Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 2. okt. 1991

282/1980

Reglugerð um eldsneytisáfyllingu loftfara

1. gr. ALMENNT.

1.1. Farið skal eftir reglum þessum við áfyllingu eldsneytis á öll loftför hvar sem áfyllingin

fer fram.

1.2. Áfylling skal fara fram undir stjórn hæfs manns, sem sá aðili (olíufélag) tilnefnir er eldsneytið afhendir og sem ber ábyrgð á eldsneytisafgreiðslunni. Þessi maður ber ábyrgð á að áfyllingin sé framkvæmd í samræmi við reglur þær sem hér eru greindar, svo og í samræmi við fyrirmæli flugstjóra loftfarsins. Ef enginn starfsmaður afhendingaraðila er viðstaddur áfyllinguna ber flugstjórinn einn alla ábyrgð á henni.

1.3. Auk reglna þessara skal farið eftir reglum þeim, sem gilda um hlutaðeigandi flugvöll, og reglum hlutaðeigandi olíufélags.

2. gr. ÁFYLLINGARSVÆÐI OG REGLUR SEM UM ÞAÐ GILDA.

2.1. Til þess að gæta öryggis við eldsneytisáfyllingu loftfara skulu eftirfarandi reglur gilda á áfyllingarsvæði þar sem eldhætta vegna eldfimra lofttegunda getur leynst. Stærð áfyllingarsvæðisins er háð því hvernig áfylling fer fram (þrýstingsáfylling, áfylling yfir væng o. s. frv.), svo sem fram kemur í viðbæti.

2.2. Meðan áfylling á sér stað mega þeir, sem starfa við umrætt loftfar, vera á áfyllingarsvæðinu.

Ath.: Sjá gr. 6.2. og 6.3. um áfyllingu meðan farþegar eru um borð.

2.3. Á áfyllingarsvæði má aðeins leggja ökutækjum og koma fyrir öðrum tækjum sem notuð eru til áfyllingar eða annarrar þjónustu við loftfarið.

2.4. Á áfyllingarsvæði eru reykingar bannaðar svo og meðferð opins elds. Þar má enginn vinna eiga sér stað sem valdið getur neistaflugi.

3. gr. KRÖFUR GERÐAR TIL ELDSNEYTISVAGNA.

3.1. Eldsneytisvagnar, sem notaðir eru við áfyllingu eldsneytis á loftför, skulu fullnægja settum kröfum um öryggisbúnað og umbúnað eldfimra efna. Lekir eða að öðru leyti bilaðir eldneytisvagnar, skulu taFarlaust teknir úr umferð.

4. gr. KRÖFUR GERÐAR TIL BÚNAÐAR Á ÁFYLLINGARSVÆÐI.

4.1. Tækjabúnaður, knúinn hreyfli sem brennir eldsneyti, má því aðeins nota á áfyllingarsvæði að hann sé búinn neistavara á útblæstri og slökkvitækjum af viðurkenndum gerðum, minnst 2 stk. 6 kg ABC eða BC slökkvitæki. Eigi má ræsa eða stöðva slíka hreyfla á áfyllingarsvæði. Hitunartæki skulu vera af gerðum viðurkenndum til notkunar við slíkar aðstæður.

4.2. Rafbúnað má því aðeins nota á áfyllingarsvæði að hann fullnægi settum öryggiskröfum og sé raka- og sprengiþéttur. Hann skal ætíð vera í fullkomnu lagi. Eigi má setja hann í samband eða taka hann úr sambandi meðan áfylling stendur yfir.

5. gr. ÖRYGGISRÁÐSTAFANIR FYRIR ÁFYLLINGU OG Á MEÐAN Á HENNI STENDUR.

5.1. Stöðu eldsneytisvagns skal þannig háttað við áfyllingu að honum megi fyrirtöðulaust aka á brott án þess að honum þurfi að aka aftur á bak ef eldur kviknar, svo og að þeir, sem staddir eru á áfyllingarsvæði, geti hindrunarlaust forðað sér.

5.2. Handhemla eldsneytisvagna skal setja á áður en áfylling hefst.

5.3. Þegar áfylling á sér stað á viðurkenndum flugvelli skal a. m. k. eitt nægilega stórt slökkvitæki af viðurkenndri gerð vera tiltækt vindmegin við loftfarið. Eftir því sem hægt er skal hafa samskonar búnað við höndina við áfyllingu einnig á öðrum stöðum. Starfsfólk við áfyllingu skal hafa trausta þekkingu á notkun slökkvitækja og á staðsetningu þeirra, svo og á því hvernig kalla má á aðstoð ef með þarf.

Ath.: Slökkvitæki skal skoða, vikta CO2 slökkvitæki o. s. frv., a. m. k. einu sinni á ári. Ennfremur skal skoða innsigli slökkvitækis a. m. k. einu sinni í viku. Þrátt fyrir það skal flugstjórinn og/eða starfslið við áfyllingu skoða innsiglið.

5.4. Eigi má hefja áfyllingu ef kunnugt er um eða tilkynnt hefur verið að hemlar loftfarsins séu óeðlilega heitir.

5.5. Eigi má hefja áfyllingu ef ratsjá loftfarsins er í gangi.

5.6. Forðast skal eldsneytisáfyllingu í þrumuveðri eða ef hætta er á eldingum í nágrenninu.

5.7. Áður en áfylling er hafin skal gengið úr skugga um að jarðtengingar séu í lagi.

a) milli eldsneytisvagns og jarðar (ef því verður við komið),

b) milli eldsneytisvagns (eldsneytisgeymis) og loftfars,

c) milli loftfars og jarðar (ef því verður við komið)

d) milli áfyllingarstúts og áfyllingarops í loftfari, við annars konar áfyllingu en þrýstiloftsáfyllingu.

Ef notuð er trekt skal leiðsla tengd milli trektar og áfyllingarstúts svo og áfyllingarops loftfars.

5.8. Þegar eldsneytisáfylling á sér stað nálægt öðru loftfari með hverfihreyfla í gangi skal sérstaklega gætt eldhættu, sprengihættu og hættu af sterkum loftstraumum sem þar eru.

5.9. Áfylling loftfara með hreyfil í gangi er almennt ekki heimil. Sjá þó undanþágur í gr. 6.4. og 6.5.

5.10. Áfylling má því aðeins eiga sér stað, þar sem aðstoðaraflgjafi (APU, Auxiliary Power Unit) er í gangi að hægt sé að slökkva á honum á augabragði t. d. ef eldsneyti fer niður. Þess skal gætt að eldneytisleiðsla liggi ekki nálægt loftinntaki aðstoðaraflgjafa.

Ekki má setja aðstoðaraflgjafa í gang meðan áfylling stendur yfir.

5.11. Áfyllingu skal framkvæma þannig að forðast sé eftir megni að eldsneyti fari niður. Ef slíkt hendir skal sá, er annast áfyllingu, sjá um að það sé hreinsað burt og tafarlaust skal kalla á slökkvilið flugvallarins eða næsta slökkvilið.

5.12. Sjálflokandi stúta eða öryggisventla (deadman control) skal ekki læsa í opinni stöðu. Ef læsingarhök eða krókar eru á áfyllingarstútum, skal slíkt fjarlægt.

6. gr. ÁFYLLING VIÐ SÉRSTAKAR AÐSTÆÐUR.

6.1. Eldneytisáfyllingu á geyma loftfars inni í flugskýli má því aðeins framkvæma að farið sé eftir fyrirmælum sem hlutaðeigandi slökkvilið hefur gefið í slíku tilviki. Aldrei má taka eldsneyti af flugvélartönkum (defuel) í lokuðum flugskýlum, nema með leyfi og undir eftirliti slökkviliðs.

6.2. Ef eldsneytisáfylling er framkvæmd, þegar farþegar eru um borð í loftfarinu, skal flugstjórinn sjá um að farið sé eftir þeim reglum sem nú greinir:

1. Skýra skal farþegum frá því að áfylling eigi að fara fram, að reykingar séu bannaðar og að meðferð opins elds sé bönnuð. Hafa skal ljós á skiltinu "REYKINGAR BANNAÐAR" meðan áfylling stendur yfir.

2. Venjulegar farþegadyr loftfarsins skulu vera opnar og stigar vera við loftfarið eða felldir út frá því. Ef loftfarið er við bryggju skulu auk útgöngudyra á bryggjunni vera aðrar opnar útgöngudyr með stiga. Loftfar sem hefur stiga sem fella má niður að aftan má hafa stigann uppi en ef með þarf verður að vera hægt að fella hann tafarlaust út.

3. Flugverji skal vera við allar opnar útgöngudyr, sem nefndar eru í lið 2., svo og við stiga að aftan ef hann er uppi.

4. Ekki má vera farangur eða annað þess háttar á gangi milli sæta eða við útgöngudyr. Dyr milli farþegaklefa skulu standa opnar og forhengi dregin frá. Aldrei má taka eldsneyti af eldsneytistönkum loftfars (defuel), þegar farþegar eru um borð, að fara um borð eða ganga frá borði.

Auk þessa er öllum flugverjum, sem á vakt eru, skylt að tilkynna þeim, sem við áfyllingu starfa, tafarlaust ef þeir verða varir við eldsneytisþef í farþegarými eða stjórnklefa. Ef óeðlilegur eldneytisþefur finnst í farþega- og/eða stjórnklefa skal áfyllingu þegar í stað hætt. Í sérstökum flugferðum með fatlaða farþega má aðeins fylla eldsneytisgeyma, þegar farþegar eru um borð, ef björgunar- og slökkvibílar flugvallarins eru í viðbragðsstöðu allan tímann, ef þeirra er kostur, annars annar tiltækur slökkvibúnaður.

6.3. Ef farþegar fara um borð eða frá borði meðan áfylling á sér stað skal flugstjórinn, eða ábyrgur aðili frá flugrekanda eða flugafgreiðslunni, sjá svo um að þeir komi inn á áfyllingarsvæðið.

6.4. Aðeins má, ef alveg sérstaklega stendur á, fylla eldsneyti á geyma þungra flugvéla sem hafa einn hreyfil í gangi og því aðeins að ekki sé unnt að ræsa hreyfla aftur. Skal þá þess gætt að:

1. slík áfyllingaraðferð sé heimiluð af framleiðanda flugvélarinnar eða flugmálastjórn framleiðslulands flugvélarinnar,

2. flugstjórinn eða fulltrúi hans sé viðstaddur og sé í sambandi við mann þann sem framkvæmir áfyllinguna,

3. björgunar- og slökkvibílar flugvallarins séu í viðbragðsstöðu allan tímann, ef þeirra er kostur, annars annar tiltækur slökkvibúnaður,

4. farþegar mega ekki vera um borð,

5. ef stigi, sem hægt er að fella niður að aftan, er á flugvélinni skal hann vera uppi,

6. aðeins má fylla á með þrýstiáfyllingu og þrýstingur sem notaður er, skal vera sá lágmarksþrýstingur sem mælt er með fyrir hlutaðeigandi tegund flugvélar,

7. sjálfvirkan áfyllingarbúnað má ekki taka úr sambandi og nota handstýrðan í hans stað. Ef sjálfvirkur búnaður er ekki tiltækur má ekki fylla geymana alveg

6.5. Flugmálastjórn/loftferðaeftirlit getur í sérstökum tilvikum heimilað, að fyllt sé á geyma annarra loftfara, sem hafa hreyfla í gangi, en um getur í gr. 6.4.

7. gr. REFSIÁKVÆÐI OG GILDISTAKA.

7.1. Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða varðhaldi allt að 6 mánuðum, enda taki

eigi önnur refsiákvæði XIII. kafla laga nr. 34 21. maí 1964 yfir atferlið.

7.2. Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 150. gr. laga um loftferðir nr. 34 21. maí 1964 til

að öðlast gildi 1. júlí 1980, birtist hér með til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.