Fjármála- og efnahagsráðuneyti

1188/2014

Reglugerð um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis.

1. gr.

Almennt.

Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt til aðila búsettra erlendis af vörum sem þeir hafa fest kaup á hér á landi að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.

2. gr.

Skilyrði endurgreiðslu.

Skilyrði endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari eru eftirfarandi:

 

a)

Kaupandi vöru er með lögheimili utan Íslands samkvæmt skráningu í Þjóðskrá Íslands.

 

b)

Kaupandi vöru hafi hana með sér af landi brott innan þriggja mánaða frá því að kaup áttu sér stað og framvísi henni ásamt tilskildum endurgreiðslugögnum við brottför, sbr. 1. og. 2. mgr. 5. gr.

 

c)

Kaupverð vöru, einnar eða fleiri, samkvæmt sölureikningi, með virðisaukaskatti nemi minnst kr. 6.000.

 

d)

Seljandi vöru sé skráður á virðisaukaskattskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.



3. gr.

Heimild til að annast endurgreiðslur.

Umsókn um leyfi til að annast endurgreiðslur samkvæmt reglugerð þessari skal beint til tollstjóra. Einungis þeim sem hlotið hafa leyfi tollstjóra er heimilt að annast endur­greiðslur samkvæmt reglugerð þessari.

Endurgreiðsluaðilar skulu uppfylla eftirtalin skilyrði:

 

a)

Umsækjandi skal vera lögaðili og ekki vera í vanskilum við ríkissjóð með greiðslu opinberra gjalda eða skatta.

 

b)

Stjórnarmenn lögaðilans skulu vera a.m.k. tveir. Þeir skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð, vera fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Þá mega stjórnarmenn ekki hafa gengist undir sátt eða hlotið dóm vegna brota á tollalögum eða hlotið dóm fyrir fíkniefnabrot. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu sem og Færeyingar eru undanþegnir búsetu­skilyrðinu enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki samn­ings­ins um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki stofnsamnings Fríversl­unar­samtaka Evrópu eða Færeyjum. Tollstjóra er heimilt að veita þeim sem eru búsettir í öðrum ríkjum sömu undanþágu.

 

c)

Daglegur stjórnandi endurgreiðsluaðila skal fullnægja skilyrðum b-liðar.

 

d)

Endurgreiðsluaðili skal sýna fram á að stjórnun, innra eftirlit, bókhald og varsla gagna vegna starfseminnar verði með traustum hætti.



Tollstjóri getur afturkallað starfsleyfi skv. 1. mgr. uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði eða vanræki skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari.

4. gr.

Fyrirkomulag endurgreiðslna.

Tollstjóri staðfestir fyrirkomulag endurgreiðslna, þ.m.t. form endurgreiðsluávísana ef um þær er að ræða.

Í þeim gögnum sem notuð eru við framkvæmd endurgreiðslna skal a.m.k. eftirtalið koma fram:

 

a)

Nafn, kennitala og skráningarnúmer seljanda.

 

b)

Dagsetning kaupa á vöru.

 

c)

Vörutegund og magn.

 

d)

Verð vörunnar með virðisaukaskatti.

 

e)

Nafn, vegabréfsnúmer og heimilisfang kaupanda.

Seljandi skal festa greiðslukvittun sjóðsvélar við frumrit endurgreiðsluávísunar.

5. gr.

Framkvæmd endurgreiðslna.

Við brottför úr landi um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík skal kaupandi framvísa vörum ásamt endurgreiðslugögnum, sbr. 4. gr., til endurgreiðsluaðila, sem hefur leyfi skv. 3. gr., er framkvæmir endurgreiðsluna enda séu skilyrði reglugerðar þessarar að öðru leyti upp­fyllt. Endurgreiðsluaðila er óheimilt að endurgreiða virðisaukaskatt nema kaupandi sanni með fullnægjandi hætti að hann hafi fasta búsetu erlendis, sbr. a. lið 2. gr. Ef fjár­hæð endurgreiðslu er hærri en kr. 5.000 skulu tollyfirvöld staðfesta útflutninginn með þeim hætti sem þau ákveða. Ákvæði þessarar málsgreinar skulu jafnframt gilda við brott­för ferðamanna frá öðrum stöðum, ef aðili sem hlotið hefur heimild skv. 3. gr. annast endur­greiðslu á virðisaukaskatti við brottför.

Við brottför annars staðar frá landinu skal vörum framvísað við tollyfirvöld sem ganga úr skugga um, og staðfesta, að skilyrði fyrir endurgreiðslu séu fyrir hendi.

Endurgreiðsla skv. 1. og 2. mgr. fer eingöngu fram við eða eftir brottför úr landi. Endur­greiða skal að lágmarki þá fjárhæð sem tilgreind er í töflum á fylgiskjali með reglu­gerð þessari.

6. gr.

Uppgjör endurgreiðsluaðila.

Endurgreiðsluaðili, sbr. 3. gr., skal fyrir 20. hvers mánaðar skila tollstjóra skýrslu, á því formi sem hann ákveður, vegna endurgreiðslna á tímabilinu frá 1. til 15. þess mánaðar. Jafnframt skal hann fyrir 5. dag næsta mánaðar senda tollstjóra skýrslu vegna endur­greiðslna á tímabilinu frá 16. degi til loka mánaðar. Fallist tollstjóri á skýrsluna skal endur­greiðslu­aðili fá endurgreidda heildarfjárhæð þess virðisaukaskatts sem aðilar búsettir erlendis hafa greitt af keyptri vöru samkvæmt uppgjörsskýrslu.

Hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðslan greidd út innan tíu daga frá lokum skilafrests skv. 1. mgr. Berist skýrsla eftir lok skilafrests skal endurgreiðsla fara fram innan tíu daga frá því að tollstjóri samþykkti greiðslu. Geti tollstjóri, af ástæðum er varða endurgreiðsluaðila, ekki gert nauðsynlegar athuganir á uppgjörsskýrslu eða gögnum sem skýrslugjöf byggist á, framlengist framangreindur greiðslufrestur þar til úr þeim annmörkum hefur verið bætt.

Réttur til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef umsókn um endur­greiðslu berst tollstjóra eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofn­aðist.

7. gr.

Ofgreiðsla til endurgreiðsluaðila.

Komi í ljós að greiðsla til endurgreiðsluaðila hafi verið of há skal tollstjóri þegar tilkynna endurgreiðsluaðila þar um. Endurgreiðsluaðila ber að endurgreiða það sem ofgreitt var eigi síðar en sjö dögum eftir dagsetningu tilkynningar tollstjóra. Um dráttarvexti vegna of hárrar greiðslu fer eftir lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

8. gr.

Varðveisla gagna.

Endurgreiðsluaðila ber að varðveita endurgreiðsluávísanir, uppgjör og önnur gögn er varða endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt reglugerð þessari í sjö ár frá lokum viðkomandi árs. Heimilt er að varðveita gögn skv. 1. málsl. með rafrænum hætti.

9. gr.

Eftirlit.

Tollstjóri hefur eftirlit með framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt reglugerð þessari. Endurgreiðsluaðilum er skylt að láta tollstjóra í té ókeypis og á því formi sem hann óskar eftir allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem varða framkvæmd endurgreiðslna.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og öðlast gildi 1. febrúar 2015. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 294/1997, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis, með síðari breytingum.

Þau endurgreiðsluform sem staðfest voru fyrir gildistöku reglugerðarinnar halda gildi sínu til 1. júlí 2015. Sama gildir um leyfi skv. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 294/1997, sem veitt voru fyrir gildistöku reglugerðar þessarar.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 5. gr. skal endurgreiðsluaðilum heimilt að afgreiða endur­greiðslu­umsóknir á þeim afgreiðslustöðvum innanlands sem þegar eru starfræktir til 1. júlí 2015, enda sé um að ræða endurgreiðslufjárhæð sem er lægri en kr. 5.000.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 19. desember 2014.

F. h. r.

Maríanna Jónasdóttir.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica