Félagsmálaráðuneyti

273/1993

Reglugerð um svæðisskrifstofu málefna fatlaðra. - Brottfallin

I. KAFLI

Stjórnsýsluleg staða svæðisskrifstofa.

1. gr.

Á hverju starfssvæði málefna fatlaðra skal starfrækt svæðisskrifstofa.

Svæðisskrifstofa starfar í umboði félagsmálaráðuneytis. Hún er ábyrg fyrir þeirri framkvæmd sem henni er falin með lögum og ber ábyrgð gagnvart ráðuneytinu á verkum sínum.

2. gr.

Til forsvars á hverri svæðisskrifstofu ræður félagsmálaráðherra framkvæmdastjóra. Hann er fulltrúi félagsmálaráðuneytis um málefni fatlaðra á svæðinu og starfar samkvæmt þeim fyrirmælum sem fram koma í erindisbréfi.

II. KAFLI

Verkefni svæðisskrifstofa.

Stofnkostnaður. Tillögur og áætlanir.

3. gr.

Svæðisskrifstofa safnar upplýsingum um þörf fatlaðra fyrir þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992, svo og almenna þjónustu ríkis og sveitarfélaga samkvæmt öðrum lögum. Á grundvelli þeirra upplýsinga annast svæðisskrifstofa gerð svæðisáætlana til þriggja ára og skulu þær endurskoðaðar árlega. Hafa skal samráð við sveitarfélög, landshlutasamtök eða héraðsnefndir við gerð áætlana á svæðinu eftir því sem við á. Svæðisáætlanir skulu sendar félagsmálaráðuneyti. Einnig skulu þær sendar svæðisráðum til umsagnar.

Feli áætlanir svæðisskrifstofu í sér tillögur um sérhæfða þjónustu á landsvísu skulu þær tillögur sendar stjórnarnefnd um málefni fatlaðra.

Svæðisskrifstofur skulu kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögum, félagasamtökum fatlaðra og sjálfseignarstofnunum um fyrirhugaðar framkvæmdir og taka afstöðu til þeirra við gerð svæðisáætlana.

Svæðisskrifstofur geta sótt um fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til kannana og áætlana.

Stofnkostnaður. Framlög úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.

4. gr.

Á grundvelli svæðisáætlana sendir svæðisskrifstofa árlega umsóknir til stjórnarnefndar málefna fatlaðra vegna eftirtalinna verkefna á vegum ríkisins:

1. Stofnkostnaðar heimila fatlaðra og þjónustustofnana fatlaðra á svæðinu á vegum ríkisins. Umsóknum svæðisskrifstofa skal fylgja greinargerð um sundurliðaðan rekstrarkostnað.

2. Lagfæringa á aðgengi opinberra bygginga á svæðinu.

3. Meiri háttar viðhaldsframkvæmda á heimilum og stofnunum, sbr. 1. tölul.

4. Kannana og áætlana, annarra en svæðisáætlana, sbr. 3. gr.

Félagsmálaráðuneyti tilkynnir svæðisskrifstofum hver sé skilafrestur umsókna, svo og umsagna skv.

5. gr. reglugerðar þessarar, og skulu þær auglýsa skilafrestinn hver á sínu svæði.

5. gr.

Svæðisskrifstofur skulu veita stjórnarnefnd málefna fatlaðra umsögn um umsóknir sveitarfélaga og félagasamtaka fatlaðra eða sjálfseignarstofnana um framlög úr sjóðnum.

6. gr.

Svæðisskrifstofa ber ábyrgð á þeim framkvæmdum á sínu svæði sem veitt er fé til úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til verkefna skv. l.-3. tölul. 4. gr., að því leyti sem framkvæmdin fellur ekki undir lög um opinberar framkvæmdir nr. 63/1970, með síðari breytingum, svo sem vegna ákvæða þeirra laga um lágmarkskostnað.

7. gr.

Svæðisskrifstofur skulu, við undirbúning framkvæmda, senda tillögur til félagsmálaráðuneytis og framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar um þau atriði sem taka þarf tillit til við hönnun viðkomandi húss þannig að tekið sé mið af þörfum þeirra sem þar eiga að búa eða að fá þjónustu.

Rekstur og starfsmannahald.

8. gr.

Svæðisskrifstofur skulu árlega gera fjárlagatillögur og senda þær félagsmálaráðuneyti. Áætlanir þessar skulu unnar í samvinnu við forstöðumenn þeirra heimila fatlaðra og stofnana sem eru á vegum ríkisins.

9. gr.

Svæðisskrifstofur bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri heimila og stofnana fatlaðra á svæðinu sem eru á vegum ríkisins.

Svæðisskrifstofur skulu í upphafi hvers árs skila til félagsmálaráðuneytis rekstrar- og greiðsluáætlunum þar sem útgjöld þjónustustofnana og heimila fatlaðra á vegum ríkisins eru ákvörðuð innan heimilda fjárlaga.

Heimilt er svæðiskrifstofum við gerð rekstraráætlana að flytja heimiluð stöðugildi á tiltekinni stofnun eða heimili á aðra stofnun eða heimili ef mat á þjónustuþörf beggja stofnana leiðir í ljós að það er félagslega og fjárhagslega hagkvæmt.

Framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu hefur umsjón með eignum og rekstri heimila fatlaðra og stofnana á sínu svæði sem eru á vegum ríkisins.

10. gr.

Svæðisskrifstofa skal árlega í fjárlagatillögum sínum áætla kostnað vegna stoðþjónustu skv. 8. gr. laga um málefni fatlaðra.

11. gr.

Félagsmálaráðuneytið getur falið viðkomandi svæðisskrifstofu að reka sérhæfða þjónustu eða sérhæft

búsetuform, sem ætlað er fyrir landið allt, enda sé þjónustan staðsett á svæðinu.

12. gr.

Fjárgæsla heimila fatlaðra og stofnana, sem eru á vegum ríkisins, skal vera hjá ríkisféhirði nema annað kunni að vera ákveðið.

Bókhald heimila fatlaðra og stofnana á vegum ríkisins skal vera hjá Ríkisbókhaldi nema annað kunni að vera ákveðið.

Ákvæði greinar þessarar eiga ekki við um heimilissjóð sambýla.

13. gr.

Framkvæmdastjórar svæðisskrifstofa gera tillögur um ráðningu starfsfólks svæðisskrifstofu, forstöðumanna og annars starfsfólks sambýla og annarra heimila á vegum ríkisins, svo og þjónustustofnana fatlaðra. Ráðning hljóti staðfestingu félagsmálaráðuneytis.

Starfsfólk sem ráðið er til starfa skv. 1. mgr. hafi menntun, t.d á sviði þroska- eða iðjuþjálfunar, eða reynslu sem nýtist við störf að málefnum fatlaðra.

14. gr.

Fjöldi starfsmanna á heimilum fatlaðra og þjónustustofnunum skv. lögum um málefni fatlaðra skal miðast við mat á þjónustuþörf íbúa eða þeirra sem njóta eiga þjónustu á þjónustustofnunum. Slíkt mat skal fara fram við upphaf starfsemi heimilis eða stofnunar og síðan árlega.

15. gr.

Heimilt er svæðisskrifstofu að sameina viðfangsefni fjárlaga undir eitt eða fleiri yfirviðfangsefni, í skilningi fjárlaga, ef það er fjárhagslega eða félagslega hagkvæmt.

Fagleg þjónusta og skipulagning hennar á hverju svæði.

16. gr.

Fatlaðir skulu eiga rétt á almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga, svo sem til menntunar og heilbrigðisþjónustu, og skal svæðisskrifstofa ávallt leitast við að fatlaðir fái notið þess réttar, sbr. 7. gr. laga um málefni fatlaðra.

 

17. gr.

Svæðisskrifstofa ber faglega ábyrgð á allri þeirri þjónustu við fatlaða sem er á vegum ríkisins skv. lögum um málefni fatlaðra, bæði þjónustu á heimilum og þjónustustofnunum fatlaðra, svo og stoðþjónustu.

18. gr.

Umsóknir um þjónustu á þjónustustofnunum fatlaðra, sbr. 1.-3. tölul. 9. gr. laga um málefni fatlaðra og um búsetu, sbr. 2.-6. tölul. 10. gr. sömu laga, berist svæðisskrifstofu skriflega.

19. gr.

Svæðisskrifstofa annast mat á þörf hins fatlaða fyrir þjónustu í samráði við greiningaraðila, svo og óskir hins fatlaða sjálfs og aðstandenda hans.

Um er að ræða ákvörðun eða mat á eftirfarandi:

1. Mat á þörf umsækjanda fyrir þjónustu og stuðning, sbr. 2. gr. og 6. tölul. 12. gr. laga um málefni fatlaðra.

2. Ákvörðun um þjónustu og stuðning, sbr. 1. tölul. Óheimilt er að ákveða búsetuform án þess að þörf hins fatlaða fyrir þjónustu hafi verið metin og skal höfð samvinna við hinn fatlaða og samráð við væntanlegt sambýlisfólk áður en ákvörðun um búsetu er tekin. Samráð við sambýlisfólk getur falist í kynningu og upplýsingum og að íbúunum sé gefinn kostur á að tjá sig.

Sætti hinn fatlaði, eða aðstandendur hans, sig ekki við mat svæðisskrifstofu á þjónustuþörf skv. 1.-2. tölul. getur hann sent málið til svæðisráðs.

Ákvæði þessarar greinar eiga jöfnum höndum við um heimili og stofnanir á vegum ríkisins, sveitarfélaga, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana.

20. gr.

Við mat á þjónustuþörf skv. 19. gr. verði farið eftir samræmdum þjónustulykli sem félagsmálaráðuneytið lætur í té.

21. gr.

Svæðisskrifstofa annast mat á umönnunarþörf fatlaðra barna skv. reglugerð nr. 150/1992 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og sjúkra barna.

22. gr.

Svæðisskrifstofa annast mat á þörf fyrir fjárhagsaðstoð skv. lögum um málefni fatlaðra. Um er að ræða styrk til verkfæra- og tækjakaupa o. fl. skv. 1. tölul. 27. gr. laganna og styrk til greiðslu námskostnaðar, sbr. 2. tölul. 27. gr. sömu laga.

23. gr.

Svæðisskrifstofa hlutast til um að stuðningur og ráðgjöf sé veitt fötluðum og aðstandendum þeirra annaðhvort á hennar vegum eða annarra aðila. Sama gildir um stuðning og ráðgjöf til starfsfólks sem veitir fötluðum þjónustu. Þjónusta þessi skal skipulögð á hverju svæði fyrir sig miðað við aðstæður.

Svæðisskrifstofa beitir sér fyrir sem víðtækastri samvinnu og samráði við fagaðila við framkvæmd verkefna samkvæmt grein þessari.

Samstarf við svæðisráð.

24. gr.

Svæðisskrifstofa veitir svæðisráði aðstoð og þjónustu, t.d. við öflun gagna og upplýsinga, eftir beiðni svæðisráða hverju sinni, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 142/1993 um svæðisráð.

25. gr.

Svæðisskrifstofa hefur í vörslu sinni þá fjárhæð sem ákveðin er í fjárlögum hvers árs til útgjalda vegna starfa svæðisráðs, sbr. 11. gr. reglugerðar um svæðisráð.

26. gr.

Svæðisskrifstofa skal veita atbeina og liðsinni sitt við það að sveitarfélög taki á sig aukna ábyrgð á málefnum fatlaðra, sbr. 8. gr. reglugerðar um svæðisráð.

Samstarf við sveitarfélög.

27. gr.

Svæðisskrifstofa skal koma á föstu samstarfi við sveitarfélög, og/eða samtök þeirra, vegna framkvæmda á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, svo og við framkvæmd liðveislu, ferlimála og ferðaþjónustu skv. lögum um málefni fatlaðra. Með samstarfinu skal unnið að því að efla skipulega og samræmda þjónustu við fatlaða á svæðinu milli sveitarfélaga, t.d. vegna ferðaþjónustu fatlaðra.

Svæðisskrifstofa skal hafa frumkvæði að því að samstarfi skv. 1. mgr. sé komið á laggirnar t.d. með því að koma á reglulegum fundum eða öðrum föstum samskiptum milli aðila, einkum við félagsmálanefndir sveitarfélaga vegna heimaþjónustu og húsnæðismála.

Ársskýrsla og aðrar upplýsingar fyrir stjórnvöld.

28. gr.

Svæðisskrifstofur skulu gera ársskýrslur og senda þær félagsmálaráðuneyti.

Félagsmálaráðuneyti lætur í té eyðublöð til notkunar við undirbúning ársskýrslu.

Jafnframt skulu svæðisskrifstofur safna upplýsingum saman þannig að þær séu aðgengilegar fyrir stjórnvöld sé þeirra óskað.

29. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, öðlast gildi þegar í stað.

Félagsmálaráðuneytið, 28. júní 1993.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Þorgerður Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica