Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

287/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð um flugvernd nr. 750/2016.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. reglugerðarinnar:

  1. a-liður 1. mgr. 2. gr. breytist og orðast svo:

    1. rekstraraðila flugvallar þar sem millilandaflug fer fram;
  2. 1. ml. 2. mgr. 2. gr. breytist og orðast svo: Ráðstafanir sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð skulu gilda um flugvelli þar sem millilandaflug fer fram.

2. gr.

3. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. ACC3-flugrekandi (Air Cargo or Mail Carrier operating into the Union from a Third Country Airport): Flugrekandi sem flytur farm eða póst frá flugvelli í þriðja ríki og er ekki skráður skv. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1998 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd á einhverjum þeim flugvelli sem fellur undir gildissvið reglugerðar (EB) nr. 300/2008.
  2. Aðgangseftirlit/aðgangsstýring (Access control): Beiting aðgerða til að koma í veg fyrir aðgang óviðkomandi aðila og/eða óleyfilegra ökutækja.
  3. Aðili (Entity): Einstaklingur, stofnun eða fyrirtæki að undanskildum umráðanda eða flugrekanda.
  4. Almenningsflug (Civil Aviation): Flug í samræmi við reglur sem settar eru af flugmálayfirvöldum og starfrækt undir eftirliti eða stjórn Samgöngustofu fyrir allt flug annað en herflug. Almenningsflug tekur hvort tveggja til atvinnuflugs og einkaflugs.
  5. Bakgrunnsathugun (Background Check): Athugun á því hver einstaklingur er og upplýsingum lögreglu um sakaferil hans, þ.m.t. hvort hann eigi afbrotaferil að baki, sem lið í mati á því hvort óhætt er að heimila honum aðgang að haftasvæði flugverndar án fylgdar og viðkvæmum trúnaðarupplýsingum um flugvernd.
  6. Bannaður hlutur (Prohibited Article): Vopn, sprengiefni eða önnur hættuleg tæki, hlutir eða efni sem nota má til að fremja ólöglegt athæfi sem stofnar flugvernd í almenningsflugi í hættu. Viðmiðunarskrá yfir bannaða hluti af því tagi er að finna í viðauka við reglugerð þessa.
  7. Birgðir til notkunar um borð (In-flight Supplies): Neysluvörur eða vörur sem eru til sölu um borð í loftfari.
  8. Flugrekandi (Air Carrier): Fyrirtæki sem stundar flutninga í lofti og hefur gilt flugrekstrarleyfi eða sambærilegt leyfi.
  9. Flugsvæði (Airside): Athafnasvæði á flugvelli, aðliggjandi landsvæði og byggingar eða hlutar af þessu þar sem aðgangur er takmarkaður.
  10. Flugvallarbirgðir (Airport Supplies): Allir hlutir sem ætlunin er að selja, nota eða gera tiltæka á haftasvæði flugverndar á flugvöllum.
  11. Flugvernd (Aviation Security): Sambland af ráðstöfunum og mannlegum og náttúrulegum úrræðum til að vernda almenningsflug gegn ólöglegum aðgerðum.
  12. Flugverndaráætlun (Aviation Security Programme): Skipulag og reglur samkvæmt því um varúðarráðstafanir, viðbrögð og tækjaviðbúnað sem settar eru fyrir tiltekið svæði, t.d. ríki eða einstaka flugvelli og ætlað er að vernda almenningsflug gegn ólögmætum afskiptum.
  13. Flugverndarstjóri (Security Manager): Fulltrúi eftirlitsskylds aðila sem samþykktur er af flugmálayfirvöldum og ábyrgur fyrir að leiðbeina, innleiða og framfylgja flugverndaráætlun.
  14. Haftasvæði flugverndar (Security Restricted Area): Hluti flugsvæðis þar sem öðrum kröfum um flugvernd er beitt til viðbótar við takmarkaðan aðgang.
  15. Handfarangur (Cabin Baggage): Farangur sem er ætlaður til flutnings í farþegarými loftfars.
  16. Lestarfarangur (Hold Baggage): Farangur sem er ætlaður til flutnings í lest loftfars.
  17. Samþykki vegna flugverndar (Security Approval): Sérstakt samþykki útgefið af Samgöngustofu vegna flugverndar, þar sem staðfest er að fullnægjandi flugverndaraðgerðum sé lýst í viðeigandi flugverndaráætlun.
  18. Skimun (Screening): Beiting tæknilegra aðferða eða annarra aðferða til að bera kennsl á og/eða finna bannaða hluti.
  19. Skráður sendandi (Account Consignor): Sendandi sem sendir farm eða póst fyrir eigin reikning og þar sem verklagsreglur hans uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd nægilega vel til að unnt sé að flytja farm eða póst með fraktvél eingöngu.
  20. Umráðandi (Operator): Einstaklingur, stofnun eða fyrirtæki sem annast eða býðst til að annast flutninga í lofti.
  21. Viðkvæmasti hluti haftasvæðis flugverndar á flugvelli (Critical Part of Security Restricted Areas of Airport): Skilgreint og afmarkað svæði innan haftasvæðis flugverndar á flugvelli, t.d. landgangur, landgöngubrú, hreint svæði innan flugstöðvar o.s.frv.
  22. Viðurkenndur birgir birgða til notkunar um borð (Regulated Supplier of in-flight Supplies): Birgir sem viðhefur verklagsreglur sem uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd þannig að unnt sé að afhenda birgðir til notkunar um borð beint um borð í loftfarið.
  23. Viðurkenndur umboðsaðili (Regulated Agent): Flugrekandi, umboðsaðili, farmmiðlun eða einhver annar aðili sem hefur með höndum flugverndareftirlit í tengslum við farm eða póst.
  24. Þekktur birgir birgða til notkunar um borð (Known Supplier of in-flight Supplies): Birgir sem viðhefur verklagsreglur sem uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd þannig að unnt sé að afhenda flugrekanda eða viðurkenndum birgi birgðir til notkunar um borð en ekki beint um borð í loftfarið.
  25. Þekktur birgir flugvallarbirgða (Known Supplier of Airport Supplies): Birgir sem viðhefur verklagsreglur sem uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd þannig að unnt sé að flytja flugvallarbirgðir inn á haftasvæði flugverndar.
  26. Þekktur sendandi (Known Consignor): Sendandi sem sendir farm eða póst fyrir eigin reikning og þar sem verklagsreglur hans uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd þannig að unnt er að flytja farm eða póst með hvaða loftfari sem er.

3. gr.

Á eftir orðinu "heimilt" í 7. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur: vegna sérstakra aðstæðna.

4. gr.

Í stað 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Við nánari framkvæmd á flugverndarreglum skv. 1. mgr. er jafnframt vísað í leiðbeinandi efni útgefið af ICAO og ECAC. Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja kröfum reglugerðarinnar eða er þeim til frekari uppfyllingar, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir að mati Samgöngustofu. Vísað er til þessara leiðbeiningarreglna í flugverndaráætlun Íslands.

5. gr.

3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

6. gr.

c-liður 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

  1. flugverndaráætlun, skv. 12. gr., sem m.a. sýnir fram á að umsækjandi geti, svo fullnægjandi sé, stjórnað og haft eftirlit með flugverndarráðstöfunum.

7. gr.

17. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Aðili með samþykki vegna flugverndar skal tilnefna flugverndarstjóra sem ábyrgur er fyrir að innleiða og framfylgja flugverndaráætlun aðilans. Flugverndarstjórinn skal samþykktur af Samgöngustofu og vera sérstakur trúnaðarmaður stofnunarinnar, varðandi flugverndarmál. Í trúnaðarskyldu flugverndarstjóra felst skylda til að upplýsa Samgöngustofu um hvaðeina sem við kemur flugverndarráðstöfunum aðila. Tilnefndur flugverndarstjóri skal heyra beint undir fyrirsvarsmann fyrirtækis og skal honum tryggt sjálfstæði í starfi.

Tilnefndur flugverndarstjóri skal hafa hlotið viðeigandi þjálfun vegna flugverndar og viðeigandi þjálfun fyrir flugverndarstjóra sem viðurkennd er af Samgöngustofu.

Flugverndarstjórar skulu samþykktir af Samgöngustofu til starfans og heimilt er að áskilja að þeir sanni kunnáttu sína með sérstakri próftöku. Komi í ljós að kunnáttu eða hæfni flugverndarstjóra sem hlotið hefur viðurkenningu sé ábótavant eða fyrirsvarsmaður brýtur trúnað við stofnunina getur hún fellt viðurkenningu sína niður.

Tilkynna skal með minnst 30 daga fyrirvara sé ætlunin að skipta um tilnefndan flugverndarstjóra og allar breytingar á upplýsingum og samskiptaupplýsingum um hann.

Flugverndarstjóri skal hafa undirgengist bakgrunnsathugun samkvæmt reglugerð þessari fyrir tilnefningu.

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á á 26. gr. reglugerðarinnar:

  1. Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú gefur skoðun lögreglu skv. grein þessari 5 ár aftur í tímann vísbendingar um að nauðsynlegt sé að kanna feril einstaklings frekar og lengra aftur í tímann og hefur lögreglan þá heimild til að kanna feril einstaklings 10 ár aftur í tímann. Vísbendingar þessar geta verið færslur í málaskrá lögreglu, sakavottorði, óvissa um heimili eða dvalarstað o.fl.
  2. Orðið "a.m.k." í 1. mgr., b- og c-lið 3. mgr. reglugerðarinnar fellur brott.
  3. Í stað orðsins "feril" í c-lið 3. mgr. kemur: sakaferil.

9. gr.

Eftirfarandi breytingar verða gerðar á 27. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi einstaklingur, hérlendis eða erlendis, verið dæmdur í fangelsi fyrir brot gegn tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga, sbr. A-lið viðauka II við reglugerð þessa, eða lögum um ávana- og fíkniefni, skal synja honum um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, sbr. þó ákvæði 28. gr., enda gefi brotið vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi og almannahagsmunum kunni að stafa hætta af.
  2. Í stað 3. mgr. bætast við tvær nýjar málsgreinar, sem verða 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
    Hafi einstaklingi, hérlendis eða erlendis, verið ákvörðuð sekt fyrir brot á þeim lögum sem tilgreind eru í 2. mgr. hvort sem er fyrir dómstólum eða stjórnvaldi eða hann eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi er lýtur að brotum á þeim lögum sem tilgreind eru 2. mgr. er heimilt að synja honum um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, sbr. þó ákvæði 28. gr., enda gefi brotin vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af. Sama gildir ef einstaklingur hefur ítrekað gerst brotlegur gegn öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga en þeirra sem getið er í A-lið viðauka II eða öðrum lögum sem getið er í B-lið viðauka II við reglugerð þessa eða brotið stórfellt.
    Sama gildir hafi einstaklingur, hérlendis eða erlendis, verið dæmdur í fangelsi, dæmdur til greiðslu sektar eða gert að greiða sekt af hálfu stjórnvalds, fyrir tilraun eða hlutdeild til brota skv. 2. og 3. mgr. eða verið sýknaður af brotum og gert að vistast á viðeigandi stofnun með vísan til 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

10. gr.

Orðin "2. mgr." í 1. mgr. 28. gr. reglugerðarinnar falla brott.

11. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 28. gr. a, svohljóðandi ásamt fyrirsögn:

Svipting aðgangsheimilda.

Heimilt er rekstraraðila flugvallar að svipta einstakling aðgangsheimild að flugsvæði, tímabundið eða að fullu, vegna brota gegn lögum og reglum ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans varhugavert að hann noti heimildina. Ákvörðun um sviptingu skal rökstudd og starfsmanni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Sé um alvarlegt brot að ræða er rekstraraðila flugvallar heimilt að svipta einstakling aðgangsheimild að flugsvæði tímabundið, þá þegar, á meðan niðurstöðu kærumeðferðar er beðið samkvæmt grein þessari.

Rekstraraðila flugvallar er jafnframt heimilt að afturkalla útgáfu leyfisbréfs fyrir ökutæki eða vinnuvél samkvæmt 24. gr. sé skilyrðum greinarinnar ekki fullnægt eða hafi ökutækið eða vinnuvélin ekki verið notuð í samræmi við lög og reglu.

12. gr.

Í stað orðsins "ákvarðað" í 3. mgr. 30. gr. og 3. mgr. 33. gr. reglugerðarinnar kemur: staðfest.

13. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á eftir orðunum "í samræmi við 1. mgr." í 2. mgr. kemur: er heimilt að geyma í viðeigandi aðstöðu fyrir bannaða hluti til endurkomu farþega, heimsenda bannaða hlutinn í pósti, fara með hlutinn sem óskilamun eða eyða honum.
  2. Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Eigandi hins bannaða hlutar skal upplýstur um rétt hans. Við ákvörðun um það hvað eigi að gera við hinn bannaða hlut skal tekið tillit til óskar eiganda, gætt hófs og litið til verðmætis hlutarins.
  3. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Skrá yfir bannaða hluti er að finna í viðauka I við reglugerð þessa. Heimilt er að veita undanþágu frá viðauka I að því tilskildu að:
    1. Samgöngustofa hafi veitt samþykki sitt fyrir því að hafa megi hlutinn meðferðis og
    2. flugrekandanum hafi verið tilkynnt um farþegann og hlutinn sem hann hefur meðferðis áður en farþegarnir fara um borð í loftfarið og
    3. að gildandi öryggisreglum sé fylgt.

    Framangreindar ráðstafanir skulu gerðar á kostnað farþega.

14. gr.

Í stað lokamálsliðar 2. mgr. 41. gr. reglugerðarinnar kemur nýr málsliður svohljóðandi: Um meðferð slíkra gagna gildir 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37, 9. júlí 2009, bls. 264, sbr. a-lið 1. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar.

15. gr.

44. gr. reglugerðarinnar fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.

16. gr.

Við reglugerðina bætast tveir viðaukar:

  1. Viðauki I skrá yfir bannaða hluti.
  2. Viðauki II skrá yfir afbrot sem áhrif hafa á aðgang að haftasvæði flugverndar.

17. gr.

Við 53. gr. reglugerðarinnar bætist eftirfarandi liður:

  1. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/472 frá 31. mars 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 72/2010 að því er varðar skilgreininguna "skoðunarmaður framkvæmdastjórnarinnar", sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB, nr. 10/2017, 16. febrúar 2017, bls. 220, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins, nr. 245/2016 frá 3. desember 2016.

18. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 70. gr. og 70. gr. d, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 16. mars 2017.

Jón Gunnarsson
samgöngu og sveitarstjórnarráðherra.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.