Menntamálaráðuneyti

225/1995

Reglugerð um starfsemi leikskóla. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til leikskóla sem starfa á grundvelli laga nr. 78/1994 og kveður hún á um þá þætti í rekstri leikskóla sem eru grunnforsendur þess að uppeldismarkmiðum 2. gr. laganna verði náð.

II. KAFLI

Húsnæði, búnaður og útileiksvæði.

2. gr.

Húsnæði leikskóla skal miðað við 7,0 m2 brúttó fyrir hvert barn samtímis í leikskóla utan þess tíma sem hópar skarast, þar af verði nettó leik- og kennslurými a.m.k. 3,0 m2 fyrir hvert barn.

3. gr.

Við hönnun leikskólahúsnæðis skal gert ráð fyrir að hver deild eða starfseining hafi húsaskipan er miðist við að mögulegt sé að starfa í samræmi við uppeldis- og námssvið í uppeldisáætlun fyrir leikskóla.

Við hönnun húsnæðis skal gert ráð fyrir: Leikstofum, aðstöðu barna til hvíldar og hreyfileikja; snyrtiaðstöðu fyrir börn, fataherbergi með þurrkaðstöðu; geymslum, þ.m.t. geymslu fyrir útiáhöld og vagna þar sem starfsemin gefur tilefni til; skrifstofu leikskólastjóra, viðtalsherbergi, sameiginlegu rými til funda foreldra og starfsfólks, aðstöðu til undirbúnings vinnu starfsmanna; matar- og hreinlætisaðstöðu starfsfólks; eldhúsi, matvælageymslum og ræstiherbergi.

Gera skal ráð fyrir aðgengi og aðstöðu fyrir fötluð börn og börn með sérþarfir og vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk sem vinnur með þeim börnum.

4. gr.

Við val á búnaði fyrir börn í leikskóla skal taka mið af aldri og þörfum leikskólabarna. Til búnaðar teljast m.a. innanstokksmunir, leiktæki, ýmis áhöld sem börn nota í leik og starfi, hljómflutningstæki og nýsitæki.

5. gr.

Við hönnun nýrra útileiksvæða og þar sem því verður við komið við eldri leikskóla skal miðað við a.m.k. 30-40 m2 fyrir hvert barn. Útileiksvæði skal þó aldrei vera minna en 20 m2 fyrir hvert barn.

>Leiksvæði skal hannað með áherslu á sem mesta fjölbreytni í leikaðstöðu og að umhirða þess sé auðveld.

III. KAFLI

Starfslið og barnafjöldi.

6. gr.

Fyrir hvert stöðugildi leikskólakennara, sem sér um umönnun, uppeldi og menntun barna í leikskóla, skulu vera 8 barngildi samkvæmt reiknireglu 7. gr. Þessu til viðbótar koma störf leikskólastjóra, störf vegna sérstaks stuðnings, afleysinga og ræstinga og störf í eldhúsi samkvæmt mati rekstraraðila miðað við stærð leikskóla.

7. gr.

Ákvörðun um nýtingu húsnæðis og starfsmannaþörf leikskóla skal annars vegar háð lágmarkskröfum um fermetrafjölda húsnæðis fyrir hvert barn sbr. 2. gr. og er þá miðað við fjölda barna sem eru í leikskólanum samtímis og hins vegar fjölda barna miðað við stöðugildi sbr. 6. gr.

Barngildi leikskólabarna reiknast þannig:

> 5 ára barn reiknast sem 1,0 barngildi.

4ra ára barn reiknast sem 1,0 barngildi.

3ja ára barn reiknast sem 1,3 barngildi.

2ja ára barn reiknast sem 1,6 barngildi.

Eins árs barn eða yngri reiknast sem 2,0 barngildi.

Stöðugildi vegna barna sem þurfa sérstakan stuðning fer eftir ákvörðun rekstraraðila og taka skal tillit til þess hvort aukastarfsmaður er ráðinn til stuðnings barninu.

Við ákvörðun um nýtingu húsnæðis og starfsmannaþörf leikskóla skal barngildi reiknað út samkvæmt reiknireglu 2. mgr. og tillit tekið til hversu mörg barngildi eru samtímis í leikskólanum. Þannig ræður fjöldi barngilda fjölda stöðugilda við leikskólann.

IV. KAFLI

Hlutverk leikskólanefnda.

8. gr.

Leikskólanefndir skulu skv. 9. gr. laga nr. 78/1994 fara með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Sveitarstjórnir setja leikskólanefndum erindisbréf og ákveða með því starfssvið leikskólanefnda í samræmi við ákvæði laga nr. 78/1994 og reglugerð þessa.

9. gr.

Leikskólanefndir skulu ábyrgjast gerð ársskýrslu skv. 7. gr. laga nr. 78/1994 og gerð áætlana um uppbyggingu leikskóla skv. 8. gr. laganna og senda sveitarstjórn.

10. gr.

Leikskólanefndir eru umsagnaraðilar um leyfisveitingar vegna reksturs leikskóla í sveitarfélaginu, sbr. 7. gr. laga nr. 78/1994 og hafa að jafnaði eftirlitsskyldu með starfi í þeim leikskólum sem veitt er rekstrarleyfi svo og þeim leikskólum er reknir eru á vegum sveitarfélaga.

Þegar leikskóli er rekinn af öðrum aðila en sveitarfélagi getur rekstraraðili óskað eftir því að eftirlit með starfi leikskólans sé falið öðrum aðilum sem menntamálaráðuneytið samþykkir.

Er sveitarstjórn veitir rekstrarleyfi skv. 1. mgr. skal rekstaraðila gerð grein fyrir upplýsingaskyldu skv. 16. gr. reglugerðar þessarar.

11. gr.

Leikskólanefndir hafa eftirlit með því að lögum nr. 78/1994, reglugerð þessari og uppeldisáætlun sé framfylgt í sveitarfélaginu.

Leikskólanefndir skulu gera tillögur til sveitarstjórnar um ráðningu leikskólafulltrúa skv. 11. gr. laga nr. 78/1994.

12. gr.

Leikskólanefndir skulu stuðla að og styrkja starfsemi foreldrafélaga leikskóla og samstarf þeirra við starfsmenn leikskóla.

Leikskólanefndir skulu veita upplýsingar og fræðslu m.a. um réttindi og skyldur foreldra leikskólabarna og móta stefnu um samstarf leikskóla og foreldra í sveitarfélaginu, í samráði við leikskólastjóra, fulltrúa foreldra og eftir atvikum aðra aðila.

13. gr.

Leikskólanefndir skulu stuðla að samstarfi leikskóla og grunnskóla í samræmi við uppeldisáætlun fyrir leikskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Þær skulu jafnframt stuðla að gagnvirkum tengslum leikskólauppeldis og grunnskólakennslu.

V. KAFLI

Upplýsingar um starfsemi leikskóla.

14. gr.

Menntamálaráðuneytið skal árlega afla upplýsinga um tiltekna þætti í starfsemi leikskóla, sbr. 15. og 16. gr. reglugerðar þessarar. Sveitarstjórn skal senda menntamálaráðuneytinu ársskýrslu leikskóla fyrir 1. júní ár hvert. Í sveitarfélögum þar sem reknir eru tveir leikskólar eða fleiri skal senda menntamálaráðuneytinu eina ársskýrslu sameiginlega fyrir alla leikskóla sem reknir eru í sveitarfélaginu. Ákvæði þetta tekur til allra leikskóla og er leikskólum sem starfa á grundvelli rekstrarleyfis skv. 7. gr. laga nr. 78/1994 skylt að gefa leikskólanefnd umbeðnar upplýsingar.

15. gr.

Ár hvert skal menntamálaráðuneytið afla upplýsinga frá sveitarstjórn um heildarfjölda leikskóla í sveitarfélaginu, þ.m.t. fjölda leikskóla sem reknir eru af öðrum aðilum en sveitarfélagi.

Árlega skal afla upplýsinga um fjölda barna og barngilda í leikskóla, fjölda starfsfólks á leikskólum, fjölda barna á biðlistum, fjölda barna sem njóta sérstaks stuðnings og upplýsingar um rekstrarkostnað leikskóla í sveitarfélaginu.

Á tveggja ára fresti skal leikskólanefnd skila áætlun til menntamálaráðuneytis um byggingu nýrra leikskóla sbr. 8. gr. laga nr. 78/1994.

16. gr.

Menntamálaráðuneytið getur óskað upplýsinga með ársskýrslu skv. 15. gr. og geta þær snúið að leikskólum almennt í sveitarfélaginu eða einstökum leikskólum. Upplýsingarnar geta verið um eftirtalin atriði:

Upplýsingar um leikskólabyggingar í sveitarfélaginu, stærð þeirra, aldur og fleira.

Upplýsingar um stofnun nýrra leikskóla eða breytingar á eldri skólum

Uppeldisstarf leikskóla, uppeldisstefnu og áherslu á uppeldis- og námssvið í leikskólastarfinu og fleira.

Gæðamat, s.s. framkvæmd og niðurstöður innra gæðamats.

Öryggismál leikskóla, s.s. mat starfsmanna á aðstæðum innanhúss, á útileiksvæði og fleira.

Foreldrasamstarf, eðli þess og umfang.

Samstarf starfsfólks og við aðra utanaðkomandi aðila.

Fræðslu starfsfólks, foreldra og barna.

Menntamálaráðherra getur ákveðið hverju sinni hverjar aðrar upplýsingar teljast nauðsynlegar í ársskýrslu. Leikskólanefndum er skylt að afla umbeðinna upplýsinga.

VI. KAFLI

Samstarf leikskóla og foreldra.

17. gr.

Markmið með samstarfi leikskóla og foreldra leikskólabarna er að stuðla að velferð barnanna sbr. 3. lið 2. gr. laga nr. 78/1994. Tengsl leikskóla og foreldra styrkja uppeldisstarf leikskóla og ytri umgerð starfseminnar. Er það byggt á því að leikskólabörn, foreldrar og starfsfólk leikskóla hafa ýmissa sameiginlegra hagsmuna að gæta. Gera skal ráð fyrir slíku samstarfi við skipulagningu starfsins í samræmi við uppeldisáætlun fyrir leikskóla.

18. gr.

Samstarf leikskóla við foreldra skal byggja á þeirri forsendu að foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna.

Samstarf fer m.a. fram í daglegum samskiptum og sérstökum viðtölum starfsmanna og foreldra og samstarfi á vettvangi félags foreldra. Gera skal ráð fyrir að samstarf nái jafnt til samvinnu um ytri starfsskilyrði og umhverfi leikskóla og atriða sem varða uppeldishlutverk leikskólans, innan ramma uppeldisáætlunar.

19. gr.

Frumkvæði að stofnun foreldrafélags við leikskóla getur hvort sem er komið frá foreldrum, leikskólastjóra eða öðrum starfsmönnum leikskóla eða frá leikskólanefnd. Í öllum tilvikum skal leikskólastjóri aðstoða við stofnun félags.

>Foreldrafélag hvers leikskóla setur sér starfsreglur.

VII. KAFLI

Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta.

20. gr.

Öllum sveitarfélögum, er standa að rekstri leikskóla eða hafa heimilað rekstur leikskóla, er skylt að sjá leikskólum fyrir ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 78/1994.

Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta getur, eftir aðstæðum á hverjum stað, verið skipulögð sem sérstök þjónusta á vegum sveitarfélaga, sem hluti af annarri ráðgjafarþjónustu eða sameiginlega með ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.

Áhersla skal lögð á að starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu hafi uppeldis- og sálfræðimenntun með sérþekkingu á málefnum barna á leikskólaaldri.

Sveitarfélögum ber að tryggja að starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla hafi aðgang að stofnunum sem hafa yfir öðrum sérfræðingum að ráða.

21. gr.

Starfshættir ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla skulu mótast af heildarsýn á barnið og allar aðstæður þess.

Starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu skulu vinna að forvarnarstarfi með athugunum og greiningu á börnum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum og koma með tillögur um úrbætur. Leikskólastjóri og forsjáraðilar geta óskað eftir slíkri athugun. Á grundvelli greiningar vísar ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta á viðeigandi úrræði.

Þá skal ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta gefa forsjáraðilum og leikskólakennurum kost á ráðgjöf og leiðbeiningum um uppeldi og menntun barna eftir því sem aðstæður leyfa.

VIII. KAFLI

Aðstoð og þjálfun leikskólabarna.

22. gr.

Telji leikskólastjóri, leikskólakennari og forsjáraðilar að barn þarfnist sérstakrar aðstoðar eða þjálfunar til að geta notið leikskóladvalar sem best, ber þeim að hafa samráð um hvort unnt sé að leysa málið innan leikskólans og/eða hvort leitað skuli til ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. Verði aðilar sammála um að leita eftir slíkri þjónustu, er leikskólastjóra skylt að hafa þar forgöngu.

Megnistefnan skal vera sú að þessi aðstoð og/eða þjálfun fari fram í leikskóla barnsins.

23. gr.

Leikskólastjóri ábyrgist að gerðar séu áætlanir, sem byggja á uppeldisáætlun leikskóla, fyrir hvert barn er þarf sérstaka aðstoð og þjálfun. Áætlanir skulu stuðla að því að auka færni barnsins miðað við þroskastig þess.

>Leikskólastjóri/leikskólakennarar skipuleggja í samráði við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu sérstaka aðstoð og þjálfun barna í leikskólanum. Ávallt skal taka tillit til heildaraðstæðna barnsins, hvort sem aðstoðin eða þjálfunin er sniðin að einstaklingi eða hópi barna.

IX. KAFLI

Aðgangur að upplýsingum.

24. gr.

Foreldrar/forsjáraðilar skulu hafa aðgang að persónulegum upplýsingum er varða börn þeirra og eru í vörslu starfsmanna leikskóla og ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, sbr. 29 gr. a laga nr. 20/1992. Með allar slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

Að fengnu leyfi forsjáraðila er leikskólastjóra og forstöðumönnum ráðgjafar og sálfræðiþjónustu heimilt að miðla upplýsingum um börn sem ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta hefur sinnt, enda þjóni upplýsingagjöfin hagsmunum og velferð barna og nafnleyndar gætt.

Einnig er heimilt að veita menntamálaráðuneytinu þessar upplýsingar og öðrum vegna fræðilegra rannsókna enda sé farið með þær upplýsingar sem trúnaðarmál.

X. KAFLI

Gæðaeftirlit og gæðamat.

25. gr.

Í uppeldisáætlun fyrir leikskóla skulu vera leiðbeiningar og tillögur um matsaðferðir í leikskólum. Sérhver leikskóli skal móta aðferðir til að meta uppeldisstarf svo og stjórnunarhætti, samskipti innan leikskólans og tengsl við aðila utan hans. Gera skal grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum innra gæðamats í ársskýrslu um starfsemi leikskóla.

26. gr.

Ár hvert skal af hálfu menntamálaráðuneytis fara fram mat á að a.m.k. einum leikskóla. Mati þessu er ætlað að tryggja að starfsemi leikskóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerðar þessarar og uppeldisáætlun fyrir leikskóla. Menntamálaráðuneytið felur sérfræðingum með þekkingu á málefnum barna á leikskólaaldri að annast framkvæmd slíks mats. Við mat á leikskólum skal m.a. kanna viðhorf foreldra til starfsemi leikskólans.

>Niðurstöður af gæðamati í leikskólum og starfsemi þeirra skulu m.a. hafðar til hliðsjónar við endurskoðun uppeldisáætlunar.

XI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

27. gr.

Menntamálaráðuneytið hefur umsjón með Þróunarsjóði leikskóla og setur reglur um styrkveitingar úr sjóðnum.

28. gr.

Um heislugæslu og hollustuhætti í leikskólum fer eftir gildandi lögum og reglugerðum.

Um byggingu leikskóla og öryggi barna í leikskólum, að öðru leyti en reglugerð þessi tiltekur, fer á hverjum tíma eftir gildandi lögum og reglugerðum um m.a. öryggis-, skipulags-, og byggingarmál.

29. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 6. gr. laga nr. 78/1994 um leikskóla og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 6. apríl 1995.


Ólafur G Einarsson.

 
Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica