Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

162/2017

Reglugerð um þóknun fyrir vinnu og nám og dagpeninga til fanga.

1. gr.

Fyrir störf afplánunarfanga í fangelsum skulu þeir hljóta eftirfarandi þóknun:

  1. Fyrir öll störf fanga skal greiða 415 krónur á klukkustund.
  2. Fyrir skólasókn skal greiða 415 krónur á klukkustund.
  3. Hámark er á tímafjölda greiddra klukkustunda á hvern fanga á viku fyrir skólasókn eða sem samsvarar að jafnaði 20 klst. m.v. 100% skólasókn og námsframvindu.
  4. Hámarkstímafjöldi fanga á viku fyrir ræstingar er að jafnaði 28 klst.
  5. Samanlagður tímafjöldi fyrir nám og öll önnur störf skal að jafnaði ekki fara umfram 40 klst. á viku á hvern fanga.

Heimilt er að víkja frá ákvæðum 3. tl. stundi fangi mikið nám þó þannig að greiðslur fyrir samanlagða vinnu og nám sé að jafnaði ekki umfram 40 klst. á viku. Óski Fangelsismálastofnun eftir eða samþykki vinnuframlag fanga umfram hámark samkvæmt þessari grein er greitt fyrir það.

2. gr.

Þegar gæsluvarðhaldsfangar vinna í fangelsum skal þeim greidd þóknun fyrir störf sín með sama hætti og að ofan greinir.

3. gr.

Nú er ekki unnt að útvega fanga vinnu, eða hann getur samkvæmt læknisvottorði ekki sinnt vinnuskyldu eða námi, skal hann fá greidda dagpeninga fyrir þá daga sem hann hefði ella unnið samkvæmt eftirfarandi gjaldskrá:

Fjárhæð dagpeninga fanga, sbr. 27. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga, skal vera 630 krónur á dag. Dagpeningar skulu einungis greiddir virka daga frá mánudegi til föstudags.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. mgr. 98. gr. og 27. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá um þóknun fyrir vinnu og nám og upphæð dagpeninga fanga nr. 1160/2016.

Innanríkisráðuneytinu, 9. febrúar 2017.

Sigríður Á. Andersen
dómsmálaráðherra.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.