Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

939/2013

Reglugerð um Hljóðbókasafn Íslands.

1. gr.

Heiti stofnunarinnar er Hljóðbókasafn Íslands og starfar það á grundvelli ákvæða bókasafnalaga.

Hljóðbókasafn Íslands er í eigu ríkisins og fer ráðherra með yfirstjórn þess.

2. gr.

Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni. Hér getur m.a. verið um að ræða blinda, sjónskerta, lesblinda o.fl. Sérstök áhersla skal lögð á námsþjónustu.

3. gr.

Safnið annast framleiðslu, útgáfu og dreifingu á safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda, og í því formi sem er viðeigandi hverju sinni.

Safnið skal leitast við að koma sér upp sem fjölbreyttustum bókakosti til útlána.

4. gr.

Safnið leggur sérstaka áherslu á þjónustu við námsmenn, meðal annars með framleiðslu námsefnis og einstaklingsbundinni þjónustu. Í þeim tilgangi skal safnið efna til samstarfs við þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins.

5. gr.

Hljóðbókasafnið gerir samning við Rithöfundasamband Ísland um rétt til að framleiða og dreifa ritverkum til notenda sinna á grundvelli heimildar í höfundalögum.

Safninu er heimilt að gera þjónustu- og samstarfssamninga við aðra aðila til að efla þjónustu sína.

6. gr.

Safnið kynnir þjónustu sína þegar þörf þykir á fyrir fagaðilum og stofnunum, svo sem skólum, kennurum, námsráðgjöfum, samtökum fatlaðra og öðrum félögum notenda.

7. gr.

Ráðherra skipar forstöðumann Hljóðbókasafns Íslands til fimm ára í senn. Skal forstöðumaður hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.

Forstöðumaður stjórnar starfsemi og rekstri Hljóðbókasafns Íslands. Hann ræður starfsmenn þess, er í fyrirsvari fyrir safnið og er ábyrgur fyrir starfsemi þess og rekstri.

Hann ber ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma safnsins séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir safnsins séu nýttir á árangursríkan hátt. Hann gerir árlegar fjárhagsáætlanir vegna undirbúnings fjárlaga, sem ráðuneytið fer fram á.

8. gr.

Ráðherra skipar sex manna samráðshóp um málefni Hljóðbókasafns Íslands í samræmi við ákvæði bókasafnalaga.

Samráðshópurinn er forstöðumanni Hljóðbókasafns Íslands til samráðs og ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni sem varða starfsemi þess, t.d. um starfsáætlanir, framboð þjónustu og nýjungar í starfseminni, sem líklegt er að skipti miklu í starfsemi safnsins.

Forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands situr fundi hópsins með málfrelsi og tillögurétt og ritar fundargerð.

9. gr.

Kostnaður við starfsemi Hljóðbókasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

Hljóðbókasafnið hefur heimild til gjaldtöku vegna þjónustu sinnar á grundvelli ákvæða bókasafnalaga. Gjaldskrá þess skal staðfest af ráðherra.

Tekjum safnsins skal varið í þess þágu.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli heimildar í bókasafnalögum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 799/2002 um Blindrabókasafn Íslands.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 7. október 2013.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.