Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

500/2008

Reglugerð um starfsreglur höfundaréttarnefndar og höfundaréttarráðs.

I. KAFLI Höfundaréttarnefnd.

1. gr.

Höfundaréttarnefnd er nefnd sjö sérfróðra manna á sviði höfundaréttar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn og er ráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál í samræmi við 58. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum.

2. gr.

Formaður höfundaréttarnefndar boðar fundi eftir því sem þurfa þykir og stýrir fundum nefndarinnar. Jafnan skal boða varamenn, séu þeir skipaðir, jafnt og aðalmenn á fundi nefndarinnar. Höfundaréttarnefnd fjallar um málefni sem varða höfundarétt, þar á meðal tekur nefndin fyrir erindi sem ráðherra vísar til nefndarinnar og veitir álit um slík erindi. Formaður höfundaréttarnefndar sker úr um hvort nefndin teljist vera ályktunarhæf. Afl atkvæða ræður niðurstöðu nefndarinnar.

3. gr.

Höfundaréttarnefnd skal halda gerðabók. Nefndin skal árlega senda menntamálaráðherra skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.

4. gr.

Menntamálaráðherra ákveður þóknun nefndarmanna.

II. KAFLI Höfundaréttarráð.

5. gr.

Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.

6. gr.

Rétt til setu í höfundaréttarráði eiga fulltrúar eftirtalinna hagsmunaaðila:

  1. Fulltrúar tilnefndir af þeim samtökum sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu ráðuneytisins til meðferðar höfundaréttar, þ.e. Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar - STEF, Myndhöfundafélag Íslands - Myndstef, Innheimtumiðstöð gjalda - IHM og Fjölritunarsamtök Íslands - FJÖLÍS.
  2. Fulltrúar annarra helstu höfundaréttarsamtaka í landinu, þ.e. Félag kvikmyndagerðarmanna, Félag leikritahöfunda, Framleiðendafélagið - SÍK, Hagþenkir - félag höfunda fræðirita og kennslugagna, Félag tónskálda og textahöfunda, Tónskáldafélag Íslands, Félag íslenskra hljómlistarmanna - FÍH, Rithöfundasamband Íslands - RSÍ, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samband íslenskra myndlistarmanna - SÍM, Samtök kvikmyndaleikstjóra - SKL og Samtök myndrétthafa á Íslandi - SMÁÍS.
  3. Fulltrúar annarra hagsmunaaðila er tengjast framleiðslu, flutningi og afnotum efnis sem verndað er að höfundarétti. Þar á meðal teljast: útvarps- og sjónvarpsfyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki, netþjónustufyrirtæki, stéttarfélög, samtök atvinnurekenda, Blindrabókasafn Íslands, Félag íslenskra bókaútgefenda, Félag íslenskra leikara, Félag íslenskra tónlistarmanna Félag leikstjóra á Íslandi, Höfundaréttarfélag Íslands, Leiklistarráð Íslands, Leikskáldafélag Íslands, Ljósmyndarafélag Íslands, Neytendasamtökin, Samband íslenskra auglýsingastofa, Upplýsing - Félag bókasafns- og upplýsingafræða, Viðskiptaráð og talsmaður neytenda.

Þeir sem sæti eiga í höfundaréttarnefnd, skulu og eiga sæti í ráðinu, svo og þeir aðilar sem ráðherra skipar sérstaklega í ráðið.

7. gr.

Menntamálaráðherra eða sá sem hann nefnir í sinn stað skal vera í forsæti á fundum höfundaréttarráðs. Boða skal til fundar í höfundaréttarráði einu sinni á ári, að jafnaði.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. heimild í 58. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 21. apríl 2008.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.