Mennta- og menningarmálaráðuneyti

461/2011

Reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið með reglugerð þessari er að innleiða reglur um réttindi til að bera starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar á Íslandi samkvæmt EES-samningnum og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem og viðauka við hana eins og þeir eru á hverjum tíma (sbr. fylgiskjal I), hér eftir nefnd tilskipun, eða samkvæmt Norðurlandasamningi um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir tilteknar heilbrigðis- og hjúkrunarstéttir og dýralækna, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 36/1993, sbr. breytingu nr. 6/2001.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um rétt til að bera starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar hér á landi, fyrir umsækjendur frá EES-ríki, sem hafa aflað sér fullnægjandi faglegrar menntunar og hæfis í öðru EES-ríki og sem vilja starfa sem slíkir hér á landi samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn, lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:

1. EES-samningurinn: Samningurinn milli Evrópusambandsins og Íslands, Noregs og Liechtenstein sem undirritaður var 2. maí 1992 og gekk í gildi 1. janúar 1994.

2. Norðurlandasamningurinn: Samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir tilteknar heilbrigðis- og hjúkrunarstéttir og dýralækna sem undirritaður var 14. júní 1993 og gekk í gildi 1. janúar 1994, með síðari breytingum.

3. Lögvernduð starfsgrein: Atvinnustarfsemi innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem heimild til þess að starfa innan hennar eða notkun starfsheitis er háð fyrirmælum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla um sérstaka faglega menntun og hæfi.

4. Fagleg menntun og hæfi: Menntun og hæfi sem hefur verið staðfest með sérstökum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, hæfnisvottorði og/eða starfsreynslu, sbr. fylgiskjal II.

5. Vitnisburður um formlega menntun og hæfi: Prófskírteini, vottorð og annar opinber vitnisburður sem staðfestir að faglegu námi hafi verið lokið á fullnægjandi hátt.

6. Lögbært stjórnvald: Hvert það stjórnvald eða stofnun sem hefur með höndum útgáfu eða móttöku á prófskírteinum og öðrum skjölum eða upplýsingum sem varða umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

7. Lögvernduð menntun: Hver sú menntun sem er sérstaklega sniðin að því að leggja stund á tiltekna starfsgrein innan heilbrigðisþjónustunnar og tekur til náms eða námskeiða sem fela jafnframt í sér, eftir því sem við á, faglegt nám, starfa á reynslutíma eða starfsreynslu.

8. Starfsreynsla: Raunveruleg og lögmæt stundun viðkomandi starfsgreinar.

9. Aðlögunartími: Að leggja stund á lögverndaða starfsgrein hér á landi á ábyrgð aðila sem viðurkenndur er hæfur í þeirri starfsgrein, auk hugsanlega frekari þjálfunar.

10. Hæfnispróf: Prófun á fagþekkingu umsækjanda lagt fyrir af þar til bærum aðila hér á landi með það fyrir augum að meta hæfni umsækjanda til að starfa innan lögverndaðra starfsgreina.

11. Tilskipun: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum og viðaukum.

4. gr.

Áhrif viðurkenningar.

Heilbrigðisstarfsmaður, sem er ríkisborgari aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða ríkis sem samið hefur verið við um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda, á rétt á starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari og til að starfa innan löggiltrar heilbrigðisstéttar eða til að veita tímabundna þjónustu hér á landi með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara, enda uppfyllir hann skilyrði:

a. tilskipunarinnar, sem og viðauka við hana eins og þeir eru á hverjum tíma, eða

b. Norðurlandasamningsins.

II. KAFLI

Sjálfkrafa viðurkenning,

útgáfa starfsleyfa og sérfræðileyfa á grundvelli samræmingar
lágmarkskrafna um menntun.

5. gr.

Starfsleyfi á grundvelli vitnisburðar um formlega menntun og hæfi.

Umsækjandi á rétt á starfsleyfi sem læknir, hjúkrunarfræðingur, tannlæknir, ljósmóðir eða lyfjafræðingur leggi hann fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi:

a. fyrir lækna samkvæmt tilskipun, V. viðauka, V.1. Læknir, 5.1.1. og eftir atvikum vottorð um viðbótarnám (kandídatsár),

b. fyrir hjúkrunarfræðinga samkvæmt tilskipun, V. viðauka, V.2. Hjúkrunarfræðingur í almennri hjúkrun, 5.2.2.,

c. fyrir tannlækna samkvæmt tilskipun, V. viðauka, V.3. Tannlæknar, 5.3.2.,

d. fyrir ljósmæður samkvæmt tilskipun, V. viðauka, V.5. Ljósmæður, 5.5.2.,

e. fyrir lyfjafræðinga samkvæmt tilskipun, V. viðauka, V.6. Lyfjafræðingar, 5.6.2.

Umsækjandi sem leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem ekki er í samræmi við þau starfsheiti sem um getur í 1. mgr., á rétt á að fá starfsleyfi leggi hann fram staðfestingu frá lögbæru stjórnvaldi í EES-ríki sem gaf út vitnisburð um formlega menntun og hæfi um að menntunin sé í samræmi við kröfur tilskipunarinnar og að vitnisburðurinn sé jafngildur vitnisburði sem nefndur er í tilskipuninni.

Starfsleyfi sem ljósmóðir skv. 1. og 2. mgr. skal einungis veitt ef vitnisburður um formlega menntun og hæfi uppfyllir eitt af eftirfarandi skilyrðum:

a. fullt nám í ljósmóðurfræðum í a.m.k. þrjú ár:

1. hefur annaðhvort undir höndum prófskírteini, vottorð eða annan vitnisburð um menntun og hæfi sem veitir aðgang að háskóla eða æðri menntastofnun eða staðfestir á annan hátt samsvarandi þekkingu eða

2. lýkur til viðbótar tveggja ára starfsreynslu sem er staðfest með vottorði í samræmi við 4. mgr.,

b. fullt nám í ljósmóðurfræðum sem stendur í a.m.k. tvö ár eða 3.600 klukkustundir, að því tilskildu að viðkomandi hafi undir höndum vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem hjúkrunarfræðingur í almennri hjúkrun, sem um getur í tilskipuninni lið 5.2.2 í V. viðauka,

c. fullt nám í ljósmóðurfræðum sem stendur í 18 mánuði eða a.m.k. 3.000 klukkustundir, að því tilskildu að viðkomandi hafi undir höndum vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem hjúkrunarfræðingur í almennri hjúkrun, sem um getur í tilskipuninni lið 5.2.2 í V. viðauka, og á eftir komi starfsreynsla sem er staðfest með vottorði sem er gefið út í samræmi við 4. mgr.

Vottorðið, sem um getur í 2. tölul. a-liðar eða c-lið 3. mgr., skal gefið út af lögbæru stjórnvaldi þess ríkis sem gaf út vitnisburð um formlega menntun og hæfi. Það skal staðfesta að handhafi hafi, eftir að hafa fengið vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem ljósmóðir, starfað í tvö ár með fullnægjandi hætti sem ljósmóðir á sjúkrahúsi eða heilsugæslustofnun sem er viðurkennd í þessu skyni.

Jafngilt vottorði skv. 2. tölul. a-liðar og c-lið 3. mgr. er vottorð sem gefið er út af lögbæru stjórnvaldi sem staðfestir að umsækjandi hafi með fullnægjandi og lögmætum hætti gegnt starfi ljósmóður í a.m.k. tvö ár samfellt á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfu vottorðs.

6. gr.

Starfsleyfi á grundvelli áunninna réttinda.

Umsækjandi um starfsleyfi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem ekki er nefndur í V. viðauka tilskipunarinnar á rétt á starfsleyfi sem læknir, hjúkrunarfræðingur, tannlæknir, ljósmóðir eða lyfjafræðingur ef umsækjandi framvísar:

a. vitnisburði um formlega menntun og hæfi sem annaðhvort er gefið út fyrir eða varðar menntun sem hófst fyrir viðmiðunardagsetningu skv. V. viðauka tilskipunarinnar:

1. fyrir lækna, lið 5.1.1,

2. fyrir hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun, lið 5.2.2,

3. fyrir tannlækna, lið 5.3.2,

4. fyrir ljósmæður, lið 5.5.2,

5. fyrir lyfjafræðinga, lið 5.6.2 og

b. vottorði sem staðfestir að umsækjandi hafi í reynd og með lögmætum hætti gegnt umræddum störfum í a.m.k. þrjú ár samfellt á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfu vottorðsins. Fyrir hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun skulu störfin hafa falið í sér fulla ábyrgð á áætlanagerð, skipulagningu og stjórnun hjúkrunar sjúklinga.

Umsækjandi um starfsleyfi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi frá fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu, fyrrum Tékkóslóvakíu, fyrrum Sovétríkjunum og fyrrum Júgóslavíu á rétt á starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum samkvæmt fylgiskjali III.

7. gr.

Starfsleyfi á grundvelli sérstakra áunninna réttinda.

Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem hjúkrunarfræðingur frá Póllandi og Rúmeníu sem annaðhvort er útgefið fyrir þau tímamörk sem koma fram í lið 5.2.2 V. viðauka tilskipunarinnar eða varðar menntun sem hefur hafist fyrir þau tímamörk, á aðeins rétt á starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur ef uppfyllt eru þau skilyrði sem fram koma í fylgiskjali IV.

Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem tannlæknir frá EES-ríki sem ekki uppfyllir skilyrði 5. og 6. gr. á rétta starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum samkvæmt fylgiskjali V.

Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem ljósmóðir frá yfirráðasvæði fyrrum Þýska alþýðulýðveldisins, Rúmeníu eða Póllandi á einungis rétt á starfsleyfi sem ljósmóðir að uppfylltum skilyrðum samkvæmt fylgiskjali VI.

8. gr.

Sérákvæði um lækna og hjúkrunarfræðinga frá Búlgaríu.

Handhafar vitnisburðar frá Búlgaríu (feldsher) sem gefinn er út fyrir 31. desember 1999 eiga ekki rétt á viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi innan EES-svæðisins sem læknar eða sem hjúkrunarfræðingar í almennri hjúkrun.

9. gr.

Sérfræðileyfi á grundvelli vitnisburðar um formlega menntun og hæfi.

Umsækjandi á rétt á starfsleyfi sem sérfræðingur í læknisfræði eða tannlæknisfræði ef:

a. sérgreinin er viðurkennd á Íslandi,

b. hann hefur starfsleyfi sem læknir eða tannlæknir skv. 5., 6. eða 7. gr.,

c. hann leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi skv. lið 5.1.2 og 5.1.3 V. viðauka tilskipunarinnar sem sérmenntaður læknir og lið 5.3.3 V. viðauka tilskipunarinnar sem sérmenntaður tannlæknir og

d. hann leggur fram, ef við á, eftir atvikum vottorð um starfsreynslu (kandídatsár).

Umsækjandi sem ekki uppfyllir skilyrði c-liðar 1. mgr. sem sérfræðingur innan læknisfræði á þó rétt á starfsleyfi sem sérfræðingur ef hann uppfyllir skilyrði íslenskra reglna um sérfræðiviðurkenningu. Við mat skal tekið tillit til tímalengdar og innihalds náms umsækjanda, starfsreynslu og viðbótarnáms innan læknisfræðinnar almennt. Sérfræðinám má einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar eru til slíks sérnáms í heimalandi sínu.

Umsækjandi sem leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem sérfræðingur innan læknisfræði eða í tannlækningum, og uppfyllir ekki ákvæði 1. mgr., á rétt á sérfræðiviðurkenningu ef hann leggur fram staðfestingu frá lögbæru stjórnvaldi í EES-ríki sem hefur gefið út vitnisburðinn. Staðfestingin skal staðfesta að sérfræðinámið og vitnisburðurinn sé í samræmi og sambærilegur við kröfur tilskipunarinnar.

10. gr.

Sérfræðiviðurkenning á grundvelli áunninna réttinda.

Umsækjandi um starfsleyfi sem sérfræðingur sem ekki er nefnt í V. viðauka tilskipunarinnar á rétt á sérfræðiviðurkenningu í læknisfræði eða tannlæknisfræði ef:

a. sérgreinin er viðurkennd á Íslandi,

b. hann hefur starfsleyfi sem læknir eða tannlæknir skv. 5., 6. eða 7. gr. og leggur fram vottorð þar sem fram kemur að umsækjandi hafi í reynd og með lögmætum hætti starfað innan viðkomandi sérgreinar samfellt a.m.k. í þrjú ár á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfu vottorðsins og

c. vitnisburður um formlega menntun og hæfi er gefinn út fyrir eða tekur til menntunar sem hófst:

1. fyrir viðmiðunardagsetningu V. viðauka lið 5.1.2 og 5.1.3 fyrir sérfræðimenntaða lækna

2. fyrir viðmiðunardagsetningu V. viðauka lið 5.3.3 fyrir sérfræðimenntaða tannlækna.

Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi frá fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu, fyrrum Tékkóslóvakíu, fyrrum Sovétríkjunum og fyrrum Júgóslavíu á rétt á sérfræðiviðurkenningu að uppfylltum skilyrðum samkvæmt fylgiskjali III.

Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi frá Spáni sem læknir, sem kláraði sérfræðinám fyrir 1. janúar 1995, á rétt á sérfræðiviðurkenningu jafnvel þó ekki séu uppfylltar þær lágmarkskröfur um menntun sem kveðið er á um í 25. gr. tilskipunarinnar. Vitnisburði um formlega menntun og hæfi skal fylgja vottorð, sem útgefið er af lögbærum spænskum stjórnvöldum um að viðkomandi einstaklingur hafi staðist próf, sem sýnir fram á sérstaka hæfni í faginu og haldið er á grundvelli óvenjulegra ráðstafana varðandi viðurkenningu, sem mælt er fyrir um í konunglegri tilskipun 1497/99.

11. gr.

Starfsleyfi sem almennur heimilislæknir.

(Evrópulæknaleyfi.)

Umsækjandi á rétt á starfsleyfi sem almennur heimilislæknir ef hann:

a. hefur starfsleyfi sem læknir skv. 5. eða 6. gr. og

b. leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi samkvæmt lið 5.1.4 í V. viðauka tilskipunarinnar.

Jafngilt vitnisburði sem krafist er skv. b-lið 1. mgr. telst vottorð útgefið í EES-ríki sem staðfestir að umsækjandi samkvæmt viðmiðunardagsetningu í lið 5.1.4 í V. viðauka tilskipunarinnar:

a. hafi starfað sem læknir í EES-ríki samkvæmt ákvæðum 21. gr. tilskipunarinnar um sjálfkrafa viðurkenningu eða skv. 23. gr. um áunnin réttindi og

b. hafði rétt til að starfa sem almennur heimilislæknir innan ramma almannatryggingakerfisins, sbr. reglur nr. 374/1996, um greiðslu sjúkratrygginga fyrir almenna læknishjálp.

12. gr.

Heimild til að reka lyfsölu.

Menntun umsækjanda sem lyfjafræðingur í öðru EES-ríki sem uppfyllir skilyrði 5. eða 6. gr. skal lögð til grundvallar sem samsvarandi menntun lyfjafræðinga á Íslandi vegna umsóknar um lyfsöluleyfi hér á landi.

Ef gerðar eru viðbótarkröfur um starfsreynslu í lyfjabúð á Íslandi vegna umsóknar um lyfsöluleyfi skal leggja til grundvallar samsvarandi starfsreynslu í öðru EES-ríki.

Um heimild til að reka lyfsölu hér á landi gilda ákvæði lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

13. gr.

Starfsleyfi þegar skilyrði II. kafla eru ekki uppfyllt.

Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem læknir, sérmenntaður læknir, hjúkrunarfræðingur í almennri hjúkrun, tannlæknir, sérmenntaður tannlæknir, ljósmóðir eða lyfjafræðingur sem ekki uppfyllir skilyrði til að öðlast starfsleyfi skv. 5.-12. gr. á rétt á að fá menntun sína metna skv. 14. og 16. gr.

III. KAFLI

Almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám,
útgáfa starfsleyfa og sérfræðileyfa þegar lágmarkskröfur um menntun eru ekki samræmdar.

14. gr.

Starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli vitnisburðar um formlega menntun og hæfi.

Umsækjandi á rétt á starfsleyfi og þar sem við á sérfræðileyfi hér á landi innan löggiltrar heilbrigðisstéttar sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi, félagsráðgjafi, fóta­aðgerða­fræðingur, geislafræðingur, hnykkir (kírópraktor), iðjuþjálfi, lífeinda­fræðingur, lyfjatæknir, læknaritari, matartæknir, matvæla­fræðingur, náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu, næringarfræðingur, næringarráðgjafi, næringar­rekstrar­fræðingur, osteópati, sálfræðingur, sjóntækja­fræðingur, sjúkra­flutninga­maður, sjúkraliði, sjúkranuddari, sjúkraþjálfari, stoðtækjafræðingur, talmeinafræðingur, tannfræðingur, tanntæknir og þroskaþjálfi, ef umsækjandi leggur fram hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem krafist er í öðru EES-ríki til að geta starfað þar innan framangreindrar löggiltrar heilbrigðisstéttar.

Umsækjandi með nám sem er meira en einu þrepi neðar í þrepaskiptingu menntunar og hæfis skv. 11. gr. tilskipunarinnar, sbr. fylgiskjal II, en samsvarandi menntun á Íslandi á ekki rétt á starfsleyfi skv. 1. mgr. Sé nám á Íslandi a.m.k. fjögurra ára nám á háskólastigi sem samsvarar d-lið 11. gr. tilskipunarinnar þarf nám umsækjanda a.m.k. að samsvara c-lið 11. gr. tilskipunarinnar, sbr. fylgiskjal II.

15. gr.

Kröfur sem gera má ef starfsgrein er ekki lögvernduð
í því ríki sem umsækjandi kemur frá.

Umsækjandi sem starfað hefur í öðru EES-ríki innan starfsgreinar sem nefnd er í 1. mgr. 13. gr., þar sem starfsgreinin er ekki lögvernduð, á rétt á starfsleyfi eða sérfræðileyfi hafi umsækjandi starfað innan starfsgreinarinnar í öðru EES-ríki í minnst tvö ár í fullu starfi eða samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum, að því tilskildu að hann leggi fram eitt eða fleiri hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi til að inna starfið af hendi. Það sama gildir um nám skv. 2. mgr. 14. gr.

Ef sótt er um starfsleyfi í starfsgrein sem er lögvernduð í öðru EES-ríki og námið uppfyllir kröfur b-, c-, d- eða e-liðar skv. 1. gr. fylgiskjals II er ekki krafist starfsreynslu skv. 1. mgr.

16. gr.

Uppbótarráðstafanir.

Landlækni er heimilt að krefjast þess að umsækjandi ljúki annaðhvort allt að þriggja ára aðlögunartíma undir handleiðslu eða taki hæfnispróf ef:

a. sá námstími sem hann leggur fram vitnisburð um að hafa lokið er a.m.k. einu ári styttri en krafist er hér á landi,

b. námið sem hann hefur stundað er að inntaki verulega frábrugðið inntaki þess náms sem krafist er hér á landi eða

c. sú starfsgrein sem er lögvernduð á Íslandi samsvarar ekki starfsgrein umsækjanda og munurinn felst í sérstöku námi sem krafist er hér á landi og er að inntaki verulega frábrugðið því sem liggur að baki hæfnisvottorði umsækjanda eða vitnisburðar hans um formlega menntun og hæfi.

Umsækjanda skal veittur réttur til að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

Í þeim tilvikum sem um getur í a-lið 1. mgr. má krefjast þess að umsækjandi ljúki aðlögunartíma eða gangist undir hæfnispróf ef hann hyggst stunda slíka starfsemi á eigin vegum eða sem stjórnandi fyrirtækis þar sem krafist er þekkingar og beitingar á sértækum landsbundnum gildandi reglum. Skylt er þegar lögbær stjórnvöld hér á landi veita eigin ríkisborgurum aðgang að slíkri starfsemi að krafist sé þekkingar á og beitingar þessara reglna.

Að því er varðar beitingu b- og c-liðar 1. mgr. er með verulega frábrugðnu námi átt við námsefni sem hefur grundvallarþýðingu í starfsgrein og að verulegur munur er á inntaki og lengd náms umsækjanda og því námi sem krafist er hér á landi.

Áður en þess er krafist að umsækjandi ljúki aðlögunartíma eða taki hæfnispróf verður hlutaðeigandi stjórnvald að staðfesta hvort þekking sú sem umsækjandi hefur aflað sér með starfsreynslu sinni í aðildarríki eða í þriðja ríki sé þess eðlis að það nái fyllilega eða að hluta til yfir þann verulega mismun sem um getur í 3. mgr.

17. gr.

Aðlögunartími.

Með aðlögunartíma er átt við starf innan lögverndaðrar starfsemi undir handleiðslu starfsmanns með ótakmarkað starfsleyfi í starfsgreininni. Starfstími undir handleiðslu skal skipulagður af yfirmanni viðkomandi stofnunar ásamt tveimur starfsmönnum með ótakmarkað starfsleyfi í viðkomandi grein og skal starfstíminn síðan metinn. Að lokinni handleiðslu getur umsækjandi þurft að bæta við sig frekara námi.

Landlæknir setur nánari reglur um aðlögunartíma og mat á honum svo og um stöðu umsækjanda sem vinnur undir handleiðslu hér á landi.

18. gr.

Hæfnispróf.

Með hæfnisprófi er átt við próf þar sem fagleg þekking umsækjanda er metin til að gegna starfi innan lögverndaðrar starfsgreinar hér á landi.

Prófin skulu skipulögð og lögð fyrir af viðkomandi kennslustofnun í samráði við landlækni.

Landlæknir skal útbúa lista yfir þær námsgreinar sem umsækjanda skortir við samanburð á námskröfum sem gerðar eru til starfsgreinar hér á landi og prófskírteinum eða vitnisburðum umsækjanda um formlega menntun og hæfi eða öðrum gögnum um nám.

Hæfnispróf skal ná til námsgreina sem valdar eru af listanum og eru nauðsynlegar til að starfa í viðkomandi starfsgrein hér á landi. Enn fremur má prófið reyna á þekkingu á reglum sem gilda um viðkomandi starfsgrein hér á landi.

19. gr.

Niðurfelling uppbótarráðstafana.

Ekki er heimilt að krefjast uppbótarráðstafana ef umsækjandi uppfyllir sameiginleg grunnskilyrði skv. 15. gr. tilskipunarinnar.

IV. KAFLI

Þjónustustarfsemi heilbrigðisstarfsmanna.

20. gr.

Meginregla um frjálsa þjónustustarfsemi.

Heilbrigðisstarfsmaður sem rekur lögmæta heilbrigðisþjónustu í EES-ríki, sem hefur í hyggju að inna af hendi sömu lögvernduðu þjónustu tímabundið eða með hléum samkvæmt heilbrigðislöggjöf, löggjöf um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru með stoð í þeim lögum, má bjóða fram þjónustu sína hér á landi án þess að hafa starfsleyfi eða sérfræðileyfi hér á landi, sbr. þó 22. gr.

Ef starfið er ekki lögverndað í því ríki sem heilbrigðisstarfsmaður rekur lögmæta heilbrigðisstarfsemi á hann rétt á að bjóða þjónustu sína hér á landi tímabundið án starfsleyfis eða sérfræðileyfis ef hann hefur starfað með lögmætum hætti í því ríki sem hann kemur frá í tvö ár á síðastliðnum tíu árum.

Við mat á eðli þjónustu sem veitt er tímabundið eða með hléum skal í hverju tilviki líta til tímalengdar, tíðni, reglufestu og samfelldni þjónustunnar.

Heilbrigðisstarfsmaður sem óskar eftir uppgjöri reikninga hjá sjúkratryggingastofnun skal gera stofnuninni fyrirfram grein fyrir þeirri þjónustu sem hann veitir eða eftir á sé um neyðartilfelli að ræða. Að öðru leyti gilda reglur nr. 374/1996, um greiðslu sjúkratrygginga fyrir almenna læknishjálp.

Áður en heilbrigðisstarfsmaður, sem hyggst veita þjónustu hér á landi tímabundið eða með hléum, byrjar starfsemi sína skal hann senda landlækni skriflega yfirlýsingu þar sem meðal annars kemur fram í hverju þjónustan er fólgin, tímalengd og vátryggingarvernd. Slík yfirlýsing skal endurnýjuð fyrir hvert ár sem heilbrigðisstarfsmaður hyggst starfa hér á landi.

21. gr.

Krafa um gögn.

Í fyrsta skipti sem þjónusta er veitt eða ef um verulega breytingu er að ræða samkvæmt fyrirliggjandi gögnum skal leggja fram eftirfarandi gögn:

a. sönnun ríkisfangs heilbrigðisstarfsmanns,

b. vottorð um rekstur lögmætrar heilbrigðisstarfsemi í EES-ríki þar sem fram kemur að heilbrigðisstarfsmanni sé heimilt að stunda viðkomandi starfsemi og að honum sé ekki bannað að leggja stund á hana á þeim tíma er hann afhendir vottorðið (letter of good standing),

c. prófskírteini sem sýnir fram á menntun og hæfi umsækjanda til starfsréttinda eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi,

d. vottorð um að heilbrigðisstarfsmaður hafi stundað umrædda starfsemi í a.m.k. tvö ár á síðastliðnum tíu árum, sbr. 2. mgr. 20. gr.,

e. vottorð um starfsábyrgðartryggingu sem gildir á Íslandi (sjúklingatrygging)

f. sakavottorð ef þess er krafist af íslenskum ríkisborgurum.

22. gr.

Málsmeðferð og eftirlit með faglegri menntun og hæfi.

Landlækni er heimilt að kanna faglega menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanns áður en hann veitir þjónustu innan lögverndaðrar starfsgreinar í fyrsta sinn. Slík forathugun er leyfileg þegar tilgangur athugunarinnar er að koma í veg fyrir að heilsa og öryggi sjúklings bíði alvarlega hnekki vegna ófullnægjandi menntunar og hæfis heilbrigðisstarfsmanns og athugunin gengur ekki lengra en nauðsynlegt er í því skyni. Þetta gildir ekki um starfsréttindi lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra eða lyfjafræðinga sem hljóta starfsleyfi skv. II. kafla.

Landlæknir skal tilkynna heilbrigðisstarfsmanni, innan eins mánaðar eftir móttöku nauðsynlegra gagna, annaðhvort um að ekki fari fram athugun á faglegri menntun hans og hæfi eða um niðurstöðu slíkrar athugunar. Komi upp vandamál sem gætu leitt til tafa skal landlæknir tilkynna heilbrigðisstarfsmanni innan eins mánaðar um ástæður slíkra tafa og hvenær niðurstöðu sé að vænta. Niðurstaða skal liggja fyrir innan tveggja mánaða.

Þegar mikill munur er á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanns og þeirri menntun sem krafist er hér á landi, að því marki að hann geti verið skaðlegur fyrir öryggi sjúklinga, skal heilbrigðisstarfsmanni boðið upp á að sýna, einkum með hæfnisprófi, að hann hafi aflað sér þeirrar þekkingar eða hæfni sem á skortir.

Undir öllum kringumstæðum verður að vera mögulegt að veita þjónustuna innan mánaðar frá því að ákvörðun er tekin, sbr. 2. mgr.

Komi engin viðbrögð frá landlækni innan frests skv. 2. og 3. mgr. er heilbrigðisstarfsmanni heimilt að hefja þjónustustarfsemi.

23. gr.

Upplýsingar til sjúklings.

Ef þjónustan er veitt undir því starfsheiti sem notað er í öðru EES-ríki þar sem heilbrigðisstarfsmaður rekur lögmæta heilbrigðisþjónustu eða á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis hans skal sjúklingur upplýstur skriflega um eftirfarandi:

a. nafn og heimilisfang eftirlitsaðila í því ríki þar sem hann rekur lögmæta heilbrigðisstarfsemi, ef starfsemin er lögvernduð þar og

b. upplýsingar um vátryggingarvernd eða aðra persónulega eða sameiginlega vernd fyrir starfsmenn með tilliti til starfsábyrgðar.

Landlæknir skal tryggja greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum er varða málsmeðferð kvartana og kæra frá sjúklingi.

24. gr.

Kröfur til þjónustustarfsemi.

Lög og reglugerðir um heilbrigðisstarfsmenn gilda að öðru leyti um heilbrigðisstarfsmenn sem samkvæmt þessum kafla eiga rétt á að veita tímabundna heilbrigðisþjónustu hér á landi. Ennfremur gilda ákvæði laga og reglugerða mennta- og menningarmálaráðuneytisins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi eftir því sem við á.

V. KAFLI

Málsmeðferðarreglur.

25. gr.

Meðferð landlæknis á umsóknum um starfsleyfi.

Landlæknir veitir starfsleyfi eða sérfræðileyfi samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Landlæknir skal staðfesta móttöku umsóknar innan eins mánaðar og upplýsa umsækjanda um hvort og hvaða gögn vanti.

Umsókn skal afgreidd svo fljótt sem mögulegt er og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir móttöku allra nauðsynlegra gagna.

Umsókn skv. III. kafla skal afgreidd í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir móttöku allra nauðsynlegra gagna.

26. gr.

Synjun á útgáfu starfsleyfis og sérfræðileyfis.

Þrátt fyrir að uppfyllt séu skilyrði II. og III. kafla á umsækjandi ekki rétt á starfsleyfi eða sérfræðileyfi ef fyrir liggja ástæður sem leitt geta til sviptingar.

27. gr.

Starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli menntunar í þriðja ríki.

Umsækjandi með menntun frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (þriðja ríki) á rétt á starfsleyfi eða sérfræðileyfi hafi hann:

a. vitnisburð um formlega menntun og hæfi eða prófskírteini útgefið í þriðja ríki sem uppfyllir lágmarkskröfur tilskipunarinnar og

b. vottorð um þriggja ára starfsreynslu frá EES-ríki sem hefur viðurkennt vitnisburðinn.

Umsækjandi sem ekki hefur starfsreynslu skv. b-lið 1. mgr., en sem leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi útgefinn í þriðja ríki ásamt staðfestingu frá EES-ríki um að það hafi viðurkennt vitnisburðinn, skal landlæknir við umsókn um starfsleyfi eða sérfræðileyfi meta menntun skv. III. kafla. Landlæknir skal ennfremur meta starfsreynslu sem staðfest er að fram hafi farið í EES-ríki.

28. gr.

Tungumálakunnátta.

Heilbrigðisstarfsmaður sem fær starfsleyfi eða sérfræðileyfi hér á landi eða sem hefur í hyggju að inna af hendi þjónustustarfsemi, tímabundið eða með hléum skv. IV. kafla, skal búa yfir þeirri tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er til að geta lagt stund á starfsgreinina með viðunandi hætti hér á landi.

Vinnuveitandi skal eftir atvikum meta hvort tungumálakunnátta heilbrigðisstarfsmanns er viðunandi til að öryggi og hagsmunir sjúklinga séu tryggðir.

29. gr.

Upplýsingagjöf.

Umsækjandi um starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari eða sá sem hyggst veita þjónustu skv. IV. kafla skal snúa sér til landlæknis til að fá upplýsingar er varða reglugerð þessa og framkvæmd hennar. Landlæknir skal sjá til þess að umsækjandi fái upplýsingar um nauðsynlega íslenska heilbrigðislöggjöf.

30. gr.

Gögn sem leggja skal fram við umsókn.

Landlæknir getur krafist þess að umsækjandi um starfsleyfi og sérfræðileyfi leggi fram eftirfarandi skjöl og vottorð sem skráð eru í VII. viðauka tilskipunarinnar:

a. Sönnun á ríkisfangi umsækjanda.

b. Staðfest afrit hæfnisvottorðs eða vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem veitir aðgang að viðkomandi starfsgrein.

c. Staðfestingu á starfsreynslu samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

d. Upplýsingar um sviptingu, takmörkun, afturköllun starfsleyfis eða önnur slík viðurlög vegna alvarlegra brota í starfi eða mistaka (letter of good standing). Gögn mega ekki vera eldri en þriggja mánaða.

e. Vottorð frá lögbæru stjórnvaldi í heimalandi umsækjanda eða landi sem gaf út vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að gögnin séu í samræmi við það sem um getur í tilskipuninni.

f. Sakavottorð ef þess er krafist af íslenskum ríkisborgurum.

Umsækjandi skal samkvæmt beiðni láta í té nauðsynlegar upplýsingar svo unnt sé að sannreyna hvort menntun sé verulega frábrugðin íslensku námi. Geti umsækjandi ekki lagt fram framangreindar upplýsingar skal hann gefa upp upplýsingar um lögbært stjórnvald eða aðra opinbera stofnun í því ríki sem gögnin stafa frá.

Ef fyrir hendi er réttmætur vafi um að útgefið hæfnisvottorð eða vitnisburður um formlega menntun og hæfi sé gildur og að umsækjandi fullnægi ekki lágmarkskröfu um menntun samkvæmt tilskipuninni getur landlæknir krafist staðfestingar frá lögbæru stjórnvaldi í viðkomandi EES-ríki um lögmæti vitnisburðarins og að umsækjandi uppfylli þær menntunarkröfur sem settar eru fram í tilskipuninni.

Ef fyrir hendi er réttmætur vafi um að vitnisburður um formlega menntun og hæfi, gefinn út af lögbæru stjórnvaldi í EES-ríki, feli í sér nám sem fór fram að öllu leyti eða að hluta í menntastofnun í öðru EES-ríki getur landlæknir krafist staðfestingar á eftirfarandi atriðum frá því ríki sem upprunalega gaf út vitnisburðinn:

a. hvort nám við menntastofnunina hafi fengið formlega staðfestingu í því EES-ríki sem gaf út viðurkenninguna,

b. hvort vitnisburður um formlega menntun og hæfi sé hinn sami og hefði verið gefinn út ef námið hefði alfarið verið stundað í því EES-ríki sem gaf út viðurkenninguna,

c. hvort vitnisburður um formlega menntun og hæfi veiti sömu starfsréttindi á yfirráðasvæði EES-ríkis þar sem vitnisburðurinn er gefinn út.

31. gr.

Notkun starfsheitis.

Heilbrigðisstarfsmenn sem hlotið hafa starfsleyfi eða sérfræðileyfi samkvæmt reglugerð þessari skulu nota íslensk starfsheiti viðkomandi starfsgreinar hér á landi.

Í þeim tilvikum þegar búið er að staðfesta menntun og hæfi skv. IV. kafla skal þjónustan veitt undir því starfsheiti sem er notað hér á landi.

32. gr.

Útgáfa staðfestingar til nota í öðru EES-ríki.

Landlæknir skal samkvæmt beiðni heilbrigðisstarfsmanns sem hyggst óska eftir viðurkenningu á formlegri menntun og hæfi eða veita tímabundna þjónustu í öðru EES-ríki útbúa vottorð um að starfsmaðurinn eigi rétt á að starfa sem löggiltur heilbrigðisstarfsmaður og eftir atvikum sem sérfræðingur eða almennur heimilislæknir.

Landlæknir skal afturkalla staðfestingu skv. 1. mgr. sé heilbrigðisstarfsmaður sviptur starfsleyfi, sérfræðileyfi eða leyfi til að ávísa lyfjum. Sama á við ef heilbrigðisstarfsmaður afsalar eða leggur inn starfsleyfi, sérfræðileyfi eða leyfi til að ávísa lyfjum hjá landlækni.

33. gr.

Ríkisborgarar Norðurlanda.

Um ríkisborgara frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð gildir ennfremur Norðurlandasamningurinn um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir tilteknar heilbrigðis- og hjúkrunarstéttir og dýralækna, með síðari breytingum.

34. gr.

Gjaldtaka.

Um gjaldtöku vegna útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa fer skv. 10. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.

Heimilt er að taka sérstakt gjald fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun landlæknis á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi samkvæmt reglugerð þessari, til viðbótar gjaldi skv. 1. mgr. Þar á meðal er heimilt að taka gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu.

Velferðarráðherra setur gjaldskrá vegna 2. mgr. að fengnum tillögum landlæknis. Gjaldskráin skal taka mið af umfangi þeirrar vinnu sem umsagnaraðilar og matsaðilar inna af hendi við veitingu starfsleyfa og sérfræðileyfa.

Landlækni er heimilt að innheimta gjald skv. 2. mgr. áður en umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar og gögn send til umsagnaraðila eða matsaðila. Skal þá liggja fyrir nákvæm kostnaðargreining samkvæmt gjaldskrá, sbr. 3. mgr.

Um gjaldtöku fyrir hæfnispróf fer samkvæmt 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og 45. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008.

35. gr.

Önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Lög og reglugerðir um heilbrigðisstarfsmenn, ásamt tilskipun 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, gilda til fyllingar reglugerð þessari. Ennfremur gilda ákvæði laga og reglugerða mennta- og menningarmálaráðuneytisins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi eftir því sem við á.

36. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi frá og með sama tíma reglugerð nr. 244/1994, um staðfestingu starfsleyfa nokkurra heilbrigðisstétta o.fl. samkvæmt ákvæðum EES-samningsins.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 12. apríl 2011.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.


Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica