Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. apríl 2024

Ógild reglugerð síðast breytt 23. feb. 1913

668/2002

Reglugerð um togbrautarbúnað til fólksflutninga.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um togbrautarbúnað til fólksflutninga ásamt öryggisíhlutum og undirkerfum, sbr. þó bráðabirgðaákvæði.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

a) fólkslyftur og fólks- og vörulyftur,
b) hefðbundna strengjadregna sporvagna,
c) búnað sem er notaður í landbúnaði,
d) staðbundinn eða færanlegan búnað sem notaður er á sýningarsvæðum og/eða í skemmtigörðum og er ætlaður til skemmtunar en ekki til fólksflutninga,
e) námubúnað eða staðbundinn búnað sem er notaður í iðnaði,
f) strengjadregnar ferjur,
g) tannhjólabrautir,
h) keðjudreginn búnað.

Sérreglur þær er gilda að hluta eða öllu leyti um þann búnað sem reglugerð þessi gildir um halda gildi sínu þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar. Enn fremur ganga nýjar sérreglur sem settar eru að hluta eða öllu leyti um þann búnað sem reglugerð þessi gildir um framar ákvæðum reglugerðar þessarar.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að samræma reglur aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins í því skyni að tryggja og ábyrgjast að farið sé að grunnkröfum samkvæmt II. viðauka.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a. Togbrautarbúnaður til fólksflutninga: búnaður sem er settur saman úr mörgum íhlutum og er hannaður, framleiddur og tekinn í notkun með það að markmiði að flytja fólk. Eftir að búnaður hefur verið settur upp er hann notaður til að flytja fólk í vögnum eða með hjálp dráttarbúnaðar þar sem strengir, sem liggja í sömu stefnu og brautin, eru notaðir sem upphengi og/eða til dráttar.
b. Búnaður:
i) teinabrautir og annar togbrautarbúnaður þar sem vagnar eru á hjólum eða á upphengibúnaði og eru dregnir af einum eða fleiri strengjum;
ii) kláfar þar sem klefarnir eru bornir og/eða dregnir af einum eða fleiri strengjum, klefalyftur og stólalyftur;
iii) dráttarlyftur sem draga notendur með viðeigandi búnað áfram með streng.
c. Togbrautarbúnaður: heildarkerfi á uppsetningarstað, sem er sett saman úr grunnvirki og undirkerfum, sbr. I. viðauka, þar sem grunnvirki, sérhannað fyrir fyrir hvern búnað og smíðað á staðnum, merkir form brautar, kerfisgögn, stöðvarmannvirki og brautarmannvirki sem eru nauðsynleg fyrir byggingu og starfrækslu búnaðarins, þar á meðal undirstöður.
d. Öryggisíhlutur: grunníhlutur, safn íhluta, undireiningar eða fullsamsettur búnaður og allur útbúnaður sem er hluti af togbrautarbúnaðinum í því skyni að tryggja öryggi og greindur er með öryggisgreiningu. Bili öryggisíhlutur getur öryggi og heilsu manna verið stefnt í hættu.
e. Aðalverktaki: einstaklingur eða lögpersóna sem ber ábyrgð á smíði togbrautarbúnaðar.
f. Starfrækslukröfur: öll tæknileg ákvæði og ráðstafanir sem hafa áhrif á hönnun og framkvæmd og eru nauðsynleg til að togbrautarbúnaður geti starfað án þess að hætta stafi af.
g. Viðhaldskröfur: öll tæknileg ákvæði og ráðstafanir sem hafa áhrif á hönnun og framkvæmd og eru nauðsynleg fyrir viðhald í því skyni að tryggja að búnaður geti starfað án þess að hætta stafi af.
h. Evrópsk forskrift: merkir sameiginlega tækniforskrift, evrópskt tæknisamþykki eða landsstaðal til framkvæmdar evrópskum staðli.

4. gr. Skilyrði um öryggi.

Togbrautarbúnaður og grunnvirki hans, undirkerfi og öryggisíhlutir sem reglugerð þessi gildir um skulu fullnægja viðeigandi grunnkröfum skv. II. viðauka.

Þegar breytingar hafa verið gerðar á togbrautarbúnaði, þar með talið breytingar á undirkerfum eða öryggisíhlutum, sem geta haft áhrif á öryggi hans og krefjast því útgáfu nýs leyfis skv. 12. gr., skal togbrautarbúnaðurinn fullnægja grunnkröfum skv. II. viðauka.

5. gr. Skilyrði og staðlar.

Þegar ákvæði samræmds staðals eru tekin upp í landsstaðal, og vísun til hans birt í Stjórnartíðindum EBog slíkur staðall fjallar um eina eða fleiri af grunnkröfum um öryggi, skal ganga út frá því að búnaður sem smíðaður er í samræmi við þann staðal fullnægi viðeigandi grunnkröfum. Hið sama skal gilda um grunnvirki, undirkerfi og öryggisíhluti togbrautarbúnaðar.

Þegar samræmdir staðlar eru ekki til ber Vinnueftirliti ríkisins að vekja athygli hlutaðeigandi aðila á þeim landsstöðlum og tækniforskriftum sem í gildi eru og teljast mikilvæg og viðeigandi til að rétt sé staðið að því að fullnægja grunnkröfum skv. II. viðauka.

Vinnueftirlit ríkisins skal gæta þess að sérhæfðar kröfur um öryggi komi ekki í veg fyrir að grunnkröfum samkvæmt II. viðauka verði fullnægt.

Í því skyni að fullnægja grunnkröfum II. viðauka reglugerðar þessarar getur þurft að beita sérstökum evrópskum forskriftum.

Tilvísunarnúmer evrópskra forskrifta sem geta verið sameiginlegar tækniforskriftir, evrópskt tæknisamþykki eða landsstaðlar til framkvæmdar samhæfðum stöðlum, skulu birt í Stjórnartíðindum EB.

Vinnueftirlit ríkisins skal birta tilvísunarnúmer landsstaðla sem eru til framkvæmda á evrópskum stöðlum í B-deild Stjórnartíðinda.

6. gr. Öryggisgreining.

Áður en hafist er handa við uppsetningu á togbrautarbúnaði samkvæmt reglugerð þessari skal aðalverktaki, sbr. e-lið 3. gr., eða viðurkenndur fulltrúi hans sjá til þess að fram fari öryggisgreining skv. III. viðauka. Slík öryggisgreining skal taka til allra öryggisþátta kerfisins og umhverfis þess að því er varðar hönnun, uppsetningu og notkun í því skyni að meta áhættu af notkun þess að teknu tilliti til fyrri reynslu.

Sérstök öryggisskýrsla skal unnin á grundvelli öryggisgreiningar skv. 1. mgr. Þar skulu koma fram upplýsingar um ráðstafanir sem ætlað er að komi í veg fyrir hættu ásamt skrá yfir öryggisíhluti, sbr. II. kafla, og undirkerfi, sbr. III. kafla.

II. KAFLI Öryggisíhlutir.

7. gr. Markaðssetning og notkun.

Einungis er heimilt að setja á markað öryggisíhluti er falla undir reglugerð þessa sem tryggja að togbrautarbúnaður fullnægi grunnkröfum samkvæmt II. viðauka sem og öðrum skilyrðum reglugerðar þessarar.

Óheimilt er að taka í notkun öryggisíhluti er falla undir reglugerð þessa, nema að tryggt sé að heilsu og öryggi manna, og þar sem við á, öryggi eigna, stafi ekki hætta af þeim er þeir hafa verið settir upp á réttan hátt, þeim haldið við sem skyldi og notkun þeirra er í ráðgerðum tilgangi.

Óheimilt er að banna, takmarka eða koma í veg fyrir markaðssetningu á öryggisíhlut sem reglugerð þessi gildir um og nota skal í togbrautarbúnað, sem fullnægir ákvæðum reglugerðar þessarar.

8. gr. Samræmismat.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skal, áður en öryggisíhlutur er settur á markað, láta fara fram samræmismat á öryggisíhlutnum með samræmismatsaðferð skv. V. viðauka, einkenna hann með CE-merki, sbr. 14. gr., og gefa út EB-yfirlýsingu um samræmi, sbr. IV. viðauka.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skal fela tilkynntum aðila, sbr. 13. gr, að annast samræmismatið.

Öryggisíhlutur sem fellur undir reglugerð þessa og er einkenndur með CE-merki og honum fylgir EB-yfirlýsing um samræmi, sbr. IV. viðauka, telst fullnægja öllum ákvæðum reglugerðar þessarar.

Þegar öryggisíhlutur fellur undir ákvæði annarra reglna sem enn fremur kveða á um að einkenna skuli íhlutinn með CE-merki, sbr. 14. gr., gefur þetta merki til kynna að viðkomandi íhlutur teljist einnig vera í samræmi við ákvæði þeirra reglna.

Þegar hvorki framleiðandi né viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins fullnægja 1.-4. mgr. þessa ákvæðis skal sá sem setur öryggisíhlutinn á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins fullnægja þeim skyldum sem þar er kveðið á um. Hið sama gildir um alla þá sem framleiða öryggisíhluti til eigin nota.

III. KAFLI Undirkerfi.

9. gr. Markaðssetning og notkun.

Einungis er heimilt að setja á markað undirkerfi er falla undir reglugerð þessa sem tryggja að togbrautarbúnaður fullnægi grunnkröfum samkvæmt II. viðauka sem og fullnægja öðrum skilyrðum reglugerðar þessarar.

Óheimilt er að banna, takmarka eða koma í veg fyrir markaðssetningu á undirkerfi sem reglugerð þessi gildir um og nota skal í togbrautarbúnað, sem fullnægir ákvæðum reglugerðar þessarar.

10. gr. Samræmismat.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skal fela tilkynntum aðila, sbr. 13. gr., eða einstaklingi eða lögaðila sem setur undirkerfi á markað, að annast EB-prófun á samræmi. Sá sem setur undirkerfi á markað getur einnig falið tilkynntum aðila prófunina.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skal gefa út EB-yfirlýsingu um samræmi á grundvelli EB-prófunar samkvæmt VII. viðauka.

Tilkynntur aðili, sbr. 13. gr., skal gefa út vottorð um EB-prófun skv. VII. viðauka og skulu tækniskjöl fylgja vottorðinu. Tækniskjölin skulu fela í sér öll nauðsynleg skjöl sem varða eiginleika undirkerfisins og, ef við á, öll skjöl sem votta samræmi öryggisíhluta auk allra viðeigandi upplýsinga um skilyrði fyrir og takmarkanir á notkun og leiðbeiningar um viðhald.

Undirkerfi, sbr. I. viðauka, sem EB-yfirlýsing um samræmi, sbr. IV. viðauka, fylgir ásamt tækniskjölum skv. 3. mgr. telst fullnægja grunnkröfum skv. II. viðauka.

IV. KAFLI Togbrautarbúnaður.

11. gr. Markaðssetning.

Einungis er heimilt að setja á markað togbrautarbúnað er fellur undir reglugerð þessa er fullnægir grunnkröfum samkvæmt II. viðauka sem og öðrum skilyrðum reglugerðar þessarar.

Óheimilt er að taka í notkun togbrautarbúnað er fellur undir reglugerð þessa nema að tryggt sé að heilsu og öryggi manna, og þar sem við á, öryggi eigna stafi ekki hætta af þeim, er hann hefur verið settur upp á réttan hátt, honum haldið við sem skyldi og notkun hans er í ráðgerðum tilgangi.

Óheimilt er að banna, takmarka eða koma í veg fyrir markaðssetningu á togbrautarbúnaði sem reglugerð þessi gildir um fullnægi hann ákvæðum reglugerðar þessarar.

12. gr. Rekstrarleyfi.

Óheimilt er að reisa eða reka togbrautarbúnað nema að fengnu leyfi Vinnueftirlits ríkisins. Leyfisumsókn skulu fylgja fullnægjandi gögn sem gefa til kynna að umræddur búnaður uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar. Enn fremur skulu fylgja upplýsingar um staðsetningu, áætlaða uppsetningu og rekstrar- og viðhaldsáætlun togbrautarbúnaðarins. Þá skal umsækjandi láta fylgja öryggisgreiningu, sbr. 6. gr., EB-yfirlýsingu um samræmi og viðeigandi tækniskjöl er varða öryggisíhluti og undirkerfi og fela í sér upplýsingar um eiginleika búnaðarins.

V. KAFLI Tilkynntir aðilar og CE-merki.

13. gr. Tilkynntir aðilar.

Löggildingarstofa annast mat á þeim aðilum sem óska eftir að sjá um samræmismat samkvæmt reglum þessum. Þeir aðilar skulu uppfylla þau skilyrði sem eru sett fram í VIII. viðauka. Aðilar sem uppfylla matsskilyrðin sem kveðið er á um í viðkomandi samræmdum stöðlum teljast enn fremur uppfylla skilyrðin í VIII. viðauka.

Félagsmálaráðuneytið tilkynnir þá aðila sem Löggildingarstofa hefur viðurkennt skv. 1. mgr. til Eftirlitsstofnunar EFTA og annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Uppfylli aðili ekki lengur skilyrði þau sem eru sett fram í VIII. viðauka afturkallar Löggildingarstofa viðurkenningu hans skv. 1. mgr. Félagsmálaráðuneytinu ber að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins um það án tafar.

14. gr. CE-merki.

Á CE-samræmismerkinu skulu vera hástafirnir "CE". Útlit og lögun merkisins skal vera með þeim hætti sem mælt er fyrir um í IX. viðauka.

Öryggisíhlutur skal einkenndur með CE-merkinu á þann hátt að greinilegt og læsilegt sé. Þar sem ekki er unnt að einkenna sjálfan íhlutinn með CE-merki skal fylgja íhlutnum miði sem er óaðskiljanlegur hluti hans.

Óheimilt er að einkenna öryggisíhlut með merki sem er til þess fallið að villa um fyrir þriðja aðila að því er varðar þýðingu, útlit og lögun CE-merkisins. Setja má hvers konar aðrar merkingar á öryggisíhlut að því tilskildu að þær hindri ekki að CE-merkið sjáist vel og sé vel læsilegt.

VI. KAFLI Ýmis ákvæði.

15. gr. Vinnueftirlit ríkisins.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar. Það getur þó samþykkt aðra aðila til að fara með slíkt eftirlit að hluta eða öllu leyti, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 46/1980, og fylgist þá með eftirliti slíkra aðila.

16. gr. Öryggi og heilsu manna stofnað í hættu.

Hafi Vinnueftirlit ríkisins rökstuddan grun um að öryggi eða heilsu manna, og þar sem við á öryggi eigna, stafi hætta af einhverri gerð togbrautarbúnaðar þótt hann uppfylli kröfur þessarar reglugerðar er því heimilt að banna markaðssetningu og notkun þess búnaðar um tíma eða setja sérstök skilyrði fyrir slíku. Sama á við um öryggisíhlut og undirkerfi er falla undir reglugerð þessa.

Þurfi Vinnueftirlit ríkisins að grípa til aðgerða skv. 1. mgr. þessa ákvæðis eða 17. gr. skal það tilkynna félagsmálaráðuneyti um þær án tafar þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir þeim. Tilgreina skal sérstaklega ástæður fyrir ákvörðun ráðstafana og hvort skortur á samræmi sé einkum vegna þess:

a) að grunnkröfur skv. II. viðauka hafi ekki verið uppfylltar,
b) að evrópskum forskriftum, sbr. h-lið 3. gr., hafi verið beitt á rangan hátt í tilvikum þar sem skírskotað er til þeirra,
c) að evrópskar forskriftir, sbr. h-lið 3. gr., séu ófullnægjandi.

Félagsmálaráðuneytið skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um aðgerðir sem grípa þarf til skv. 1. mgr. þessa ákvæðis eða 17. gr.

17. gr. Vara ranglega viðurkennd.

Komist Vinnueftirlit ríkisins að því að öryggisíhlutur og/eða undirkerfi sem fellur undir gildissvið þessarar reglugerðar hafi ranglega verið einkennd með CE-merki, sbr. 14. gr., eða þeim fylgir ranglega EB-yfirlýsing um samræmi ber framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skylda til að sjá til þess að öryggisíhluturinn og/eða undirkerfið samræmist ákvæðum reglna þessara um CE-merkið og EB-yfirlýsingu um samræmi. Að öðrum kosti er Vinnueftirlitinu heimilt að banna markaðssetningu og notkun þeirra eða setja sérstök skilyrði fyrir slíku.

18. gr. Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum þessarar reglugerðar varða sektum skv. ákvæði 99. gr. laga, nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

19. gr. Kæruheimild.

Um kæruheimildir á grundvelli þessarar reglugerðar fer samkvæmt 98. gr. laga, nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

VII. KAFLI Gildistaka.

20. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 3. gr. laga, nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og að höfðu samráði við iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hvað varðar þátt Löggildingarstofu, sbr. lög nr. 155/1996 og 11. gr. laga nr. 100/1992 til innleiðingar á tilskipun nr. 2000/9/EB um togbrautarbúnað til fólksflutninga með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 94/1999.

21. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglugerð um togbrautir fyrir skíðafólk, nr. 552/1989, reglugerð um toglyftur fyrir skíðafólk og reglugerð um stólalyftur fyrir skíðafólk, nr. 215/1990, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði til bráðabirgða.

Heimilt er að smíða, markaðssetja og taka í notkun hér á landi togbrautarbúnað, þar á meðal öryggisíhluti og undirkerfi, sem fellur undir reglugerð þessa og uppfyllir skilyrði reglugerðar nr. 552/1989, um togbrautir fyrir skíðafólk, reglugerðar nr. 214/1990, um toglyftur fyrir skíðafólk og reglugerðar nr. 215/1990, um stólalyftur fyrir skíðafólk fram til 3. maí 2006.

Félagsmálaráðuneytinu, 19. september 2002.

Páll Pétursson.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.