir réttiarmsboglínunni (GZ-línunni) skal ekki vera minni en 0,040 meterradíanar að 30° hallahorni.
b) Byrjunarmálmiðjuhæðin GM skal ekki vera minni en 0,35 m.

Leiðrétta skal byrjunarmálmiðjuhæðina og réttiarmsboglínuna fyrir áhrifum óhefts yfirborðs í rýminu fyrir asdik-búnað (hljóðsjárbúnað) miðað við hámarkstregðuvægi yfirborðs vökvans. Rúmmál rýmisins skal reikna að vatnsþéttum þiljum, innri flöt byrðings og neðri flöt þilfars og/eða efri brún lúgukarms, eftir því sem við á.


3. gr.

Við 1. tl. 7. reglu í III. kafla í I. viðauka, bætist nýr stafliður g, sem orðist svo:

g) fyrir skip búin asdik-búnaði (hljóðsjárbúnaði): skip með fullfermi af afla og 100% vista, eldsneytis o.s.frv. og rými fyrir asdik-búnað (hljóðsjárbúnað) fullt af sjó.


4. gr.

Á eftir 18. reglu í II. kafla í I. viðauka bætist ný regla, sem verður 19. regla, svohljóðandi:


19. regla
Rými fyrir asdik-búnað (hljóðsjárbúnað).

(1) Op að rými fyrir asdik-búnað (hljóðsjárbúnað) skulu búin fasttengdum hlerum, sem unnt er að loka vatnsþétt, af sambærilegum styrkleika og aðliggjandi skipshluti. Slíkir hlerar skulu ávallt vera lokaðir og skálkaðir þegar skipið er á hafi úti. Við þannig op skal komið fyrir hentugum viðvörunarbúnaði, sem gefur viðvörun á heyrilegan og sýnilegan hátt í stýrishúsi þegar hleri er opinn.

(2) Neðst í rými fyrir asdik-búnað (hljóðsjárbúnað) skal setja vökvaborðsviðvörunarbúnað, sem skynjar samsöfnun vökva við venjulegan hliðar- og stafnhalla. Skynjunarkerfið skal gefa viðvörun á heyrilegan og sýnilegan hátt í stýrishúsi.


6. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.

Skip skulu uppfylla kröfur þessarar reglugerðar eigi síðar en við fyrstu aðalskoðun eftir 1. apríl 2003.


7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 35, 30. apríl 1993 um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.


Samgönguráðuneytinu, 3. mars 2003.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica