Fjármálaráðuneyti

336/1993

Reglugerð um innheimtu virðisaukaskatts af blöðum og tímaritum sem send eru í áskrift erlendis frá í pósti. - Brottfallin

1. gr.

Samkvæmt lögum nr. 50/1988, með síðari breytingum er er skylt að innheimta virðisaukaskatt af sölu blaða og tímarita, þar með talið blaða og tímarita, sem send eru í áskrift í pósti erlendis frá til viðtakenda hér á landi.

Viðtakendum slíkra blaða og tímarita ber ótilkvöddum að greiða innheimtuaðila, póststjórninni, 14% virðisaukaskatt í einu lagi af áskriftargjaldi fyrir áskriftartímabil sem greitt hefur verið eða lofað að greiða fyrir. Virðisaukaskattur skal greiddur innan mánaðar frá því að áskriftargjald hefur verið greitt.

Viðtakanda er heimilt að greiða virðisaukaskatt samkvæmt reglugerð þessari, með innborgun á gíróreikning hjá Póstgíróstofunni með gíróseðli á pósthúsi, í banka, eða sparisjóði.

Auk upplýsinga um nafn, kennitölu og heimilisfang viðtakanda skal í gíróseðli veita upplýsingar um áskriftargjald, fjárhæð virðisaukaskatts, heiti viðkomandi blaðs eða tímarits og upphaf og lok áskriftartímabils auk annarra upplýsinga sem gíróseðillinn gefur til kynna.

Póststjórninni er heimilt að bera nefnd blöð og tímarit út til viðtakanda án þess að krefja þá áður um greiðslu virðisaukaskatts. Greiði viðtakandi ekki virðisaukaskatt af áskriftargjaldi ótilkvaddur skal póststjórnin synja um afhendingu nefndra tímarita og blaða þar til skil hafa verið gerð. Sama gildir sinni viðtakandi ekki tilmælum póststjórnarinnar um að framvísa greiðslukvittun eða öðrum staðfestingargögnum um fjárhæð greidds áskriftargjalds.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett með vísan til 3. mgr. 34. gr. og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 2. mgr. 14. gr. og 107. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi. Gjaldskyldum aðilum sem ekki hafa þegar greitt virðisaukaskatt vegna áskriftar fyrir tímabil eftir 1. júní 1993 er þó heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 1. gr., að fresta greiðslu virðisaukaskatts af áskriftargjaldi til 1. nóvember 1993. Hafi áskriftartímabil hafist fyrir 1. júlí 1993 skal virðisaukaskatturinn miðaður við þann hluta áskriftartímabilsins, sem er eftir 1. júlí 1993.

Fjármálaráðuneytið, 20. ágúst 1993.

F. h. r.

lndriði H. Þorláksson.

Margrét Gunnlaugsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica