Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

654/2009

Reglugerð um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi kveður á um rétt nemenda í framhaldsskólum, sem hafa annað móðurmál en íslensku, eða hafa dvalist langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku, til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

Í reglugerð þessari er jafnframt kveðið á um tilhögun námsins og um námsmat.

2. gr. Markmið.

Nám samkvæmt reglugerð þessari skal miða að því að nemendur verði færir um að skilja og nota íslenskt mál, stunda nám í framhaldsskóla og taka virkan þátt í íslensku samfélagi.

3. gr. Móttökuáætlun skóla.

Framhaldsskólar skulu setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Áætlunin skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu og stuðningi sem veitt er.

Í móttökuáætlun felst m.a. að:

  1. unnið sé í nánu samstarfi við þann grunnskóla hér á landi sem nemandi kemur frá, sé um slíkt að ræða,
  2. skóli safni upplýsingum um bakgrunn nemenda og aðstæður foreldra, til að geta mætt einstaklingsbundnum þörfum þeirra sem best,
  3. gerð sé einstaklingsnámskrá sem taki mið af bakgrunni og málasvæði nemenda, tungumálafærni, kunnáttu og hæfni á öðrum námssviðum,
  4. skipuleggja samráð milli starfsfólks og sérfræðinga innan skólans um málefni nemenda,
  5. nemendum sé tryggður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf skólans,
  6. styrkja félagsleg tengsl og gagnkvæma félagslega aðlögun milli erlendra nemenda og íslenskra til að rjúfa félagslega einangrun, sé hún til staðar,
  7. í upplýsingagjöf til nemenda og foreldra sé gerð grein fyrir helstu starfsháttum skóla, þjónustu, samstarfi og reglum,
  8. tryggja að upplýsingar um annan stuðning séu fyrir hendi, s.s. um heimanám og aðra aðstoð, túlkaþjónustu, samstarf við heimilin, foreldraviðtöl og -fundi, þjónustu í hverfi og nærsamfélagi og samstarf við stofnanir utan skóla,
  9. tryggja upplýsingagjöf til nemenda og foreldra um starfsemi skólans utan lögbundinnar kennslu, s.s. um félags- og tómstundastarf og íþrótta- og æskulýðsstarf.

Gera skal grein fyrir móttökuáætlun í skólanámskrá.

Móttökuáætlun skal vera aðgengileg nemendum og foreldrum, t.d. á vef skóla.

4. gr. Skipulag og framkvæmd kennslu.

Framhaldsskóli skal bjóða upp á sérstakt nám í íslensku sem öðru tungumáli fyrir þá nemendur sem hafa annað móðurmál eða litla kunnáttu í íslensku. Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa ekki nægjanlegt vald á íslensku til að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Þetta á jafnt við um nemendur af íslenskum og erlendum uppruna.

Íslenska sem annað tungumál felur í sér þjálfun í íslensku og virka þátttöku í íslenskri menningu, menningarfærni, viðhald læsis og þekkingu í öllum námsgreinum. Viðfangsefni íslenskukennslunnar eru samræmd og samhæfð öllum námsgreinum og leitast skal við að þróa námsaðferðir og námstækni til að mæta þörfum nemenda. Miða skal við að námið treysti kunnáttu nemenda og efli skilning þeirra á hugtökum í námsgreinum til undirbúnings frekara námi í framhaldsskóla. Birta skal í skólanámskrá lýsingu á áföngum sem í boði eru í íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.

5. gr. Móðurmál nemenda.

Framhaldsskóla er heimilt að meta móðurmál nemenda til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað annars erlends tungumáls.

Miða skal við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein, óski þeir þess.

Framhaldsskóli getur boðið upp á slíkt nám í staðnámi eða fjarnámi eða metið nám sem stundað er annars staðar. Viðkomandi framhaldsskóli þarf þá að veita samþykki fyrir náminu óski nemandi eftir að fá slíkt nám metið til eininga. Framhaldsskóli er ekki ábyrgur fyrir náminu en getur verið tengiliður, t.d. við gagnasöfn, bókasöfn, félög og annað það sem veitir nemendum aðgang að kennslu í eigin móðurmáli.

6. gr. Gildistími.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 35. gr. laga, nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 329/1997 um sérstaka íslenskukennslu í framhaldsskólum.

Menntamálaráðuneytinu, 2. júlí 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Baldur Guðlaugsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.