Iðnaðarráðuneyti

63/2001

Reglugerð fyrir Hitaveitu Húnaþings vestra. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið og eignaraðild.

Reglugerð þessi gildir um veitusvæði hitaveitunnar sem er Laugarbakki í Miðfirði og Hvammstangi við Miðfjörð. Reglugerðin getur einnig gilt á öðrum svæðum í sveitarfélaginu eftir því sem sveitarstjórn Húnaþings vestra ákveður og ráðherra samþykkir samkvæmt orkulögum.


2. gr.
Stjórn hitaveitu.

Sveitarstjórn fer með stjórn hitaveitunnar. Einnig getur sveitarstjórn skipað hitaveitunni sérstaka stjórn.

Hitaveitan er sjálfstæður rekstraraðili og hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Heimili hitaveitunnar er að Klapparstíg 4, Hvammstanga.

Sveitarstjórn eða sá aðili sem sveitarstjórn kann að fela starfið annast bókhald og fjárreiður hitaveitunnar og sér um innheimtu hitaveitugjalda.


3. gr.
Verkefni hitaveitu.

Það er verkefni hitaveitunnar að afla heits vatns úr borholum í landi Reykja í Miðfirði og dreifa því til notenda gegn gjaldi sem ákveðið skal í gjaldskrá, sem staðfest er af ráðherra.


4. gr.
Einkaleyfi hitaveitu.

Hitaveita Húnaþings vestra hefur einkaleyfi á dreifingu og sölu heits vatns á svæði því, sem hún nær yfir, sbr. 1. gr.


5. gr.
Veitukerfið.

Hitaveita Húnaþings vestra tekur við öllum eigum Hitaveitufélags Miðfirðinga, Hitaveitu Ytri-Torfustaðahrepps og Hitaveitu Hvammstanga sbr. 1. grein, sem voru í eigu Hvammstangahrepps og Ytri-Torfustaðahrepps fyrir sameiningu sveitarfélaga í Vestur-Húnavatnssýslu þann 7. júní 1998. Hitaveita Húnaþings vestra selur afnot hitaorku úr hitaveitukerfum þeim sem gerð hafa verið að tilstuðlan sveitarstjórnar eða kunna að verða gerð í Húnaþingi vestra skv. gjaldskrá fyrir hvert hitaveitusvæði eins og þau eru eða verða skilgreind í gjaldskrá.


6. gr.
Notkun orkunnar.

Sú hitaorka sem hitaveitan lætur í té er ætluð til upphitunar húsa og almennra heimilisnota og til sundlauga. Nú kemur fram ósk um að nota heita vatnið til annarra þarfa en að framan greinir og þarf þá til þess heimild sveitarstjórnar.


7. gr.
Afrennslisvatn frá húskerfum.

Húseigendum er heimilt að nota aftur vatn sem runnið hefur gegnum hitunarkerfi húss til upphitunar á gróðurhúsum, útihúsum o.s.frv. en skulu skila afrennslisvatninu aftur ef hitaveitan þarf á því að halda. Skal húsráðandi annast og kosta að leiða afrennslisvatnið í frárennsli hússins.


8. gr.
Tenging.

Hver sá er húseign á við götu eða veg þar sem dreifiæðar hitaveitunnar liggja hefur rétt á að láta tengja hitakerfi hússins við hitaveituæðina.

Nú eru sérstakir erfiðleikar á tenginu húss eða tenging þykir af einhverjum ástæðum ekki ráðleg og getur þá sveitarstjórn ákveðið að húsið sé ekki tengt við dreifikerfið.


9. gr.
Varmaafl.

Sveitarstjórn ákveður hámark varmaafls til notenda. Henni er heimilt að minnka það eða loka fyrir um stundarsakir telji hún það nauðsynlegt vegna viðgerða, tenginga eða af öðrum ástæðum.


10. gr.
Ábyrgð hitaveitu.

Hitaveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni er leiða kann af rekstrartruflunum er verða vegna frosta, rafmagnsbilana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli um æð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerðar og annars slíks. Hitaveitan er ekki heldur bótaskyld vegna slysa á fólki eða tjóni á eignum, sem stafar af hitalögnum innan húss.


11. gr.
Umsóknir.

Áður en hafist er handa um lagningu nýrra kerfa eða breytingar á eldri kerfum, skal húseigandi með minnst 7 daga fyrirvara senda sveitarstjórn umsókn um aðild að hitaveitunni.

Umsókn eiga að fylgja uppdrættir af hitalögnum hússins.


12. gr.
Eftirlit og viðhaldsskylda.

Eftirlitsmaður á vegum sveitarstjórnar annast eftirlit með því að hitalagnir séu í samræmi við samþykktan uppdrátt og reglugerð.

Hitaveitan hefur viðhaldsskyldu á dreifikerfi sínu. Notanda er óheimilt að torvelda á nokkurn hátt aðgang til eftirlits og viðhalds á dreifikerfi og hitalögnum.


13. gr.
Dælur á heimæðum.

Óheimilt er að tengja dælur við heimæðar nema að fengnu skriflegu leyfi sveitarstjórnar.


14. gr.
Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum.


Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Húnaþings vestra þann 14. september 2000 staðfestist hér með samkvæmt orkulögum nr. 58/1967 til að taka gildi þegar í stað og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð fyrir Hitaveitu Hvammstanga, nr. 386 frá 27. desember 1973 og reglugerð fyrir Hitaveitu Ytri Torfustaðahrepps, nr. 417 frá 29. september 1986.


Iðnaðarráðuneytinu, 18. janúar 2001.

Valgerður Sverrisdóttir.
Þorgeir Örlygsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica