Landbúnaðarráðuneyti

201/1993

Reglugerð um niðurfærslu loðdýralána. - Brottfallin

1. gr.

Stofnlánadeild landbúnaðarins er heimilt að feIla niður allt að 50% af heildarskuldbindingum sem stofnað hefur verið til hjá deildinni vegna loðdýraræktar.

2. gr.

Allir þeir bændur sem tekið hafa lán til loðdýraræktar hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins eða yfirtekið slík lán til að stunda loðdýrabúskap og eru enn ábyrgir fyrir þeim lánum, eiga rétt á niðurfærslu þeirra skulda hjá deildinni skv. reglugerð þessari.

Niðurfærslan skal ná til allra lána, sem skilgreind eru í bókhaldi deildarinnar sem loðdýralán, þ.m.t. lán vegna loðkanínuræktar, og skal fjárhæð niðurfærslunnar miðast við höfuðstól þeirra 31. desember 1992, að viðlögðu vísitöluálagi.

3. gr.

Réttur til niðurfærslu skal þannig fundinn, að fyrst sé dregin 1,0 m.kr. frá heildarskuld hvers og eins skv. 2. gr., en síðan falli niður 45% af þeirri fjárhæð sem eftir stendur, þó í eftirfarandi röð:

1. Til greiðslu vaxta á áhvílandi loðdýralánum frá 15. júní 1992 til 15. júní 1994.

2. Vanskil á afborgunum og vöxtum af loðdýralánum fram til 15. júní 1993.

3. Lán veitt til bústofnskaupa.

4. Lán veitt til búrakaupa.

5. Önnur loðdýralán.

Þá er heimilt að nýta niðurfærsluréttinn til að greiða vanskil af öðrum lánum viðkomandi aðila hjá Stofnlánadeild, enda sé um það samkomulag við lántaka.

4. gr.

Stofnlánadeild landbúnaðarins skal kynna viðkomandi skuldunautum bréflega þá niðurfærslu skulda sem hverjum um og einum stendur til boða skv. reglugerð þessari og skýra forsendur hennar.

Lántakandi skal staðfesta skriflega, að hann óski eftir niðurfærslu. Að þeirri staðfestingu fenginni skal niðurfærsla fara fram og Stofnlánadeild landbúnaðarins lækka veðkröfur sínar í samræmi við það.

5. gr.

Veiti skuldunautur samþykki sitt, getur Stofnlánadeild landbúnaðarins skilyrt niðurfærslu lána því að samkomulag náist við þá veðhafa sem eftir henni koma um skuldbreytingu niðurfellingu skulda.

6. gr.

Stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins er heimilt að fella niður skuldir umfram það sem kveðið er á um í 3. gr. að því marki sem heimild deildarinnar til niðurfellingar skv. 1. gr. nægir til.

7. gr.

Stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins er heimilt að fella niður allt að helmingi heildarskulda hjá þeim fóðurstöðvum sem tekið hafa lán hjá deildinni til fjárfestinga vegna framleiðslu á loðdýrafóðri.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 108 28. desember 1992 um breytingu á lögum nr. 112/1989 um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytið, 27. maí 1993.

Halldór Blöndal.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica