Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

336/1989

Reglugerð um hrossaræktarbú að Hólum í Hjaltadal

1. gr.

Við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal skal starfrækja, á kostnað ríkissjóðs, hrossaræktarbú skv. 36. gr. 1. nr. 31/1973 um búfjárrækt.

Umfang starfseminnar fer eftir verkefnum, fjárveitingum og fjárheimildum á hverjum tíma.

2. gr.

Skólastjóri Bændaskólans á Hólum hefur yfirumsjón með rekstri hrossaræktarbúsins og allri starfsemi á þess vegum.

3. gr.

Hlutverk og markmið hrossaræktarbúsins er að efla hrossarækt og hestamennsku. Þar skal unnið að ræktun úrvals kynbótahrossa.

Þar skal unnið að kennslu í hrossarækt og reiðmennsku, rannsóknum og tilraunum í hrossarækt.

4. gr.

Hrossaræktarbúið skal hafa þriggja manna stjórn. Hún skal þannig skipuð: Skólastjóri Bændaskólans á Hólum og er hann jafnframt formaður, ráðunautur Búnaðarfélags Íslands í hrossarækt, starfandi hrossabóndi tilnefndur af Félagi hrossabænda. Landbúnaðarráðherra skipar stjórnina til þriggja ára í senn.

5. gr.

Hlutverk stjórnarinnar er að gera tillögur um val og forgangsröðun verkefna kynbótabúsins, sölu eða leigu kynbótahrossa og að fjalla um aðra þætti starfseminnar sem um er getið í reglugerð þessari.

Fundir stjórnar skulu haldnir heima á Hólum.

6. gr.

Skólastjóri Bændaskólans á Hólum kallar stjórnina saman til funda. Bændaskólinn sér stjórnarmönnum fyrir fæði og húsnæði meðan á fundum stendur, þeim að kostnaðarlausu. Störf stjórnarmanna eru ólaunuð, en bændaskólinn greiðir sanngjarnan ferðakostnað.

7. gr.

Allar ályktanir stjórnar skulu færðar í gjörðabók. Fundargerðir skulu undirritaðar.

8. gr.

Ræktun skal byggð á úrvali þeirra kynbótahrossa sem nú eru í eigu búsins. Heimilt er að kaupa eða leigja kynbótahross til búsins ef það þykir henta í ræktunarstarfinu.

Stefnt skal að ræktun úrvalsreiðhrossa, og í ræktunarstarfinu skal beitt þeirri þekkingu og tækni er best þykir á hverjum tíma og vænlegust er til árangurs.

Halda skal sérstaka skrá yfir öll hross búsins þar sem fram komi allar þær upplýsingar er nauðsynlegar teljast um viðkomandi gripi. Þar skal og getið hver verða afdrif hvers einstaklings. Við sölu skal geta kaupanda.

Öll hross sem fæðast á búinu skulu merkt varanlega skv. númerakerfi B.Í.

9. gr.

Hross búsins skulu metin ár hvert samkvæmt reglum Búnaðarfélags Íslands. Stjórn búsins ákveður, að fengnu því mati, hvaða hross skulu sýnd á héraðssýningum, fjórðungs- og landsmótum.

10. gr.

Reikningshald hrossaræktarbúsins eða einstakra þátta í starfi þess skal vera hluti af reikningshaldi skólans og sundurliðast þar samkvæmt nánari ákvörðun skólayfirvalda og stjórnar á hverjum tíma.

11. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum nr. 21/1965 öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 93/1971 um sama efni.

Landbúnaðarráðuneytið, 26. júní 1989.

Steingrímur J. Sigfússon.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.