Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

479/1987

Reglugerð um Starfsmenntunarsjóð félaga úr Kennarasambandi Íslands

1. gr.

Sjóðurinn heitir Starfsmenntunarsjóður félaga í Kennarasambandi Íslands og starfar hann með því skipulagi og markmiði sem segir í reglugerð þessari. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Markmið sjóðsins er að tryggja fjárhagslegan grundvöll símenntunar og endurmenntunar fyrir kennara þannig að þeir beri ekki kostnað eða verði fyrir tekjutapi vegna slíks náms.

3. gr.

Stjórn sjóðsins skal skipuð til tveggja ára í senn. Tveir skulu skipaðir af fjármálaráðherra og tveir af stjórn KÍ. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

4. gr.

Tekjur sjóðsins eru:

  1. Framlag úr ríkissjóði er nema skal 0,2% af föstum mánaðarlaunum félagsmanna. Hlutfall þetta skal endurskoðað árlega miðað við þarfir sjóðsins. Um skil á framlagi ríkissjóðs skal höfð hliðsjón af reglum er gilda um skil á orlofsfé.
  2. Vaxtatekjur.

Tekjum sjóðsins skal einungis varið í samræmi við markmið hans, sbr. 2. grein.

5. gr.

Til þess að annast hlutverk sitt er sjóðnum heimilt að beita sér fyrir námskeiðum og annarri fræðslustarfsemi er lýtur að aukinni starfsmenntun sjóðfélaga. Starfsemi þessa er honum heimilt að rækja í samvinnu við aðra aðila.

Þá er sjóðsstjórn m.a. heimilt að veita neðangreindum aðilum fjárstyrki úr sjóðnum til eftirtalinna viðfangsefna:

  1. Einstakra sjóðfélaga til

    1. að sækja námskeið eða nám innanlands eða utan.
    2. rannsókna eða ákveðinna verkefna sem teljast til endurmenntunar þeirra.
  2. Svæðasambanda.eða einstakra félagssamtaka innan KÍ vegna námskeiðahalds á vegum þeirra eða í samstarfi við aðra.

6. gr.

Þeir sem æskja styrks úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn þar að lútandi þar sem fram komi lýsing á því námi eða verkefni sem styrkurinn skal renna til, áætlaðan kostnað, hvenær fyrirhugað er að stunda námið eða verkefni sem styrkur er veittur út á og aðrar þær upplýsingar er sjóðsstjórn kann að telja nauðsynlegar. Á grundvelli þeirra tekur sjóðsstjórn ákvörðun um hvort og hve háan styrk viðkomandi umsækjandi skuli fá. Að jafnaði skal aðeins veita styrk vegna umsóknar sem lýtur að væntanlegum kostnaði umsækjanda. Þó getur sjóðsstjórn veitt styrk vegna kostnaðar sem þegar hefur verið stofnað til innan viðkomandi reikningsárs telji hún slíkt nauðsynlegt vegna sérstæðra aðstæðna. Úthlutun styrkja úr sjóðnum skal fara fram a.m.k. ársfjórðungslega.

7. gr.

Greiðslur úr sjóðnum má aðeins inna af hendi þegar tveir stjórnarmenn, hvor frá sínum aðila hafa samþykkt þær með áritun sinni, t.d. á umsóknir eða reikninga.

8. gr.

Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af ríkisendurskoðun.

Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við aðra aðila um að sjá um störf þau sem nauðsynlegt er að vinna til að tryggja starfrækslu sjóðsins.

9. gr.

Árlega skal stjórn sjóðsins gera skýrslu þar sem gerð skal grein fyrir fjárhag hans og starfsemi síðastliðið reikningsár. Skal skýrsla þessi send fjármálaráðherra annars vegar og stjórn KÍ hins vegar.

10. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt ákvæðum í kjarasamningi ríkisins og Kennarasambands Íslands öðlast þegar gildi. Jafnframt er reglugerð nr. 351 24. júlí 1986 um starfsmenntunarsjóð félaga í Kennarasambandi Íslands innan Bandalags kennarafélaga felld úr gildi.

Fjármálaráðuneytið, 23. október 1987.

F.h.r.

Indriði H. Þorláksson.

Guðrún Ásta Sigurðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.