Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

703/1994

Hafnarreglugerð fyrir Vík í Mýrdal.

1. gr. Takmörk hafnarinnar.

1.1 Hafnarsvæði hafnarinnar í Vík í Mýrdal markast af landamörkum Víkurjarða að vestan og Víkurá í austri, 500 metra til sjávar frá Seilasteini og 100 metra til norðurs (lands).

2. gr. Stjórn hafnarinnar.

2.1 Mýrdalshreppur er eigandi hafnarinnar. Hreppsnefnd fer með stjórn hafnarmála undir yfirumsjón samgönguráðuneytis.

2.2 Hafnarstjórn fer með framkvæmd hafnarmála í umboði hreppsnefndar. Hafnarstjórn skal skipuð 5 fulltrúum, er hreppsnefnd kýs og jafnmörgum til vara og skipar formann hennar og varaformann, sem boðar til funda í hafnarstjórn og stýrir þeim.

2.3 Kjörtímabil hafnarstjórnar skal vera hið sama og hreppsnefndar.

2.4 Hafnarstjóri, eða sá sem sér um daglegan rekstur og eftirlit hafnarinnar á sæti á fundum hafnarstjórnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

2.5 Auk hinna kjörnu fulltrúa á sveitarstjóri sæti í hafnarstjórn með málfrelsi og tillögurétt.

3. gr. Hlutverk og valdsvið hafnarstjórnar.

3.1 Hafnarstjórn gerir fjárhagsáætlun fyrir hafnarsjóð, þar sem fram kemur viðhald hinna ýmsu hafnarvirkja svo og nýbyggingar. Hafnarstjórn skal leggja fjárhagsáætlun fyrir hreppsnefnd til staðfestingar. Hafnarstjórn skal leita staðfestingar hreppsnefndar á lántökum og öðrum fjárhagsskuldbindingum.

3.2. Hafnarstjórn hefur endanlegt ákvörðunarvald um: - Ráðningar fastra starfsmanna, sbr. 5. gr.

- Rekstur hafnarinnar, svo sem ráðstöfun á aðstöðu þ.m.t. leiga á húsnæði í eigu hafnarinnar og landi hennar, sem leigt er til skamms tíma.

- Leyfisveitingar til starfsemi á hafnarsvæðinu og hefur vald til að banna eða takmarka afnot hafnarsvæða fyrir starfsemi er hún telur torvelda eðlilega hafnar starfsemi.

3.3 Hafnarstjórn gerir tillögur til hreppsnefndar varðandi skipulagsmál á hafnarsvæðinu.

Byggingarmál á hafnarsvæðinu skulu hljóta umfjöllun hafnarstjórnar og byggingarnefndar áður en þau eru lögð fyrir hreppsnefnd. Innan hafnar má ekki gera nein hafnarmannvirki, né fylla upp eða dýpka út frá landi, nema leyfi hafnarstjórnar og/eða hreppsnefndar komi til. Hafnarstjóri hefur eftirlit á hafnarsvæðinu, með byggingu mannvirkja, sem undanþegin eru ákvæðum byggingarlaga.

4. gr. Hlutverk hafnarstjóra.

4.1 Hafnarstjóri sem skipaður er af hreppsnefnd að fenginni tillögu hafnarstjórnar fer með daglega stjórn hafnarinnar í umboði hafnarstjórnar. Hafnarstjóri undirbýr mál sem leggja á fyrir hafnarstjórn og veitir viðtökum erindum til hennar. Hann sér um að fjárhagsáætlun sé fylgt og ber ábyrgð á fjárreiðum hafnarsjóðs og ber í hvívetna að gæta hagsmuna hafnarsjóðs. Í erindisbréfi má setja nánari reglur um starfssvið hafnarstjóra.

4.2 Hafnarstjóri skal vinna störf sín í samræmi við ákvæði hafnalaga og hafnarreglugerðar og fara að öðru leyti eftir samþykktum hafnarstjórnar og hreppsnefndar.

4.3. Hafnarstjóri sér um að gætt sé reglu á hafnarsvæðinu. Er öllum skylt að hlýða fyrirmælum hans eða þeirra sem hann felur slík störf. Þyki einhverjum sér óréttur gerður af hafnarstjóra getur hann kært það fyrir hafnarstjórn, en skipun hafnarstjóra ber að hlýða þegar í stað.

5. gr. Aðrir starfsmenn hafnarinnar.

5.1 Hafnarstjórn ræður aðra starfsmenn hafnarinnar en hafnarstjóra.

6. gr. Skilgreining á skipi.

6.1 Skip telst í reglugerð þessari sérhvert fljótandi far, sem nota má sem flutningstæki, dvalarstað, vinnustað, framleiðslustað eða geymslustað.

7. gr. Almennar reglur við komu og brottför.

7.1 Sérhvert fiskiskip skal boða áætlaða komu sína til hafnarstjóra með fjarskiptasambandi eða gegnum umboðsmann með minnst klst. fyrirvara.

8. gr. Lestun og losun, almennt.

8.1 Afnot hafnarvirkja og lands er öllum heimil að fengnu leyfi hafnaryfirvalda og gegn greiðslu samkvæmt gjaldskrá.

8.2 Hafnarstjórn ber enga ábyrgð á varningi eða öðrum eignum, sem geymdar eru á hafnarsvæðinu.

8.3 Við lestun og losun skal viðhafa fyllstu gætni til að koma í veg fyrir óeðlilegt slit mannvirkja og búnaðar.

8.4 Óheimilt er að geyma tækjabúnað á hafnarsvæðinu án leyfis hafnaryfirvalda.

8.5 Þegar lokið er lestun eða losun skal sá er sér hefur um verkið, láta ræsta bryggju þá eða hafnarbakka, sem notuð hefur verið. Farist það fyrir, skal hafnarstjóri sjá um að það sé gert, en afgreiðslumaður skipsins greiði allan kostnað sem af því leiðir.

9. gr. Um hafnargjöld.

9.1 Gjöld til hafnarsjóðs skulu innheimt samkvæmt gjaldskrám er settar skulu í samræmi við ákvæði 11. gr. hafnalaga.

10. gr. Umferð og fleira.

10.1 Þeim sem ekkert lögmætt erindi eiga er bannað að dvelja á landi hafnarinnar, ef þeir með því tálma lestun og losun eða önnur störf, sem þar eru unnin.

10.2 Sand- og malarnám og önnur slík starfsemi er bönnuð á hafnarsvæðinu án leyfis.

11. gr. Varnir gegn mengun og óþrifnaði.

11.1 Engum úrgangi eða rusli má kasta í höfnina.

11.2 Eigi má draga, reka eða flytja á annan hátt inn á hafnarsvæðið skipsflök eða neitt það sem valdið getur óþrifnaði, umferðartruflun eða óþægindum nema leyfi hafnarstjóra komi til.

11.3 Öllum skipum, farartækjum svo og verksmiðjum og öðrum atvinnurekstri er stranglega bannað að dæla eða láta renna í höfnina olíu, lýsi, olíusora eða annað sem veldur mengun.

11.5 Um varnir gegn mengun sjávar og viðurlög við mengunarbrotum fer samkvæmt gildandi lagaákvæðum.

12. gr. Um skaðabótaskyldu.

12.1 Um skaðabótaskyldu vegna skemmda á mannvirkjum hafnarinnar eða áhöldum fer eftir almennum reglum. Ef samningum um skaðabætur verður ekki við komið, má ákveða þær af tveim dómkvöddum mönnum. Hvorum aðila fyrir sig er heimilt að krefjast yfirmats, en gera skal það áður en einn mánuður er liðinn frá því að matsgerð er lokið. Yfirmat skal framkvæmt af þrem dómkvöddum mönnum. Kostnaðinn við yfirmat greiðir sá sem krafðist yfirmats, ef það gengur honum ekki í vil.

13. gr. Brot, sektarákvæði og meðferð mála.

13.1 Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal fara að hætti opinberra mála. Brot gegn reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum lögum. Sektirnar renna í hafnarsjóð Mýrdalshrepps.

13.2 Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt hafnalögum nr. 23/1994, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 21. desember 1994.

Halldór Blöndal.

Jón Birgir Jónsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.