Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 1. sept. 2021

1166/2013

Reglugerð um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða, innlausn, markaðssetningu erlendra sjóða og upplýsingagjöf.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði nr. 128/2011.

II. KAFLI Útvistun verkefna rekstrarfélags.

2. gr.

Fjármálaeftirlitið skal því aðeins samþykkja útvistun verkefna rekstrarfélags skv. 17. gr. laga nr. 128/2011, að:

  1. Útvistunin hindri ekki að mati Fjármálaeftirlitsins eftirlit með rekstrarfélaginu eða komi í veg fyrir að verðbréfasjóður sé rekinn með hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi.
  2. Rekstraraðili sem annast fjárfestingar verðbréfasjóðs í samræmi við fjárfestingarstefnu skv. 17. gr. laga nr. 128/2011, sé fjármálafyrirtæki sem heimild hefur til eignastýringar eða samsvarandi fyrirtæki með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu.
  3. Tryggt sé að fjármálafyrirtæki sem hefur staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins og annast fjárfestingar verðbréfasjóðs búi að mati Fjármálaeftirlitsins við sambærilegt eftirlit og verðbréfasjóðir og samstarf Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda heimaríkis sjóðsins sé tryggt með fullnægjandi hætti.
  4. Ráðstafanir hafi verið gerðar sem geri rekstrarfélaginu kleift að hafa á hverjum tíma skilvirkt eftirlit með starfsemi rekstraraðilans.
  5. Rekstrarfélagið geti hvenær sem er gefið frekari fyrirmæli til rekstraraðilans og sagt umsvifalaust upp samningi við hann um útvistun, ef það þjónar hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina eða hluta í sjóðnum.
  6. Rekstraraðilinn sem útvista á verkefnum til, sé hæfur til að annast þau verkefni sem honum eru falin.

III. KAFLI Innlausn.

3. gr. Orðskýringar.

Til fyllingar orðskýringum skv. 2. gr. laga nr. 128/2011:

  1. Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina eða hluta: Markaðsvirði samanlagðra eigna verðbréfasjóðs að frádregnum skuldum hans við innlausn samkvæmt 1. mgr. 28. gr. og 5. mgr. 58. gr. laga nr. 128/2011.
  2. Sölugengi hlutdeildarskírteina eða hluta: Söluverð hlutdeildarskírteina.

4. gr. Mat á virði eigna.

Mat á eignum verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar skal á hverjum tíma endurspegla raunverulegt virði þeirra að teknu tilliti til markaðsaðstæðna.

Fjármálagerningar í eigu verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar sem skráðir eru eða teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði skulu metnir samkvæmt dagslokagengi viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar.

5. gr. Mat á virði annarra fjármálagerninga.

Virði annarra fjármálagerninga verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar en um ræðir í 4. gr., skal háð mati rekstrarfélags, undir eftirliti vörslufélags og endurskoðanda, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna hverju sinni.

Rekstrarfélag skal halda skrá yfir mat eigna skv. 1. mgr. á hverjum tíma þar sem fram koma forsendur við mat á eignum.

6. gr. Upplýsingar um gengi.

Kaupgengi, innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina eða hluta verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar skal reiknað út daglega.

Upplýsingar um kaupgengi, innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar, svo og upplýsingar um umsýslu- og stjórnunarkostnað hlutaðeigandi sjóðs eða sjóðsdeildar skulu ávallt liggja fyrir til reiðu fyrir eigendur hlutdeildarskírteina.

IV. KAFLI Fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða.

7. gr. Framseljanleg verðbréf, skv. 1. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011.

Framseljanleg verðbréf í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 128/2011 teljast fjármálagerningar sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Tap verðbréfasjóðs vegna viðskipta með þau takmarkast við þá fjárhæð sem sjóðurinn greiddi fyrir verðbréfin.
  2. Seljanleiki verðbréfanna raskar ekki getu verðbréfasjóðs til að verða við kröfum hlutdeildarskírteinishafa um innlausn þeirra í samræmi við 27. gr. laga nr. 128/2011.
  3. Fyrir liggi áreiðanlegt verðmat:

    1. Ef um er að ræða verðbréf sem hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulögðum markaði skv. 1. og 2. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011, skulu þau lúta nákvæmu, áreiðanlegu og reglubundnu verði, annaðhvort markaðsverði eða verði sem er aðgengilegt með matskerfum sem eru óháð útgefendum.
    2. Ef um er að ræða aðrar eignir sem falla undir 1. mgr. 31. gr. laga nr. 128/2011, skulu þau lúta reglubundnu mati sem byggist á upplýsingum frá útgefanda verðbréfanna eða á samkeppnishæfum fjárfestingarrannsóknum.
  4. Eftirfarandi upplýsingar liggi fyrir:

    1. Þegar um er að ræða verðbréf sem hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði skv. 1. og 2. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 skulu upplýsingar til markaðarins um verðbréfin vera reglulegar, nákvæmar og alhliða.
    2. Þegar um er að ræða aðrar eignir skv. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 128/2011 skulu upplýsingar til verðbréfasjóðsins um verðbréfin, vera reglubundnar og nákvæmar.
  5. Hægt er að eiga viðskipti með verðbréfin á fjármagnsmarkaði.
  6. Fjárfesting í verðbréfunum skal vera í samræmi við fjárfestingarmarkmið og/eða fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðsins.
  7. Áhætta verðbréfa falli undir áhættustýringu rekstrarfélags sjóðsins.

Að því er varðar 2. og 5. tölul. 1. mgr. skal litið svo á að fjármálagerningar, sem eru skráðir eða verslað er með á skipulegum markaði í samræmi við 1. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 128/2011 hafi ekki áhrif á innlausnarskyldu verðbréfasjóðs, sbr. 27. gr. laga nr. 128/2011. Einnig skal litið svo á að þeir séu framseljanlegir, nema verðbréfasjóður búi yfir upplýsingum sem myndu leiða til annarrar niðurstöðu.

8. gr. Verðbréf í lokuðum sjóðum (closed-end funds).

Til framseljanlegra verðbréfa í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 128/2011 teljast einnig fjármálagerningar sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Hlutir í lokuðum sjóðum sem hafa verið stofnaðir sem fjárfestingarfélög (e. investment company) eða fjárhaldssjóðir (e. unit trust) sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

    1. uppfylla skilyrði 7. gr.,
    2. hlíta reglum eða viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gilda um félög,
    3. fari annar lögaðili en félag með eignastýringu fyrir hönd lokaðs sjóðs þá lúti hann sambærilegum lögum og reglum og gilda um fjárfestavernd á fjármálamarkaði.
  2. Hlutir í lokuðum sjóðum sem hafa stofnast með samningum og uppfylla eftirfarandi skilyrði:

    1. uppfylla skilyrði 7. gr.,
    2. hlíta reglum eða viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem jafngilda þeim er gilda um félög,
    3. er stjórnað af aðila sem lýtur sambærilegum lögum og reglum og gilda um fjárfestavernd á fjármálamarkaði hér á landi.

9. gr. Aðrir fjármálagerningar sem teljast til framseljanlegra verðbréfa.

Til framseljanlegra verðbréfa skv. 1. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 128/2011 teljast einnig fjármálagerningar sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. uppfylla skilyrði 7. gr.,
  2. eru tryggðir eða tengjast frammistöðu annarra eigna, sem kunna að vera aðrar eignir en þeirra sem getið er í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 128/2011.

Hafi fjármálagerningur skv. 1. mgr. að geyma innbyggða afleiðu skulu ákvæði 34. gr. laga nr. 128/2011 gilda um hann.

10. gr. Hugtakið peningamarkaðsgerningur, skv. 7. tölul. 2. gr. laga nr. 128/2011.

Með peningamarkaðsgerningum er átt við fjármálagerninga sem eru skráðir eða sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði, sbr. 1. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 og fjármálagerninga sem ekki eru skráðir á skipulegum markaði, sbr. 7. tölul. 30. gr. sömu laga.

Litið skal svo á að þegar vísað er til peningamarkaðsgerninga, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 2. gr. sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði, sé átt við fjármálagerninga sem uppfylla eitt eftirtalinna skilyrða:

  1. líftími þeirra við útgáfu er 397 dagar eða skemmri,
  2. eftirstandandi líftími þeirra er 397 dagar eða skemmri,
  3. þeir lúta reglubundinni arðsemisaðlögun (e. yield adjustment) í samræmi við aðstæður á peningamarkaði á a.m.k. 397 daga fresti, eða
  4. áhættulýsing þeirra, þ.m.t. láns- og vaxtaáhætta, samsvarar þeim fjármálagerningum sem hafa líftíma, sem um getur í a- og b-liðum eða eru háðir arðsemisaðlögun skv. c-lið.

    Þegar vísað er til þess að peningamarkaðsgerningar skulu vera auðseljanlegir (e. liquid), er átt við að þá skuli vera hægt að selja með litlum tilkostnaði á tiltölulega skömmum tíma, með hliðsjón af skyldu verðbréfasjóðsins og reglum þar um, til endurkaupa eða innlausnar hlutdeildarskírteina að ósk eiganda þeirra.

Peningamarkaðsgerninga skal vera unnt að verðmeta hvenær sem er. Litið er svo á að átt sé við fjármálagerninga sem unnt er að meta með tiltækum, nákvæmum og áreiðanlegum verðmatskerfum sem uppfylla neðangreindar kröfur:

  1. geri verðbréfasjóði kleift að reikna hreint virði eigna (e. net asset value) í samræmi við það verð, sem fengist fyrir fjármálagerning í eignasafni, ef viðskipti fara fram milli aðila sem eru upplýstir, fúsir til viðskipta og um armslengdar viðskipti er að ræða,
  2. kerfið er annaðhvort byggt á markaðsgögnum eða á virðislíkönum, þ.m.t. kerfi sem byggist á afskrifuðu kostnaðarverði.

11. gr. Atriði er varða útgefendur peningamarkaðsgerninga sem viðskipti eru með utan skipulegra verðbréfamarkaða, skv. 7. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011.

Verðbréfasjóður eða sjóðsdeild geta því aðeins átt viðskipti með aðra peningamarkaðsgerninga en viðskipti eru með á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. 7. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011, ef útgáfa eða útgefandi þessara gerninga sætir lögbundnu eftirliti sem hefur þann tilgang að vernda fjárfesta og sparifé, og að því tilskildu:

  1. að ríkisstjórn eða svæðis- eða staðaryfirvöld eða seðlabanki innan Evrópska efnahagssvæðisins, Seðlabanki Evrópu, Evrópusambandið eða Fjárfestingarbanki Evrópu, þriðja ríki eða, ef um sambandsríki er að ræða, eitt ríkjanna í Evrópusambandinu eða opinber eða alþjóðleg stofnun, sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eiga aðild að, gefi þá út eða ábyrgist þá, eða
  2. að sé útgefandi peningamarkaðsgerninga félag, hafi verðbréf þess verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamörkuðum á þann veg sem mælt er fyrir um í a-, b- eða c-lið 1. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011, eða
  3. félag sem gefur gerninga út eða ábyrgist þá sætir opinberu eftirliti í samræmi við lög og reglur þar um, eða
  4. aðrir aðilar sem tilheyra flokkum er Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt, gefi gerningana út eða ábyrgist þá, að því tilskildu að:

    1. fjárfesting í gerningunum heyri undir sambærilega fjárfestavernd og gildir samkvæmt lögum og reglum á fjármálamarkaði og
    2. útgefandi fjármálagerninganna:

      1. hafi eigið fé sem nemi að minnsta kosti 10 milljónum evra,
      2. birti ársreikninga sína í samræmi við lög um ársreikninga, og
      3. sé annaðhvort aðili innan samstæðu, með eitt eða fleiri skráð félög, sem hefur að hlutverki að fjármagna samstæðuna eða er aðili sem helgar sig fjármögnun verðbréfunar (e. securitisation vehicles) með stoð í lánalínu (e. banking liquidity line) við fjármálastofnun.

Í tengslum við iii-lið 4. tölul. 1. mgr. er vísað til skilgreiningar á hugtakinu verðbréfun (e. securitisation) eins og það er skilgreint í 11. tölul. 1. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Orðalagið að helga sig fjármögnun verðbréfunar vísar til þess að um sé að ræða fyrirtæki, sjóði eða samninga, sem komið er á fót í þeim tilgangi að reka starfsemi um verðbréfun.

Með lánalínu (e. banking liquidity line) er átt við bankastarfsemi sem veitt er af fjármálastofnun sem uppfyllir skilyrði þessarar greinar.

12. gr. Peningamarkaðsgerningar utan skipulegra verðbréfamarkaða þar sem útgáfa eða útgefandi sætir eftirliti, sbr. 3. tölu. 11. gr.

Verðbréfasjóði er aðeins heimilt að binda fé sitt í peningamarkaðsgerningum, sem viðskipti eru stunduð með utan skipulegra verðbréfamarkaða, þegar útgáfa eða útgefandi þeirra sætir eftirliti lögbærs aðila, skv. 3. tölul. 11. gr. sem og að peningamarkaðsgerningarnir uppfylli að auki eftirfarandi skilyrði:

  1. uppfylla eitt af skilyrðum 2. mgr. 9. gr. og öll skilyrði 3. og 4. mgr. 9. gr.,
  2. viðeigandi upplýsingar séu tiltækar um peningamarkaðsgerningana, þ.m.t. upplýsingar sem gera það kleift að hægt sé að framkvæma mat á útlánaáhættu (e. credit risk) í tengslum við fjárfestingu í slíkum gerningum sbr. 13. gr.,
  3. vera framseljanleg án takmarkana.

13. gr. Nánar um upplýsingar um peningamarkaðsgerninga utan skipulegra verðbréfamarkaða þar sem útgáfa eða útgefandi sætir eftirliti skv. b-lið 12. gr.

Peningamarkaðsgerninga, sem 2. og 4. tölul. 11. gr. tekur til, eða peningamarkaðsgerninga sem eru útgefnir af staðar- eða svæðisyfirvöldum aðildarríkis eða opinberri, alþjóðlegri stofnun en eru án ábyrgðar aðildarríkis, eða ef um ríki á Evrópska efnahagssvæðinu er að ræða skulu upplýsingar um gerningana sem vísað er til í b-lið 12. gr. vera eftirfarandi:

  1. upplýsingar um bæði útgefanda eða útgáfuáætlun og um lagalega og fjárhagslega stöðu útgefanda skulu liggja fyrir áður en peningamarkaðsgerningurinn er útgefinn,
  2. upplýsingar skv. a-lið skulu reglulega uppfærðar og ætíð þegar mikilvægir atburðir eiga sér stað,
  3. upplýsingar skv. a-lið skulu sannprófaðar af viðurkenndum þriðja aðila sem tekur ekki við fyrirmælum frá útgefanda,
  4. aðgengilegar og áreiðanlegar tölulegar upplýsingar um útgáfuna eða útgáfuáætlunina.

Þegar um er að ræða peningamarkaðsgerninga sem eru útgefnir samkvæmt 3. tölul. 11. gr., skulu upplýsingar sem vísað er til í b-lið 12. gr. vera eftirfarandi:

  1. upplýsingar um útgáfu eða útgáfukerfi eða um lagalega- og fjárhagslega stöðu útgefanda fyrir útgáfu peningamarkaðsgerningsins,
  2. upplýsingarnar skv. a-lið. skulu reglulega uppfærðar og ætíð þegar mikilvægir atburðir eiga sér stað,
  3. aðgengilegar og áreiðanlegar tölulegar upplýsingar um útgáfuna eða útgáfuáætlunina eða önnur gögn sem gera kleift að framkvæma viðeigandi mat á útlánaáhættu (e. credit risk) í tengslum við fjárfestingu í gerningunum.

Um peningamarkaðsgerninga skv. 1. tölul. 11. gr., að undanskildum þeim sem getið er um í 1. mgr. þessarar greinar og þeirra sem gefnir eru út af Seðlabanka Evrópu og seðlabönkum á EES-svæðinu, gildir að upplýsingar samkvæmt b-lið 12. gr. skulu samanstanda af upplýsingum um útgáfuna eða útgáfuáætlun, eða um lagalega og fjárhagslega stöðu útgefanda fyrir útgáfu peningamarkaðsgerningsins.

14. gr. Útgefandi peningamarkaðsgerninga utan skipulegra verðbréfamarkaða þar sem útgáfa eða útgefandi sætir eftirliti skv. 3. tölul. 11. gr.

Verðbréfasjóði er aðeins heimilt að binda fé sitt í peningamarkaðsgerningum sem viðskipti eru stunduð með utan skipulegra verðbréfamarkaða ef útgefandi skv. 3. tölul. 11. gr., uppfyllir eitt af eftirtöldum skilyrðum:

  1. er staðsettur á Evrópska efnahagssvæðinu,
  2. er staðsettur í einu af iðnríkjunum tíu innan OECD,
  3. er í fjárfestingarflokki (e. investment grade),
  4. unnt sé að sýna fram á með ítarlegri greiningu á útgefanda, að varfærnisreglur sem taka til útgefandans, séu a.m.k. sambærilegar og jafnstrangar og varfærnisreglur skv. gildandi lögum og reglum á fjármálamarkaði hér á landi.

15. gr. Aðrar seljanlegar eignir, skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 128/2011, sem eru afleiður.

Til þess að afleiður falli undir hugtakið aðrar seljanlegar eignir, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2011, skulu undirliggjandi þættir þeirra samanstanda af einu eða fleiri eftirfarandi atriða:

  1. eignum, eins og hugtakið er skilgreint í 1.-7. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011, þ.m.t. fjármálagerningum sem hafa eitt eða fleiri einkenni þessara eigna,
  2. vöxtum,
  3. miða við gengi gjaldmiðla eða verðbréfavísitalna.

Ef um er að ræða afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða (e. OTC derivatives) skulu þær uppfylla skilyrði 6. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011.

Afleiður skv. 5. og 6. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011, bæði skráðar á skipulögðum verðbréfamarkaði og óskráðar, skulu teljast uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. með þeim er heimiluð yfirfærsla útlánaáhættu (e. credit risk) eignar, sem fellur undir 1-7. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011, óháð annarri áhættu sem fylgir þeirri eign,
  2. þær hafa ekki í för með sér afhendingu eða tilfærslu eigna, þ.m.t. í reiðufé, að öðru leyti en því sem um getur í 30. gr. og 1. mgr. 31. gr. laga nr. 128/2011,
  3. þær samræmast skilyrðum fyrir afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða (e. OTC derivatives), sbr. 3.-5. málsl. 6. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011, sbr. og ákvæði þetta,
  4. áhættan sem þeim fylgir er varin af áhættustýringu rekstrarfélags sjóðsins og innra eftirlitskerfi, ef um er að ræða áhættu vegna ósamhverfra upplýsinga (e. asymmetry of information) milli verðbréfasjóðsins og mótaðila lánaafleiðu sem stafar af hugsanlegum aðgangi mótaðila að óopinberum upplýsingum um fyrirtæki þar sem eignir þess eru notaðar til grundvallar lánaafleiðum.

Raunvirði skv. 5. málsl. 6. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 er sú fjárhæð sem fengist við sölu eignar eða við uppgjör skuldar í viðskiptum ótengdra aðila, sem eru upplýstir og fúsir til viðskiptanna.

Verðmat með áreiðanlegum hætti skv. 4. málsl. 6. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 er áreiðanlegt og sannreynanlegt mat, unnið af rekstrarfélagi verðbréfasjóðs, sem samsvarar raunvirði, sbr. 3. mgr. Matið skal byggt á markaðsskráningu gagnaðila og á áreiðanlegu uppfærðu markaðsvirði gerningsins, eða ef það er ekki fyrir hendi, verðlagningarlíkani sem reist er á fullnægjandi og viðurkenndum aðferðum. Sannprófun á matinu skal framkvæmd af einum af eftirfarandi aðilum:

  1. viðeigandi þriðja aðila, sem er óháður mótaðila afleiðu utan skipulegs verðbréfamarkaðar, framkvæmt með hæfilegu millibili og á þann hátt að verðbréfasjóðurinn geti haft eftirlit með því eða,
  2. einingu innan rekstrarfélagsins sem er óháð deildinni sem fer með sjóðsstýringu og hæf til að framkvæma slíka sannprófun.

Eignir sem um getur í 1. gr. og 5. og 6. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 taka ekki til hrávöruafleiða.

16. gr. Verðbréfavísitölur, skv. 5. og 6. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011.

Verðbréfavísitala skv. 5. og 6. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 er vísitala sem hefur fullnægjandi dreifingu að því gefnu að eftirtalin skilyrði séu uppfyllt:

  1. vísitalan sé þannig samsett að breytingar á verðlagi eða viðskiptum varðandi einn þátt hafi ekki óhófleg áhrif á vísitöluna í heild,
  2. vísitalan sé sett saman úr eignum, sbr. 1.-7. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 og uppfylli kröfur 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 128/2011 um áhættudreifingu,
  3. vísitalan sé samsett úr öðrum eignum en þeim sem um getur í 1.-7. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 og skal áhættudreifing hennar sambærileg við þær kröfur sem gerðar eru skv. 36. gr. laganna og 15. gr. reglugerðar þessarar.

Þá skal vísitalan endurspegla viðkomandi markað með fullnægjandi hætti að því leyti að eftirtalin skilyrði séu uppfyllt:

  1. vísitalan mæli á raunhæfan hátt árangur dæmigerðra undirliggjandi eigna,
  2. vísitalan sé endurskoðuð eða þættir í henni reglulega endurskapaðir til að tryggja að vísitalan endurspegli ávallt markaðina sem hún á að endurspegla með því að fylgja opinberum og aðgengilegum viðmiðunum,
  3. undirliggjandi eignir séu nægilega auðseljanlegar þannig að endurskapa megi vísitöluna ef þörf krefur.

Vísitalan skal jafnframt birt opinberlega og með viðeigandi hætti þannig að eftirtalin skilyrði séu uppfyllt:

  1. útgáfuferli hennar sé byggt á traustum aðferðum við samantekt á verði og við útreikninga og síðar birtingar vísitölunnar, þ.m.t. aðferðir við verðlagningu vegna þátta ef markaðsverð liggur ekki fyrir,
  2. mikilvægar upplýsingar, s.s. um útreikning vísitölu, aðferðir við að endurskapa þætti vísitalna, breytingar á vísitölu eða hvers konar vandkvæði við framkvæmd á veitingu tímanlegra eða nákvæmra upplýsinga, séu veittar tímanlega og reglulega.

Ef samsetning eigna sem liggja til grundvallar afleiðusamningum í samræmi við 30. gr. laga nr. 128/2011, uppfyllir ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. skal, ef samningarnir uppfylla skilyrðin sem sett eru fram í 1. mgr. 15. gr. (afleiður), litið á þá sem afleiðusamninga samsetta úr eignunum er um getur í 1.-3. tölul. 1. mgr. 15. gr.

17. gr. Framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerningar með innbyggðri afleiðu, skv. 34. gr. laga nr. 128/2011.

Með framseljanlegum verðbréfum með innbyggðri afleiðu er átt við fjármálagerninga sem uppfylla skilyrði 7. gr., sbr. 1. tölul. 30. gr. laga nr. 128/2011 og fela í sér þátt sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

  1. hægt sé samkvæmt þeim þætti að breyta að hluta til eða öllu leyti því sjóðstreymi sem annars væri gerð krafa um í framseljanlega verðbréfinu sem virkar eins og innbyggður samningur, í samræmi við tilgreinda vexti, verð fjármálagernings, gengi erlendra gjaldmiðla, vísitölu neysluverðs eða vaxta, lánshæfismat eða lánskjaravísitölu eða aðrar breytur og myndi þar af leiðandi breytast á svipaðan hátt og sjálfstæðar afleiður,
  2. efnahagsleg einkenni og áhætta séu ekki nátengd sömu þáttum vegna innbyggða samningsins,
  3. þátturinn hafi umtalsverð áhrif á áhættulýsingu og verðlagningu framseljanlegra verðbréfa.

Til að peningamarkaðsgerningar teljist vera gerningar með innbyggðri afleiðu þurfa þeir að uppfylla eitt af skilyrðum 2. mgr. 10. gr. (um hugtakið peningamarkaðsgerningur), öll skilyrði tölul. 4. mgr. 10. gr. og innihalda þátt sem uppfyllir viðmið 1. mgr. þessarar greinar.

Ekki skal litið svo á að framseljanlegt verðbréf eða peningamarkaðsgerningur hafi innbyggða afleiðu ef það felur í sér þátt sem samkvæmt samningi er framseljanlegur óháð framseljanlega verðbréfinu eða peningamarkaðsgerningnum. Slíkur þáttur skal teljast sérstakur fjármálagerningur.

18. gr. Vísitölusjóðir.

>Verðbréfasjóði eða sjóðsdeild skv. 36. gr. laga nr. 128/2011, ber að endurspegla viðkomandi vísitölu í sömu hlutföllum og hún er samsett úr á hverjum tíma, sbr. þó 2. mgr. Ákvæðið tekur ekki til sjóða sem miða að því að ná árangri sem samsvarar stöðu vísitölu eða betri árangri en þeim sem vísitalan sýnir. Nú verða breytingar á vísitölu þannig að nýir fjármálagerningar eru teknir í vísitöluna og fyrirliggjandi fjármálagerningar felldir brott, og er þá verðbréfasjóði eða einstökum deildum hans heimilt að víkja tímabundið frá skilyrðum 1. málsl. 1. mgr. vegna markaðsaðstæðna, þ.e. ef seljanleiki fjármálagerninganna er lítill eða kostnaður við viðskipti með undirliggjandi fjármálagerninga óhæfilega hár.

Verðbréfasjóður samkvæmt þessari grein er ekki bundinn af takmörkunum 3. mgr. 35. gr. laga nr. 128/2011.

19. gr. Skilyrði vísitölusjóða.

Endurspeglun á samsetningu tiltekinnar hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölu í 36. gr. laga nr. 128/2011, er endurspeglun samsetningar eigna sem liggja til grundvallar vísitölunni, þ.m.t. notkun á afleiðum, öðrum aðferðum og skjölum.

Fullnægjandi áhættudreifing vísitölu er áhættudreifing vísitalna sem uppfyllir reglur 36. gr. laga nr. 128/2011 um áhættudreifingu.

Vísitala endurspeglar viðkomandi markað með fullnægjandi hætti samkvæmt 36. gr. laga nr. 128/2011 þegar vísitalan er fengin með viðurkenndri aðferðafræði sem felur almennt ekki í sér útilokun umfangsmikils útgefanda á markaðnum sem hún á við um.

Með birtingu vísitölu opinberlega er átt við að almenningur hafi aðgang að upplýsingunum og sá sem reiknar vísitöluna sé óháður vísitölusjóðnum. Það kemur þó ekki í veg fyrir að sá sem reiknar vísitöluna og vísitölusjóðurinn séu innan sömu samstæðu að því tilskildu að fullnægjandi ráðstafanir séu gerðar til að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum.

V. KAFLI Markaðssetning erlendra verðbréfasjóða og annarra sjóða hér á landi.

20. gr. Gildissvið.

Kafli þessi tekur til erlendra verðbréfasjóða með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skv. 44. gr. laga nr. 128/2011.

Kafli þessi tekur einnig til annarra erlendra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, með staðfestu innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hyggjast hefja markaðssetningu hlutdeildarskírteina eða hluta sinna til almennings hér á landi skv. 45. gr. laga nr. 128/2011 og uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. hafa að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu,
  2. lúta eftirliti yfirvalda samkvæmt lögum heimaríkis viðkomandi sjóðs.

Ekki er heimilt að markaðssetja til almennings hérlendis aðra erlenda sjóði um sameiginlega fjárfestingu en getið er um í þessari grein.

21. gr. Upplýsingar á íslensku.

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að óska eftir því að upplýsingar sem sendar eru því skv. kafla þessum skuli vera á íslensku.

Sama gildir um skjöl og aðrar upplýsingar sem verðbréfasjóði eða öðrum sjóði um sameiginlega fjárfestingu er skylt að gera opinberar í heimaríki sínu. Lykilupplýsingar skv. 51. gr. laga nr. 128/2011 skulu þó ávallt vera aðgengilegar fjárfestum og liggja fyrir á íslensku.

22. gr. Heiti sjóða.

Verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu er heimilt að nota sama heiti og þeir nota í heimaríki sínu vegna markaðssetningar hlutdeildarskírteina og hluta sinna hér á landi. Ef heitið er villandi eða felur í sér hættu á ruglingi er Fjármálaeftirlitinu þó heimilt að krefjast þess að nafn verðbréfasjóðs eða annars sjóðs um sameiginlega fjárfestingu verði auðkennt sérstaklega til skýringar.

23. gr. Markaðssetningu hætt að kröfu Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna verðbréfasjóði að markaðsetja hlutdeildarskírteini eða hluti hér á landi, sbr. 46. gr. laga nr. 128/2011 ef:

  1. Ráðstafanir sjóðsins til að tryggja rétt viðskiptamanna til greiðslu hagnaðar, innlausnar og þeirra upplýsinga sem skylt er að miðla teljast ekki nægilegar.
  2. Sjóðurinn brýtur ítrekað eða með alvarlegum hætti gegn ákvæðum laga eða reglugerðar þessarar.
  3. Sjóðurinn fylgir ekki áætlun um fyrirhugaða markaðssetningu.
  4. Staðfesting sjóðsins er afturkölluð í heimaríki.
  5. Möguleikar íslenskra sjóða, sbr. 48. gr. laga nr. 128/2011, til markaðssetningar í viðkomandi landi breytast eða falla niður.

VI. KAFLI Upplýsingagjöf.

24. gr. Ársreikningar og árshlutauppgjör.

Um sérgreindar upplýsingar um verðbréfasjóð eða sérhverja deild, sbr. 49. gr. laga nr. 128/2011, fer samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Kafli þessi er ætlaður til fyllingar kafla H í lögum nr. 128/2011.

25. gr. Upplýsingar í útboðslýsingu.

Rekstrarfélag skal gefa út útboðslýsingu fyrir hvern verðbréfasjóð eða sérhverja sjóðsdeild, sem það annast rekstur á. Í útboðslýsingu skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að fjárfestum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í viðkomandi sjóði.

Í útboðslýsingu skulu að lágmarki koma fram eftirfarandi upplýsingar, auk þeirra sem krafist er í 52. gr. laga nr. 128/2011:

  1. Um verðbréfasjóð:

    1. Heiti.
    2. Stofndagur.
    3. Hvort sjóður sé deildaskiptur.
    4. Hvar fá megi reglur og reglulegar skýrslur um starfsemi sjóðsins.
    5. Stutt lýsing á skattareglum og skattalegri meðferð sem gilda um hlutdeildarskírteini eða hluti í sjóðnum og upplýsingar um kostnað og annan frádrátt frá tekjum eða hagnaði af fjármálagerningum í eigu sjóðsins sem eigendur sjóðsins fá í sinn hlut.
    6. Hvenær ársreikningur og árshlutauppgjör skulu birt og hvenær arður eða annar hagnaður af starfsemi sjóðsins verður greiddur út til eigenda.
    7. Upplýsingar um tegundir og helstu einkenni hlutdeildarskírteina eða hluta, meðal annars:
    7.1. eðli þeirra réttinda sem hlutdeildarskírteini eða hlutir veita,
    7.2. skilríki sem veita sönnun fyrir eignarrétti að hlutdeildarskírteinum eða hlutum og / eða færslum á skrá eða reikning,
    7.3. einkenni hlutdeildarskírteina eða hluta,
    7.4. atkvæðisrétt eigenda hlutdeildarskírteina eða hluta ef við á,
    7.5. við hverjar aðstæður megi ákveða að loka sjóðnum og hvernig að því skuli staðið, einkum með tilliti til réttar eigenda hans.
    8. Þar sem við á skal tilgreina á hvaða skipulegum verðbréfamörkuðum hlutdeildarskírteinin eða hlutirnir eru eða munu verða skráðir eða ganga kaupum og sölum.
    9. Tilhögun og skilyrði fyrir útgáfu og sölu hlutdeildarskírteina eða hluta.
    10. Tilhögun og skilyrði fyrir endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina eða hluta og við hverjar aðstæður megi fresta endurkaupum eða innlausn.
    11. Reglur um útreikning og ráðstöfun tekna.
    12. Fjárfestingarmarkmið verðbréfasjóðsins, þar á meðal um fjárhagslegan tilgang (þ.e. uppsöfnunar- eða tekjusjóð), fjárfestingarstefnu (t.d. sérhæfing eftir landssvæðum eða atvinnugreinum), takmarkanir á þeirri fjárfestingarstefnu og tilgreining aðferða, samninga eða lántökuheimilda sem heimilt er að nota við rekstur sjóðsins.
    13. Reglur um mat eigna.
    14. Ákvörðun um sölu- eða útgáfuverð og endurkaups- eða innlausnarverð hlutdeildarskírteina eða hluta, meðal annars:
    14.1. hvernig og hve oft verð eru reiknuð,
    14.2. upplýsingar um gjöld af sölu, útgáfu, endurkaup eða innlausn skírteina eða hluta,
    14.3. hvernig,hvar og hve oft verð eru birt.
    15. Upplýsingar um þóknun sem sjóðurinn greiðir rekstrarfélagi, vörslufyrirtæki eða þriðja aðila, ef við á, hvers eðlis hún er, upphæð hennar og endurgreiðslu sjóðsins á kostnaði til þeirra.
  2. Um rekstrarfélag:

    1. Heiti, rekstrarform, skráð skrifstofa og aðalskrifstofa.
    2. Stofndagur.
    3. Aðrir sjóðir sem rekstrarfélagið annast rekstur á.
    4. Nöfn og staða stjórnar, varastjórnar og framkvæmdastjóra rekstrarfélagsins. Upplýsingar um helstu störf þeirra utan rekstrarfélags, ef þau skipta máli hvað rekstrarfélagið snertir.
    5. Nöfn og heimilisföng löggiltra endurskoðenda rekstrarfélagsins.
    6. Hlutafé og hve mikið hefur verið greitt.
  3. Um vörslufyrirtæki:

    1. Heiti og félagsform.
    2. Skráð skrifstofa.
    3. Meginstarfsemi.
  4. Aðrar upplýsingar:

    1. Tilgreind skal sú starfsemi sem rekstrarfélaginu hefur verið heimilað að útvista.
    2. Upplýsingar um aðila utan rekstrarfélags sem veita ráðgjöf samkvæmt samningi sem greitt er fyrir af eignum sjóðsins:
    2.1. heiti fyrirtækisins eða nafn ráðgjafans,
    2.2. þau ákvæði samningsins sem máli skipta og kunna að varða eigendur sjóðsins, að öðru leyti en hvað varðar þóknun,
    2.3. önnur starfsemi rekstrarfélagsins sem máli skiptir.
    3. Vekja skal athygli á þeim fjárfestingum og nefnd þau ríki, sveitarstjórnir og/eða alþjóðastofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréf sem sjóðurinn hefur fjárfest í eða hyggst fjárfesta í fyrir meira en 35% eigna sinna.
    4. Fyrri árangur sjóðsins.
    5. Lýsing á dæmigerðum fjárfesti sem sjóðurinn er ætlaður fyrir.
    6. Hugsanlegur kostnaður, annar en vegna þóknana samkvæmt 15. tölul. A-liðar, um verðbréfasjóð, og skal greina á milli þess kostnaðar sem eigendur hlutdeildarskírteina greiða og þess kostnaðar sem greiddur er af eignum sjóðsins.

Reglur verðbréfasjóðs skulu vera hluti útboðslýsingar og fylgja henni. Upplýsingar sem fram koma í reglunum þarf ekki að tilgreina sérstaklega í útboðslýsingu.

Um lykilupplýsingar skv. 51. gr. laga nr. 128/2011 er nánar fjallað í reglugerð nr. 983/2013 sem sett er með stoð í 8. mgr. 52. gr. sömu laga.

26. gr. Form útboðslýsingar.

Útboðslýsing getur verið skriflegt skjal eða á varanlegum miðli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.

27. gr. Kynning og uppfærsla útboðslýsingar.

Útboðslýsing og lykilupplýsingar skulu sendar Fjármálaeftirlitinu. Verði breytingar á efnisatriðum útboðslýsingar eða lykilupplýsinga skulu þær sendar Fjármálaeftirlitinu og kynntar eigendum hlutdeildarskírteina eða hluta með opinberum hætti.

Helstu atriði útboðslýsingar skulu að jafnaði uppfærð eigi sjaldnar en árlega.

VII. KAFLI

28. gr. Lögleiðing.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 49. gr., 52. gr. og 64. gr. laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði. IV. kafli um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða er til innleiðingar á tilskipun 2007/16/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum sem vísað er til í lið 30a í IX. viðauka (fjármálaþjónusta) samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 59, frá 18. október 2012, bls. 312.

29. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 792/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði með síðari breytingum, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði til bráðabirgða.

Heimilt er í þrjá mánuði frá gildistöku þessarar reglugerðar að semja og birta útdrátt úr útboðslýsingu í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 792/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði í stað lykilupplýsinga.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.