Iðnaðarráðuneyti

284/2005

Reglugerð um niðurgreiðslur húshitunar. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um rétt til niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar og framkvæmd við úthlutun fjár sem ákveðið er í fjárlögum til:

1. Niðurgreiðslu kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma.
2. Greiðslu styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna.


2. gr.
Stjórnsýsla.

Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Orkustofnun hefur umsjón með framkvæmd niðurgreiðslna.


3. gr.
Skilgreiningar.

Íbúð samkvæmt reglugerð þessari er húsnæði þar sem einhver hefur fasta búsetu og hefur sjálfstætt skráningarauðkenni í Landskrá fasteigna. Dvalarheimili aldraðra, sambýli og slíkt þar sem fólk hefur fasta búsetu telst íbúðarhúsnæði samkvæmt reglugerð þessari. Þurfi umsækjandi að halda fleiri en eitt heimili vegna starfa, eigin náms eða náms fjölskyldu er heimilt að greiða niður húshitunarkostnað óháð því hvar lögheimili er skráð. Niðurgreiðsla er háð því að dvöl vegna náms eða starfa sé samfelld a.m.k. 2-3 mánuði á ári. Umsækjandi þarf að staðfesta þörf sína til þess að halda fleiri en eitt heimili með opinberu vottorði eða öðrum gögnum sem Orkustofnun metur nægileg í hverju tilviki, s.s. vottorði vinnuveitanda eða skólastjórnenda ef um nám er að ræða og staðfestingu um póstburð í viðkomandi íbúð.

Veitusvæði hitaveitu er það svæði þar sem hitaveita hefur einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni.

Kynt hitaveita er samkvæmt reglugerð þessari veita sem notar rafmagn eða eldsneyti til að hita vatn til sölu um dreifikerfi veitunnar.

Rafhitun telst bein hitun með raforku hvort sem um er að ræða þilofna, hitastrengi eða vatnshitakerfi þar sem rafmagn er notað til að hita vatnið. Raforkunotkun varmadælu er í þessari reglugerð flokkuð með rafhitun.


II. KAFLI
Niðurgreiðsla á orku til hitunar.
4. gr.
Skilyrði niðurgreiðslna.

Ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til niðurgreiðslna á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis skal það gert í eftirfarandi tilvikum:

1. Þegar íbúðarhúsnæði sem ekki er á veitusvæði hitaveitu er hitað með raforku.
2. Þegar íbúðarhúsnæði á veitusvæði hitaveitu er hitað með raforku enda sé kostnaður við tengingu við hitaveituna og áætluð orkukaup meiri en við niðurgreidda rafhitun samanlagt fyrstu tíu árin eftir tengingu.
3. Þegar íbúðarhúsnæði sem hvorki er á veitusvæði hitaveitu né tengist raforkukerfi er hitað með olíu. Einnig íbúðarhúsnæði hitað með olíu sem tengjast einangruðu raforkukerfi þar sem meiri hluti raforkuvinnslunnar er með eldsneyti.
4. Þegar íbúðarhúsnæði er hitað með vatni frá kyntri hitaveitu og raforkunotkun veitunnar til hitunar vatns er meira en 10% af heildarorkuöflun veitunnar.

Heimilt er að greiða niður hluta kostnaðar við hitun húsnæðis sem er skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Fasteignamati ríkisins þótt þar sé ekki föst búseta. Heimildin nær til þess að greiða niður orkumagn sem svarar til fjórðungs af því orkumagni sem niðurgreitt er vegna þeirra íbúða sem njóta niðurgreiðslna á grundvelli 1. mgr.

Kostnaður við hitun kirkna, bænahúsa trúfélaga, safna, félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita skal greiddur niður á sama hátt og hitun íbúða, enda skal raforkunotkun til hitunar sérmæld.

Ekki skal greiða niður raforkukostnað vegna dælingar á heitu vatni.


5. gr.
Umsókn um niðurgreiðslur.

Eigandi eða umráðamaður íbúðarhúsnæðis getur sótt um niðurgreiðslu til Orkustofnunar. Umsókn skal vera skrifleg. Í umsókn skal tilgreina:

1. Nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda auk upplýsinga um staðsetningu og skráningarmerki þeirrar íbúðar sem sótt er um niðurgreiðslu fyrir.
2. Ef umsækjandi hefur ekki skráð lögheimili í íbúðarhúsnæði því sem sótt er um niðurgreiðslu fyrir, skal leggja fram gögn um þörf til að halda fleiri en eitt heimili skv. 1. mgr. 3. gr., ella skal litið svo á að sótt sé um niðurgreiðslu húshitunar á grundvelli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar.

Stjórn húsfélags getur sótt um niðurgreiðslur fyrir hönd allra íbúðareigenda í fjöleignarhúsi ef hitanotkun hverrar íbúðar er ekki sérmæld. Orkustofnun metur á grundvelli umsóknar hvort skilyrði laga þessara fyrir niðurgreiðslum séu uppfyllt. Ekki þarf að sækja á ný um niðurgreiðslu meðan íbúð er notuð til fastrar búsetu. Breytist aðstæður að þessu leyti ber eiganda að tilkynna Orkustofnun það.

Standi húsnæði autt, sbr. 2. mgr. 4. gr., þarf eigandi þess að sækja um niðurgreiðslur til Orkustofnunar þegar föst búseta fellur niður. Sækja þarf um slíkar niðurgreiðslur á tólf mánaða fresti.


6. gr.
Upphæð niðurgreiðslna.

Í samræmi við fjárhæð niðurgreiðslna sem samþykkt er í fjárlögum viðkomandi árs skal iðnaðarráðherra ár hvert ákveða upphæð niðurgreiðslna á raforku í kr./kWst, á vatni frá kyntum hitaveitum í kr./kWst eða kr./m3 og á olíu í kr./l. Miða skal upphæð niðurgreiðslna á olíu við að kostnaður notenda verði svipaður við olíuhitun og rafhitun. Ákvörðun ráðherra skal birt með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Hámarksfjöldi niðurgreiddra kWst á hverja íbúð á ári er 35.000. Hámarksfjöldi lítra af olíu sem niðurgreiða skal fyrir hverja íbúð er 4.700. Ef kynt hitaveita nýtir að hluta jarðvarma skal niðurgreiðslan ákvörðuð út frá því hve stór hluti orkuöflunarinnar er með raforku og eldsneyti. Hámarksniðurgreiðsla á hverja íbúð á ári þar sem um kynta hitaveitu er að ræða skal miðast við 35.000 kWst eða 777 m3. Ef notuð er varmadæla skal hámarksfjöldi kWst vera 1/3 af ákvörðuðu hámarki við beina rafhitun.


7. gr.
Ákvörðun notkunar við rafhitun.

Orkunotkun við rafhitun íbúðarhúsnæðis skal ákvörðuð á eftirfarandi hátt:

1. Ef rafhitun íbúðar er sérmæld skal sú mæling gilda við ákvörðun niðurgreiðslu.
2. Ef rafhitun er ekki sérmæld skal orkumagn sem greitt er niður ákveðið sem hlutfall af heildarnotkun.

Hlutfall niðurgreiðslu af heildarnotkun skal ákveðið á eftirfarandi hátt:

1. Íbúðarhúsnæði: 85% heildar raforkunotkunar íbúðarhúsnæðis sem hitað er með raforku samkvæmt upplýsingum frá dreifiveitum skal niðurgreidd.
2. Blönduð notkun atvinnu- og íbúðarhúsnæðis: Sérmæling er skilyrði niðurgreiðslna ef um blandaða notkun atvinnu- og íbúðarhúsnæðis er að ræða. Niðurgreiðsla íbúðarhluta húsnæðisins skal vera skv. 1. tl. mgr. þessarar.
3. Kirkjur, bænahús trúfélaga, söfn, félagsheimili og húsnæði björgunarsveita sem hituð eru með raforku njóta niðurgreiðslna á sama hátt og hitun íbúða skv. 1. tl. mgr. þessarar, enda skal raforkunotkun til hitunar sérmæld.

Ef ástæða er til að ætla að lægra eða hærra hlutfall fari til húshitunar hjá einstökum notanda en skilgreining á viðkomandi flokki segir til um getur Orkustofnun áætlað sérstakt hlutfall fyrir þann notanda og skal miðað við þá áætlun við útreikning á niðurgreiðslu.

Ef notandi sættir sig ekki við hlutfall niðurgreiðslu skv. 2. eða 3. mgr. getur hann farið fram á að notkunin sé sérmæld og skal miða við þá mælingu við ákvörðun niðurgreiðslu. Notandinn greiðir allan kostnað við sérmælinguna.


8. gr.
Ákvörðun notkunar við olíuhitun.

Orkustofnun áætlar ársnotkun íbúðar á olíu til hitunar út frá notkun húsnæðisins og skráðri stærð þess í Landskrá fasteigna. Orkustofnun getur farið fram á að fá upplýsingar frá íbúðareiganda um olíukaup til húshitunar og annað sem snýr að notkun húsnæðisins og nauðsynlegt er vegna framkvæmdar reglugerðar þessarar.

Við útreikninga á niðurgreiðslu vegna olíuhitunar skal bera saman hitunarkostnað með niðurgreiddri raforku annars vegar og olíuhitun hins vegar. Gengið skal út frá viðmiðunarhúsi sem er 430 m3 að stærð og þarf 75 kWst á ári til upphitunar á hvern rúmmetra, eða alls 32.250 kWst á ári. Út frá meðalverði raforku og olíu til húshitunar í hverjum ársfjórðungi skal fundinn hitunarkostnaður fyrir viðmiðunarhús með þessum tveimur hitunaraðferðum.


9. gr.
Framkvæmd niðurgreiðslna á raforku og heitu vatni frá kyntum hitaveitum.

Dreifiveitur raforku og kyntar hitaveitur skulu draga upphæð niðurgreiðslu frá gjaldi notanda fyrir þjónustu veitunnar og skal notandinn fá upplýsingar um upphæð niðurgreiðslu. Ef niðurgreiðslan er hærri en nemur fjárhæð reiknings skal veitan greiða notandanum mismuninn.


10. gr.
Framkvæmd niðurgreiðslu á olíu.

Orkustofnun ákveður niðurgreiðslur á olíu til einstakra notenda á grundvelli þeirra viðmiða, sem tilgreind eru í 8. gr., og sér til þess að greiðsla fari fram ársfjórðungslega.


III. KAFLI
Stofnun nýrra hitaveitna.
11. gr.
Skilyrði styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna.

Ef ákveðið er í fjárlögum að veita styrki til stofnunar nýrra hitaveitna eða til stækkunar eldri veitna skal þeim fjármunum varið til eftirfarandi þátta:

1. Til nýrra hitaveitna sem hófu rekstur árið 1998 eða síðar.
2. Til hitaveitna sem hafa aukið við dreifikerfi sitt á árinu 1998 eða síðar til að geta tengt íbúðarhúsnæði sem notið hefur niðurgreiðslna á rafhitun.


12. gr.
Fjárhæð styrkja.

Styrkur til hverrar hitaveitu getur numið allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan. Af fjárveitingu hvers árs til niðurgreiðslu á orku til húshitunar og stofnstyrkja hitaveitna skal styrkveiting til nýrra hitaveitna þó aldrei vera meiri en 20% heildarfjárveitingar. Árlega getur hver einstök hitaveita að hámarki fengið styrk er nemur 15% árlegrar heildarfjárveitingar til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna.

Frá styrkfjárhæðinni skal dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar hennar.


13. gr.
Umsóknir.

Hitaveitur geta sótt um styrk til iðnaðarráðuneytisins. Umsókn skulu m.a. fylgja upplýsingar um hitaveituna og hvernig fyrirhugað er að ráðstafa styrknum.

Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja umsókn frá hitaveitum sem hafa einkaleyfi á viðkomandi veitusvæði:
Nafn og kennitala eiganda viðkomandi eignar sem skal tengjast.
Afrit af yfirlýsingu (umsókn) eiganda um tengingu við hitaveitu.
Fastanúmer eignar sem skal tengja.
Rúmmál eignarinnar.
Áætlun um skiptingu eingreiðslna milli notanda og hitaveitu.
Áætlun um tengingu.
Upplýsingar um afslætti og kjör nýrra notenda.
Tæmandi upplýsingar um verðskrá hitaveitunnar.

Eftirfarandi viðbótarupplýsingar skulu að auki fylgja umsókn frá hitaveitum sem ekki hafa einkaleyfi á viðkomandi veitusvæði:
Upplýsingar um orkuöflun, s.s. fjölda virkjaðra borhola, hvera, lauga, uppsett afl, vatnsmagn, meðalvatnshita, lengd safn- og aðveituæða.
Almennar upplýsingar um dreifikerfið s.s. aflgeta, hámarksálag, vatnsmagn, meðalhiti og orkuframleiðsla inn á dreifikerfi, hlutfall orkuvinnslu, fjöldi og heildarafl dælustöðva, rafmagnsnotkun á dælur, miðlunarrými, lengd dreifikerfis o.fl. sem Orkustofnun mun leggja fyrir viðkomandi dreifiveitu.


14. gr.
Úthlutun og ráðstöfun styrkja.

Greiðsla stofnstyrks til nýrrar hitaveitu eða vegna stækkunar hitaveitu skal miðuð við tímamarkið þegar hitaveitan tekur til starfa eða stækkun er tekin í notkun. Ef tengingum íbúðarhúsa er skipt í áfanga eða hluti íbúðarhúsa á orkuveitusvæði er ekki tengdur þegar hitaveita tekur til starfa er heimilt að ákveða að hluti styrksins skuli greiddur út og niðurgreiðslum vegna rafhitunar tiltekinna íbúðarhúsa haldið áfram þrátt fyrir 15. gr. Endanlegt uppgjör á fjárhæð styrksins fer í þeim tilvikum fram þegar stjórn viðkomandi hitaveitu óskar, þó eigi síðar en níu mánuðum eftir að fyrsti hluti styrksins er greiddur út. Við greiðslu á þeirri fjárhæð sem haldið var eftir skal draga frá heildarfjárhæð niðurgreiðslna á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis á viðkomandi orkuveitusvæði á aðlögunartímanum.

Hitaveitan skal nýta styrkinn að hluta til að greiða niður stofnkostnað hitaveitunnar og að hluta til að styrkja eigendur íbúðarhúsa þar sem kostnaður við tengingu við starfandi eða nýjar veitur er umtalsverður, svo sem vegna kostnaðarsamra breytinga á hitakerfi. Stjórn hitaveitunnar skal ákvarða hlutföllin en hvor hluti styrksins má nema allt að 65% af heildarfjárhæðinni.


15. gr.
Niðurfelling niðurgreiðslna.

Ef stofnuð er ný hitaveita eða eldri veita stækkuð skal fella niður niðurgreiðslu á kostnaði til hitunar íbúðarhúsnæðis á starfssvæði hitaveitunnar, nema ákvæði 2. tl. 1. mgr. 4. gr. eigi við.

Orkustofnun skal tilkynna íbúðareiganda eða umráðamanni íbúðarhúsnæðis skriflega um niðurfellinguna og upplýsa um heimild skv. 3. mgr. þessarar greinar. Skal honum gefast a.m.k. 30 daga frestur frá dagsetningu tilkynningar til að koma á framfæri andmælum áður en ákvörðun um brottfall niðurgreiðslna kemur til framkvæmda.

Ef kostnaður við tengingu viðkomandi íbúðarhúsnæðis við hitaveituna og áætluð orkukaup er meiri en við niðurgreidda rafhitun samanlagt fyrstu tíu árin eftir tengingu er heimilt að halda niðurgreiðslum áfram, sbr. 2. tl. 1. mgr. 4. gr., komi fram beiðni þar um.


16. gr.
Fjárveitingar til jarðhitaleitar.

Ráðherra er heimilt að ákveða að sérstakt jarðhitaleitarátak á köldum svæðum fái allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna. Beiðnir um styrki skulu sendar iðnaðarráðuneytinu ásamt greinargerð um fyrirhugaða jarðhitaleit.


IV. KAFLI
Eftirlit.
17. gr.
Eftirlit Orkustofnunar.

Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar reglugerðarinnar skulu liggja fyrir hjá Orkustofnun.

Ef breytingar verða á aðstæðum og íbúðareigandi hefur ekki lengur rétt til niðurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari ber íbúðareiganda að tilkynna slíkt til Orkustofnunar.

Orkustofnun skal ár hvert áætla kostnað stofnunarinnar við þetta eftirlit og leggja fyrir iðnaðarráðherra til staðfestingar. Kostnaður vegna eftirlits Orkustofnunar samkvæmt staðfestri áætlun greiðist af því fé sem ákveðið er í fjárlögum til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun og til að styrkja nýjar hitaveitur.


18. gr.
Heimildir Orkustofnunar.

Dreifiveitum og kyntum hitaveitum ber að afhenda Orkustofnun upplýsingar um orkukaupendur sem fá niðurgreiðslur og um notkun þeirra þegar stofnunin fer fram á slíkt.


19. gr.
Úrræði Orkustofnunar.

Ef Orkustofnun verður þess áskynja að orkukaupandi tilkynnir ekki um breyttar aðstæður, sem hefðu átt að leiða til brottfalls niðurgreiðslu, skal stofnunin fella niðurgreiðslurnar niður að undangenginni tilkynningu þar um. Hefur orkukaupandi 30 daga frá dagsetningu tilkynningar til að koma á framfæri andmælum áður en ákvörðun um brottfall niðurgreiðslna kemur til framkvæmda.

Í tilkynningu um brottfall niðurgreiðslna skal upplýst um heimild til að skjóta ákvörðun Orkustofnunar til ráðuneytis.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði
20. gr.
Gildistaka og reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli heimildar í 21. gr. laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar nr. 78/2002, öðlast þegar gildi.


Iðnaðarráðuneytinu, 9. mars 2005.

Valgerður Sverrisdóttir.
Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica