Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

531/2001

Reglugerð um nám til skipstjórnarréttinda á skipi sem er 30 brúttótonn eða minna.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Sjómannaskólar sbr. 2. mgr. annast menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa. Starfsgreinaráð um sjávarútvegsgreinar og siglingar gerir tillögur til menntamálaráðherra um námskrár sjómannaskóla að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands. Menntamálaráðuneytið setur námskrá sjómannaskóla er uppfylli kröfur alþjóðasamninga og Siglingastofnun Íslands hefur eftirlit með að nám í sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga.

Sá sem staðist hefur próf og kröfur sem gerðar eru í námi á sjávarútvegsbraut framhaldsskóla, í viðurkenndum einkaskóla eða á námskeiði sem fer eftir aðalnámskrá framhaldsskóla telst hafa lokið námi til réttinda sem skipstjóri í innanlandssiglingum á skipi sem er 30 brúttótonn eða minna skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum.

2. gr.

Menntamálaráðuneytið skipar prófdómara til fimm ára í senn að höfðu samráði við Stýrimannaskólann í Reykjavík og starfsgreinaráð í sjávarútvegs- og siglingagreinum. Skulu prófdómarar hafa lokið a.m.k. námi 2. stigs í skipstjórnarfræðum sbr. lög nr. 112/1984 um atvinnuréttindi íslenskra skipstjórnarmanna með síðari breytingum. Menntamálaráðuneytið heldur skrá yfir skipaða prófdómara.

Prófdómarar hafa yfirumsjón með framkvæmd prófa og hafa eftirlit með því að próf séu í samræmi við námskrá og aðrar reglur er menntamálaráðuneytið setur. Prófdómurum ber að tryggja svo sem kostur er samræmt námsmat. Enginn getur verið prófdómari eða kennari/námskeiðshaldari á sama námskeiði.

Til þess að fylgja eftir ákvæðum 2. mgr. skulu prófdómarar að ákvörðun Siglingastofnunar Íslands kallaðir saman til funda svo oft sem þurfa þykir.

Ef um er að ræða nám á sjávarútvegsbraut framhaldsskóla sem starfar samkvæmt ákvæðum framhaldsskólalaga nr. 80/1996 fer um námsmat samkvæmt almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla.

3. gr.

Þeir sem standa fyrir námskeiðum og kennslu til réttinda á námskeiðum skv. 1. gr. skulu hafa lokið námi 2. stigs í skipstjórnarfræðum. Þeim er skylt að tilkynna einum af skipuðum prófdómurum um fyrirhugað námskeiðshald áður en það hefst og sækja um skriflega staðfestingu prófdómara á því að undirbúningur og tilhögun námsins sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru. Í umsókn skulu m.a. veittar upplýsingar um tilhögun kennslunnar, námsgreinar (áfanga), tímafjölda í hverri námsgrein, aðstöðu, og kennara. Heimilt er prófdómara að krefjast þess að hluta náms og prófi á skipstjórnarnámskeiði verði lokið í húsnæði eða í aðstöðu um borð í skipum sem hann ákveður.

4. gr.

Þegar nemendur hafa lokið námi skv. 1. gr. gangast þeir undir próf sem haldin eru undir yfirumsjón prófdómara. Þeir sem standast próf skulu fá vottorð undirrituð af viðkomandi skólastjóra (námskeiðshaldara) og prófdómara. Óheimilt er að undirrita skírteini nema að fengnum upplýsingum skv. 3. gr.

5. gr.

Prófdómurum er skylt að senda menntamálaráðuneyti afrit af vottorðum skv. 4. gr. og skýrslu um útskrifaða nemendur, undirbúning og framkvæmd prófa. Menntamálaráðuneytið felur Sjómannaskóla íslands að halda heildarskrá um útskrifaða nemendur og skal slík skrá yfir útskrifaða nemendur hvers árs send samgönguráðuneyti og Siglingastofnun Íslands.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. gr. laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi íslenskra skipstjórnarmanna með síðari breytingum og öðlast gildi 1. ágúst 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fyrir 1. september 2001 skulu þeir, er við gildistöku reglugerðar þessarar hafa skipun prófdómara í siglingafræðum og sjóvinnugreinum er veita réttindi til skipstjórnar í innanlandssiglingum á skipi 30 brúttótonn eða minna, sækja um endurnýjun prófdómararéttinda sinna og fellur skipunin niður að öðrum kosti.

Þeim, sem fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, hafa starfað undanfarin sex ár eða lengur, sem kennarar á námskeiðum í siglingafræðum og sjóvinnugreinum er veita réttindi til skipstjórnar í innanlandssiglingum á skipi 30 brúttótonn eða minna, skal, þrátt fyrir ákvæði 3.gr., heimilt að stunda áfram kennslustörf.

Menntamálaráðuneytinu, 26. júní 2001.

Björn Bjarnason.

Þórunn J. Hafstein.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.