Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 14. des. 2007

557/1993

Reglugerð um hraðfryst matvæli.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um meðhöndlun, merkingu og dreifingu á hraðfrystum matvælum.

Auk ákvæða þessarar reglugerðar skulu hraðfryst matvæli uppfylla ákvæði sérreglugerða sem um þau gilda.

2. gr.

Hraðfryst matvæli eru matvæli fryst á tiltekinn hátt, sem kallast hraðfrysting, og eru markaðssett sem slík. Hraðfrysting felst í því að matvælin eru gegnfryst eins hratt og auðið er miðað við eiginleika þeirra. Hitastigi hraðfrystra matvæla skal haldið við -18°C eða lægra í allri vörunni, eftir að stöðugu hitastigi hefur verið náð.

Stóreldhús eru veitingastaðir, sjúkrahús, mötuneyti og önnur sambærileg starfsemi.

II. KAFLI Almenn ákvæði og búnaður.

3. gr.

Hráefni sem notuð eru í framleiðslu hraðfrystra matvæla skulu vera óskemmd, ósvikin, söluhæf og eins fersk og mögulegt er.

Meðhöndlun og hraðfrysting matvæla skal framkvæmd eins hratt og auðið er, með tilheyrandi tæknibúnaði, til að takmarka megi sem mest efna-, lífefna- og örverufræðilegar breytingar.

4. gr.

Hitastig hraðfrystra matvæla skal vera stöðugt -18°C eða lægra í allri vörunni, en má fara tímabundið upp um 3°C hið mesta, í samræmi við góðar geymslu- og dreifingaraðferðir, á meðan á dreifingu stendur og í frystirými verslana þar sem matvæli eru lögð fram til sölu.

5. gr.

Þeir kælimiðlar sem leyfilegt er að komist í beina snertingu við hraðfryst matvæli eru loft, köfnunarefni og koldíoxíð.

6. gr.

Tryggja skal að sá búnaður sem notaður er við hraðfrystingu, geymslu og dreifingu, svo og í frystirými smásöluaðila, sé þannig gerður að ákvæði þessarar reglugerðar séu uppfyllt.

III. KAFLI Umbúðir og merkingar.

7. gr.

Framleiðandi eða pökkunaraðili, sem dreifir hraðfrystum matvælum í neytendaumbúðum, skal pakka þeim í hæfilegar umbúðir, sem verja matvælin gegn skemmdum af völdum örvera eða annarra utanaðkomandi þátta og gegn þornun.

8. gr.

Hraðfryst matvæli, sem dreift er til neytenda eða stóreldhúsa, skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði um merkingu, auk ákvæða reglugerðar um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla:

a) bæta skal við vöruheitið merkingunni "HRAÐFRYST";

b) hraðfryst matvæli skulu merkt með númeri sem auðkennir framleiðslueiningu;

c) merkja skal greinilega með setningu á borð við: "Endurfrystið ekki".

9. gr.

Hraðfryst matvæli, önnur en þau sem ætluð eru til sölu til neytenda eða stóreldhúsa, nægir að merkja með eftirfarandi upplýsingum á umbúðum eða áföstum merkimiða:

a) vöruheiti ásamt viðbótarupplýsingum í samræmi við a-lið 8. gr.;

b) nettóþyngd;

c) merkingu sem auðkennir framleiðslueiningu;

d) heiti eða fyrirtækjaheiti og heimilisfang framleiðanda, pökkunaraðila eða seljanda.

IV. KAFLI Eftirlit og ma lingar.

10. gr.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar.

11. gr.

Eftirlitsaðili skal taka tilviljanakennd sýni og framkvæma mælingar til að kanna hvort ákvæði þessarar reglugerðar eru uppfyllt. Áður en kemur til dreifingar hraðfrystra matvæla eða við dreifingu þeirra getur eftirlitsaðili ekki krafist vottorða um að búnaður sem notaður er við flutning, geymslu og dreifingu uppfylli ákvæði þessarar reglugerðar.

12. gr.

Aðferðir við sýnatöku hraðfrystra matvæla, eftirlit með hitastigi þeirra og eftirlit með hitastigi í flutningatækjum, í vöruhúsum og við geymslu skulu vera í samræmi við það sem fram kemur í viðaukum þessarar reglugerðar. Aðferðina, sem lýst er í viðauka 2, skal þó aðeins nota þegar eftirlit leiðir til efasemda um að þær hitastigskröfur, sem tilgreindar eru í 4. gr., séu uppfylltar.

13. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. er aðildarríkjum heimilt að beita öðrum viðurkenndum aðferðum við eftirlit, svo framarlega sem það takmarkar ekki eða kemur í veg fyrir frjáls viðskipti með hraðfryst matvæli sem uppfylla þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Ef um mismunandi niðurstöður er að ræða milli aðferða, skal styðjast við þær mælingar sem gerðar eru samkvæmt viðauka 2.

14. gr.

Um eftirlit með hitastigi í flutningatækjum, geymslum og pakkhúsum fyrir hraðfryst matvæli gildir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 37/2005 frá 12. janúar 2005 um eftirlit með hitastigi í flutningatækjum, geymslum og pakkhúsum fyrir hraðfryst matvæli. Reglugerðin var felld inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlega EES-nefndarinnar nr. 96 frá 8. júlí 2005 og birt í EES-viðbæti nr. 60 frá 24. nóvember 2005.

Þeir staðlar sem vísað er til í 2. mgr. 2. gr. framangreindrar reglugerðar EB hafa verið samþykktir sem íslenskir staðlar með númerin ÍST EN 12830:1999, ÍST EN 13485:2001 og ÍST EN 13486:2001.

V. KAFLI Ýmis ákvæði og gildistaka.

15. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, sbr. og lög nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

16. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 24/ 1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 47. tölul., tilskipun nr. 89/108/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi hraðfryst matvæli, og þeim breytingum og viðbótum sem leiða af II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans, og tilskipun nr. 92/1/EBE um eftirlit með hitastigi hraðfrystra matvæla við flutning og geymslu, og tilskipun nr. 92/2/EBE um aðferðir við sýnatöku og mælingu á hitastigi hraðfrystra matvæla við opinbert eftirlit. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.