Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 11. nóv. 2005

881/2003

Reglugerð um niðurfellingu eða endurgreiðslu tolla fyrir matvælaiðnað.

1. gr. Gildissvið.

Tollstjóri fellir niður eða endurgreiðir verð- og/eða magntoll eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari, af innfluttum landbúnaðarhráefnum sem bera magntoll og notuð eru í innlendum matvælaiðnaði. Til matvælaiðnaðar telst matvælaframleiðsla í atvinnuskyni sem fellur undir iðnaðarlög, nr. 42/1978 með síðari breytingum.

2. gr. Skilyrði fyrir niðurfellingu eða endurgreiðslu tolla.

Skilyrði fyrir niðurfellingu eða endurgreiðslu tolls samkvæmt reglugerð þessari eru:

1. Að um sé að ræða landbúnaðarhráefni í fullunnar vörur sem framleiddar eru hér á landi og falla undir einhvern eftirtalinn vöruliða og tollskrárnúmera, sbr. viðauka I við tollalög, nr. 55/1987 með síðari breytingum:
Úr tollnúmeri:
0406.2000 ostaduft
0701.9000 kartöflur (nýjar eða kældar – annað), sem hráefni í forsteiktar franskar kartöflur 45 mm og stærri
1517.1009 smjörlíki 5 kg pakkningu eða stærra
1905.4000 brauðmylsna (rasp)
2. Að landbúnaðarhráefnin séu ætluð aðilum sem:
a. Starfrækja matvælavinnslu í atvinnuskyni, þó ekki veitingarekstur, mötuneyti, kjöt- eða fiskborð matvælaverslana.
b. Hafa tilskilin starfs- og rekstrarleyfi eftir því sem við á, iðnaðarleyfi eða viðeigandi meistarabréf samkvæmt iðnaðarlögum, nr. 42/1978 og starfsleyfi samkvæmt reglugerð um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, nr. 522/1994.
c. Hafa tilkynnt atvinnureksturinn til skráningar hjá skattstjóra, sé það áskilið samkvæmt 5. gr. laga, um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 með síðari breytingum.
3. Að ekki sé um óverulega aðvinnslu að ræða s.s. pökkun, umpökkun, átöppun eða blöndun.

3. gr. Fyrirvari.

Hafi undanþága frá greiðslu tolls af innfluttum landbúnaðarhráefnum, sem ekki eru upprunaefni samkvæmt bókun 4 við EES-samninginn, verið veitt skv. 1. gr. geta fullunnu vörurnar ekki notið tollfríðinda við innflutning þeirra til EES-ríkja. Sami fyrirvari gildir vegna hliðstæðra ákvæða í stofnsamningi EFTA og öðrum fríverslunarsamningum sem Ísland á aðild að.

4. gr. Skráning rétthafa til niðurfellingar eða endurgreiðslu.

Til þess að njóta niðurfellingar eða endurgreiðslu tolls skv. reglugerð þessari skal aðili sem hyggst flytja til landsins vörur, fyrir sig eða aðra skráða rétthafa, tilkynna það til tollstjóra í tollumdæmi þar sem aðili á lögheimili. Tilkynningin skal vera á sérstöku eyðublaði (E27 niðurfelling aðflutningsgjalda af aðföngum til atvinnustarfsemi) sem tollstjórinn í Reykjavík útbýr í því skyni, og skal m.a. greina frá starfsemi aðila svo og til hvaða vörutegunda niðurgreiðsla eða endurgreiðsla tolls tekur.

Sé tilkynning skv. 1. mgr. ófullnægjandi að mati tollstjóra, svo sem ef upplýsingagjöf er ónæg eða ekki verði ráðið af umsókn að viðkomandi eigi rétt til niðurfellingar eða endurgreiðslu, skal tollstjóri eftir atvikum kalla eftir frekari skýringum eða hafna skráningu. Að öðrum kosti staðfestir tollstjóri rétt umsækjanda til niðurfellingar eða endurgreiðslu á tolli með áritun sinni á tilkynninguna. Afrit staðfestrar tilkynningar skal sent aðila.

Staðfest tilkynning, sbr. 2. mgr., heimilar rétthafa að flytja aðföng til landsins í samræmi við efni tilkynningar með þeim hætti sem kveðið er á um í 5. gr. og 6. gr. Í staðfestri tilkynningu er skráð heimildarnúmer, sem vísa skal til í beiðni um niðurfellingu eða endurgreiðslu, sbr. 5. gr.

5. gr. Framkvæmd niðurfellingar.

Skráður rétthafi samkvæmt 4. gr. skal beina ósk um niðurfellingu tolls hverju sinni til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem landbúnaðarhráefnið kemur til tollafgreiðslu.

Umsókn skal sett fram í aðflutningsskýrslu, eyðublað E1, með því að rita viðeigandi undanþágutilvísun (UND T0030) í reit 14 í skýrslunni ásamt heimildartilvísun (HNR) og heimildarnúmeri. Jafnframt skal merkja við þær línur í skýrslunni sem njóta eiga undanþágu. Með þessum hætti er innflytjandi að lýsa því yfir að hann sæki um niðurfellingu eða endurgreiðslu tolls af tiltekinni vöru í vörusendingu samkvæmt þeim heimildum sem undanþágutilvísun nær til. Jafnframt felur slík umsókn í sér yfirlýsingu um að innflytjandi skuldbindi sig til að hlíta öllum þeim fyrirmælum, skilyrðum og takmörkunum sem í nefndum heimildum er að finna fyrir niðurfellingu tollsins og ráðstöfun vörunnar.

Undanþágutilvísanir vegna tolls eru allt að sjö stafa lyklar sem vísa hver fyrir sig til tiltekinna heimilda. Tollstjórinn í Reykjavík annast gerð og útgáfu undanþágutilvísana og leiðbeininga um notkun þeirra.

6. gr. Framkvæmd endurgreiðslu.

Skráður rétthafi samkvæmt 4. gr. getur á tveggja mánaða fresti fengið endurgreiddan toll af landbúnaðarhráefni sem hann hefur flutt til landsins hafi hann ekki nýtt sér rétt til niðurfellingar samkvæmt 5. gr., enda hafi landbúnaðarhráefnið á tímabilinu verið nýtt eða selt í samræmi við efni heimildar hans.

Sækja skal um endurgreiðslu til tollstjóra þar sem landbúnaðarhráefni var tollafgreitt, á því formi sem tollstjóri ákveður. Í endurgreiðsluskýrslu skulu m.a. koma fram upplýsingar um sölu eða nýtingu þess landbúnaðarhráefnis sem endurgreiðslubeiðnin snertir, þar með talið heiti kaupenda, heiti landbúnaðarhráefnis, heildarmagn þess og fjárhæð tolls sem óskað er endurgreiðslu á. Innflytjanda er heimilt að láta tollstjóra í té yfirlit yfir þá viðskiptavini sem kaupa af honum hráefni án tolls á grundvelli heimildar tollstjóra samkvæmt 4. gr. og þarf þá ekki að tilgreina nöfn kaupenda á skýrslu hverju sinni.

Sækja skal um endurgreiðslu samkvæmt þessari grein innan 60 daga frá sölu til rétthafa.

7. gr. Bókhald.

Rétthöfum samkvæmt reglugerð þessari ber að haga bókhaldi sínu með þeim hætti að aðgengilegt sé fyrir tollyfirvöld að staðreyna að ráðstöfun hráefnis, sem tollur hefur verið felldur niður eða endurgreiddur af, sé í samræmi við heimildir rétthafa.

8. gr. Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar getur varðað refsingu samkvæmt 130. gr. tollalaga, nr. 55/1987.

9. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimildum í 9. tölul. 1. mgr. sbr. 2. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

10. gr. Bráðabirgðaákvæði.

Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. kemur heimild til niðurfellingar eða endurgreiðslu tolls vegna smjörlíkis til framkvæmda í tveimur jöfnum þrepum. Á tímabilinu 1. janúar 2004 til og með 31. desember 2004 verður magntollur kr. 30 pr. kg. Frá 1. janúar 2005 fellur magntollur niður.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.