Fjármálaráðuneyti

334/2006

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. - Brottfallin

1. gr.

1. málsl. 1. mgr. 35. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur af sjálfsdáðum ákveðið að hefja refsimeðferð með því að gefa skattaðila kost á að gangast undir sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra, með því að vísa máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd eða með því að vísa máli til opinberrar rannsóknar og venjulegrar sakamálameðferðar.

2. gr.

4. málsl. 1. mgr. 35. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

3. gr.

1. mgr. 36. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Við mat á því hvort mál skuli sæta sektarboði af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sektarmeðferð yfirskattanefndar eða opinberri rannsókn skal höfð hliðsjón af þeim atriðum sem greinir í 38. gr.

4. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein er verði 37. gr. A - Sektir skattrannsóknarstjóra ríkisins, svohljóðandi:

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur lokið refsimeðferð máls með ákvörðun sektar, enda sé talið að brot sé skýlaust sannað. Ljúki refsimeðferð máls með þeim hætti verður máli hvorki vísað til opinberrar meðferðar né sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd.

Sektarheimild skattrannsóknarstjóra ríkisins tekur m.a. til brota er varða vanhöld á skilum skattskila­gagna til skattyfir­valda, þ.m.t. skatt­framtölum, virðis­auka­skatts­skýrslum, og skila­greinum stað­greiðslu opin­berra gjalda eða fjármagns­tekna, skilum á efnislega röngum skatt­skila­gögnum til skatt­yfirvalda og vanrækslu á greiðslu inn­heimts virðis­aukaskatts eða afdreg­innar stað­greiðslu opinberra gjalda eða fjár­magns­tekna.

Sektir ákvarðaðar af skattrannsóknarstjóra ríkisins geta numið frá kr. 100 þús. til kr. 6 millj. Telji skattrannsóknarstjóri ríkisins að fésekt vegna refsiverðra brota skuli nema hærri fjárhæð er ekki unnt að ljúka refsimeðferð máls með þessum hætti.

Við ákvörðun sektarfjárhæðar skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota. Skal þar m.a. litið til þess hvort brot sé ítrekað, brotastarfsemi langvarandi eða skipuleg. Heimilt er ef veigamikil rök mæla með því að meta málsatvik eða aðstæður skattaðila honum til refsilækkunar, t. a. m. hafi hann leiðrétt skattskil sín undir rannsókn máls eða ríkissjóður ekki orðið fyrir tjóni vegna brota skattaðila. Þá skal gætt ákvæða 74. gr. alm. hgl. nr. 19/1940 eftir því sem við á, þ. á m. ef skattaðili hefur af sjálfsdáðum sagt til brots eða bætt úr því tjóni sem hann olli.

Ákveði skattrannsóknarstjóri ríkisins að gefa sakborningi kost á að ljúka máli með greiðslu sektar sendir hann sakborningi sektarboð þar um. Að jafnaði skal sakborningi gefinn kostur á að ljúka máli með þessum hætti, nema skattrannsóknarstjóri ríkisins telji að brot varði hærri sektarfjárhæð en kr. 6 milljónum eða sökunautur óski eftir því að máli hans verði vísað til opinberrar meðferðar.

Áður en sakborningi er tilkynnt um sektarboð skal honum gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð í samræmi við 2. mgr. 35. gr. reglugerðar þessarar.

Í sektarboði skal koma fram dagsetning sektarboðs, nafn sökunautar, kennitala og heimilisfang, nafn og kennitala skattaðila, stutt lýsing á broti og þau refsiákvæði sem það varðar við. Greint skal frá því að sökunautur eigi þess kost að ljúka refsimeðferð máls með greiðslu tiltekinnar sektar innan 14 daga frá dagsetningu sektarboðs. Skal sektarboð sent skattaðila með ábyrgðarbréfi.

Nú vill sökunautur ljúka máli með greiðslu tiltekinnar sektar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og kemur hann þá á skrifstofu embættisins og lýsir sig reiðubúinn til að ljúka máli með þeim hætti sem fram kemur í boðinu. Gengst hann skriflega undir sektargerð með undirritun sinni á boðið. Koma skal fram á sektarboðinu hvenær það var samþykkt og skal það jafnframt undirritað af skattrannsóknarstjóra ríkisins eða löglærðum fulltrúa hans. Vararefsing fylgir ekki ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Ef sökunautur sinnir ekki eða hafnar boði um sektargerð, tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um hvort máli verði vísað til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd eða opinberrar meðferðar í samræmi við 36., 37. og 38. gr. reglugerðar þessarar.

Sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins skal lokið innan sex mánaða frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lauk. Verði sektarákvörðun ekki lokið innan þess tíma er ekki unnt að ljúka refsimeðferð máls með þeim hætti. Tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins þá ákvörðun um hvort máli verði vísað til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd eða opinberrar meðferðar í samræmi við 36., 37. og 38. gr. reglugerðar þessarar.

Um innheimtu sekta sem ákveðnar eru af skattrannsóknarstjóra ríkisins gilda sömu reglur og um skatta, þar á meðal um lögtaksrétt, og innheimtu vanskilafjár og álags. Einnig má beita 3. mgr. 29. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, 3. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, eftir því sem við á.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 121. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, 41. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, 22. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 10. apríl 2006.

F.h.r.

Baldur Guðlaugsson.

Maríanna Jónasdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica