Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

695/1998

Reglugerð um lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara.

1. gr. Útgáfa leyfisbréfa.

Rétt til að nota starfsheitið grunnskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla sbr. lög nr. 66/1995 um grunnskóla, hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.

Menntamálaráðherra gefur út leyfisbréf handa grunnskólakennurum samkvæmt lögum nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

Umsóknir um leyfisbréf skulu sendar til menntamálaráðuneytinu á þar til gerðum eyðublöðum.

2. gr. Skilyrði fyrir útgáfu leyfisbréfs.

Umsækjandi sem uppfyllir skilyrði 2. gr. laga nr. 86/1998 á rétt á að nota starfsheitið grunnskólakennari og starfa sem slíkur í grunnskólum hér á landi.

Umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skal leggja fram, ásamt umsókn, skírteini um lokapróf, yfirlit yfir námsferil og auk þess lýsingu á einstökum námsáföngum sem hann hefur lokið sé þess óskað. Umsækjandi skal leggja fram próf- og námsgögn frá erlendum skólum ef um slík próf er að ræða og löggilta þýðingu á prófgögnum ef fram á það er farið.

Heimilt er að meta kennslureynslu sem 15 eininga hluta af kennslufræði til kennsluréttinda enda hafi viðkomandi að lágmarki fimm ára kennslureynslu með góðum árangri að mati viðkomandi skólastjóra samkvæmt skriflegri umsögn hans.

3. gr. Matsnefnd.

Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari uppfylli skilyrði 2. gr. laga nr. 86/1998 og ákvæði þessarar reglugerðar, skal leita umsagnar matsnefndar samkvæmt 4. gr. laga nr. 86/1998.

Nefndin metur umsóknir með hliðsjón af kröfum laga og reglugerða um menntun og starfsreynslu grunnskólakennara.

Nám umsækjanda skal metið í námseiningum þar sem hver eining jafngildir námsvinnu einnar viku.

Telji nefndin að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði laga og reglugerða skal hún tilgreina hvað á vantar.

Matsnefndin er ráðgefandi og skila rökstuddri umsögn til menntamálaráðherra.

4. gr. Ýmis ákvæði.

Menntamálaráðherra skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottroð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins í samræmi við skilyrði tilskipunar nr. 89/48/EBE, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.

Skólastjórar skulu, eftir því sem kostur er, sjá til þess að grunnskólakennarar í 8.-10. bekk kenni þær greinar sem þeir hafa sérhæft sig í.

Um gjaldtöku vegna útgáfu leyfisbréfa samkvæmt reglugerð þessari fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum í 2., 4. og 5. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 27. nóvember 1998.

Björn Bjarnason.

__________________

Þórunn J. Hafstein.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.