Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

908/2005

Reglugerð fyrir Hitaveitu Fjarðabyggðar.

I. KAFLI Almennt.

1. gr. Nafn, lögheimili o.fl.

Hitaveita Fjarðabyggðar, í reglugerð þessari nefnd hitaveitan, er sjálfstæð rekstrareining innan Orkuveitu Fjarðabyggðar, með sjálfstæða stjórn og fjárhag. Lögheimili hitaveitunnar er Hafnargata 2 á Reyðarfirði.

2. gr. Tilgangur.

Tilgangur Hitaveitu Fjarðabyggðar er að annast öflun, dreifingu og sölu á heitu vatni til kyndingar og neyslu á orkuveitusvæði sínu, svo og aðra nauðsynlega starfsemi sem því tengist.

3. gr. Veitusvæði og einkaréttur.

Veitusvæði, til dreifingar á hitaorku/heitu vatni, er allt svæðið innan marka þéttbýlisins á Eskifirði sem markast af Mjóeyri að utan og býlinu Eskifirði að innan. Hitaveitan hefur einkarétt til dreifingar og sölu á hitaorku/heitu vatni á orkuveitusvæði sínu.

II. KAFLI Stjórn og rekstur.

4. gr. Yfirstjórn.

Yfirstjórn hitaveitunnar er í höndum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

5. gr.

Bæjarstjórn kýs stjórn hitaveitunnar eða felur hana í hendur bæjarráðs Fjarðabyggðar. Kjörtímabil stjórnar er hið sama og bæjarstjórnar.

6. gr. Verksvið stjórnar.

Hlutverk veitustjórnar er:

  1. að hafa eftirlit með því að skipulag og starfsemi hitaveitunnar sé jafnan í réttu og góðu horfi,
  2. að semja framkvæmda- og fjárhagsáætlanir og leggja fyrir bæjarstjórn,
  3. að semja drög að þriggja ára áætlun, um rekstur, framkvæmdir og fjármál hitaveitunnar og leggja hana fyrir bæjarstjórn,
  4. að semja gjaldskrá hitaveitunnar og leggja hana fyrir bæjarstjórn til samþykktar,
  5. að ákveða framkvæmdir á veitusvæðnu í samræmi við samþykktir bæjarstjórnar og ákvæði sveitarstjórnarlaga,
  6. að undirbúa og gera samninga um orkukaup og orkusölu,
  7. að gefa bæjarstjórn þær skýrslur sem hún óskar eftir,
  8. að semja nánari reglur um einstök framkvæmdaratriði þessarar reglugerðar eftir því sem þörf er á og leggja þær fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

7. gr. Framkvæmdastjóri.

Veitustjórn ræður veitunni framkvæmdastjóra sem sér um og ber ábyrgð á daglegum rekstri hitaveitunnar.

8. gr. Starfsmannahald.

Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn hitaveitunnar en veitan hefur að öðru leyti sameiginlegt skrifstofu- og starfsmannahald með Fjarðabyggð samkvæmt sérstökum samningi þar að lútandi.

9. gr. Reikningshald.

Hitaveita Fjarðabyggðar skal hafa sjálfstæðan fjárhag og aðgreint reikningshald. Reikningsár er almanaksárið og skulu endurskoðaðir reikningar hitaveitunnar fylgja reikningum bæjarfélagsins.

Tekjum hitaveitunnar skal fyrst og fremst varið til að standa straum af rekstrarkostnaði hennar og nauðsynlegum fjárfestingum, þar með talið greiðslu afborgana og vaxta, með það að markmiði að öruggur rekstur sé tryggður. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin af bæjarstjórn að fengnum tillögum stjórnar hitaveitunnar.

III. KAFLI Almenn ákvæði.

10. gr.

Í gjaldskrá skal kveðið á um verð fyrir hitaorku, heimæðar, mælagjald, um gjalddaga, eindaga og innheimtu gjalda, viðurlög við vanskilum og annað sem kemur gjaldtökunni við. Gjaldskrá sem hlotið hefur samþykki bæjarstjórnar skal lögð fyrir iðnaðarráðuneytið, til staðfestingar og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Viðskiptavinir hitaveitunnar skulu greiða orkukaupin samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma. Við verðbreytingar skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til. Bili mælitæki skal notkun áætluð út frá fyrri notkun viðkomandi viðskiptavinar. Við endurreiknun orkunotkunar skal taka tillit til fyrri notkunar viðkomandi aðila og annarra aðstæðna sem gefið gætu vísbendingu um það hvenær mælitækið bilaði. Eigi skal reikna vexti af umfram- eða vangreiðslum samkvæmt framansögðu.

Innheimta skal rúmmetragjald (kr./m3) af þeim notendum, sem fá hitaorku/heitt vatn frá veitunni, samkvæmt mælingu um rennslismæli sem settur er upp við hitaveituinntak hjá notanda. Að auki er innheimt mælagjald fyrir hvern uppsettan mæli.

Gjald fyrir hitaorku/heitt vatn skal ekki innheimta fyrr en frágangi heimæðar ásamt tengigrind er að fullu lokið og viðkomandi húsnæði er tengt veitunni.

Orkureikninga skal senda út reglulega og eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Þeir skulu sendir notanda á notkunarstað eða á annan stað sem hann tiltekur.

Gjalddagi er við útgáfu reiknings. Eindagi er samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá hverju sinni.

11. gr.

Sé orkureikningur ekki greiddur á eindaga, eða ef notandi vanefnir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari eða skriflegum samningi um orkukaup, má stöðva orkuafhendingu að undangenginni skriflegri aðvörun sem sendist honum með minnst 5 daga fyrirvara. Stöðvun orkuafhendingar vegna vanskila hefur engin áhrif á greiðsluskyldu notanda á skuldum við hitaveituna né heldur á fastagjaldi, aflgjaldi og tækjaleigu á lokunartíma. Hitaveitan ber enga ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar stöðvunar. Hitaveitan hefur rétt til þess að krefja notanda um greiðslu kostnaðar við undirbúning að stöðvun orkuafhendingar (lokun), ennfremur við framkvæmd lokunar sem og opnunar aftur.

Óleyfilega tengda veitu má aftengja/rjúfa fyrirvaralaust. Sá einn má tengja eða endurtengja veitu sem til þess hefur fengið umboð frá hitaveitunni.

IV. KAFLI Húsveitur o.fl.

12. gr.

Húsveita (hitakerfi húss) er sjálfstæð veita sem tengd er við heimæð hitaveitunnar. Húseigandi þess húss sem tengist heimæð hitaveitunnar telst jafnframt eigandi húsveitunnar og er hann jafnframt ábyrgur fyrir greiðslum á því heita vatni sem húsveitan nýtir samkvæmt rennslismælum. Þó er heimilt að tilkynna annan kaupanda heits vatns, eða annan ábyrgðaraðila fyrir greiðslum enda sé það tilkynnt með formlegri staðfestingu beggja aðila þar að lútandi eða öðrum sannanlegum hætti svo sem með framlagningu þinglýsts húsaleigusamnings. Kaupandi hitaorku/heits vatns eða hver sá aðili sem ábyrgur er fyrir greiðslu hennar, nefnist notandi.

13. gr.

Umsókn um heimæð eða breytingu á heimæð skal undirrituð af húseiganda er skuldbindur sig til þess, með undirskrift sinni, að greiða tilskilin gjöld sem ákveðin eru í verðskrá hitaveitunnar og að hlíta settum reglum um orkukaupin. Heimilt er að krefjast þess að skrifleg greinargerð, byggðri á tækniþekkingu, sé lögð fram varðandi áætlun um afl- og orkunotkun.

14. gr.

Hitaveitan setur upp nauðsynleg mælitæki vegna vatns- og orkusölu og ákveður fjölda þeirra, tegund og staðsetningu. Mælitækin má ekki flytja úr stað eða hrófla við þeim með öðrum hætti án samþykkis hitaveitunnar.

Notandi mælitækis er sá sem skráður er fyrir orkunotkun þeirrar húsveitu sem mælitækið er skráð fyrir. Skal hann bera ábyrgð á mælitækjum og orkunotkun húsveitunnar þar til hann lætur af notkun hennar og tilkynnir sannanlega um það til hitaveitunnar.

Ef um sameiginlega orkunotkun er að ræða, t.d. hjá húsfélagi, má ekki breyta skráðum notanda nema allir sem að notkuninni standa samþykki það skriflega.

Hætti skráður notandi notkun skal hann tilkynna það til hitaveitunnar, sem annast lokaálestur. Hafi eigi annar notandi sótt um að fá mælitækið skráð á sitt nafn skal loka því og eigi skal hefja orkusölu um tækið á ný fyrr en nafn og kennitala nýs notanda hefur verið tilkynnt.

Húseigandi og orkunotandi eru samábyrgir fyrir tilkynningu til hitaveitunnar um notendaskipti. Vanræki þeir tilkynningarskyldu sína bera þeir báðir ábyrgð á ógreiddri orkunotkun þess aðila er áður var notandi viðkomandi veitu.

Hitaveitan annast venjulegt viðhald mælitækja á sinn kostnað en verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum er heimilt að skylda notanda til að greiða kostnað við viðhald og endurnýjun þess.

15. gr.

Starfsmenn hitaveitunnar hafa heimild til að innsigla mælitæki, sem orkukaup eru gerð um, svo sem rennslismæla, bakrennslisloka, hemla o.þ.h. Einnig er starfsmönnum hitaveitunnar heimilt að innsigla þann hluta húsveitu sem ómæld orka fer um. Þessi innsigli mega engir aðrir rjúfa en starfsmenn hitaveitunnar. Önnur innsigli hitaveitunnar mega einungis faglega ábyrgir aðilar rjúfa að fengnu leyfi hitaveitunnar hverju sinni.

Ef skjótra aðgerða er þörf vegna hættuástands er heimilt að rjúfa innsigli en þá skal viðkomandi eigi síðar en næsta virkan dag á eftir tilkynna hitaveitunni skriflega um málsatvik.

Veiti notandi eða faglega ábyrgur aðili því athygli að innsigli sé rofið eða vanti er hann skyldur að tilkynna það til hitaveitunnar án tafar.

16. gr.

Tengiskilmálar koma fram í gjaldskrá hitaveitunnar svo og ákvæði um gerð inntaksrýmis, sbr. 86. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og frágangur á inntakspípu. Starfsmenn hitaveitunnar eiga ávallt rétt til þess að hafa óhindraðan aðgang að inntaksrýmum og til skoðunar á húsveitum, jafnt fullgerðum sem ófullgerðum.

V. KAFLI Tenging húsveitna við dreifikerfi hitaveitunnar.

17. gr.

Sækja skal um orkukaup til Hitaveitu Fjarðabyggðar á þar til gerðum eyðublöðum sem skrifstofa hennar lætur í té. Umsóknin skal undirrituð af eiganda hússins eða af fullgildum umboðsmanni hans ásamt pípulagningameistara þeim sem verkið á að annast. Umsókn skulu fylgja teikningar samþykktar af byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar. Staðsetning inntaks og inntaksrýmis skal greinilega mörkuð á uppdrætti.

Skilyrði fyrir sölu á heitu vatni er að í gildi sé samþykkt umsókn um áhleypingu á húsveitu við veitukerfi hitaveitunnar og að pípulagningameistari hafi skilað inn vottorði um úttekt byggingarfulltrúa á viðkomandi húsveitu. Sækja skal um áhleypingu á húsveitu með minnst fjögurra daga fyrirvara. Engir aðrir en umboðsmenn hitaveitunnar mega hleypa vatni úr heimæð hennar á húsveitu í fyrsta sinn eftir tengingu.

VI. KAFLI Skilmálar fyrir sölu á heitu vatni.

18. gr.

Upphaf og lok samningstíma um kaup á heitu vatni eru við skráningu tilkynningar þess efnis hjá hitaveitunni.

19. gr.

Hitaveita Fjarðabyggðar ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni, sem leiða kann af rekstrartruflunum er verða vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama á við um óviðráðanlegar breytingar á þrýstingi, hitastigi eða magni orkumiðilsins. Þá ber hitaveitan ekki ábyrgð á tjóni sem verður ef rennsli í vatnsæð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra framkvæmda við hitaveituna.

Þurfi að takmarka notkun á hitaorku/heitu vatni um lengri eða skemmri tíma ákveður hitaveitan hvar og hvernig hún skuli takmörkuð. Takmörkunin hefur ekki áhrif á greiðslu fastagjalds (fasts aflgjalds eða mælagjalds).

Stöðvun á rekstri hitaveitunnar eða hluta hennar vegna viðhalds eða tenginga skal tilkynna fyrirfram ef unnt er og koma á eðlilegum rekstri aftur svo fljótt sem verða má.

20. gr. Mæling.

Hitaveitunni er ekki skylt að greiða bætur vegna takmörkunar á afhendingu varmaorku og/eða lækkunar á hitastigi.

21. gr.

Hitaveitunni er heimilt að semja sérstaklega um afnot af heitu vatni utan almennra söluskilmála. Slíkir samningar skulu ætíð háðir samþykki bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

22. gr.

Hitaveituvatn sem runnið hefur í gegnum húsveitu eða í gegnum varmaskipti húsveitu er eign hitaveitunnar. Stjórn hitaveitunnar getur heimilað notkun hitaveituvatns með sérstökum samningi við notanda. Frágangur lagna og búnaðar vegna slíkrar notkunar skal vera samkvæmt fyrirmælum hitaveitunnar.

Óheimilt er að tengja vatnsdælur, varmadælur og/eða annan slíkan búnað við bakrennslið, nema að um það sé gerður samningur milli hitaveitunnar og notanda.

23. gr.

Kaupendum er óheimil endursala á hitaorku/heitu vatni án skriflegs samþykkis hitaveitunnar.

24. gr.

Hitaveitan lætur leggja og á allar lagnir veitukerfisins, aðveituæðar, stofnæðar, dreifiæðar, götuæðar svo og heimæðar inn fyrir húsveggi ásamt inntakslokum, inntakssíum, rennslismæli og únionum við inntakssíur.

25. gr.

Hitaveitan annast lagningu eigin veitukerfis og tengingu við húsveitu húseiganda. Við slíka framkvæmd skal halda raski í lágmarki og ganga þrifalega um. Jafnframt skal hitaveitan færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

Hitaveitan ákveður staðsetningu mælagrindar og inntaks í samráði við húseiganda. Húseigandi á ekki kröfu um sérstaka greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar veitukerfisins.

26. gr.

Húseigandi skal bera kostnað við breytingu á húsveitu vegna tengingar við hitaveituna.

Húseigandi kostar breytingar á heimæðum sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda hans við hús sitt eða lóð.

Húseigandi skal fyrirfram sækja um leyfi til hverra þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa í för með sér röskun á veitukerfi hitaveitunnar.

VII. KAFLI Ýmis ákvæði.

27. gr.

Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari svo og gjaldskrá settri skv. henni má innheimta með fjárnámi.

28. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við að lögum.

29. gr.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Fjarðabyggðar er hér með staðfest samkvæmt orkulögum nr. 58, 29. apríl 1967 til að öðlast þegar gildi.

Iðnaðarráðuneytinu, 28. september 2005.

Valgerður Sverrisdóttir.

Kristján Skarphéðinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.