Félags- og tryggingamálaráðuneyti

390/2009

Reglugerð um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla starfsemi sem fellur undir lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustu­hætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, þar sem efni sem talin eru upp í mengunarmarkaskrá, sbr. viðauka I, myndast eða eru notuð.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Mengunarmörk: Hæsta leyfilega meðaltalsmengun (tímavegið meðaltal) í andrúms­lofti starfsmanna. Mengunarmörkin eru gefin upp með meðalgildi eða þakgildi.
  2. Meðalgildi: Mengunarmörk miðuð við meðaltal yfir átta stunda vinnudag.
  3. Þakgildi: Mengunarmörk miðuð við meðaltal yfir fimmtán mínútna tímabil eða annað tiltekið tímabil.

3. gr.

Mengun haldið í lágmarki.

Vinnu skal skipuleggja og framkvæma þannig að mengun sé eins lítil og kostur er. Mengun í andrúmslofti starfsmanna skal ekki fara yfir mengunarmörk sem gefin eru upp í mengunarmarkaskrá, sbr. viðauka I. Við mengun frá fleiri en einu efni skal tekið tillit til samverkandi áhrifa. Við mat á mengun skal taka tillit til áreynslu við vinnu auk loftmengunar og einnig að sum efni geta borist inn í líkamann gegnum húð. Slík efni eru merkt með bókstafnum H í mengunarmarkaskrá, sbr. viðauka I.

Þegar mengunarmörk eru miðuð við meðaltal yfir átta stunda vinnudag, sbr. b-lið 2. gr., má styrkur mengunar á hverju tímabili (hæst fimmtán mínútna tímabili) þó aldrei fara yfir sem svarar tvisvar sinnum þau mengunarmörk sem um ræðir.

4. gr.

Aðgerðir til að draga úr mengun.

Þegar mengun er yfir mengunarmörkum skal þegar í stað grípa til aðgerða til að draga úr mengun. Þegar ekki er ljóst hvort mengun er yfir mengunarmörkum skulu aðstæður rannsakaðar þegar í stað með tilliti til þess. Leiði rannsókn í ljós að mengun er yfir mengunarmörkum skal þegar gripið til aðgerða til að draga úr mengun uns hún er komin undir viðmiðunarmörk.

Við fyrirbyggjandi aðgerðir, eða aðgerðir til að draga úr mengun skal leitast við að beita þeim aðgerðum er hér fara á eftir í eftirfarandi röð:

  1. Efni, vinnutilhögun, framleiðslurás eða tæknibúnað skal velja eða haga þannig að sem minnst mengun skapist, svo sem með sjálfvirkni, með því að nota önnur efni eða með því að nota vélmenni.
  2. Vinna sem valdið getur mengun skal eiga sér stað í lokuðu kerfi eða rými, sérstöku vinnurými eða á afmörkuðu svæði. Kerfið eða rýmið skal vera þannig útbúið að mengun berist ekki inn í annað vinnurými.
  3. Mengun skal fjarlægð við upptök hennar með loftræstingu. Þetta gildir einnig, ef þörf krefur, um lokuð kerfi eða rými, sérstakt vinnurými eða afmarkað svæði. Vélar og annar tæknibúnaður sem valda mengun skulu hafa búnað til að soga burt mengun ef hætta er á að hún dreifist út í andrúmsloft starfsmanna.
  4. Vinnu skal framkvæma úr stjórnklefa sem hefur sérstaka lofttilfærslu. Aðflutt loft skal vera eins hreint og kostur er og yfirþrýstingur skal vera inni í klefanum. Aðflutta loftið skal hafa hæfilegt hitastig og hraða til að koma í veg fyrir dragsúg.
  5. Mjög mengandi vinnu skal framkvæma á sérstökum tímum þegar einungis þeir sem framkvæma vinnuna eru nærstaddir og skulu þeir nota nauðsynlegan hlífðarbúnað.

Þegar gripið hefur verið til aðgerða skv. a-e-liðum 2. mgr. skal framkvæma mengunarmælingar til að kanna hvort um fullnægjandi aðgerðir hafi verið að ræða nema ljóst sé að svo hafi verið þannig að mengun sé undir viðmiðunarmörkum.

Þegar ekki er unnt að grípa til aðgerða skv. a-e-liðum 2. mgr. eða á annan hátt þarf að draga úr mengun eða þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru ófullnægjandi skal nota nauðsynlegan hlífðarbúnað, svo sem öndunargrímur. Vinnu skal þá skipuleggja þannig að notkun öndunargríma valdi starfsmönnum sem minnstum óþægindum.

Vinnurými sem mengun getur myndast í skal hafa góða loftræstingu og skal aðflutt loft vera eins hreint og kostur er.

Tæknibúnað sem valdið getur mengun skal hanna og útbúa þannig að eftirlit og hreinsun sé auðveld. Reglubundið eftirlit og hreinsun skal framkvæma í því skyni að hindra myndun og dreifingu mengunar.

Vinnurými skal skipuleggja þannig að auðvelt sé að halda því hreinu. Hreinsa skal jafnóðum upp efni sem hefur farið til spillis. Í því skyni að koma í veg fyrir mengun og slysahættu skal ennfremur hreinsa reglulega ryk sem hefur sest til.

5. gr.

Eftirlit.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

6. gr.

Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglu­gerðar þessarar til félags- og tryggingamálaráðuneytis innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

7. gr.

Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 38. og 51. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og umhverfisráðuneytis, til innleiðingar á tilskipun nr. 91/322/EBE, um setningu leiðbeinandi viðmiðunarmarka til framkvæmdar á tilskipun ráðsins nr. 80/1107/EBE um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna efna-, eðlis- og líffræðilegra áhrifavalda á vinnustöðum, sem vísað er til í 3. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, á tilskipun nr. 2000/39/EB, um gerð fyrstu skrár um leiðbeinandi viðmiðunarmörk fyrir váhrif í starfi við framkvæmd tilskipunar ráðsins nr. 98/24/EB um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna efnafræðilegra áhrifavalda á vinnustað, sem vísað er til í 16. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahags­svæðið og á tilskipun nr. 2006/15/EB, um gerð annarrar skrár yfir leiðbeinandi viðmiðunarmörk fyrir váhrif í starfi við framkvæmd tilskipunar ráðsins nr. 98/24/EB og um breytingu á tilskipunum nr. 91/322/EBE og nr. 2000/39/EB, sem vísað er til í 3. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahags­svæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 30/2007, öðlast þegar gildi.

Reglur nr. 154/1999, um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnu­stöðum, og reglur nr. 917/2001, um breytingu á þeim, falla jafnframt úr gildi.

Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, 2. apríl 2009.

Ásta R. Jóhannesdóttir.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica