Fara beint í efnið

Prentað þann 26. apríl 2024

Stofnreglugerð

1050/2005

Reglugerð um eingreiðslur vegna atvinnuleysistrygginga.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um eingreiðslur vegna atvinnuleysistrygginga í desember 2005.

2. gr.

Sá sem var á atvinnuleysisskrá á tímabilinu 9.-23. nóvember 2005 og hefur verið á skrá í samtals 45 vikur á árinu 2005 á rétt á eingreiðslu að fjárhæð 26.000 kr. enda hafi umsækjandi átt rétt á hámarksbótum skv. 8. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. mgr. enda hafi umsækjandi verið á atvinnuleysisskrá þann tíma.

3. gr.

Sá sem fullnægir skilyrðum 1. mgr. 2. gr. en hefur átt rétt á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum á þeim tíma sem þar greinir á rétt á hlutfallslegri eingreiðslu skv. 2. gr. í samræmi við það bótahlutfall sem umsækjandi hafði á tímabilinu 9.-23. nóvember 2005.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. mgr. enda hafi umsækjandi verið á atvinnuleysisskrá þann tíma.

4. gr.

Sá sem var á atvinnuleysisskrá á tímabilinu 9.-23. nóvember 2005 en hefur verið á skrá í skemmri tíma en 45 vikur á árinu 2005 á rétt á hlutfallslegri eingreiðslu skv. 2. gr. í samræmi við fjölda daga sem hann hefur verið á atvinnuleysisskrá enda hafi umsækjandi átt rétt á hámarksbótum skv. 8. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma, sbr. þó 5. gr.

Sá sem fullnægir skilyrðum 1. mgr. en hefur átt rétt á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum á þeim tíma sem hann hefur verið á skrá á rétt á hlutfallslegri eingreiðslu skv. 2. gr. í samræmi við bótahlutfall sem hann hafði á tímabilinu 9.-23. nóvember 2005 og fjölda daga sem hann hefur verið á atvinnuleysisskrá, sbr. þó 5. gr.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1.-2. mgr. enda hafi umsækjandi verið á atvinnuleysisskrá þann tíma.

5. gr.

Eingreiðslan skv. 4. gr. skal þó aldrei nema lægri fjárhæð en 4.500 kr. miðað við hámarksbætur skv. 8. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lágmarkseingreiðsla er ¼ hluti sömu fjárhæðar.

6. gr.

Atvinnuleysistryggingasjóður leggur úthlutunarnefndum atvinnuleysisbóta til skrá yfir þá sem eiga rétt á eingreiðslu skv. reglugerð þessari.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. mgr. 7. gr. og 30. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Eingreiðslur skv. reglugerð þessari skulu greiddar út eigi síðar en 15. desember 2005.

Félagsmálaráðuneytinu, 30. nóvember 2005.

Árni Magnússon.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.