Samgönguráðuneyti

733/2001

Reglugerð um breytingu á reglugerð um bílaleigur nr. 398/2000. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

Eftirfarandi leiguskilmálar bætast við 6. gr. reglugerðarinnar og er bílaleigum skylt að nota þá í viðskiptum sínum við leigutaka bifreiða.


2. gr.

Skilmálar þessir eru settir á grundvelli 6. og 8. gr. laga um bílaleigur nr. 64/2000 og öðlast þegar gildi. Leiguskilmálar þessir birtast sem fylgiskjal við reglugerð um bílaleigur nr. 398/2000.


Samgönguráðuneytinu, 1. október 2001.

Sturla Böðvarsson.
Kristín Helga Markúsdóttir.



Fylgiskjal.
Leiguskilmálar fyrir bílaleigu.

Skyldur leigutaka:
1) Leigutaki samþykkir ákvæði leigusamnings þessa og hefur fengið afrit af honum.
2) Leigutaki skal skila ökutækinu:
a) ásamt öllum fylgihlutum (þ.m.t. hjólbörðum og verkfærum) í sama ásigkomulagi og það var við móttöku að undanskildu eðlilegu sliti vegna notkunar.
b) á tilskildum tíma samkvæmt samningi þessum nema um annað verði samið síðar.
c) til aðseturs leigusala nema um annað hafi verið samið.
3) Skili leigutaki ekki ökutækinu á réttum tíma samkvæmt leigusamningi þessum, eða láti vita um áframhaldandi leigu er leigusala eða lögreglu heimilt að taka ökutækið í sína vörslu án frekari fyrirvara, á kostnað leigutaka. Áframhaldandi leiga er háð samþykki leigusala. Skili leigutaki ökutækinu 1 klst. eða síðar eftir að samningstími rennur út er leigusala heimilt að innheimta allt að sólarhringsgjaldi samkvæmt leigusamningi þessum.
4) Ökutækinu skal stjórnað og ekið gætilega. Einungis þeir sem skráðir eru ökumenn á framhlið samnings þessa hafa leyfi til að aka ökutækinu. Leigutaki ber ábyrgð á tjóni sem leiðir af notkun ökutækisins og ekki fæst bætt af vátryggingarfélagi ökutækisins, þ.m.t. tjóni á ökutækinu og/eða farþegum sem rekja má til eftirtalinna hluta:
a) Aksturs utan vega.
b) Aksturs í ám eða hvers konar vatnsföllum.
c) Ásetningsverka eða stórkostlegs gáleysis.
d) Notkunar ökumanns á vímugjöfum.
e) Notkunar ökutækisins er brýtur í bága við landslög og/eða ákvæði leiguskilmála þessara.
5) Sé um árekstur eða óhappatilviljun að ræða, skal leigutaki tafarlaust tilkynna um atburðinn til viðkomandi lögregluyfirvalda svo og leigusala og má eigi yfirgefa staðinn, fyrr en lögregla er mætt á staðinn.
6) Kílómetrafjöldinn (km) sem ökutækinu er ekið meðan samningur þessi er í gildi, ákvarðast með álestri á venjulegan kílómetramæli sem fylgir ökutækinu frá framleiðanda. Leigutaki skal tilkynna leigusala svo fljótt sem auðið er, ef kílómetramælirinn er eða verður óvirkur á leigutímanum.
7) Leigusali er ekki ábyrgur fyrir hvarfi muna eða skaða á þeim, sem leigutaki, eða einhver annar aðili, geymdi eða flutti í eða á ökutækinu.
8) Leigutaki samþykkir að greiða leigusala samkvæmt kröfu:
a) Geymslufé, er nemi áætluðum leigukostnaði.
b) Öll útgjöld, sem leigusali verður fyrir, ef hann þarf að koma ökutækinu til baka til aðseturs leigusala hafi það verið skilið eftir eftirlitslaust, án tillits til ástands ökutækisins, vega eða veðurs.
9) Leigutaka er óheimilt að láta fara fram viðgerðir eða breytingar á ökutækinu og fylgihlutum þess eða leyfa nokkra veðsetningu á því án áður fengins samþykkis leigusala.
10) Leigutaki er ábyrgur fyrir öllum stöðumælasektum og sektum fyrir umferðarlagabrot.
11) Leigutaka er óheimilt að nota ökutækið til flutninga á farþegum gegn greiðslu, lána það eða framleigja.

Skyldur leigusala:
12) Leigusali ábyrgist afhendingu ökutækis á umsömdum tíma og að það fullnægi kröfum sem gerðar eru um það.
13) Bili ökutækið skal leigusali afhenda leigutaka sambærilegt ökutæki svo fljótt sem auðið er. Ef bilunin er minniháttar er leigusala með samþykki leigutaka heimilt að láta framkvæma viðgerð á ökutækinu.
14) Leigusali skal kynna leigutaka efni leigusamnings þessa og sérstaklega þær skyldur sem hann tekur á sig með undirritun hans.
15) Leigusali skal upplýsa erlenda leigutaka um íslenskar umferðarreglur, umferðarmerki og reglur um bann við umferð utan vega. Jafnframt skal leigusali vekja sérstaka athygli á hættu sem stafar af dýrum á vegum.
16) Vilji leigusali takmarka notkun ökutækis með hliðsjón af útbúnaði þess og/eða ástandi vega skal það gert skriflega við undirritun leigusamnings þessa.
17) Leigusali ábyrgist að vera ávallt með gilda starfsábyrgðartryggingu.

Tryggingar:
18) Innifalið í leigugjaldi eru lögboðnar ökutækjatryggingar, þ.e. ábyrgðartrygging og slysatrygging ökumanns og eiganda.
19) Ábyrgðartrygging gagnvart þriðja aðila nemur þeirri upphæð sem íslensk lög kveða á um hverju sinni.
20) Leigutaki getur keypt kaskótryggingu sérstaklega. Sjálfsáhætta í hverju tjóni skal tilgreind í samningi þessum.
21) Það sem (kaskó)tryggingin nær ekki yfir:
a) Skemmdir af ásettu ráði eða sakir stórkostlegrar óvarkárni ökumanns.
b) Skemmdir sem verða þegar ökumaðurinn er undir áhrifum áfengis, örvunar, eða deyfilyfja, eða að öðru leyti ófær um að stjórna bifreiðinni á tryggilegan hátt.
c) Skemmdir vegna kappaksturs eða reynsluaksturs.
d) Skemmdir af hernaði, uppreisn, óeirðum, óspektum.
e) Skemmdir af völdum dýra.
f) Brunagöt á sætum, teppum eða mottum.
g) Skemmdir er aðeins varða hjól, hjólbarða, fjaðrir, rafgeymi, gler (annað en rúður), viðtæki, svo og tjón vegna stuldar einstakra hluta ökutækis og skemmdar sem af því stafar.
h) Skemmdir af akstri á ósléttri akbraut, svo sem í gírkassa, drifi, öðrum hlutum í eða á undirvagni ökutækisins, skemmdir vegna þess á undirvagni er hljótast af því að ökutækið tekur niðri á ójöfnum akbrautum, svo sem hryggjum eftir veghefla, jarðföstu grjóti á akbraut eða við akbrautarbrúnir. Sama gildir um skemmdir er verða þegar laust grjót hrekkur undir ökutækið í akstri.
i) Skemmdir vegna aksturs þar sem bannað er að aka ökutækinu, svo og við akstur á vegatroðningum, götuslóðum, snjósköflum, ís, yfir óbrúaðar ár eða læki, um fjörur, forvaða eða aðra vegleysu. Þó bætast skemmdir er verða þegar ökumaður hefur neyðst til að fara út af akbraut, t.d. vegna viðgerðar á vegi.
j) Tjón af völdum þess að sandur, möl, aska, vikur eða önnur jarðefni fjúka á ökutækið.
k) Ef ökutækið er flutt sjóleiðina bætist ekki tjón af völdum sjóbleytu.
l) Að öðru leyti vísast í almenna skilmála fyrir kaskótryggingu.
22) Leigutaki getur keypt sérstaka grjóttryggingu (GP), þjófnaðartryggingu (TP) og vatnstryggingu (WP) hjá þeim bílaleigum sem selja slíkar tryggingar.

Almenn ákvæði:
23) Leigusamningur þessi skal ávallt vera í ökutækinu á meðan á leigutíma stendur.
24) Viðaukar og breytingar á skilmálum og ákvæðum leigusamnings þessa skulu vera skriflegir.
25) Um samninga þá sem gerðir eru á grundvelli ofangreindra skilmála, þar með talið bótakröfur sem eftir atvikum kunna að vera gerðar, fer að íslenskum lögum. Gildir það bæði um grundvöll og útreikning bóta. Sama gildir um bótakröfur á grundvelli bótaábyrgðar utan samninga. Rísi mál út af leigusamningi þessum skal málið rekið fyrir varnarþingi leigusala.
26) Bent skal á að skjóta má ágreiningsmálum samningsaðila leigusamnings þessa til starfandi úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica