Innanríkisráðuneyti

256/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 528/2002 um fólksflutninga á landi. - Brottfallin

1. gr.

4. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Samgöngustofa og Vegagerðin hafa með höndum útgáfu leyfa og umsjón með eftirliti samkvæmt reglugerð þessari. Við útgáfu leyfa er þeim heimilt að leita umsagnar fulltrúa hagsmunaaðila er að greininni standa.

Leyfi Samgöngustofu og Vegagerðarinnar, eftir því sem við á, þarf til að hafa með höndum þá fólks­flutninga sem þessi reglugerð nær til.

Ákvarðanir Samgöngustofu og Vegagerðarinnar eru kæranlegar til innanríkisráðuneytisins sam­kvæmt stjórnsýslulögum. Kærufrestur er 3 mánuðir.

2. gr.

Núgildandi 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar verður 4. mgr. 5. gr. og í stað hennar kemur ný 3. mgr. 5. gr. sem orðast svo:

Rekstrarleyfið skal gilda í allt að fimm ár og vera óframseljanlegt og nýting þess aðeins heimil einum rekstraraðila. Heimilt er að veita leyfi til skemmri tíma óski umsækjandi eftir því.

3. gr.

Í stað orðsins "Samgöngustofa" í 9. gr., 8. mgr. 11. gr., 16. gr. og 17. gr. reglugerðarinnar kemur: Vegagerðin.

4. gr.

2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Sérleyfishafi skal afhenda farþega löglega kvittun fyrir greiddu fargjaldi. Vegagerðinni er heimilt að skylda sérleyfishafa til að nota sérstakar farmiðavélar, þ.e. tölvubúnað sem heldur utan um sölu farmiða, prentar út farmiðakvittanir og geymir upplýsingar sem eru aðgengilegar lögreglu.

5. gr.

2. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Halda skal tekjum og gjöldum vegna framangreindra leyfa aðskildum í bókhaldi. Gjöld samkvæmt töluliðum 1 og 2 skulu renna til Samgöngustofu en gjöld samkvæmt tölulið 3 skulu renna til Vega­gerðarinnar. Gjöldin skulu standa undir eftirliti og leyfisveitingum. Samgöngustofu og Vega­gerð­inni er heimilt að fela þriðja aðila þetta eftirlit.

6. gr.

1. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Verði aðili uppvís að því að stunda leyfisskylda starfsemi samkvæmt reglugerð þessari án þess að hafa til þess tilskilin leyfi er Samgöngustofu eða Vegagerðinni, eftir því sem við á, skylt að fela lögreglu að stöðva starfsemina og viðkomandi ökutæki þegar í stað þar til leyfi hefur verið fengið.

7. gr.

Við 20. gr. reglugerðarinnar, sem kveður á um akstur sérútbúinna bifreiða, bætist ný málsgrein, 4. mgr. svohljóðandi:

Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum í 2. mgr. fyrir þau ökutæki sem fengu leyfisskoðun á árinu 2016. Undanþágu samkvæmt þessari málsgrein skal ekki veita eftir 31. des­ember 2017.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 18. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi nr. 73/2001, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 27. mars 2017.

Jón Gunnarsson
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica