Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

113/2015

Reglugerð um stjórn veiða íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2015. - Brottfallin

1. gr.

Allar veiðar á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Við veitingu leyfa koma aðeins til greina skip sem aflamark hafa í síld úr norsk-íslenska síldarstofninum.

2. gr.

Leyfi, sbr. 1. gr., tekur til veiða á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum í efnahagslögsögu Íslands og efnahagslögsögu Færeyja, á alþjóðlega hafsvæðinu milli Íslands og Noregs og í lögsögu Svalbarða. Við veiðar í lögsögu Færeyja skal farið að reglum sem færeysk stjórn­völd setja um veiðarnar. Í lögsögu Svalbarða skal farið að reglum sem norsk stjórnvöld setja um veiðarnar, enda séu þær settar á grundvelli samningsins um Svalbarða frá 9. febrúar 1920 og í samræmi við ákvæði hans.

3. gr.

Fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 31. desember 2015 er leyfilegur heildarafli sem hér segir:

 

A

B

C

D

E

F

 

Lestir

Lestir

Lestir

Lestir

Lestir

Lestir

Alls

41.065

2.000

2.176

36.889

419

37.308



Skýringar á töflu:

  1. Leyfilegur heildarafli.
  2. Frádráttur skv. ákvæði VIII til bráðabirgða við lög nr. 116/2006.
  3. Frádráttur skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006 (5,3%).
  4. Samtala eftir skerðingar.
  5. Viðbætur vegna ársins 2014 á grundvelli tvíhliða samnings Íslands og Noregs.
  6. Til úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar.

Heimilt er hverju skipi að veiða allt að 10% umfram aflamark í norsk-íslenskri síld á árinu 2015 og dregst sá umframafli frá aflamarki þess á árinu 2016. Þá er heimilt að flytja allt að 10% af ónýttu aflamarki fiskiskips frá árinu 2015 til ársins 2016.

Við veiðar á norsk-íslenskri síld í færeyskri efnahagslögsögu er einungis heimilt að veiða makríl sem meðafla. Meðafli makríls má ekki fara yfir 15% af síldarafla í hverri veiðiferð. Heildarmakrílafli íslenskra skipa í færeyskri efnahagslögsögu skal ekki fara yfir 1.300 lestir. Fiskistofa fylgist með afla þessum og tilkynnir ráðuneytinu hvenær líklegt megi telja að aflanum verði náð og tilkynnir ráðuneytið frá hvaða tíma óheimilt er að veiða makríl sem meðafla.

4. gr.

Um tilkynningar varðandi síldveiðar skv. þessari reglugerð, bæði innan íslenskrar efnahags­lögsögu og á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 285/2014, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), með síðari breyt­ingum. Um tilkynningar varðandi veiðar innan efnahagslögsögu Færeyja fer samkvæmt reglum sem færeysk stjórnvöld setja. Um tilkynningar varðandi veiðar í lögsögu Svalbarða fer samkvæmt reglum sem norsk stjórnvöld setja enda séu þær settar á grundvelli samn­ings­ins um Svalbarða frá 9. febrúar 1920 og í samræmi við ákvæði hans.

5. gr.

Síldarafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er þó með leyfi Fiskistofu að landa síldarafla og síldarafurðum í höfnum erlendis enda sé tryggt að eftirlit með vigtun aflans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Jafnframt er heimilt að fengnu leyfi Fiskistofu að landa óvigtaðri síld um borð í vinnsluskip og flutningaskip, enda sé tryggt að skráning og vigtun afla sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Sækja skal um leyfi til löndunar síldar utan íslenskra hafna til Fiskistofu og skal skipstjóri í umsókn tilgreina nákvæmlega hvar hann hyggst landa aflanum og áætlað magn síldar. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiði­skips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af mót­tak­anda síldarinnar eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir.

Heimilt er að miðla afla úr nót til skips, sem leyfi hefur til síldveiða í því skyni að koma í veg fyrir að síld sé sleppt dauðri úr nótum.

Um vigtun á síld gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar um vigtun sjávarafla þó þannig að draga skal frá 2% af afla hvers skips vegna vatnsinnihalds í síld miðað við afla upp úr sjó og reiknast það magn ekki til aflaheimilda þess.

Landi skip frystum afurðum utan Íslands skal tilkynna um það í samræmi við ákvæði 5. kafla reglna Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) um fiskveiðieftirlit og fram­kvæmd þess.

Þegar norsk-íslensk síld er reiknuð til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,29.

6. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út með stoð í henni varða viður­lögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breyt­ingum, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum og laga nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

Vegna afla umfram leyfilegt hámark skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Jafnframt er Fiskistofu heimilt að svipta skip leyfi til síld­veiða vegna brota á reglugerð þessari.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breyt­ingum, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla og laga nr. 151/1996, um fisk­veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafn­framt fellur úr gildi reglugerð nr. 1213/2013, um stjórn veiða íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2014.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. febrúar 2015.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Baldur P. Erlingsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica