Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

294/2007

Reglugerð um endurmat eigna og fyrningar hjá orkufyrirtækjum.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Orkufyrirtæki, sem skattskyld eru samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja, skulu endurmeta fyrnanlegar eignir sínar, sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem voru í eigu þeirra í árslok 2005 og aflað var fyrir árslok 2001. Endurmatið skal þannig framkvæmt að kostnaðarverð (stofnverð) skal breytt eftir verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár fram til ársins 2001, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra um verðbreytingarstuðla orkufyrirtækja, dags. 20. desember 2005, (birt í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1183/2005). Hið sama gildir um ófyrnanlegar eignir eftir því sem við á.

2. gr.

Í stað endurmats samkvæmt 1. gr. er orkufyrirtækjum heimilt að nota framreiknað stofnverð eins og það er bókfært í reikningsskilum þeirra í árslok 2001, enda hafi fyrirtækin endurmetið eignir sínar með sambærilegum hætti og skattskyldum aðilum bar að endurmeta fyrnanlegar eignir sínar samkvæmt þágildandi lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

3. gr.

Fyrirtæki sem óska eftir að nota endurmat skv. 2. gr. skulu leita eftir samþykki ríkisskattstjóra. Þau skulu sýna fram á að verðlagsbreytingar sem beitt hefur verið á stofnverð í reikningsskilum þeirra séu sambærilegar við verðbreytingar í skattskilum skattskyldra fyrirtæka á þeim árum sem skylt var að endurmeta eignir og hafi haft svipaðan tilgang og verðbreytingarstuðulsleiðréttingar í skattalögum á sama tímabili. Endurmat á þessum árum skal hafa byggst á málefnalegum ástæðum og á fyrirfram skilgreindum verðmælum sem mæla eiga breytingar á fjárhagslegum stærðum á hverjum tíma.

4. gr.

Til frádráttar ákvörðuðu endurmati á stofnverði skv. 1. eða 2. gr. reiknast sá hundraðshluti fyrninga sem um getur í 4. gr. laga nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja, hvert ár frá og með kaup- eða byggingarári eða frá upphafi fyrningartíma, sbr. 33. gr. þágildandi laga nr. 75/1981, sbr. og 34. gr. laga nr. 90/2003, um upphaf fyrningartíma, til ársloka 2005.

5. gr.

Ef um er að ræða eignir eða eignasamstæðu og ekki hefur verið gerð aðgreining á kostnaði þeirra í bókhaldinu á byggingartíma eða við kaup þeirra en þær falla undir fleiri en einn fyrningarflokk skal fyrirtækið meta þá skiptingu á fyrningarflokka með rökstuddum hætti með hliðsjón af hlutverki eignanna eða eignasamstæðunnar. Endurmeta skal fyrningar í samræmi við þá skiptingu.

6. gr.

Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi má víkja frá reglum um fyrningar og fyrningarhlutföll og veitir ríkisskattstjóri heimild til slíkra frávika, sbr. 47. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. málsl. 9. mgr. 3. gr. og 7. gr. laga nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja, og tekur þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 21. mars 2007.

F. h. r.

Baldur Guðlaugsson.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.