Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

335/2005

Reglugerð um fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra.

1. gr. Almenn ákvæði.

Ríkislögreglustjóri annast viðfangsefni sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu lögregluliða á landsvísu. Ríkislögreglustjóri starfrækir fjarskiptamiðstöð til þess að taka við öllum símtölum til lögreglu sem berast Neyðarlínu og afgreiðir þau til úrlausnar, auk þess sem hann annast stjórnun útkallshópa lögreglu og fyrstu viðbrögð við aðgerðastjórnun.

2. gr. Skilgreiningar.

Útkallshópur lögreglu: Lögreglumenn sem manna ökutæki lögreglu svo og hópar lögreglumanna við göngueftirlit samkvæmt varðskrá sem sinna útkallsverkefnum.

Stýring útkallshópa: Það verkefni að forgangsraða, miðla upplýsingum, fela lögreglumönnum verkefni og að taka á móti niðurstöðum til skráningar í dagbók lögreglu.

Útkallsverkefni: Neyðartilfelli og önnur útköll vegna beiðna um aðstoð lögreglu á vettvangi.

Vakthafandi yfirmaður: Sá lögreglumaður á vakt sem stýrir varðstofu viðkomandi lögregluliðs hverju sinni.

Fyrstu viðbrögð við aðgerðastjórnun: Samræming fyrstu viðbragða útkallshópa lögreglu og bein fyrirmælagjöf vegna meiriháttar atburða.

3. gr. Hlutverk og starfssvæði.

Starfssvæði fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra nær til alls landsins. Stjórnunar- og rekstrarfyrirkomulag hennar er á ábyrgð ríkislögreglustjóra.

Fjarskiptamiðstöðin skal sinna þjónustu- og samræmingarhlutverki við lögreglulið. Í því felst að forgangsraða og annast stjórnun útkallshópa lögreglu til verkefna. Fjarskiptamiðstöðinni ber að gæta samræmingar í verkefnum og stuðla að samvinnu milli lögregluembætta.

Fjarskiptamiðstöðin skal án tafar hafa samband við stjórnanda í viðkomandi lögregluumdæmi og tilkynna um atburði er krefjast sérstaks skipulags og yfirtekur hann þá stjórnun á vettvangi. Þar til stjórnandi kemur á vettvang stjórnar fjarskiptamiðstöðin fyrstu viðbrögðum lögreglu í umboði lögreglustjóra og kallar til þá aðstoð sem nauðsynleg er.

Heimildir fjarskiptamiðstöðvarinnar til fyrstu aðgerðastjórnunar í umboði lögreglustjóra ná einnig til sérstakra starfa samkvæmt fyrirfram samþykktum áætlunum viðkomandi lögreglustjóra vegna sérstakra atburða innan umdæmis hans. Heimildir fjarskiptamiðstöðvarinnar ná jafnframt til starfa á grundvelli samræmdra áætlana lögreglu vegna sérstakra meiriháttar atburða sem ná til fleiri lögregluumdæma. Fjarskiptamiðstöðin skal ávallt upplýsa vakthafandi yfirmenn og útistjórnendur hjá viðkomandi lögregluliðum um gang mála.

4. gr. Forgangsröðun verkefna.

Fjarskiptamiðstöðin skal sinna útköllum og öðrum verkefnum eins fljótt og vel og unnt er. Fjarskiptamiðstöðin skal forgangsraða þeim verkefnum sem henni berast. Fjarskiptamiðstöðinni ber jafnframt að koma ákvörðunum og fyrirmælum ríkislögreglustjóra og viðkomandi lögreglustjóra á framfæri við útkallshópa lögregluliða.

5. gr. Aðgerðastjórnstöð.

Ef um sérstök verkefni undir stjórn ríkislögreglustjóra er að ræða, svo sem vegna útkalla sérsveitar ríkislögreglustjóra eða opinberra heimsókna, skal fjarskiptamiðstöðin starfa sem sérstök aðgerðastjórnstöð ríkislögreglustjóra.

6. gr. Verklagsreglur.

Ríkislögreglustjóri skal setja verklagsreglur um hlutverk og starfsemi fjarskiptamiðstöðvarinnar. Í verklagsreglum skal meðal annars mæla fyrir um samvinnu við Neyðarlínuna, forgangsröðun neyðarsímtala og útkalla, heimildir til þess að senda útkallslið lögreglu milli umdæma, verkefni fjarskiptamiðstöðvarinnar við fyrstu aðgerðastjórnun, viðbragðsáætlanagerð lögreglu, afgreiðslu mála og bókanir í dagbók, ferilvöktun ökutækja, hljóðritanir í fjarskiptamiðstöð, þjálfun starfsmanna, fjarskiptabúnað lögregluliða og notkun fjarskipta og eftirlitsbúnaðar.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 23. mars 2005.

Björn Bjarnason.

Þorsteinn Geirsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.