Landbúnaðarráðuneyti

123/2004

Reglugerð um tímabundinn innflutning á hreindýrakjöti til aðvinnslu. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til tímabundins tollfrjáls innflutnings á hreindýrakjöti:
Tollnúmer:   0208.9008   Hreindýrakjöt með beini, fryst.


2. gr.
Almenn skilyrði.

Landbúnaðarráðherra veitir lögaðilum leyfi til tímabundins tollfrjáls innflutnings skv. 1. gr. Leyfi skal veitt til tveggja ára í senn.

Til að hljóta leyfi til tímabundins tollfrjáls innflutnings skal eftirfarandi skilyrðum fullnægt:

1. umsækjandi skal stunda aðvinnslu í atvinnuskyni á innfluttu hreindýrakjöti,
2. hreindýrakjötið eða afurðir úr því séu flutt úr landi að aðvinnslu lokinni,
3. umsækjandi skal eiga eða hafa aðganga að kjötvinnslu sem hlotið hefur viðurkenningu til vinnslu og útflutnings hreindýrakjöts á markað í útflutningslandi, þar sem hreindýrakjötið skal unnið,
4. mögulegt sé að rekja innihald hverrar sendingar frá því að hún er flutt til landsins þar til að hún er flutt úr landi sbr. 7. gr.,
5. umsækjandi skal hafa starfs- eða rekstrarleyfi, þ.e. starfsleyfi samkvæmt reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og iðnaðarleyfi samkvæmt iðnaðarlögum nr. 42/1978 Umsækjandi skal uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 461/2003 um slátrun og meðferð sláturafurða, eftir því sem við á,
6. umsækjandi skal leggja inn tryggingu til tollstjórans í Reykjavík í formi bankaábyrgðar eða ábyrgðar vátryggingafélags fyrir greiðslu aðflutningsgjalda, að lágmarki kr. 35.000.000 og hámarki kr. 70.000.000. Landbúnaðarráðherra ákveður fjárhæð tryggingar með hliðsjón af umfangi starfseminnar og áætluðum ógreiddum aðflutningsgjöldum á hverjum tíma.


3. gr.
Varnir gegn dýrasjúkdómum.

Leyfishafi skal uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 416/2002 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.


4. gr.
Umsókn og fylgigögn.

Skriflegri umsókn um leyfi skv 2. gr. skal skilað til landbúnaðarráðuneytis. Með umsókn skulu fylgja upplýsingar um:

1. nafn umsækjanda og starfsstöð þar sem hreindýrakjötið er geymt og unnið,
2. upprunaland,
3. nákvæm lýsing á aðvinnslu hreindýrakjöts,
4. áætlað magn innflutts hreindýrakjöts og útfluttra afurða þess að lokinni aðvinnslu á ári,
5. áætlað nýtingarhlutfall innflutts hreindýrakjöts við aðvinnslu sundurliðað eftir þeim vöruflokkum sem vinna á í, eftir því sem við á,
6. feli vinnsla hreindýrakjöts í sér íblöndun annarra hráefna skal þess getið sérstaklega í umsókn,
7. tollskrárnúmer hreindýrakjöts að lokinni aðvinnslu,
8. áætlun um hvernig tryggja á rekjanleika hreindýrakjöts,
9. útflutningsland og staðfesting á vinnsluleyfi fyrir markað í útflutningslandi.

Ráðuneytið getur óskað eftir frekari upplýsingum ef þörf krefur.


5. gr.
Leyfisbréf.

Í leyfisbréfi skulu m.a. tilgreind eftirtalin atriði:

1. tollskrárnúmer innflutts hreindýrakjöts, sem leyfi til tímabundins innflutnings nær til,
2. tollskrárnúmer hreindýrakjöts sem flutt er út að lokinni aðvinnslu,
3. upprunaland innflutts hreindýrakjöts,
4. vinnsluferli vöru,
5. ákvarðað nýtingarhlutfall við vinnslu sérhverrar afurðar, sbr. 6. gr.,
6. leyfisnúmer.

Að auki skal gerður fyrirvari um að leyfisbréf gildi eingöngu vegna þeirrar starfsemi sem lýst er í leyfisbréfi.

Verði breyting á starfsemi leyfishafa sem hefur í för með sér breytingu á ákvörðuðu nýtingarhlutfalli vegna breyttrar vinnslu eða verði aðilaskipti á rekstri ber leyfishafa að sækja um endurnýjun leyfisbréfs.

Landbúnaðarráðherra skal gefa leyfishafa leyfisnúmer sem skal koma fram í reit 14 í innflutningsskýrslu og í reit 37 í útflutningsskýrslu. Leyfishafi skal framvísa leyfisbréfi í hvert sinn sem innflutningur á sér stað.

Landbúnaðarráðherra skal senda tollstjóranum í Reykjavík afrit útgefinna leyfa.


6. gr.
Nýtingarhlutfall.

Landbúnaðarráðherra ákvarðar nýtingarhlutfall við vinnslu sérhverrar afurðar innflutts hreindýrakjöts í leyfisbréfi sbr. 5. gr.

Landbúnaðarráðherra skal, við ákvörðun nýtingarhlutfalls skv. 1. mgr., leggja sjálfstætt mat á upplýsingar umsækjanda um ætlað nýtingarhlutfall hreindýrakjöts í þeirri aðvinnslu sem hann stundar eða hyggst setja á fót.

Landbúnaðarráðherra er ávallt heimilt, að láta fara fram rannsókn á nýtingarhlutfalli hreindýrakjöts á kostnað umsækjanda. Í þeim tilvikum þegar beðið er niðurstöðu rannsóknar er landbúnaðarráðherra heimilt að kveða á um nýtingarhlutfall til bráðabirgða í leyfisbréfi.

Leiði rannsókn í ljós að nýtingarhlutfall hreindýrakjöts hafi verið ranglega ákvarðað, skal ráðherra þegar ákvarða nýtt nýtingarhlutfall.


7. gr.
Framleiðslu- og birgðabókhald.

Leyfishafi skal halda framleiðslu- og birgðabókhald. Skýr aðgreining skal gerð, með færslum í bókhald, á milli innflutts hreindýrakjöts til aðvinnslu og endurútflutnings annars vegar og hreindýrakjöts fyrir innanlandsmarkað hins vegar. Rekjanleiki hreindýrakjöts skal vera tryggður í bókhaldi þannig að á hverjum tíma sé unnt að tilgreina upplýsingar um innflutt hreindýrakjöt, komudag flutningsfars, númer sendingar, stöðu einstakra sendinga á hverjum tíma, meðferð þess og ráðstöfun.

Allur úrgangur/afskurður af hreindýrakjöti skal veginn sérstaklega á löggiltri vog af þar til bærum opinberum aðila. Þannig að hægt sé að bera saman nýtingarhlutfall sérhverrar sendingar fyrir sig og rauntölur úr vinnslunni.

Leyfishafi skal varðveita á tryggilegan hátt skjöl og gögn vegna framleiðslunnar er varða innflutning, útflutning og tollafgreiðslu í samræmi við ákvæði laga um bókhald og fyrirmæli sett samkvæmt þeim. Leyfishafi skal gæta þess að skjöl og gögn séu ætíð aðgengileg vegna tolleftirlits eða eftirlits landbúnaðarráðherra skv. 4. mgr. 6. gr.

Leyfishafi skal gæta þess að meðferð og varsla innflutts hreindýrakjöts sé með þeim hætti að aðgengilegt sé fyrir tollyfirvöld að framkvæma birgðakönnun.


8. gr.
Tímafrestir.

Hreindýrakjöt, sem flutt er inn til aðvinnslu, skal endurútflutt að lokinni aðvinnslu eigi síðar en sex mánuðum eftir komudag flutningsfars til landsins.


9. gr.
Uppgjör vegna innflutnings.

Við uppgjör skal leyfishafi skila greinargerð til tollstjórans í Reykjavík þar sem fram kemur nýtingarhlutfall samkvæmt leyfisbréfi. Greinargerðinni skal fylgja afrit aðflutningsskýrslu, tilheyrandi útflutningsskýrslur og nauðsynleg skjöl og gögn sem tilgeind eru í 7. gr.


10. gr.
Greiðsla aðflutningsgjalda.

Verði hreindýrakjöt, að lokinni aðvinnslu, ekki flutt úr landi innan tímafrests skv. 8. gr., skal innflytjandi greiða aðflutningsgjöld af innfluttu hreindýrakjöti, samkvæmt viðauka I við tollalög, miðað við tollskrárnúmer við innflutning.

Nú eru aðflutningsgjöld ekki greidd á eindaga eins og hann er ákveðinn í 1. mgr., sbr. 8. gr., skal þá frá og með eindaga reikna dráttarvexti af kröfunni fram að greiðsludegi. Um útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.


11. gr.
Greiðsla kostnaðar vegna tolleftirlits.

Leyfishafi skal greiða kostnað við tolleftirlit sem hlýst af innflutningi hreindýrakjöts samkvæmt reglugerð þessari. Um greiðslu kostnaðar vegna tolleftirlits fer eftir reglugerð um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru, nr. 107/1997, með síðari breytingum.


12. gr.
Afturköllun leyfis.

Landbúnaðarráðherra er heimilt án fyrirvara að afturkalla leyfi skv. 1. gr., m.a. ef leyfishafi uppfyllir ekki lengur sett skilyrði eða getur ekki tryggt framkvæmd reglugerðar þessarar á fullnægjandi hátt. Komi upp rökstuddur grunur um að hreindýrakjötið hafi verið selt á innanlandsmarkaði áður en tímafrestur skv. 8. gr. rennur út og greiðsla aðflutningsjalda hafi ekki farið fram, er ráðherra heimilt að afturkalla leyfið.


13. gr.
Refsing.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu skv. 130. gr. tollalaga, nr. 55/1987.


14. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.


Landbúnaðarráðuneytinu, 12. febrúar 2004.

Guðni Ágústsson.
Atli Már Ingólfsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica