Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

694/1998

Reglugerð um lögverndun á starfsheiti framhaldsskólakennara.

1. gr.

Reglugerð þessi fjallar um útgáfu leyfisbréfa til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og um ráðningu sérfræðinga.

Um útgáfu leyfisbréfa.

2. gr.

Umsókn um leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skal send menntamálaráðuneytinu á þar til gerðum eyðublöðum. Í umsókn skal koma fram um hvaða kennslugrein eða sérsvið sótt er um að tilgreint verði í leyfisbréfi.

Kennslugrein er skilgreind í aðalnámsskrá framhaldsskóla. Jafnframt er heimilt að meta sérgrein í skólanámskrá sem jafngildi kennslugreinar enda sé kennslumagn greinarinnar að mati menntamálaráðuneytsins, sambærilegt við kennslugrein samkvæmt aðalnámskrá.

Sérsvið merkir safn kennslugreina á framhaldsskólastigi sem viðkomandi kennari hefur sérhæft sig í.

3. gr.

Umsækandi um leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skal leggja fram skírteini um lokapróf, yfirlit yfir námsferil og auk þess lýsingu á einstökum námsáföngum sem hann hefur lokið sé þess óskað. Umsækjandi sem leggur fram próf- og námsgögn frá erlendum skóla skal jafnframt leggja fram löggilta þýðingu á prófgögnunum, ef fram á það er farið.

Um skilyrði til að fá útgefið leyfisbréf.

4. gr.

a. Umsækjandi sem lokið hefur námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 120 námseiningum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu 60-90 einingar vera í aðalgrein og 30-60 einingar í aukagrein; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði og kennsluæfingum í samræmi við námskrá viðkomandi kennaramenntunarstofnunar.

b. Umsækjandi sem lokið hefur námi í tæknifræði eða meistaranámi skal auk þess hafa lokið 15 eininga námi í kennslufræði og kennsluæfingum í samræmi við námskrá viðkomandi kennaramenntunarstofnunar, enda hafi viðkomandi að minnsta kosti 2ja ára starfsreynslu og hafi haft nema í samningsbundnu námi.

Með tæknifræði er átt við iðnfræðingsnám við Tækniskóla Íslands ásamt fullgildum prófum eða annað jafngilt nám.

c. Umsækjandi sem lokið hefur öðru fagnámi sem menntamálaráðuneytið viðurkennir og miðast við kennslu í framhaldsskóla. Auk þessa skal hlutaðeigandi hafa lokið 30 eininga námi í uppeldis- og kennslufræðum.

d. Umsækjandi sem lokið hefur öðru jafngildu námi sem hefur að markmiði að veita undirbúning til kennslu á framhaldsskólastigi. Námið skal fólgið í faglegu og kennslufræðilegu námi sem fullnægir kennslufræðilegum kröfum viðkomandi greinar eða sérsviðs að mati menntamálaráðuneytisins.

e. Umsækjandi sem lokið hefur fullnægjandi fagnámi samkvæmt lögum og hefur auk þess lokið prófi frá Kennarskóla Íslands getur fengið útgefið leyfisbréf til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari.

5. gr.

Heimilt er að meta kennslureynslu til 15 eininga af 30 eininga námi í uppeldis- og kennslufræðum enda hafi viðkomandi að minnsta kosti 5 ára starfsreynslu sem kennari og hafi náð góðum árangri í kennslu að mati viðkomandi skólastjórnanda/-stjórnenda.

Um mat á umsóknum.

6. gr.

Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari uppfylli skilyrði laganna og þessarar reglugerðar leitar ráðuneytið umsagnar matsnefndar. Nefndin metur umsóknir með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru til kennara hér á landi samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum. Telji nefndin að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði laga skal hún tilgreina hvað á vantar.

Nefndin skilar rökstuddri umsögn til menntamálaráðherra. Í umsögninni skal vísað til þess lagaákvæðis sem nefndin byggir mat sitt á.

Um ráðningu sérfræðinga.

7. gr.

Skólameistara er heimilt að ráða sérfræðing tímabundið til að kenna sína sérgrein. Starfið má þó ekki fara umfram 6 kennslustundir á viku. Sérfræðingurinn skal hafa fullnægjandi fagmenntun í viðkomandi grein eða á viðkomandi sviði að mati skólameistara en ekki er áskilið að hann hafi hlotið tilskylda menntun í uppeldis- og kennslufræðum.

Ýmis ákvæði.

8. gr.

Gjaldtaka og útgáfa á leyfisbréfi, samkvæmt þessari reglugerð, fer eftir lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.

Um setningu reglugerðar og gildistöku.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 11., 12., 14. og og 15. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 27. nóvember 1998.

Björn Bjarnason.

__________________

Þórunn J. Hafstein.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.