Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 9. sept. 2022

194/1990

Reglugerð um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.

I. KAFLI Sala þjónustu til erlendra aðila.

1. gr.

Sala þjónustu sem um ræðir í 2. gr. til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi er undanþegin skattskyldri veltu samkvæmt lögum nr. 50/1988, enda sé a.m.k. öðru eftirtalinna skilyrða fullnægt:

a) Þjónustan er nýtt að öllu leyti erlendis.

b) Kaupandi gæti - ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt lögum nr. 50/1988 - talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. nefndra laga.

Til sönnunar því að b-liður 1. mgr. eigi við um kaupanda skal seljandi krefja hann um vottorð frá bærum yfirvöldum í heimalandi hans þar sem fram komi hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum. Vottorð þetta gildir í tvö ár frá útgáfudegi og skal seljandi varðveita það á sama hátt og önnur bókhaldsgögn.

Seljandi getur farið fram á framlengingu gildistíma vottorðsins um tvö ár í senn hjá ríkisskattstjóra, þyki staðfest að forsendur séu óbreyttar frá því vottorðið var gefið út.

Þjónusta sem felst í endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna skal ætíð undanþegin skattskyldri veltu, enda þótt skilyrðum 1. mgr. sé ekki fullnægt.

2. gr.

Eftirtalin þjónusta fellur undir ákvæði 1. gr.:

1. Framsal á höfundarétti, rétti til einkaleyfis, vörumerkis og mynsturs, svo og framsal annarra sambærilegra réttinda.

2. Auglýsingaþjónusta.

3. Ráðgjafarþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta.

4. Tölvuþjónusta, önnur gagnavinnsla og upplýsingamiðlun.

5. Atvinnumiðlun.

6. Leiga lausafjármuna, þó ekki neins konar flutningatækja.

7. Kvaðir og skyldur varðandi atvinnu- eða framleiðslustarfsemi eða hagnýtingu réttinda sem um ræðir í þessari grein.

8. Þjónusta milligöngumanna, sem koma fram í nafni annars og fyrir reikning annars, að því er varðar sölu eða afhendingu þjónustu sem um ræðir í þessari grein.

8. Ábyrgðarviðgerðir sem umboðsaðili annast fyrir reikning erlends ábyrgðaraðila.

9. Þjónusta sem veitt er vegna löndunar eða sölu á afla fiskiskipa hér á landi.

10. Vöruflutningar innanlands þegar flutt er beint til eða frá landinu.

3. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. gr. skal ætíð telja sölu eftirtalinnar þjónustu hér á landi til skattskyldrar veltu:

1. Þjónustu sem varðar fasteignir hér á landi, þ.m.t. hönnunarþjónusta og ráðgjafarþjónusta vegna byggingarframkvæmda, svo og þjónusta fasteignasala.

2. Vöruflutninga, aðra en vöruflutninga innanlands þegar flutt er beint til eða frá landinu.

3. Skattskyldrar þjónustu sem varðar starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, svo sem menningarstarfsemi, listastarfsemi, íþróttastarfsemi, kennslustarfsemi og aðra hliðstæða starfsemi.

4. Vinna við lausafjármuni önnur en sú sem 8. tölul. 2. gr. nær til.

5. Skattskyldra álits- og matsgerða sem varða lausafjármuni.

II. KAFLI Kaup þjónustu erlendis frá.

4. gr.

Hver sá sem kaupir þjónustu skv. 2. eða 3. gr. erlendis frá til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi skal greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar, sbr. þó 2. mgr. Um skattverð, uppgjör, álagningu, áætlun, endurákvörðun, álag, dráttarvexti og kærur skal, eftir því sem við getur átt, fara með eins og í viðskiptum innan lands.

Aðili sem skráður er samkvæmt lögum nr. 50/1988 er undanþeginn skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af kaupum skv. 1. mgr. ef hann gæti að fullu talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um þjónustu skv. 7. gr.

5. gr.

Kaupandi þjónustu skv. 2. eða 3. gr. skal færa upplýsingar um þau í bókhald sitt. Fram skal koma hvers eðlis þjónusta er, hvenær henni var veitt móttaka og hvernig greiðslu var hagað.

6. gr.

Sá sem greiða skal virðisaukaskatt skv. 4. gr. skal ótilkvaddur gera Skattinum grein fyrir kaupum á þjónustu skv. 2. eða 3. gr. á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt greinargerð skv. 1. mgr. skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga.

7. gr.

Nú er skattskyld þjónusta veitt eða hennar notið í tengslum við innflutning vöru og skal innflytjandi þá greiða virðisaukaskatt í einu lagi af hinni skattskyldu vöru og þjónustu hjá tollstjóra þar sem vara er tollafgreidd.

Ríkisskattstjóri ákveður hvaða upplýsingar skuli gefa í aðflutningskýrslu og öðrum tollskýrslum sem greitt skal af í tolli. Um ákvörðun skattverðs innfluttrar þjónustu samkvæmt 1. mgr. gilda ákvæði III. kafla laga nr. 50/1988 og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

III. KAFLI Ýmis ákvæði.

8. gr.

Erlendur aðili sem selur hér á landi skattskylda þjónustu samkvæmt lögum nr. 50/1988 er skyldur til að tilkynna um starfsemi sína til Skattsins, innheimta virðisaukaskatt af þessum viðskiptum og standa skil á honum í ríkissjóð samkvæmt almennum reglum laganna, enda eigi 3. tölul. 4. gr. þeirra ekki við um hann. Í þessum tilvikum kemur eigi til skattheimtu skv. II. kafla reglugerðar þessarar.

Hafi erlendur aðili sem selur hér á landi skattskylda þjónustu ekki fasta starfsstöð hérlendis ber honum að fela umboðsmanni með heimilisfesti hér á landi að vera í fyrirsvari fyrir sig, þ.m.t. að tilkynna um starfsemina til skattstjóra, innheimta virðisaukaskatt af skattskyldri þjónustu og skila í ríkissjóð.

Hafi erlendur aðili skv. 2. mgr. ekki umboðsmann eða fyrirsvarsmann hér á landi og vanrækir að tilkynna til Skattsins um starfsemi sína ber kaupandi þjónustunnar ábyrgð á virðisaukaskattsskilum hins erlenda aðila vegna þeirrar þjónustu sem hann er kaupandi að. Um skattskil í slíkum tilvikum gilda ákvæði 4. og 6. gr.

9. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu skv. 40. gr. laga nr. 50/1988.

Komi í ljós að aðili hafi vanrækt að greiða virðisaukaskatt skv. 4. eða 7. gr. eða ekki greitt skattinn á tilskildum tíma skv. 6. gr. skal hann auk hins vangreidda skatts sæta álagi skv. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 12. gr. og 35. gr. laga nr. 50/1988 og öðlast þegar gildi. Ákvæði I. kafla taka þó til viðskipta frá og með 1. janúar 1990.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.